Hafa samband

FRÉTTIR

Frumvörp um bann við mismunun að lögum

Frumvörp um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna urðu að lögum frá Alþingi í gær.  Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, lagði frumvörpin fyrir þingið í mars síðastliðinn þar sem þau hafa verið í meðferð síðan.

Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Þetta er gert í þeim tilgangi að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt.

Gert er ráð fyrir að Jafnréttisstofa annist stjórnsýslu í tengslum við framkvæmd laganna. Með samþykkt frumvarpsins er Ísland að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar, þ.e. nú er tryggt í lögunum að efnislegt samræmi sé í íslenskum rétti og þeim rétti sem gildir innan Evrópusambandsins á grundvelli tilskipunar 2000/43/EB um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna á tillits til kynþáttar eða þjóðernis að því er varðar vinnumarkaðinn og tilskipunar 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi.

Starfsgreinasamband Íslands fagnar samþykkt laganna enda er skýrt markmið þeirra að tryggja jafna meðferð einstaklinga óháð þessum þáttum á íslenskum vinnumarkaði.
Því má svo við bæta að Alþýðusamband Íslands skilaði inn umsögn vegna frumvarpanna þar sem sambandið  fagnaði framlagningu þeirra og hvatti til þess að þau yrðu samþykkt.

Jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna – ferill málsins á Alþingi

Jöfn meðferð á vinnumarkaði – ferill málsins á Alþingi