Hafa samband

FRÉTTIR

Ræða framkvæmdastjóra SGS 1. maí

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, flutti barátturæðu á 1. maí-hátíðarhöldum víðsvegar á Snæfellsnesinu í tilefni dagsins. Ræðuna í heild sinni má lesa hér að neðan.

…………………………..

Kæru félagar, til hamingju með baráttudag launafólks!

Þegar hreyfing launafólks er samstíga og sameinuð er ekki til neitt sterkara afl. Í ár berjumst við undir slagorðinu „Sterkari saman“ og það er alveg jafn satt í dag og það var fyrir heilli öld síðan.Verkalýðshreyfingin er stofnuð af þeirri hugsjón að til að ná árangri þarf launafólk að sameinast í skipulögð félög til að bæta kjör sín. Og það höfum við sannanlega gert í gegnum tíðina. Það sem hefur áunnist síðustu öldina er of langt mál að rifja upp en það sem við í dag teljum hversdagslega hluti eins og sumarfrí, helgarfrí, orlof og slysatryggingar er afrakstur þess að launafólk var sterkari saman. Í verkalýðshreyfingunni er ekki nein ein kraftaverkamanneskja en verkalýðshreyfingin er sannanlega kraftaverkahreyfing. Það hefur hún sýnt aftur og aftur en það er jafnframt satt að ef hún er sundruð verður árangurinn líka eftir því. Þá náum við ekki þeim slagkrafti sem við þurfum til að gera breytingar fyrir okkur öll.

En hvaða kröfur eru það sem við eigum að reisa núna? Hvert er stærsta verkefni verkalýðshreyfingarinnar og fyrir hverju berjumst við í dag? Áskoranirnar framundan eru fjölmargar og nýjar en það er líka alveg óhætt að dusta rykið af fjölda kröfuspjalda fyrri ára. Okkur hefur til dæmis ekki enn tekist að búa til samfélag þar sem allt fullfrískt fólk getur unnið fyrir sér. Margir taxtar eru enn allt of lágir og duga ekki fyrir framfærslu. Og þetta þrátt fyrir að við náðum sögulega góðum samningum síðast og lágmarkstekjutrygging hækkaði um 40% á fjögurra ára tímabili. Í dag náum við svo þeim langþráða árangri að lágmarkstekjur fullorðins fólks eftir 6 mánuði í starfi verða 300 þúsund krónur.

Þegar Starfsgreinasambandið reisti kröfuna um 300 þúsund króna lágmarkslaun árið 2015 var okkur sagt að þetta væri af og frá, hér færi allt í bál og brand, verðbólgan færi á skrið og allir myndu að lokum tapa á þessum svívirðilega háu kröfum. Meira að segja sumir félagar okkar í hreyfingunni tóku undir þennan söng. Raunin hefur hins vegar verið önnur. Kaupmátturinn hefur aukist umtalsvert og ekki hækkað jafn mikið í 20 ár. En við þekkjum þessi viðbrögð við okkar kröfum. Þau eru fastur liður eins og venjulega og viðsemjendur hljóma stundum eins og rispuð plata. Þessar raddir eru farnar að heyrast núna í aðdraganda samningaviðræðna og við erum viðbúin þeim.

Krafan um sanngirni og réttlæti er hávær í dag. Síðustu mánuði og ár hefur launafólk stigið fram hvert af öðru, sagt frá reynslu sinni og krafist breytinga. Margir eru hættir að skammast sín og vera með samviskubit yfir að hafa ekki verið nógu duglegt, nógu vel menntað eða nógu framsýnt og krefjast virðingar og mannsæmandi lífs. Þetta er að gerast um allan heim þar sem vinnandi fólk er ofurselt ómannúðlegu húsnæðiskerfi, ósanngjörnu bótakerfi, lélegu aðgengi að barnagæslu og lágum launum. Sama hvaða starfi þú sinnir, þú átt skilið virðingu og sanngjarnt endurgjald fyrir vinnuframlag þitt.

Við erum því, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim í þeim sporum að krafist er grundvallarbreytinga á velferðarkerfum. Síðustu áratugir hafa einkennst af þyngri skattbyrgði á láglaunafólk, auknum greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu og síversnandi húsnæðismarkaði. Við verðum að krefjast þess að skattkerfi séu notuð til að jafna kjörin, að hætt sé að höggva í velferðarkerfið okkar og það byggt upp af mannúð og sanngirni. Við erum á brúninni að gera eitthvað stórkostlegt saman en það krefst samstöðu og sameiginlegrar framtíðarsýnar.

En verkefni stéttarfélaganna eru stór og smá og í okkar daglega starfi hittum við fjölda fólks sem þarf að sækja rétt sinn gagnvart atvinnurekendum. Því miður verðum við ekki mikið vör við fyrirmyndaratvinnurekendurna en þeir eru sannanlega til. Við verðum hins vegar óþægilega vör við fólk sem er að reka fyrirtæki og hefur ekki þekkingu til þess eða það sem verra er, reyna að svindla á starfsfólki. Það er eru fyrirlitlegustu málin sem koma inn á okkar borð og jafnframt þau erfiðustu.

