Hafa samband

FRÉTTIR

Svarti listinn á Alþjóðavinnumálaþinginu

Á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem nú stendur yfir í Genf,  eru starfandi nokkrar nefndir og fylgist undirrituð sérstaklega með nefnd sem fjallar um einstök lönd og hugsanleg brot þeirra á grundvallarsáttmálum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Þessir grundvallarsáttmálar varða meðal annars bann við þrælahaldi, réttinn til að taka þátt í stéttarfélögum, réttinn til að gera kjarasamninga, bann við vinnu barna, jafnrétti á vinnumarkaði og bann við mismunun á vinnumarkaði.

Nefndin tekur fyrir nokkur einstaka mál, 24 talsins, og hefur verið samið um það fyrirfram á milli stéttarfélaga, atvinnurekenda og ríkisstjórna hvaða mál fara á „svarta listann“. Málin eru svo tekin fyrir eitt af öðru í nefndinni og fulltrúar geta reifað málin og komið með tillögur um framvinduna. Það getur skipt stéttarfélög í viðkomandi landi miklu máli að fá málin sín tekin upp á þessum vettvangi. Stéttarfélögum er jafnvel gert ómögulegt að  starfa í viðkomandi ríkjum og því eru það stéttarfélög í öðrum löndum sem reka viðkomandi mál. Í einstaka tilvikum getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fulltrúa stéttarfélaganna að gagnrýna eigin ríkisstjórn á vettvangi ILO. Í upphafi þingsins birtist til dæmis yfirlýsing frá stéttarfélögunum í Bahrain um að þeim hefði verið meinað að halda úr landi og taka þátt í þinginu, en fyrir nefndinni er mál sem stéttarfélögin reka gegn yfirvöldum í Bahrain og varðar fjölda brota á grundvallarsáttmálum ILO.

Önnur mál fyrir nefndinni varða til dæmis Norður-Kóreska þræla starfandi í Póllandi (meira um það síðar), barnaþrælkun í Líbíu, löggjöf sem gerir stéttarfélögum nánast ómögulegt að starfa í Kasakstan og svo mætti lengi telja. Hér má fylgjast með því sem gerist á þinginu en umræður í nefndunum eru því miður ekki opinberar.

Drífa Snædal

Framkvæmdastjóri SGS