Hafa samband

Íslensk matvælaframleiðsla í hæsta gæðaflokki innanlands og erlendis.

,,Ný stefnumörkun fyrir nýsköpun í matvælavinnslu á Íslandi er nauðsynleg, stefnumörkun sem aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld og vísindasamfélagið verða að koma að,” segir í ályktun framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambandsins frá 21. þ.m.

Framkvæmdastjórnin bendir á að í dag stækkar sá markhópur sem gerir kröfur um vörur sem hafa sérstöðu sem byggja á góðri hönnun, gæðum, öryggi og rekjanleika. ,,Á þessum forsendum þurfa íslenskar vörur að byggja. Til matvælavinnslu, höfum við bæði gott hráefni og þekkingu til staðar sem nýta má á skilvirkari hátt. Íslensk matvælaframleiðsla getur verið í hæsta gæðaflokki í samkeppninni innanlands og erlendis. Hér leynist fjöldinn allur af tækifærum sem kallar á samstarf við markaðsaðila og hönnuði til að skapa vörur með sérstöðu. Einnig liggja umtalsverð tækifæri í öflugri gróðurhúsarækt, en þá þarf að skapa vænlegra rekstrarumhverfi með lægra raforkuverði til ræktenda,” segir m.a. í ályktuninni sem hér fer á eftir.

 

Ályktun um nýsköpun og fjölgun starfa í matvalavinnslu

,,Innan Stafsgreinasambands Íslands starfa um tíu þúsund manns við matvælavinnslu, mest við fiskvinnslu en á fimmta þúsund einstaklingar starfa við aðra matvælavinnslu. Matvælavinnsla sem atvinnugrein á Íslandi skiptir því miklu máli og þar liggja tækifæri til nýsköpunar og fleiri og verðmeiri starfa. Þetta koma fram á málþingi Starfsgreinasambandsins 26. apríl s.l. þar sem umræða með atvinnurekendum, bændum, vísindasamfélaginu og stjórnvöldum átti sér stað. Slík umræða, samvirkni hagsmunaaðilaog stjórnvalda, er nauðsynleg til þess að ná árangri til fjölgunar starfa og nýsköpunar.

 Framkvæmdastjórnin Starfsgreinasambandsins bendir á aðí dag stækkar sá markhópur sem gerir kröfur um vörur sem hafa sérstöðu sem byggja á góðri hönnun, gæðum, öryggi og rekjanleika. Á þessum forsendum þurfa íslenskar vörur að byggja. Til matvælavinnslu, í þessu sambandi, höfum við bæði gott hráefni og þekkingu til staðar sem nýta má á skilvirkari hátt. Íslensk matvælaframleiðsla getur verið í hæsta gæðaflokki í samkeppninni innanlands og erlendis. Hér leynist fjöldinn allur af tækifærum sem kallar á samstarf við markaðsaðila og hönnuði til að skapa vörur með sérstöðu. Einnig liggja umtalsverð tækifæri í öflugri gróðurhúsarækt, en þá þarf að skapa vænlegra rekstrarumhverfi með lægra raforkuverði til ræktenda.

Ný stefnumörkun fyrir nýsköpun í matvælavinnslu á Íslandi er nauðsynleg, stefnumörkun sem aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld og vísindasamfélagið verða að koma að. Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins vill leggja sitt af mörkum í þessu sambandi og hvetur stjórnvöld til að fylgja umræðunni eftir á markvissan hátt.”


Tryggja verður trúverðugleika lífeyriskerfisins og samfélagslega ábyrgar fjárfestingar.

„Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins telur mikilvægt að lífeyrissjóðakerfið grundvallist áfram á skylduaðild, samtryggingu, sjóðasöfnun og sjálfbærni kynslóðanna. Tryggja verður að fjárfestingarstefna sjóðanna sé unnin á traustum forsendum. Þar verða hagsmunir sjóðfélaga að sitja í fyrirúmi þar sem fagleg vinnubrögð og siðferðileg nálgun haldast í hendur. Hafi verið misbrestur þar á verður verkalýðshreyfingin að taka á þeim vanda af festu og ábyrgð m.a. með mótun skýrrar stefnu í lífeyrismálum.  Framkvæmdastjórnin fagnar þess vegna þeirri umræðu sem nú á sér stað á vettvangi ASÍ um lífeyrismál og þeirri ákvörðun Landssambands lífeyrissjóða að setja í ganga vinnu óháðrar rannsóknarnefndar um málefni lífeyriskerfisins,“ segir í umsögn framkvæmdastjórnar SGS um fram komin drög ASÍ um málefni lífeyrissjóðanna og „væntir þess að fomannafundur ASÍ, sem haldinn verður 25. þ.m. staðfesti í meginatriðum þá hugmyndafræði sem mótuð var á fulltrúafundi aðildarsamtaka ASÍ í febrúar.“

„Framkvæmdastjórnin telur að bregðast verði við þeirri gagnrýni, óánægju og tortryggni sem er meðal félagsmanna í garð fjárfestingastefnu og starfshátta lífeyrissjóðanna undanfarin ár. Tryggja verður trúverðugleika lífeyriskerfisins sem byggi á skýrum reglum um innri starfsemi sjóðanna og samfélagslega ábyrgar fjárfestingar.

Mikilvægt er að stjórnarmenn lífeyrissjóða séu vel hæfir til að takast á við vandasöm verkefni og að stjórnendur standist lögbundið hæfnismat. Yfirfara þarf lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem og lög um fjármálamarkaðinn.

Mikilvægt er að verkalýðsfélögin setji sér reglur um kjör fulltrúaráðs lífeyrissjóðanna og að valið sé á opin, félagslegan hátt eins og gildir um önnur trúnaðarstörf fyrir verkalýðshreyfinguna.  Efla þarf fræðslu meðal stjórnarmanna og fulltrúa í fulltrúaráði lífeyrissjóðanna um málefni þeirra. Nauðsynlegt  er að Verkalýðshreyfingin beiti sér sjálf fyrir menntun sinna fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða, þannig að þekkingarskortur þurfi ekki að koma í veg fyrir stjórnarsetu í sjóðunum,“ segir ennfremur í umsögninni sem afgreidd var á fundi framkvæmdastjórnar nú í dag.

 


Við viljum vinna! – 1. maí ávarp framkvæmdastjóra SGS á Selfossi

„Samstaða, samhugur og samábyrgð eru í raun grundvallarverðmæti sem við eigum þegar á reynir. Þennan kraft eigum við líka að virkja í þeim efnahagshamförum sem á okkur hafa dunið í kjölfar bankahrunsins. Nú sem aldrei fyrr verða allir að leggjast á eitt að vinna þjóðina út úr vandanum. Sérhagsmunir og stundarhagsmunir pólitískra flokka verða að víkja fyrir hagsmunum almennings í þessu landi.“ Þetta er meðal þess sem fram kom í hátíðaávarpi Skúla Thoroddsen, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins á Selfossi. Ávarpið fer hér í heild.

 

1. maí ávarp Skúla Thoroddsen á Selfossi

 

Góðir fundarmenn. Til hamingju með daginn.

Í dag er 1. maí, baráttudagur verkafólks um allan heim, baráttudagur fyrir bættum kjörum, baráttudagur fyrir jöfnuði og réttlæti. Baráttudagur samstöðu og samábyrgðar fyrir réttlátu þjóðfélagi, jöfnuði , frelsi og bræðralagi.

 

Þegar að steðjar vá, eins og eldgos og náttúruhamfarir, er það  samhugur og eindrægni sem einkennir okkur Íslendinga. Samstaða, samhugur og samábyrgð eru í raun grundvallar verðmæti sem við eigum þegar á reynir. Þennan kraft eigum við líka að virkja í þeim efnahagshamförum sem á okkur hafa dunið í kjölfar bankahrunsins. Nú sem aldrei fyrr verða allir að leggjast á eitt að vinna þjóðina út úr vandanum. Sérhagsmunir og stundarhagsmunir pólitískra flokka verða að víkja fyrir hagsmunum almennings í þessu landi.

