Hafa samband

1. maí 2010

Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur verkafólks. Hann er haldinn hátíðlegur víða um heim og hér á landi hefur dagurinn öðlast fastan sess í vitund þjóðarinnar. Oft var þörf en nú er nauðsyn þess að rödd verkafólks um jöfnuð og réttlæti endurómi um landið.

Starfsgreinasambandið hvetur allt verkafólk til að fylkja liði og taka þátt í dagskrá félaganna 1. maí um leið og við óskum landsmönnum öllum til hamingju með daginn.

Hér má sjá dagskrána eins og hún lítur út á hinum ýmsu stöðum úti á landi;

Akranes

Safnast verður saman við Kirkjubraut 40, kl. 14:00 og genginn hringur á neðri-Skaga.

Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40.

Ræðumaður dagsins:  Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness

Grundartangakórinn og Kvennakórinn Ymur syngja nokkur lög

Frítt í bíó fyrir börnin og kaffiveitingar.

 

Akureyri

Göngufólk safnast saman við Alþýðuhúsið kl. 13:30.

Lagt upp í kröfugöngu við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar kl. 14:00.

Happdrættismiðar afhentir göngufólki.

Hátíðardagskrá í Sjallanum að lokinni kröfugöngu.

Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna: Heimir Kristinsson, varaformaður Fagfélagsins

Aðalræða dagsins: Guðmundur Ómar Guðmundsson, fyrrv. formaður Félags byggingamanna Eyjafirði

Skemmtidagskrá, kaffiveitingar og dregið í happdrættinu.

 

Borgarnes

Hátíðin sett: Signý Jóhannesdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands

Ræða dagsins: Grétar Þorsteinsson fyrrverandi forseti ASÍ

Tónlistaratriði

Karlakórinn Stefnir úr Mosfellsbæ

Internasjónalinn

Kvikmyndasýning fyrir börnin.

Kynnir verður Signý Jóhannesdóttir

Félögin bjóða samkomugestum upp á kaffiveitingar að lokinni dagskrá.

 

Húsavík

Ávarp: Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar

Gamanmál: Guðni Ágústsson framkvæmdastjóri SAM og fyrrverandi ráðherra

Tónlist: Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söngkona og Eurovision fari

Hátíðarræða: Björn Grétar Sveinsson fyrrverandi formaður Verkamannasambands Íslands.

Söngur: Garðar Thor Cortes stórsöngvari. Undirleikari Aladar Rácz.

Söngur: Karlakórinn Hreimur. Stjórnandi og undirleikari Aladar Rácz.

Á meðan á hátíðarhöldunum stendur verður hátíðargestum boðið upp á kaffi og tertu af bestu gerð frá Heimabakarí.

 

Reykjanesbær 
Hátíðardagskrá í Stapa
kl. 13.45  Húsið opnar – Guðmundur Hermannsson leikur ljúfa tóna
kl. 14.00  Setning: Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs-og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis

Ræða dagsins: Sigurður Bessason formaður Eflingar

Skemmtiatriði.

Kaffiveitingar í boði stéttarfélaganna

kl. 13.00  Börnum boðið á bíósýningu í Sambíói Keflavík.

 

Sandgerði

Á hátíðisdegi verkalýðsins 1. maí býður Verkalýðs og sjómannafélag Sandgerðisöllum félagsmönnum til kaffisamsætis í Samkomuhúsinu í Sandgerði kl. 15.

Setning: Magnús S. Magnússon formaður VSFS.

Ræðumaður:  Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri SGS.

Söngdívurnar Konfekt syngja.

Barnakór Grunnskóla Sandgerðis syngur undir stjórn Sigurbjargar Hjálmarsdóttir

Kaffiveitingar.

Um tónlistina sjá Hörður, Jói og Mummi.

