Ráðningar starfsfólks og kjarasamningar

Starfsgreinasamband Íslands vill vekja athygli á grein sem birtist í nýjasta tölublaði Bændablaðinu, sem kom út s.l. fimmtudag. Í umræddri grein, sem ber yfirskriftina "Ráðningar starfsfólks og kjarasamningar" vekur hagfræðingur Bændasamtaka Íslands athygli á þeim helstu atriðum sem bændur þurfa að huga að þegar að kemur að ráðningum og kjörum starfsfólks. Greinina má lesa í heild seinni hér að neðan. Nú fer í hönd sá tími þegar fólki við störf til sveita fjölgar hratt. Vorverkin kalla á fleira starfsfólk, einkum á sauðfjárbúum. Sumarið er líka tíminn í ferðaþjónustunni og fjöldi fólks kemur þá tímabundið til starfa hjá bændum víða um land. Margir bændur eru einnig með fólk í vinnu árið um kring. Að ýmsu er að hyggja við ráðningar á starfsfólki hvort sem er tímabundið eða til lengri tíma. Þann 12. September 2011 voru undirritaðir kjarasamningar BÍ við Starfsgreinasamband Íslands og 3 stéttarfélög, Framsýn-stéttarfélag, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Verkalýðsfélag Akraness. Samningurinn gildir til 30. nóvember 2013 og nær hann til starfsmanna sem vinna við almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Í fylgiskjali I með samningnum segir nánar: „Undir þetta falla hvers kyns búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi, fari hún fram á lögbýlum: Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla og þjónusta.“ Auk þess falla ráðskonur og matráðar á bændabýlum undir samninginn. Hann nær hins vegar ekki til þeirra sem starfa við ferðaþjónustu nema hún sé stunduð í smærri stíl eins og segir í samningnum, enda sé það samþykkt af hálfu viðkomandi stéttarfélags. Kjarasamningur bindur ekki aðeins félagsmenn þess stéttarfélags sem hann gera, heldur einnig alla þá sem vinna þau störf sem samningur tekur til á félagssvæðinu. Samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir. Því skiptir ekki máli hvort launamaður er félagsmaður í stéttarfélagi eða ekki, né hvort atvinnurekandi er aðili að samtökum atvinnurekenda eða ekki. Kjarasamningurinn kveður á um lágmarkskjör þessara aðila. Laun þau sem samið er um í samningnum eru lágmarkslaun og miðast við að virkur vinnutími í dagvinnu sé 37 klst. og 5 mínútur á viku. Vinnutíma skal hagað þannig að unnið sé frá k. 07.55 – 17.00 mánudaga til föstudaga eða 07.30 – 16.35 mánudaga til föstudaga. Í sérstökum tilvikum er heimilt að semja um rofinn vinnutíma ef skipulag búrekstursins krefst slíks. Dagvinna skal þó aldrei hefjast fyrr en kl. 07.00 og aldrei standa lengur en til kl. 19.00 Dagvinna getur þó ekki staðið lengur en 7 klst. og 25 mínútur (virkar vinnustundir) á þessu tímabili. Í kjarasamningi Bændasamtaka Íslands og fyrrnefndra aðila eru ákvæði um launakjör, þ.m.t. desember og orlofsuppbót, frídaga og fæði og húsnæði. Að jafnaði skulu starfsmenn búa í eins manns herbergjum og er nánar farið út í aðbúnað í þeim í samningnum. Hafi starfsmaður fæði, húsnæði og þjónustu á viðkomandi búi skal samið um endurgjald í ráðningarsamningi og dregst frá útborguðum launum. Í samningnum eru einnig ákvæði um vinnu unglinga á vinnuvélum og tækjum, starfsmenntun og aðbúnað og öryggi. Í 12. grein kjarasamningsins er fjallað um ráðningasamninga. Skylt er að gera skriflega ráðningarsamninga við alla starfsmenn sem ráðnir eru samkvæmt kjarasamningnum til meira en eins mánaðar, innan mánaðar frá ráðningu þeirra. Síðan segir: „Í ráðningarsamningi skal koma fram ef sérstaklega er samið um vinnutíma, sbr. 2. gr. Þannig skal í ráðningarsamningi tilgreint og útfært ef um hlutavinnu er að ræða eða ef skipulag búreksturs krefst þess að samið sé um rofinn vinnutíma“. Samkvæmt lögum um vinnustaðaskírteini nr. 42 frá 18. maí 2010 skal atvinnurekandi sjá til að hann sjálfur og starfsmenn hans fái vinnustaðaskírteini er þeir hefja störf. Samkvæmt reglugerð 1174/2011 gildir þetta ákvæði m.a. um rekstur gististaða, þar með talið tjaldsvæða og svæða fyrir húsbýla og hjólhýsi. Einnig eiga allir starfsmenn í veitingasölu og þjónustu að bera vinnustaðaskírteini við störf sín.   Að mörgu er að hyggja við ráðningu fólks í vinnu. Auk þess að greiða laun og standa skil á gjöldum þeim tengdum bera atvinnurekendur ýmsar skyldur t.d. varðandi aðbúnað starfsfólks og tryggingar. Bændur er hvattir til að kynna sér vel þá kjarasamninga og reglur sem gilda hverju sinni og tryggja þannig að þessi mál séu góðum farvegi.   Höf: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag