Hafa samband

FRÉTTIR

SGS skipuleggur ungliðafund

Þriðja árið í röð skipuleggur Starfsgreinasamband Íslands fund fyrir ungt fólk í hreyfingunni, að þessu sinni á Bifröst dagana 30. og 31. maí næstkomandi. Svo vel hefur tekist til síðustu tvö ár að þetta er nú þegar orðinn fastur liður í starfi sambandsins. Hvert aðildarfélag SGS getur sent tvo fulltrúa, eina konur og einn karl þrjátíu ára og yngri á fundinn. Dagskráin er skipulögð samkvæmt óskum ungliða sjálfra og í lok hvers fundar er farið yfir óskir fyrir næsta ár.

Að þessu sinni verður byrjað á hópastarfi til að hrista hópinn saman og kynnast betur, þá verður fjallað um verkalýðsbaráttuna í alþjóðlegu samhengi, framtíð vinnumarkaðarins og svo kemur fræðslufulltrúi samtakanna 78 og fjallar um stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði. Að venju munu ungliðarnir hitta formenn félaganna undir lok fundarins og koma þeim áherslum sem þau vilja til skila í sín félög. Með þátttöku sinni í ungliðafundunum er ekki verið að skuldbinda sig á neinn hátt til frekari þátttöku í verkalýðshreyfingunni en reynslan hefur sýnt að þátttakendur verða flestir virkir í sínu félagi í framhaldinu. Aðildarfélögin tilnefna sína fulltrúa fyrir 10 maí næstkomandi.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá ungliðafundunum 2016 og 2017.