Hafa samband

UPPMÆLINGAR Í RÆSTINGUM

Starfsgreinasamband Íslands býður fyrirtækjum og stofnunum upp á þjónustu varðandi uppmælingar í ræstingum. Allar upplýsingar um þjónustuna veitir Árni Steinar Stefánsson, sérfræðingur SGS, í síma 562 6410 eða í tölvupósti (arni@sgs.is). Hér að neðan má nálgast ýmsar gagnlegar upplýsingar um þjónustuna, sbr. kosti hennar, feril og nauðsynleg gögn.

 

Hvað er uppmæling?

Uppmælingar byggja á vinnurannsóknum sem hafa það að markmiði að finna einföldustu og hagkvæmustu vinnuaðferðina við framkvæmd tiltekins verks og ennfremur að ljúka verkinu á sem stystum tíma. Niðurstöður uppmælinga í ræstingum gefa til kynna hversu langan tíma það tekur að ræsta tiltekið svæði og leggja þar með grunninn að þeim tímaeiningum sem notaðar eru við launaákvarðanir samkvæmt tímamældri ákvæðisvinnu við ræstingar.
Hverjir eru kostir við uppmælingu í ræstingum?

-Möguleiki á hagræðingu í ræstingum.
-Getur leyst ágreiningsmál sem kunna að koma upp milli atvinnurekanda og starfsfólks eða stéttarfélags.

Hvað er innifalið í þjónustunni?

-Ráðgjöf og aðstoð við gerð tíðni- og verklýsinga.
-Mælingar og útreikningar á húsnæðinu sem um ræðir.
-Ýtarleg ræstingartíðniteikning, sem afmarkar skýrt svæðin sem á að þrífa og sýnir hversu oft þrif skulu fara fram og með hvaða áherslum.
-Skýrsla með helstu útreikningum.

Ferillinn

  1. Verkbeiðni berst frá verkbeiðanda til Starfsgreinasambandsins (SGS) í tölvupósti eða símleiðis.
  2. SGS óskar eftir teikningum af húsnæðinu ásamt upplýsingum um ræstingartíðni, gólftegundir o.fl. Mikilvægt er að teikningarnar séu skýrar og innihaldi mælikvarða.
  3. SGS gerir uppmælingu á húsnæðinu út frá teikningum og tíðni- og verklýsingu og notar til þess tölvuforrit sem reiknar á nákvæman hátt út áætlaðan verktíma.
  4. SGS sendir verkbeiðanda ræstingartíðniteikningu ásamt skýrslu með helstu útreikningum.
Fyrir hverja er þjónustan?

Sveitarfélög, stofnanir, lítil og stór fyrirtæki, stéttarfélög o.fl.

Hvað er uppmælt?

Hægt er að óska eftir uppmælingu á hvers kyns húsnæði, t.a.m. skólum, leikskólum, heilsugæslustöðvum, skrifstofuhúsnæði o.s.frv.

Er uppmælingin nákvæm?

Tölvuforritið sem notað er við uppmælingarnar hefur verið þróað í yfir 25 ár, náð útbreiðslu víða um heim og er þ.a.l. talið afar nákvæmt og skila mjög áreiðanlegum niðurstöðum.

Hvað kostar þjónustan?

Útseldur tími er á 8.000 kr. + vsk. Heildatímafjöldi verkefnisins fer eftir stærð húsnæðisins sem mælt er upp.  Frekari upplýsingar um kostnað veitir skrifstofa SGS.