Hafa samband

Stöðugur gjaldmiðill. Ábyrg hagstjórn. Traust og trúverðugleiki.

Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ. Það vigtar því þungt í þeirri umræðu sem framundan er um efnahags- og kjaramál í tengslum við komandi kjarasamninga. Á skrifstofu sambandins er nú unnið að sameiginlegri kröfugerð vegna kjaraviðræðna sambandsins við Samtök atvinnulífsins, Bændasamtök Íslands, Landssamband smábátaeigenda, Launanefnd sveitarfélaga og ríkið. Það liggur enn ekki fyrir hvort, né hvaða málefni verða á sameiginlegu borði ASÍ gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum. Hagur rúmlega fimmtíu þúsund félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins, í ýmsum atvinnugreinum liggur í hins vegar í því að samstaða náist um fyrirsjáanlegar kjarabætur og atvinnuuppbyggingu, bæði til skamms tíma en ekki síður til lengri tíma litið, – að hér takist að ná sátt um víðtæka endurreins atvinnulífsins, efnahags- og kjaramál á borði en ekki bara í orði. Samstaða er okkar styrkur og um þann styrk eru menn vel meðvitaðir innan Starfsgreinasambandsins.

Stöðugur gjaldmiðill,  ábyrg hagstjórn, traust og trúverðugleiki eru lykilorð í ályktun ársfundar Alþýðusambandsins frá í síðustu viku um efnahags- og kjaramál. Þar er fjallað um þá vegferð sem framundan er við endurreins efnahagslífsins. Alþingi og ríkisstjórn landsins verða að taka þessi orð til sín í fyllstu alvöru.

„Efnahagsáfall þjóðarinnar er afleiðing óábyrgrar hagstjórnar og áralangs óstöðugleika“ segir í ályktun fundarins. Síðan segir;

„Fundurinn krefst þess að íslenskum heimilum og fyrirtækjum verði tryggður sami efnahagslegi stöðugleiki og er í þeim löndum sem best standa og við viljum bera okkur saman við. Forsendur þess eru stöðugur gjaldmiðill, ábyrg hagstjórn og traust“ en skortur á trausti er einmitt ein mesta meinsemdin sem þjakar samfélagið í dag.

Alþýðusambandið telur mikilvægt „að efnt verði til viðtæks samstarfs og samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði við það verkefni að efla atvinnustigið og auka og tryggja kaupmátt launafólks.“ Enn og aftur er forsendan fyrir víðtækri sátt og samvinnu sú að traust ríki milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og að samstaða náist um samræmda launastefnu sem feli í sér almennar launahækkanir, jöfnun kjara og að lífeyrisréttindi allra landsmanna verði jöfnuð.

Með þessari stefnumörkun ársfundar ASÍ hefur Alýðusambandið lagt spilin á borðið, komið fram af ábyrgð og sagt; já, við viljum samstarf og samvinnu til að endurreisn efnahagslífsins nái fram að ganga, en þá verða aðrir einnig að mæta til leiks í trúverðugleika og af einurð.

Það er forgangsverkefni að vinna bug á atvinnuleysinu og að almennt launafólk endurheimti fyrri lífskjör. „Það verður ekki gert nema með aukinni verðmætasköpun. Því þarf að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem til staðar eru, m.a. í vistvænni orkunýtingu, mannauði og velferðar- og menntakerfi sem hjálpar okkur að takast á við erfiðleikana. Ýta verður undir nýsköpun, styðja við sprotafyrirtæki, auðvelda erlenda fjárfestingu, auka fullvinnslu innanlands og bæta markaðssetningu erlendis á afurðum, þjónustu, og hugviti,“ svo notuð séu orð ársfundar ASÍ.


Jákvæð gagnrýni og umræða leiðir til samstöðu og árangurs

Jákvæð gagnrýni er ávallt til góðs og til þess fallin að skapa ígrundaða umræðu ef rétt er við henni brugðist. Enska skáldið William Blake  gekk meira að segja svo langt að halda því fram að andstaða væri jafngildi sannrar vináttu þegar hann segir; „oposition is true friendship.“ Því er þetta rifjað upp hér að mikið virðist skorta á sanna vináttu í umræðunni hér á landi þar sem vantraustið ríður ekki við einteyming. Oftar en ekki er illa brugðist við málefnalegri gagnrýni og ómálefnalegar yfirlýsingar ná yfirhöndinni í umræðunni. Verkalýðshreyfingin hefur m.a. orðið fyrir barðinu á slíkri orðræðu, ef orðræðu skyldi kalla.

Á fomannafundi Starfgreinasambandsins, sem haldinn var á Egilstöðum í síðustu viku, var skiptst á skoðunum og góðar umræður áttu sér stað m.a. um þann vanda sem að steðjar í samfélaginu. Komandi kjarasamningar voru einnig til umræðu, undirbúningur þeirra heima í héraði og væntanleg kröfugerð aðildarfélaganna. Mikil eining og samhugur var á fundinum. Fyrir liggur að Flóafélögin semji sér, en sambandið mun kalla eftir samningsumboði vegna hinna félaganna sextán. Samstaðan er okkar styrkur.