 

Selfoss

Kröfuganga við undirleik Lúðrasveitar Selfoss kl. 10:00

Lagt verður af stað frá Austurvegi 56, Selfossi og gengið að Hótel Selfossi

Félagar í Sleipni fara fyrir göngunni á hestum

Dagskrá við Hótel Selfoss að lokinni kröfugöngu

 

Hátíðarræða dagsins: Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands

Framtíðarsýn unga fólksins: Anton Guðjónsson og Íris Erla Gísladóttir, nemendur við FSu

Ingólfur Þórarinsson Veðurguð skemmtir gestum með söng og gleði

Að lokum verður gestum boðið í morgunkaffi í anddyri Hótel Selfoss

 

Stykkishólmur

Verkalýðsfélag Snæfellinga,Starfsmannafélagi Dala-og Snæfellsnessýslu, efna til hátíðarfundar

1 maí 2010kl 15 á Hótel Stykkishólmi.

Ávarp flytja Þorsteinn Sigurðsson og Helga Haraldsdóttir

Ingó úr veðurguðunum og Kári Viðarsson skemmta

Kaffiveitingar.

 

Blönduós

Félagsheimilið, 1. maí kl. 15.00.

Ræðumaður dagsins: Sveinn Hálfdanarson,fyrrverandi formaður Stéttarfélags Vesturlands,

Kaffiveitingar og skemmtiatriði.

 

Ísafjörður

Lagt verður af stað frá Baldurshúsinu, Pólgötu 2 kl. 14:00. Gengið verður að Pollgötu og þaðan niður að Edinborgarhúsi með Lúðrasveitina í fararbroddi.

Dagskráin í Edinborg:

Ræðumaður dagsins:  Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ

Skemmtiatriði

Pistill dagsins:  Ólöf Hildur Gísladóttir starfsmaður FOS Vest

Kaffiveitingar og kvikmyndasýning fyrir börn

Ljósmyndasýning í Edinborg

Harmonikudansleikur í Félagsheimilinu Súðavík frá kl. 10:00 – 02:00.

 

Siglufjörður

Dagskrá verður í sal félaganna, Eyrargötu 24b frá kl. 15:00 til 17:00

Margrét Jónsdóttir flytur ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna

Kaffiveitingar.

 

Neskaupsstaður

Grunnskólinn Neskaupstað kl. 15:00

Ræðumaður:  Matthías Sveinsson

Veitingar eru í umsjón Félags eldri borgara á Nesk.

Félag harmonikkuunnenda sér um tónlist.

 

Stöðvarfjörður

Grunnskólinn Stöðvafirði kl. 15:00

Ræðumaður: Reynir Arnórsson

Tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum.

Kaffiveitingar.

 

Breiðdalsvík

Hótel Bláfell kl. 15:00

Ræðumaður: Sigurbjörg Erlendsdóttir

Kaffiveitingar.

 

Eskifjörður

Kaffiveitingar í Melbæ kl.14:00.

Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson

ElzbietaIwona Cwalinska söngkennari sér um tónlistaratriði.

 

Reyðarfjörður

Safnaðarheimilið kl. 15:00

Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson

Nemendur í Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar sjá um skemmtiatriði.

 

Fáskrúðsfjörður

Grunnskólinn Fáskrúðsfirði kl: 14:00

Ræðumaður:  Reynir Arnórsson

Kaffiveitingar

Tónlistaratriði.

 

Egilsstaðir

Morgunkaffi kl. 10.00 á Hótel Hérað

Ræðumaður: Jóna Járnbrá Jónsdóttir,

Tónlistaratriði.

 

Borgarfjörður eystri

Ræðumaður:  Helga Erla Erlendsdóttir

Veitingar kl. 12.00 í Fjarðarborg,

Kórsöngur.

 

Vopnafjörður

Félagsheimilið Miklagarði kl: 14:00

Ræðumenn: Kristján Magnússon, Sigríður Dóra Sverrisdóttir

Kaffiveitingar að hætti kvenfélagsins

Tónlistaratriði.

 

Djúpivogur

Hótel Framtíð kl. 10

Ræðumaður: Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir

Tónlistaratriði.

 

Hornafjörður

Hótel – Höfn frá Kl: 14:00

Lúðrasveit tekur á móti fólki.

Ræðumaður: Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir

Tónskólinn sér um tónlist fyrir og eftir kaffi.

 

Seyðisfjörður

Herðubreið – kl. 15:00

Ræðumaður: Jóna Járnbrá Jónsdóttir

Tónlistog leiklist í umsjón nemenda grunnskólans og leikskólans.