 

En hver vegna?

Á Íslandi er hvorki atvinnuöryggi né velferðarsamfélag á traustum grunni eins og við höfum verið rækilega minnt á.

 

15 þúsund manns eru atvinnulausir og það stefnir í að þeir verði 18.000 þetta árið og það næsta ef ekki tekst að ná tökum á þróuninni.

 

11 þúsund börn eiga atvinnulausa foreldra.

 

Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðið í stað, fyrst og fremst vegna þess að enn hefur ekki tekist að semja um Icesave málið og leysa aðra óvissuþætti. Nýjar hagspár gera ráð fyrir of litlum hagvexti til þess að nógu mörg störf skapist þannig að draga megi úr atvinnuleysinu.

 

Það þarf að vinna að því að endurheimta fyrra atvinnustig og lífskjör sem fyrst. Það er hægt með því að setja atvinnusköpun í forgang, – sérstaklega með fjárfestingum og vexti í útflutningsgreinum.

 

Verkalýðshreyfingin beitti sér fyrir því að semja um Stöðugleikasáttmálann, sem undirritaður var fyrir tæpu ári. Í þeim sáttmála var vinnufriður tryggður og launafólk tók á sig umtalsverða kjaraskerðingu til að leggja sitt af mörkum til þess að þjóðin gæti saman hafið endurreisn atvinnulífsins sem fyrst.

 

Þessi áætlun hefur því miður ekki náð fram að ganga og þær vonir sem menn gerðu sér um stórframkvæmdir og önnur brýn atvinnuskapandi verkefni sitja enn á hakanum.

 

Öllum var þó ljóst í fyrra að það mundi hafa veruleg áhrif á efnahagsframvindu næstu ára, tækist að koma einhverjum hluta þessara framkvæmda af stað.

 

Eftir hverju er verið að bíða?

 

Við lýsum fullri ábyrgð á hendur Alþingi Íslendinga á töfinni, en þar hafa menn sýnt meiri áhuga á að snúast í kringum eigin pólitíska hagsmuni frekar en að setja málefni þjóðarinnar á oddinn. 14 til 16 mánuðir fóru til spillis í þrefinu um Icesave málið, mál sem þarf að leysa og verður að leysa til þess að atvinnulífið fái þá fjárhagslegu fyrirgreiðslu sem nauðsynleg er til að endurreisn atvinnulífsins geti hafist.

 

Við krefjumst þess að Alþingi og ríkisstjórn snúi bökum saman, klári Icesave málið, hrindi efnahagsáætluninni í framkvæmd og gefi Stöðugleikasáttmálanum það líf að hann verði sá vegvísir út úr vanda kreppunnar sem ætlast var til.

 

Launþegar og verkalýðshreyfingin hefa axlað sína ábyrgð á leið Íslands út úr vandanum.  Það verða aðrir að gera  líka.

 

Góðir félagar

Sama dag og skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var kynnt alþjóð skilaði Seðlabanki  Íslands vandaðri úttekt um skelfilegar afleiðingar hrunsins fyrir venjulegt fólk og þar af leiðandi líka afleiðingar af þeim embættisafglöpum sem kallast vanræksla í skýrslu rannsóknarnefdarinnar. Þar er staðfest, að enn eru tæp 24 þúsund heimili sem þurfa á frekari aðgerðum að halda, heimili sem ekki ná endum saman eða eru á mörkum þess að geta staðið undir greiðslum og framfærslu. Flest eru heimilin á Reykjanesi, þar sem atvinnuleysið er mest og hér á Suðurlandi.  Hlutfall heimila í vanda virðist vera hæst í tekjulægstu hópunum og meginþorri þeirra sem eru í vanda eru með ráðstöfunartekjur undir 250 þ.kr. á mánuði.

