Vandamálin þau sömu og annars staðar í Evrópu

Kristján Bragason, framkvæmdastjóri samtaka starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum (NU-HRCT), fór yfir stöðuna í atvinnumálum á Norðurlöndum og í Evrópu. Hér að neðan má lesa erindi Kristjáns í heild sinni.

Ágætu þingfulltrúar, félagar og vinir

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir að fá að ávarpa ykkur hér í dag og fjalla um þau viðfangsefni sem ber hæst þessi misserin á hinum Norðurlöndunum og Evrópu.

Það er mjög sértök tilfinning að standa hér og ávarpa þing Starfsgreinasambandsins sem gestur en ekki starfsmaður. Seinast þegar ég ávarpaði þing Starfsgreinasambandsins stóð ég í pontu í Hofi á Akureyri og kvaddi sambandið öðru sinni, þegar ég eftirlét Drífu Snædal starf framkvæmdastjóra sambandsins haustið 2013. Þegar ég lít yfir salinn í dag sé ég marga vini og samferðamenn, en það er líka mjög ánægjulegt að sjá þann mikla fjölda nýrra andlita sem er tilbúinn að leggja baráttu verkfólks lið fyrir lífsæmandi kjörum og betra lífi.  Framtíðin er björt. Ég er augljóslega stoltur af Starfsgreinasambandinu. Samtökin hafa sjaldan verið öflugri en akkúrat núna.  Ég er stoltur af þeim verkum sem hafa áunnist og þeirri baráttu og krafti sem sambandið hefur sýnt á síðustu misserum.  Starfsgreinasambandið á augljóslega stórt pláss í hjarta mínu. Ég hef eytt næstum 10 árum af starfsævinni hjá sambandinu, fyrst hjá Verkamannasambandi Íslands þar sem ég hóf störf fyrst árið 1996 og seinna hjá SGS.

Seinustu sex árin hef ég starfað á Norðurlöndunum þar sem ég hef barist fyrir réttindum launafólks í ferðaþjónustu. Þessa dagana stend ég á tímamótum, en eftir tæplega tvær vikur mun ég taka við framkvæmdastjórastöðu hjá EFFAT, Evrópskum samtökum launafólks í matvæla, landbúnaðar og ferðaþjónustugreinum. Samtök sem Starfsgreinasambandið á aðild að, þannig að við munum halda áfram að vinna að sameiginlegum verkefnum næstu árin.

Nóg um mig í bili! Snúum okkur frekar að þeim verkefnum sem snúa að launafólki á Norðurlöndunum og í Evrópu þessa dagana. Það er ljóst að mörg þessara verkefna eru ofarlega á baugi hér á landi enda er heimurinn alltaf að verða minni og barátta launfólks er alþjóðleg sem krefst samstöðu yfir landamæri.  Áskoranir verkafólks eru margar og við þurfum að bretta upp ermarnar til að finna úrlausn á þessum málum.

Ég vil byrja á þeim verkefnum sem Norræn samtök starfsfólks í hótel, veitinga, mötuneytum og ferðaþjónustu hafa verið að vinna að seinustu misserin. Ferðaþjónustan á Norðurlöndum blómstrar, þó vöxturinn hafi ekki verið í neinni líkingu við það sem hefur verið hér á landi.  Hagvöxtur á heimsvísu, þróun þéttbýlis, breyttir lífshættir og fjölgun í millistétt hefur haft í för með sér mikla fjölgun ferðamanna um allan heim. Lengi hefur neikvætt orðspor loðað við ferðaþjónustu á Norðurlöndum vegna ills aðbúnaðar á vinnustöðum, lágra launa, óreglulegs vinnutíma, lítils starfsöryggis, árstíðasveifla, mikillar starfsmannaveltu og svartar atvinnustarfsemi. Ferðaþjónusta virðist því miður of oft laða að sér óábyrga atvinnurekendur, sem líta á starfsfólk eins og hvern annan neysluvarning, sem einfalt er að losa sig við. Norræn verkalýðshreyfing hefur lengi lagt áherslu á þörfina á að bæta starfskjör í ferðaþjónustu til að gera hana meira aðlaðandi og til að draga úr mikilli starfsmannaveltu. Ein stærsta áskorunin í ferðamannagreininni í dag er að finna starfsfólk með starfsþekkingu og reynslu. Ferðaþjónustan að gera sér grein fyrir að neikvætt orðspor og slæm starfskjör fær launafólk til að sniðganga ferðaþjónustuna. Þessi atriði verður starfsgreinin að taka alvarlega svo að takast megi að tryggja henni nægt vinnuafl í framtíðinni.