 

Sauðárkrókur

Hátíðardagskrá þann 1.maí hefst kl. 15:00 í félagsheimilinu Ljósheimum.
Ræðumaður verður Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Að venju verða úrvals kaffiveitingar auk skemmtiatriða frá Leikfélagi Sauðárkróks og barnakór Tónlistarskólans .
Félagsmenn eru hvattir til að mæta og gera sér glaðan dag.

 

Vestmannaeyjar

Alþýðuhúsið opnar kl. 14.30

Valmundur Valmundsson formaður sjómannafélagsins Jötuns flytur 1. maí ávarpið

Fjölbreytt tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Vestmannaeyja

Kaffisamsæti í boði stéttarfélaganna.


Af málþingi SGS um matvælavinnslu og landbúnað

„Innan okkar raða starfa um tíu þúsund manns við matvælavinnslu, mest við fiskvinnslu en á fimmta þúsund félagar okkar starfa við aðra matvælavinnslu. Það er því augljóst að matvælavinnsla sem atvinnugrein á Íslandi skiptir Starfsgreinasambandið miklu máli og við viljum þess vegna taka umræðuna með atvinnurekendum og stjórnvöldum um það hvernig þessi atvinnugrein getur þróast hér á landi,” sagði Kristján Gunnarsson formaður SGS í ávarpi sínu á málþinginu sam haldið var á Selfossi í gær. ,,Við viljum að til verði fleiri og verðmeiri störf sem séu einnig í stakk búin til að greiða ásættanleg laun,“ sagði Kristján ennfremur, en málþingið leitaðist við að svara spurningum um það hvers virði íslenskur landbúnaður er í atvinnusköpun á Íslandi og hvað þurfi til að fjölga störfum í greininni og gera þau verðmeiri. Í Evrópu tala menn um Social Dialog, það sem kalla mætti á íslensku samvirkni hagsmunaaðila og stjórnvalda til þess að ná árangri og meiri skilvirkni, öllum til góðs. Við þurfum svona umræðuvettvang til að þróa málin áfram. Þingið var liður í þeirri umræðu.

Landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, távarpaði fundinn og ræddi m.a. stöðu greinarinnar, matvælaöryggi og ESB umræðuna, sem fleiri frummælendur komu einnig inná. „Hvort sem við göngum í ESB eða ekki er umræðan um íslenskan landbúnað, matvælaöryggið og mikilvægi landbúnaðar fyrir byggð í landinu og til að mynda ferðaþjónustuna, stöðugt á dagskrá. Að þeirri umræðu viljum við koma, m.a. með málþingi eins og þessu, sagði formaður Starfsgreinasambandsins.

En það voru fleiri en við sem hafa skoðun á landbúnaði. Þar fara fremst í flokki íslensku bændasamtökin og formaður þeirra, Haraldur Benediktsson var með innlegg en glærur hans og annarra má sjá hér að neðan.

Vísindasamfélagið varð líka að vera með á þinginu. Þau Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís reifaði hugmyndir um nýsköpun og markaðssetningu og Sigurður Jóhannsson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, nálgaðist umræðnua frá sjónarmiðum hagfræðinnar.

Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri SGS ræddi stefnumörkun sambandsins í landbúnaði og ferðaþjónustu og tengdi saman hagsmuni okkar félagasmanna í þessum greinum og mikilvægi greinanna hverja fyrir aðra. Gróðurhúsabændurnir Georg Ottósson og Knútur Rafn Ármann lýstu sínum sóknarfærum auk þess sem þeir lögðu til hráefni í hádegisverð, bragða af landbúnaði, sem þátttakendur lofuðu.

Halldóra Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri og sviðstjóri matvælasviðs SGS stýrði málþinginu sem rúmlega fjörutíu þátttakendur sóttu víða að, en öskuryk hamlaði för norðanmanna í flug og minnti þannig á umhverfi landbúnaðarins í landi elds og ísa. Glæru frummælanda má sjá hér:

Dagskrá málþingsins

Ávarp Kristján Gunnarsson

Haraldur Benediktsson

Sjöfn Sigurgísladóttir

Sigurður Jóhannsson

Skúli Thoroddsen

Georg Ottósson

Knútur Rafn Ármann


Hvers virði er íslenskur landbúnaður? Málþing SGS 26. apríl n.k.