 

Þetta er staðreynd sem við blasir og þessu ástandi verður að breyta. Það verður einungis gert með því að efla atvinnustigið. Við megum alls ekki festast  í fátækralandi, en sú hætta er fyrir hendi við óbreytt ástand vegna þess að margir atvinnurekendur hugsa sér gott til glóðarinnar í alþjóðlegri samkeppni að þurfa ekki að greiða mannsæmandi laun á evrópska vísu hér á landi. Ég nefni lágmarkslaun fiskverkafólks í Noregi, sem nú eru um 2600 íslenskar krónur á tímann, hér á landi er sambærilegur taxti  um 1000 krónur á tímann í dagvinnu.

Þótt lágt gengi krónunnar núna skapi tækifæri til nýsköpunar í útflutningsgreinum megum við aldrei falla í þá gryfju að festa Ísland sem láglaunaland í Evrópu, gera okkur að fátæku þýi hinna ríkari þjóða. Forfeður okkar færðu ekki fórnir til þess að svo yrði.

 

Verkalýðshreyfingin hefur stutt aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Ástæðurnar fyrir því eru þær að við teljum liggja tækifæri í Evrópusambandsaðild, tækifæri til efnahagslegs stöðugleika og nýsköpunar. Við þurfum á öðrum þjóðum að halda, en aðrar þjóðir þurfa ekki endilega á okkur að halda.

 

Evrópusambandsaðild er möguleiki til að forða okkur frá því að hafna í glidru fátæktar og einangrunar en viðræðurnar sjálfar munu skýra kosti og galla aðildar sem við þurfum öll að ígrunda þegar niðurstöður liggja fyrir. Þjóðaratkvæði ræður svo hvað verður.

 

Góðir fundarmenn

Það er óþarfi að fjölyrða á þessum vettvangi um skýrslu rannsóknarnefndarinnar þið þekkið hana of vel. En á fundi eins og þessum á sjálfum baráttudegi verkalýðsins get ég ekki orða bundist. Skýrslan fjallar um aðdraganda og aðferðafræði þess hvernig almannahagsmunum var fórnað á altari sérhagsmuna í rammspilltu pólitísku og efnahagslegu umhverfi.

 

Öllum ber saman um að skýrslan sé vel unnin. Hún hvítþvær engan mann er ekki hvítþvottur eins og margir óttuðust heldur vönduð greinargerð um ábyrgð bankanna og stjórnvalda á bankahruninu. Vönduð og fagmannleg greining á því ástandi sem var.

Höfundar skýrslunnar taka í öllum aðalatriðum undir gagnrýni manna eins og Þorvalds Gylfasonar, Þórólfs Matthíassonar, Guðmundar Ólafssonar, Vilhjálms Bjarnasonar og hagdeildar Alþýðusambandsins og margra annarra á ríkisstjórn og Seðlabankann fyrir hrun. Skýrslan er þungur áfellisdómur yfir gamla bankakerfinu og stjórnkerfinu. ,,Hún lýsir gerspilltu og getulausu stjórnkerfi, sem hegðaði sér eins og hundur í bandi auðmannanna”, svo notuð séu orð Þorvaldar Gylfasonar.

 

Fram kemur í skýrslunni að tíu alþingismenn reyndust hver um sig skulda bönkunum 100 milljónir króna eða meira, einkum vegna hlutabréfakaupa. Þessir tíu þingmenn skulduðu bönkunum 830 milljónir króna hver að jafnaði. Að auki þágu stjórnmálaflokkarnir og einstakir frambjóðendur þeirra mikið fé af bönkunum og tengdum aðilum fyrir hrun. Bankarnir keyptu sér frið til að fara sínu fram og peningamálastefna Seðlabankans var alveg utan gátta . Háskólamenn, blaðamenn og listamenn dönsuðu einnig of margir eftir pípum auðmanna og stjórnvalda, sumir gegn greiðslu eða hlunnindum, og gengu með því móti á svig við almennt velsæmi með þjónkun við þrönga sérhagsmuni.

Siðareglur voru ekki virtar. Siðferðið fékk falleinkunn.

 

Svo mikið var drambið t.d. hjá Viðskiptaráði, sem  taldi Ísland standa Norðurlöndum ,,framar á flestum sviðum” skömmu fyrir hrun. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar segir berum orðum, að bankarnir hafi brotið lög og þrír ráðherrar og fjórir embættismenn hafi sýnt vanrækslu.  Líklegt virðist, að dómstólar þurfi að fjalla um, hvort niðurstöður skýrslunnar leiði til fangelsisdóma eða ekki.

