Skilyrtir kjarasamningar

Hvað ætli Samtökum atvinnulífsins þætti um ef verkalýðshreyfingin gerði það að skilyrði í kjarasamningum að fiskveiðikvótinn gengi til fólksins í landinu en ekki til útvalinna útvegsmanna? Samtökum atvinnulífsins er fyrirmunað að gera kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nema LÍÚ ráði landsins lögum. Þeir gera það ekki endasleppt, útgerðarmennirnir! Hversu langt munu þeir seilast? Verður húsnæði landsmanna kannski eign LÍÚ? Trygg rekstrarskilyrði sjávarútvegs í byggðum landsins og að arðurinn af auðlindinni renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar kemur ekki til mála að mati SA. Vilhjálmur Egilsson fer fyrir orðræðunni undir forskriftinni að tryggja verði útgerðinni rekstargrundvöll til framtíðar og tækifæri til eðlilegra fjárfestinga. Stöldrum nú við. Hvernig hafa mál þróast í raun hjá þessum snillingum útgerðarinnar? Ljóst er að mikil framleiðniaukning hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Þótt meðalafli hafi minnkað um tæplega þriðjung í þorskígildum, hefur störfum í greininni fækkað um helming á hálfum öðrum áratug. Reyndar hefur störfum í fiskvinnslu fækkað yfir 60% frá árinu 1995, án þess að sú hagræðing hafi skilað sér í budduna hjá fiskvinnslufólki. Auk þessa hefur launahlutfallið lækkað úr 40% árið 1997 í 35% árið 2008 og með gengishruninu hefur launahlutfallið minnkað enn meira. Svo vilja þessir menn ekki semja og hafa í hótunum. En hvert fór hagræðingin í greininni? Ekki í fjárfestingar og styrkingu eigin fjár íslenskra útvegsfyrirtækja. Það er kunnara en frá þurfi að segja hvaða hlutverk skuldsetning í sjávarútvegi hafði í bóluhrunhagkerfinu. Hvernig fyrirtækin voru skuldsett til að hægt væri að greiða ,,eigendum” arð sem fór í annað en samfélagslega ábyrgð og styrkingu útvegs á Íslandi. Í lok árs 2008, hrunárið, var svo komið að einungis 40% sjávarútvegsfyrtækja áttu að geta ráðið skammlaust við skuldastöðu sína. 45% fyrirtækja voru í erfiðri skuldastöðu og 15% þeirra eru tæknilega gjaldþrota. Rúmlega 30% fyrirtækja í sjávarútvegi hafa lægra eiginfjárhlutfall en 50% og 30% þeirra með eiginhfjárhlutfall á bilinu mínus 50% til plús 25% í árslok 2008. Nú kemur SA og heimtar sérlausnir fyrir LÍÚ í nafni atvinnuuppbyggingar. Er þeim treystandi? Eftir hrun bóluhagkerfisins sem útgerðin átti sinn þátt í að varð til má stórefast um færni útvegsmanna til fjárfestinga í greininni svo vægt sé til orða tekið. Auðvitað eru allir skynsamir menn sammála mikilvægi þess að sjálfbærni, hagræði og hagkvæmni sé gætt í útgerð og fiskvinnslu. Til þess þarf auðvitað fiskveiðistjórnunarkerfi, en það kerfi þarf ekki endilega á LÍÚ að halda. Þar liggur misskilningurinn.  Vel má hugsa sér aðrar lausnir í útgerð, þar sem sjálfbærni hafsins, hagsmunir fólksins og byggðanna ráða för. Svo hefur ekki verið undir leiðarstjörnu LÍÚ. Aldeilis ekki.
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)