Starfsgreinasamband Íslands, matvælasvið, heldur opið málþing um þróun og atvinnutækifæri í landbúnaðartengdum greinum að Hótel Selfossi, mánudaginn 26. apríl n.k. Málþingið hefst kl. 11:00 með ávarpi formanns sambandins, Kristjáns Gunnarssonar. Þá mun landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason ávarpa fundinn. Á málþinginu verða flutt stutt erindi m.a. um samspil landbúnaðar og ferðaþjónustu, um nýsköpun í matvælaframleiðslu og ný tækifæri. Einnig verður fjallað um styrkjakerfið, gróðurhúsabændur lýsa sóknarfærum auk þess sem formaður bændasamtakanna, Haraldur Benediktsson, leggur orð í belg.

Málþingið, mun leitast við að svara spurningum um það hvers virði íslenskur landbúnaður er í atvinnusköpun á Íslandi og hvað þurfi til að fjölga störfum í greininni og gera þau verðmeiri.
Halldóra Sveinsdóttir, sviðstjóri matvælasviðs SGS stýrir málþinginu.

Ekkert þátttökugjald er á málþinginu, sem er eins og áður sagði opið öllum sem áhuga hafa á málefninu.

Þess er óskað að væntanlegir þátttakendur tilkynni þátttöku sína með tölvupósti á netfangið sgs@sgs.is .

Dagskráin fer hér á eftir:

Hvers virði er íslenskur landbúnaður?

Matvælasvið Starfsgreinasambands Íslands heldur málþingi um landbúnaðarmál á Íslandi, stöðu greinarinnar og tækifæri, mánudaginn 26. apríl 2010 að Hótel Selfossi. Málþingið, mun leitast við að svara spurningum um það hvers virði íslenskur landbúnaður er í atvinnusköpun á Íslandi og hvað þurfi til að fjölga störfum í greininni og gera þau verðmeiri.

Dagskrá:

Kl. 11:00 Málþingið sett af Kristjáni Gunnarssyni formanni SGS.

Kl. 11.10 Ávarp landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar.

Kl. 11:25 Samspil landbúnaðar og ferðaþjónustu . Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri SGS.

Kl. 12:00 Bragð að íslenskum landbúnaði . Hádegisverður að Hótel Selfossi.

Kl. 13.00 Verðmæti landbúnaðarins og styrkjakrefið. Sigurður Jóhannsson, hagfræðingur, Hagfræðistofnun HÍ.

Kl. 13:20 Hvernig aukum við verðmætin í íslenskum landbúnaði? Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Kl. 13:45 Treystum á landbúnaðinn. Haraldur Benediksson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Kl. 14:20 Sóknarfærin. Georg Ottósson – Flúðasveppir.

Kl. 14:40 Sóknarfærin. Knútur Rafn Ármann – Friðheimum Reykholti.

Kl. 15:10 Hvers virði er landbúnaðurinn? Umræður þátttakenda.

Kl. 15:50 Málþingsslit. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar- Iðju og varaformaður SGS

Kaffi og kaka í boði SGS.

Eftir hverja framsögu eru fyrirspurnir og stuttar umræður. Ekkert þátttökugjald er á málþinginu.
Halldóra Sveinsdóttir, sviðstjóri matvælasviðs SGS stýrir málþinginu.


Afleiðingar vanrækslunnar – 24 þúsund heimili ná ekki endum saman

Sama dag og hrunaskýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var kynnt alþjóð var haldin málstofa í Seðlabanka Íslands um skuldastöðu heimilanna, sem minna fór fyrir. Karen Á. Vignisdóttir og Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingar í Seðlabanka Íslands kynntu þar niðurstöður á greiningu Seðlabankans á stöðu heimilanna í kjölfar bankahrunsins og lögðu mat á hvernig geta heimila til að standa undir greiðslubyrði lána og nauðsynlegri framfærslu hefur þróast undanfarin tvö ár.
Það er rík ástæða til að vekja athygli á þessari vönduðu úttekt vegna þess að hún fjallar um skelfilegar afleiðingar hrunsins fyrir venjulegt fólk og þar af leiðandi líka afleiðingar af þeim embættisafglöpum sem kallast vanræksla í hrunaskýrslunni.