 

Góðir fundarmenn

Látum réttarríkið dæma hina brotlegu. Mál verða að hafa sinn gang og það tekur tíma. Það sem mér þykir hins vegar mest um vert er það siðrof sem átt hefur sér stað á Íslandi. Við stöndum öll frammi fyrir nýju gildismati.

Verkalýðshreyfingin verður að svara þeirri spurningu hvernig hún ætlar að koma að því að byggja upp  nýjan siðferðisgrunn í samfélaginu. Það er hennar hlutverk sem fjöldahreyfingar jafnréttis og bræðralags . Að menn afsaki sig með því að engin lög hafi verið brotin, að réttarreglur hafi verið virtar er helber útúrsnúningur. Slík lagahyggja leiður okkur ekkert áfram. Löglegt enn siðlaust er ekki góð framtíðarsýn.

 

Siðareglur, sem eru óskráðar, fjalla um það sem er gott eða vont. Þeim reglum verðum við að gefa gaum, reglum um réttlætið, réttlætið fyrir alla samkvæmt almennri siðvitund. Almannahagsmuni fyrir sérhyggjuna. Siðbótin getur bara hafist í uppeldinu og skólakerfinu, grunninn verður að  leggja strax í leikskólanum, siðfræðin og gagnrýn hugsun verður að vera kjarninn  í öllu okkar starfi og leik, allt frá því við byrjum að draga andann.  Þannig eflum við siðferðiskenndina, samkenndina og sá sem hefur næma siðferðiskennd, þarf ekki að setja sér sérstakar reglur. Siðvitund hans segir honum sjálfkrafa hvað er við hæfi.

 

Hefjum baráttu fyrir endurreisn efnahagslífsins á nýjum siðferðisgrunni, nýju mannúðlegra gildismati. Þar þurfa allir að líta í eigin barm og ég undanskil ekki verkalýðshreyfinguna. Fulltrúar okkar í stjórnum lífeyrissjóðanna verða  t.d. að tryggja að fjárfestingarstefna sjóðanna sé hafin yfir allan vafa. Þar verða hagsmunir sjóðfélga að sitja í fyrirúmi, þar verða fagleg vinnubrögð og siðferðileg nálgun að haldast í hendur. Hafi verið misbrestur þar á verður verkalýðshreyfingin að taka á þeim vanda af festu og ábyrgð.

 

Við skulum horfa fram á veginn. Við skulum líta til tækifæranna, við skulum vinna okkur út úr vandanum. Látum hvorki eldgos né spillingu af manna völdum brjóta okkur niður. Tækifærin eru mörg.

 

Við í Starfsgreinasambandinu héldum gott málþing hér á Selfossi á mánudaginn var um íslenskan landbúnað og ferðaþjónustu. Þar virkjuðum við saman atvinnurekendur og stjórnvöld,  vísindasamfélagið og starfsfólkið. Miðað við þá umræðu sem þar fór fram um nýsköpun og verðmeiri störf, betri nýtingu lands og auðlinda, lítum við björtum augum til framtíðarinnar og tækifæranna.

 

Það er ekki eftir neinu að bíða, við viljum vinnu, við viljum virkja mannaflið og það er hægt.

 

Góðir félagar, – Að lokum þetta!

Þrátt fyrir mikinn vanda núna er staða okkar  samt bærileg miðað við allt og allt og útlitið framundan að mörgu leyti gott líka. Þannig eru líkur á að það klárist að semja um Icesave strax í kjölfar kosninga í Bretlandi og Hollandi. Þá verði ríkið búið að skera sig frá skuldum bankanna og staðan í raun betri en margur þorði að vona. Það er þess vegna löngu kominn tími til að hefja endurreisn efnahagskerfisins á nýjum siðferðisgrunni þar sem almannahagsmunir njóta forgangs.

 

Það er ekki eftir neinu að bíða. Við viljum vinna!!!