Hafa samband

FRÉTTIR

Ríkisrekin þrælasala Norður-Kóreu

Eitt að þeim málum sem sérstaklega er tekið fyrir á 106. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem nú stendur yfir í Genf fjallar um norður-kóreska þræla í Póllandi. Pólska ríkisstjórnin sætir gagnrýni fyrir að gera ekki nóg til að koma í veg fyrir þetta en ljóst er að vandinn er víðtækari en bara í Póllandi. Norður-Kórea hefur sent fólk til að vinna í yfir 40 löndum um heim allan. Áður var það aðallega til Kína, Rússlands og arabalanda, en nú á dögum er þetta víðfeðmara. Starfsfólkið fær rétt næg laun til að lifa af og vinnur oft í 12-16 tíma á dag alla daga vikunnar við hættuleg og óviðunandi skilyrði, en norður kóreska ríkið hirðir megnið af tekjum starfsfólksins. Þannig er þrældómur orðin leið fyrir Norður-Kóreu til að afla gjaldeyristekna en áætlað er að ríkið græði allt að 2,3 milljarða dollara á ári með þessu móti og munar um minna fyrir ríki sem stendur í kjarnorkuvopnaframleiðslu. Talið er að um sé að ræða tugi þúsunda þræla, þar á meðal hafa þrælar frá Norður-Kóreu starfað í Hollandi, á Möltu og í Tékklandi. Yfirvöld í viðkomandi löndum hafa reynt að taka á þessum málum en yfirleitt hafa öll leyfi verið veitt, ráðningarsamningar eru til staðar og atvinnuleyfi. Launin fara jafnvel inn á reikning í nafni þrælsins og undirritun hans liggur fyrir á samningum. Þeir fáu sem hafa þorað að tala og jafnvel sótt um hæli í viðkomandi landi segja hins vegar allt aðra sögu en starfsmannaleigurnar sem nýta sér krafta fólksins. Þrælarnir eru ekki með yfirráð yfir vegabréfum sínum, er skutlað frá íverustað beint í vinnuna og fá ekki að hafa samneyti við aðra.

Þessi skipulagða ríkisrekna þrælasala mætir kröfum vestrænna atvinnurekenda um sífellt ódýrara vinnuafl auk þess sem Norður-Kórea býður vel þjálfaða þræla sem þora ekki að malda í móinn enda geta þeir þurft að gjalda fyrir með lífi sínum. Við það bætist að ríki eru hikandi við að fara í hart út af þessu þar sem það getur valdið milliríkjadeilum. Það er því áætlað að þetta muni aukast næstu árin og ljóst að Alþjóðavinnumálastofnunin þarf að beita þeim verkfærum sem hún hefur yfir að ráða til að koma í veg fyrir þennan ríkisrekna þrældóm. Gagnaöflun er enn í gangi og pólska málið sem nú er reifað á þinginu er hluti af því. Fyrir áhugasama má sjá skýrslu um þennan ófögnuð hér: http://slavestothesystem.eu/wp-content/uploads/2016/05/NK-forced-labour-first-findings.pdf

 

Drífa Snædal

Framkvæmdastjóri SGS