Það er óþarfi að fjölyrða á þessum vettvangi um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Hún fjallar um aðdraganda og aðferðafræði þess hvernig almannahagsmunum var fórnað í þágu sérhagsmuna í rammspilltu pólitísku umhverfi. Lykilráðamenn; Davíð Oddsson, Geir H Haarde, Árni Matthiesen, Björgvin G Sigurðsson og fleiri eru sakaðir í skýrslunni um vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins, þ.e. að hafa ekki gætt almannahagsmuna eins og þeim bar m.a. með þeim afleiðingum fyrir heimilin sem þau Karen og Þorvarður hafa dregið saman.

Hjá þeim kemur fram, að til við bótar við það sem nú þegar hefur verið gert í björgunaraðgerðum heimilanna,  þá eru enn tæp 24 þúsund heimili sem þurfa á frekari aðgerðum að halda, heimili sem ekki ná endum saman eða eru á mörkum þess að geta staðið undir greiðslum og framfærslu. Hlutfall heimila í vanda er hæst á Reykjanesi, þar sem atvinnuleysið er mest og Suðurlandi auk þess sem það er hærra á ytra svæði höfuðborgarsvæðisins þar sem fjöldi nýbygginga er meiri. Hlutfallið er lægst á Austurlandi.

Fram kemur í úttekt Karenar og Þorvarðar að liðlega 30% af heimilum í vanda eru í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði sem gerir þau enn viðkvæmari en ella.Vísbending er um að skuldsetning heimila í vanda vegna bílakaupa gegni mikilvægu hlutverki í að skapa þann vanda sem þau eiga við að etja. Um 3.800 af þessum heimilum eru með fleiri en eitt bílalán. Heimili með gengistryggð íbúða-eða bílalán urðu fyrir mesta áfallinu og glíma við mestu erfiðleikana í kjölfar hrunsins. Vísbendingar eru um að hlutfall heimila í vanda sé hæst í tekjulægstu hópunum og að meginþorri þeirra sem eru í vanda séu með ráðstöfunartekjur undir 250 þ.kr. á mánuði.

Þetta er ein af skelfingarmyndum hrunsins og græðgisvæðingarinnar í skjóli pólitískrar spillingar og vanrækslu. Nú verða menn að axla ábyrgð, það er löngu kominn tími til að hefja endurreisn efnahagskerfisins á nýjum siðferðisgrunni þar sem almannahagsmunir njóta forgangs.


Sameiginleg markaðsetning Norðurlanda á sameiginlegum ferðamarkaði?

Samtök starfsfólks í ferðaþjónustugreinum, NU HRCT, sendu í gær opið bréf til ríkisstjórna Norðurlandanna þar sem vakin er athygli á milivægi ferðaþjónustunnar og bennt á að Norðurlöndum ber að nota þau tækifæri sem þau ráða yfir til að grípa til öflugrar markaðssetningar Norðurlanda á sameiginlegum ferðamarkaði.
„Miðað við þróun ferðamarkaðar í Evrópu og á heimsvísu hafa Norðurlönd glatað mikilvægu markaðshlutfalli. Samtök launafólks hvetja því ríkisstjórnirnar til að fara yfir þá möguleika sem starfsgreinin hefur til að fjölga atvinnutækifærum og bæta markaðssetningu svo þróunin í þessum efnum verði að minnsta kosti í sama hlutfalli og þróunin annars staðar í Evrópu,” segir m.a. í bréfinu.

Grípa verði til sameiginlegs og norræns átaks, þar sem nýsköpun og sjálfbærni eru lykilatriði segja samtökin og vísa m.a. til þeirra tillagna sem Norræna nýsköpunarmiðstöðin (NICe) hefur lagt fram sem og til yfirlýsingar Ráðherranefndarinnar um Sjálfbæra ferðaþjónustu.

NU HRCT eru samtök stéttarfélaga starfsfólks á hótelum, í veitingahúsum, skyndibitastöðum og ferðaþjónustu í Finnlandi, á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og hefur gildandi kjarasamninga við fulltrúa atvinnurekenda og fyrirtækja í þessum atvinnugreinum. Um er að ræða 7 samtök stéttarfélaga með samtals um 115.000 félagsmenn.