Þessar vikurnar undirbúa félagar okkar á hinum Norðurlöndunum kjaraviðræður sem hefjast í byrjun næsta árs. Mikil vinna hefur farið í að undirbúa kröfugerðir og samræma launastefnuna. Helstu kröfur launafólks á Norðurlönunum þetta árið snúast að miklu um að bæta kjör þeirra lægst launuðu, bæta lífeyrisréttindi og starfsöryggi. Allt kröfur sem þið þekkið ýkja vel sjálf. Það liggur því beint við að lág laun og ótrygg störf eru mikið í umræðunni á Norðurlöndunum, en hún er ekki síður innan Evrópu. Ójöfnuður hefur aukist mikið síðustu misserin þar sem fjármagnseigendur og fyrirtæki taka sífellt stærri hlut af kökunni. Fólk á lágum launum hefur setið eftir og frá fjármálahruninu 2008  hafa laun stór hluta launafólks í Evrópu ekki haldið raunvirði sínu. Þó staðan sé almennt betri á Norðurlöndunum, þá er Þetta því miður staðan hjá stórum hópum launafólks í Danmörku og Finnlandi. Markmiðið norrænu verkalýðshreyfingarinnar er að hækka lægstu launin sérstaklega en um leið tryggja samkeppnishæfi fyrirtækja á Norðurlöndum.

Ójöfnuðurinn hefur hins vegar ekki einungis átt sér stað innan einstakra landa, bilið á milli ríkustu og fátækustu þjóða Evrópu hefur einnig aukist mikið seinustu árin. Þetta ójafnvægi hefur skapað mikla spennu og óánægju á meðal almennings í Evrópu sem á erfitt með að láta laun duga fyrir eðlilegri framfærslu. En eins og þið sjáið eru vandamálin þau sömu og hér á landi. Þessa dagana fer fram mjög vandmeðfarin umræða um hvort Evrópusambandið eigi að innleiða bindandi löggjöf um lágmarkslaun og kjarasamninga. Nokkuð sem stéttarfélög á Norðurlöndum eru alfarið á móti vegna þess að slík löggjöf myndi hafa neikvæð áhrif á kjarasamningaferli aðila vinnumarkaðarins, veikja norræna verkalýðshreyfingu og þá vilja norræn stéttarfélög ekki afskipti stjórnvalda að ákvörðun launa í samfélaginu.

Tilvonandi forseti Evrópuráðsins Ursula von Leyen, lofaði í stefnuræðu sinni í september að hún myndi ráðast í aðgerðir til að bæta kjör láglaunafólks á sínum fyrstu 100 dögum í embætti. Nokkuð sem öll stéttarfélög í Evrópu styðja, en það er ágreiningur um hvaða leið ber að fara. Það verður spennandi að fylgjast með úrvinnslu þessara mála næstu mánuðina.  Þannig mun evrópska og norræna verkalýðshreyfingin vinnur hörðum höndum á að ná sátt um hvaða leið menn vilja fara. Það er engu að síður ljóst að það þarf að ráðast í aðgerðir til að styrkja kjarasamninga í Evrópu í sérstaklega í ljósi þess að sífellt fleira launafólk í Evrópu tekur ekki laun eða kjör samkvæmt kjarasamningum. Megin markmiðið með hugmyndum Evrópusambandsins er að bæta kjör þeirra sem lægst kjör hafa, draga úr ójöfnuði og skapa meiri sátt um Evrópusambandið á meðal almennings. Þetta er mikilvægt í ljósi vaxandi fylgi stjórnmálafla sem byggja stefnu sína á fasisma og þjóðernishyggju. 

Vaxandi þjóðernishyggja og kynþátthyggja er nokkuð sem Evrópsk verkalýðshreyfing hefur áhyggjur af. Almenningur í Evrópu er óánægður og kennir innflytjendum og erlendu vinnuafli um hversu skítt almenningur hefur það. Staðreyndin er hins vegar sú að Evrópa þarf á þessu vinnuafli að halda til að sinna störfum sem innlent vinnuafl hefur ekki áhuga á að sinna. Innflytjendur í Evrópu eru því miður allt of oft fórnarlömb fordóma, óheiðarlegra atvinnurekenda og jafnvel nútíma þrælahalds.

Það var eftirminnilegt þegar ég heimsótti Suður Ítalíu í sumar til að kanna starfsumhverfi og starfskjör við starfsfólks við landbúnað. Þar voru fleiri þúsundir farandverkamanna frá Austur Evrópu og Afríku við störf. Vinnuvernd var fyrir neðan allar hellur og þetta launafólk bjó við hörmulegar aðstæður. Þeir bjuggu i kofum og tjöldum án aðgengi til rennandi vatns og salernisaðstöðu.  Þeir voru einnig á launum sem voru langt undir lágmarkslaunum á Ítalíu. Í ofanálag höfðu margir upplifað árásir og ofbeldi af hendi fasista sem kenndu útlendingum um erfitt efnahagsástand Ítalíu.