En okkur langar líka að breyta sjónarhorninu við og við og erum nú að skoða möguleika á að votta fyrirtæki sem standa sig sem atvinnurekendur. Fyrirtæki sem líta ekki bara á fólk sem vinnuafl sem hægt er að skipta út og endurnýja heldur leggja metnað sinn í að fara að lögum og samningum, eru með aðbúnað starfsfólks í lagi, bjóða uppá möguleika til fræðslu og menntunar og eru meðvitaðir um að sanngjarnt samfélag sé gott fyrir okkur öll. Við getum vonandi sagt fréttir af þessu áður en langt um líður.

Kæru áheyrendur,

Við búum í stórum heimi þar sem lönd tengjast sífellt meira og fólk á auðveldara með að ferðast á milli. Við erum svo lánssöm að hafa fengið hjálp fólks frá öllum heiminum til að vinna þau verk sem þarf að vinna í okkar samfélagi. Án utanaðkomandi aðstoðar gætum við ekki haldið úti blómlegri ferðaþjónustu og sístækkandi hagkerfi. Okkur ber að taka vel á móti fólki sem kemur hingað, gæta þess að allir sem búa hér á landi njóti sömu réttinda og geti lifað sómasamlega. Ein skýrasta birtingamynd misréttis á vinnumarkaði í dag er munur á kjörum fólks af íslenskum uppruna annars vegar og erlendum uppruna hins vegar. Það er mikið verk að kynna réttindi fyrir fólki sem kemur úr öðru umhverfi, segja þeim hvernig hinn íslenski vinnumarkaður er og að það sé í raun hægt að treysta stofnunum, stéttarfélögum og lögreglunni ef út í það er farið. Ef við samþykkjum félagsleg undirboð gagnvart einum hópi á vinnumarkaði erum við að samþykkja verri kjör og verri vinnumarkað fyrir okkur öll. Við þurfum því alltaf að skoða þá hópa sem verst standa í samfélaginu og ljá þeim rödd okkar og baráttuþrek. Í grunninn er fólk allt eins gert. Það vill búa við frið og öryggi, geta unnið fyrir sér og menntað börnin sín. Það er ekki til of mikils mælst.

Af öllum þeim #metoo frásögnum sem sagðar hafa verið síðan byltingin hófst í nóvember á síðasta ári er fátt sem varpar jafn skýru og grimmu ljósi á dapran veruleika og frásagnir kvenna af erlendum uppruna hér á landi. Við getum ekki kallað okkur siðmenntað samfélag fyrr en við upprætum kúgun og ofbeldi gagnvart þeim hópum sem verst standa, í heimahúsum og á vinnumarkaðnum. Að vera laus við áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er alveg jafn mikilvægt vinnuverndarmál og að vera í skóm með stáltá á byggingarsvæðum.

Kæru félagar og áheyrendur,

Við búum í ríku samfélagi. Hér á okkur öllum að geta liðið vel og lifað af gæðunum. En þeim er misskipt og því verður að breyta. Það er ekki ásættanlegt að sumir geti ekki dregið fram lífið á meðan aðrir eru með fulla vasa fjár. Við tökum öll þátt í að skapa auðinn og eigum öll að njóta hans. Við megum ekki unna okkur hvíldar fyrr en allir njóta grunnframfærslu, aðeins þá getum við hallað okkur aftur í sófanum og horft á lífstílsþætti með góðri samvisku þar sem fólk sýnir nýjasta tískuvasann sem kostar tugi þúsunda. Sanngjarn verðmiði á vinnuframlag er og verður krafan og þéttriðið velferðarnet þegar vinnuþrekið bregst.

Í dag ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýn á komandi samningaviðræður, en samningar eru lausir um næstu áramót. Undirbúningur er þegar hafinn og stéttarfélög um allt land halda nú fundi með sínum félagsmönnum, gera skoðanakannanir, fara í vinnustaðaheimsóknir og svo framvegis til að heyra í fólki og vita hvaða kröfur á að reisa. Verður áherslan á styttingu vinnuvikunnar, aukinn veikindarétt, aldurstengd réttindi? Á þessum tímapunkti vitum við hins vegar það að samningar nást varla nema með aðkomu stjórnvalda. Þau verða að axla ábyrgð á auknum jöfnuði og það þýðir ekki að segja við launafólk að vera skynsamt, vera hófsamt, sýna ábyrgð og allt það sem við stöðugt heyrum. Frá okkar félagsmönnum heyrum við mjög háværa kröfu um breytingu á sköttum og bótum og sú krafa verður reist.

Það er sannanlega verk að vinna og næstu mánuði munum við í hreyfingunni stilla saman strengi, ákveða áherslur gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum og í haust þegar viðræður hefjast mætum við með skýrar kröfur, sameinuð og samstillt og með allann þann þunga sem okkar félagsmenn ljá okkur til að ná árangri í viðræðunum.

Stöndum saman, verum sterkari saman og njótum sigra í sameiningu!

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS.