Hafa samband

FRÉTTIR

Stuðningur við systur og bræður í Bretlandi

Starfsfólk tveggja veitingastaða TGI Friday’s í Bretlandi stendur um þessar mundir í verkfalli til að mótmæla þeirri ákvörðun fyrirtækisins að hafa af þeim 40% af því þjórfé sem það vinnur sér inn reglulega. Eðlilega er þetta stór biti að kyngja fyrir starfsfólkið og þeirra stéttarfélag (Unite the Union) enda þýðir þetta að stór hluti þeirra mánaðarlegu tekna er tekinn frá þeim eins og hendi sé veifað. Þetta rakalausa inngrip af hálfu TGI Friday’s er með öllu óásættanlegt auk þess sem fyrirvarinn á ákvörðuninni er ekki sæmandi alvöru fyrirtæki. Þetta er framkoma sem starfsfólkið sættir sig ekki við.

Starfsgreinasamband Íslands lýsir yfir fullri samstöðu og stuðningi við kröfur starfsfólksins um sanngjörn laun og eðlilegar samningaviðræður. Það sama má segja um Stéttarfélag hótel- og veitingahúsastarfsmanna í Svíþjóð (HRF) en HRF hefur jafnframt ákveðið að gefa að 10.000 SEK í verkfallssjóð Unite the Union til að standa straum af kostnaði vegna verkfalls starfsfólksins.

SGS og HRF munu fylgjast náið með þróun mála og meta á hvaða hátt þau geta haldið áfram að styðja bakið á starfsfólkinu.