Verklýðshreyfingin þarf að stand vörð um þennan hóp og krefjast aðgerða til að bæta starfsumhverfi innflytjenda, aðstoða það og leiðbeina. Það er nauðsynlegt að tryggja betri aðlögun inn á vinnumarkaðinn í gegnum menntun og þjálfun. Þá er bætt vinnustaðaeftirlit nauðsynlegt. Vandinn er ekki innflytjendur og aðflutt vinnuafl. Stóra vandamál Evrópu er slæmar ákvarðanir stjórnmálamanna sem hafa ýtt undir óhefta markaðsvæðingu og alþjóðahyggju, þar sem stórfyrirtæki og fjármagnseigendur fara mikinn og auka hagnað sinn á kostnað launafólks.

Evrópa þar sem misskipting eykst og heimur þar sem fyrirtækin og fjármagnið ráða ferðinni hefur skapað samfélag þar sem þeir ríkari verða ríkari og þeir sem vinna hefðbundin störf er haldið á lágum launum og ótryggum ráðningarformum, sem gerir fólki erfitt fyrir að skipuleggja líf sitt. Það er æ algengara að starfsfólki er boðið launalausar reynsluráðningar, gerviverktöku og núlltíma ráðningar. Samhliða þessu hefur húsnæðisverð og húsaleiga í flestum borgum í Evrópu  hækkað langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Þetta hefur leit til þess að venjulegt launafólk sem vinnur átta stunda vinnudag lifir í auknu mæli í fátækt og getur ekki greitt reikninga sína. Að lokum má ekki gleyma að skortur á innviða uppbyggingu, félagslegum aðgerðum ásamt undirfjármögnuðu velferðar og menntakerfi hefur ekki bætt lífskjör almennings í Evrópu.

Annað málefni sem hefur fengið mikið vægi í umræðunni seinustu misserin er fjórða iðnbyltingin. Fyrirtæki hafa fjárfest mikið í nýrri tækni, gervigreind, vélmennum og aukin sjálfvirkni seinustu áratugina og við eru þegar farin að sjá afleiðingar af þessari þróun í versnandi starfsöryggi og töpuðum störfum. Sterkasti drifkraftur þessarar þróunar er viðleitni fyrirtækja til að lækka launakostnað, auka hagnað og arðsemi fjármagneigenda. Það er ekki ólíklegt að mörg þeirra starfa sem við þekkjum í dag muni hverfa og til aukins atvinnuleysis til lengri tíma litið. Vissulega hafa mörg ný störf skapast á seinustu árum og því hefur tækniþróunin ekki leitt til aukins atvinnuleysis enn þá, þannig hefur atvinnuleysi ekki verið minna í Evrópu í mjög langan tíma. Hins vegar hafa þá virðast mörg vel launuð og stabíl framleiðslustörf tapast fyrir ný störf í þjónustugreinum, s.s. ferða- og afþreyingarþjónustu. Þessi störf eru því miður oft illa borguð og einhæf, vinnutími óreglulegur, og starfsöryggi lítið sem ekkert.

Verklýðshreyfingin verður að vera á varðbergi og bregðast við þannig að verðmætaukning vegna tækniþróunar verði nýtt til að tryggja jöfnuð, góð lífskjör, endurmenntun og velferð í staðinn fyrir að ávinningurinn renni óskiptur í vasa fjármagnseigenda. Við þurfum að semja um það í kjarasamningum í framtíðinni. Við getum til dæmis samið um að taka út hluta af ávinningi tæknivæðingarinnar með því að stytta vinnuvikunna þannig að allir vinni minna en nú tíðkast í stað þess að sumir vinni mikið og aðrir ekki neitt.  Þó þannig að fyrst verður við að tryggja að verkafólk geti lifað af dagvinnu sinni áður en ráðist verður í styttingu vinnutímans. Ég vil þannig taka það fram að stytting vinnuvikunnar er ekki ein af aðalkröfum stéttarsamtaka verkafólks á Norðurlöndunum. Ástæðan er að of margir geta ekki lifað af sínum störfum. Þeir fá einfaldlega of lág laun.

En ég vill ekki bara mála skrattann á vegginn! Það er langt í frá að allt sé að fara til fjandans í Evrópu. Heilt yfir er efnahagsástandið gott. Það er engu að síður mikilvægt að muna að gæðunum er misskipt og verkalýðshreyfingin þarf að vera virkur þátttakandi í að skapa nýja heimsmynd. Sem betur fer hefur verklýðshreyfingin í Evrópu tekist á seinustu árum að snúa áratuga hnignun við. Ungt fólk eru að byrja að skilja mikilvægi þess að standa saman og berjast fyrir réttindum sínum. Við höfum á seinustu árum séð starfsfólk standa upp og berjast fyrir bættum kjörum.

Áhugavert dæmi um slíkt er barátta starfsfólks á skyndibitastöðum í Bandaríkjunum - Fight for 15, þar sem barátta nokkurra tuga starfsmanna á McDonalds í New York fyrir bættum kjörum og réttinum að vera í stéttarfélagi, hefur breyst í stóra fjöldahreyfingu þar sem milljónir starfsfólks í ólíkum störfum hefur tekist að vinna fjölmarga sigra. Lágmarkslaun í fjölmörgum ríkjum í Bandaríkjunum hafa verið hækkuð í 15 USD. Það er þó enn langt í land með að rétturinn til að vera í stéttarfélagi sé virtur þar í landi.

Annað áhugavert dæmi um baráttu láglaunahópa með lítið starfsöryggi, birtist okkur nýlega í Noregi. Þegar um 50 manna hópur starfsfólks í Fellesforbundet sem sinnir heimsendingu á mat á reiðhjólum fór í verkfall. Þeir kröfðust kjarasamnings sem tryggði þeim betri laun og réttindi. Þessi hópur stóð þétt saman og náði að vinna mikinn stuðning almennings og annarra hópa launafólks. Eftir fimm vikna verkfall vannst fullnaðarsigur í baráttunni – kjarasamningur sem innihélt megnið af kröfum reiðhjólasendlanna - en þá hafði verkfallshópurinn vaxið upp í 200 manns. Það er hinsvegar ljóst að verkalýðshreyfingin er að styrkjast og saman munum við skapa betri heim. Það er ljóst að ég gæti haldið langa tölu um þá verkefni sem við erum að sinna á Norðurlöndunum og í Evrópu.

Á komandi þingi EFFAT sem haldið verður í Zagreb dagana 4 til 7 nóvember, munum við kynna nýa aðgerðaráætlun, pólitíska stefnumótun of starfsáætlun fyrir næstu tvö árin.

Helstu verkefni komandi ára eru að:

  • Styrkja verkalýðshreyfinguna og byggja samstöðu
    • Við þurfum að finna leiðir til að virkja launafólk og fjölga félagsmönnum
    • Það þarf að efla ungliðastarf verkalýðshreyfingarinnar
    • Auka samstarf í alþjóðafyrirtækjasamsteypum
    • Styrkja og virkja trúnaðarmenn okkar á vinnustöðum
  • Bæta réttindi launafólks
    • Styrkja gerð kjarasamninga og hækka laun
    • Bæta regluverk á Evrópska efnahagsvæðinu
    • Berjast gegn græðgisvæðingu fyrirtækja
    • Styrkja vinnuumhverfismál
  • Skapa betri og betri Evrópu fyrir launafólk
    • Tryggja sanngjarna aðlögun launafólks að grænu og stafrænu hagkerfi
    • Fagna fjölbreytni á vinnumarkaði
    • Stuðla að betra jafnvægi á milli starfs og einkalífs

Allt eru þetta mikilvæg verkefni, sem íslenskt launafólk stendur einnig frammi fyrir í dag.  Verkefni sem við þurfum að vinna að í sameiningu. Eins og ég sagði í upphafi er Starfsgreinasambandið aðili að EFFAT, en hefur á seinustu árum ekki verið virkur þátttakandi í þessu starfi. SGS hefur fyrst og fremst tekið þátt í Norrænu starfi og látið evrópskt og alþjóðasamstarf sitja á hakanum. Af þessu tilefni ég vil minna á mikilvægi þess að þeir sem betur standa sýni samstöðu með verkfólki í Evrópu og á alþjóðavísu sem á verulega undir högg að sæta.


Íslensk verkalýðshreyfing er fjárhagslega öflug og hefur alla burði til að leggja meiri hönd á bóginn ef vilji er fyrir hendi. Ég mun á næstu árum vinna að því að virkja sambandið til frekari þátttöku í störfum EFFAT -samtökum starfsfólks í matvæla, landbúnaðar og ferðaþjónustu.

Að lokum vil ég minna árleg herferð starfsfólks við hótelþrif á alþjóðavettvangi er haldin þessa vikuna til að minna á erfitt starfsumhverfi sem þessi starfshópur upplifir. Í ár er sérstökum sjónum beint að kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem fjölmargar hótelþernur verða fyrir í starfi sínu. Markmiðið er að semja við helstu hótelkeðjur í heiminum um bætt starfsöryggi og úrræði til að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi, sem og veita þeim sem verða fyrir því rétt úrræði. Ég vona það að allir hér inni hugsi um það hvernig þeir haga sér gagnvart starfsfólki þessa hótels sem eru félagsmenn okkar.

  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)