Á formannafundinum var enginn fulltrúi mættur fyrir Verkalýðsfélagi Akraness. Formaður félagsins, hafði boðað forföll af persónulegum ástæðum en hvorki varaformaður né annar fulltrúi félagsins var til staðar. Er það miður að Veraklýðsfélag Akraness taki ekki þátt í umræðu um málefni félaganna á sameiginlegum vettvangi þegar mikið liggur við. Þetta er þeim mun lakara þegar formaður félagsins segist velta því fyrir sér á heimasíðu sinni, „hvort Verkalýðsfélag Akraness eigi í raun samleið með ASÍ og Starfsgreinasambandinu og segir koma til að álita að afturkalla aðildina að þessum samtökum.“

Vissulega má gagnrýna verkalýðshreyfinguna fyrir skoðanir sínar, en þeim er a.m.k. ætlað að endurspegla skoðanir félagsfunda aðildarfélaganna, trúnaðarmannafunda þeirra og vinnustaðafunda. Aðferð við val á forystu hreyfingarinnar og fulltrúa félagsmanna á ársfundi ASÍ  (230 manns) og þing Starfsgreinasambandsins (120 manns), þar sem sameiginleg stefna er mörkuð og forysta kosin, er tekin á félagslegan og lýðræðislegan hátt, hvað sem öðru líður. Þótt samstaða verkafólks sé í raun eina virka tækið til árangurs í kjarabaráttunni, má vel vera að Verkalýðsfélag Akraness finni sig ekki í þeirri stórfjölskyldu sem Starfsgreinasambandið er og ASÍ. Það væri miður.

 


Ályktanir formannafundar Starfsgreinasambandsins

„Hugmyndir um almenna lækkun skulda sem á að greiða með eftirlaunum verkafólks er aðför að lífeyrissparnaði og á það er ekki hægt að fallast,“  segir í ályktun formannafundar Starfsgreinasambandsins sem lauk í dag á Egilstöðum.

Mikil samstaða og samhugur var á fundinum meðal formanna aðildarfélaga sambandsins, þar sem staða efnahagsmála og undirbúningur kjaraviðræðna var til umfjöllunar.  Megin markmið komandi kjarasamninga verður að stöðva svo fljótt sem verða má þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju. Menn höfðu hins vegar miklar áhyggjur af þeim skorti á trausti sem ríkir í samfélaginu og tefur fyrir því brýna endurreisnarstarfi sem vinna þarf.

Heilbrigðisþjónustan þarf að vera skilvirk og hagkvæm. Tryggja verður öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð. „Hvers konar fljótræði eins og virðist vera raunin í fram komnum niðurskurðartillögum fjárlagafrumvarpsins er ekki til þess fallið að skila árangri,“ segir í ályktun um heilbrigðiskerfið sem samþykkt var einróma á fundinum ásamt ályktun um kjaramál. Þær fylgja hér með.

Ályktun um efnahags- og kjaramál

Formannafundur aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands haldinn 14. október 2010, telur það vera megin markmið komandi kjarasamninga að stöðva svo fljótt sem verða má þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju. Til þess að svo megi verða þarf að auka atvinnustigið með öllum tiltækum ráðum og treysta stöðugleika í stjórnmálum þannig að traust verði endurheimt milli þings og þjóðar. Sá skortur á trausti sem ríkir í samfélaginu tefur fyrir þeirri brýnu endurreisn sem við blasir og mun ekki leysa vanda heimilanna.

Hugmyndir um almenna lækkun skulda sem á að greiða með eftirlaunum verkafólks er aðför að lífeyrissparnaði og á það er ekki hægt að fallast. Fundurinn telur hins vegar að lagfæra þurfi gjaldþrotaskiptalögin þannig að einstaklingar sem missa húsnæði sitt við nauðungarsölu dragi ekki með sér  húsnæðisskuldir eftir þá sölu. Fundurinn leggur ríka áherslu á að aðstoða þurfi sérstaklega atvinnulaust fólk í vanda, þannig að það geti búið í húsnæði sem hæfir  fjölskyldustærð viðkomandi einstaklinga. Fundurinn telur að endurreisa verði félagslega íbúðakerfið.

Ályktun um heilbrigðisþjónustu

Formannafundur aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands haldinn á Egilstöðum 14. október 2010 hafnar niðurskurði í velferðarkerfinu sem bitnar á öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Tryggja verður öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð m.a ungbarnaeftirlit, öldrunarþjónustu og hjúkrunarstarfemi. Aðgengi að sérfræðiþjónustu lækna og sjúkarhúsum verður að vera miðsvæðis í hverjum landsfjórðungi.

Heilbrigðisþjónustan þarf að vera skilvirk og hagkvæm og þess vegna verður umræðan um sparnað í kerfinu að taka mið af ofangreindum sjónarmiðum til lengri tíma litið. Hvers konar fljótræði eins og virðist vera raunin í fram komnum niðurskurðartillögum fjárlagafrumvarpsins er ekki til þess fallið að skila árangri. Formannafundurinn krefst víðtæks samstarfs og samráðs við heimamenn og starfsfólk um endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins.


Kristján ræðir markmið kjarasamninga á formannafundi SGS

,,Markmið komandi kjarasamninga hlýtur að vera að stöðva svo fljótt sem verða má þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju. Til þess að svo megi verða þarf að auka atvinnustigið með öllum tiltækum ráðum og treysta stöðugleika í stjórnmálum þannig að traust verði endurheimt milli þings og þjóðar,” sagði Kristján Gunnarsson formaður Starfsgreinasambandsins í setningarræðu sinni á formannafundi sambandsins sem haldinn er á Egilstöðum í dag, en fundurinn er jafnframt tíu ára afmælisfundur sambandins.

 

,,Við erum brennd af reynslunni af Stöðugleikasáttmálanum. Við vitum með öðrum orðum ekki hvort við getum treyst á aðkomu ríkisstjórnarinnar að þeim kjarasamningum sem framundan eru, –  hvort ríkisstjórnin komi yfirhöfuð í gegn þeim málum sem þarf að koma í gegn um þingið og varðar okkar félagsmenn.”

 

,, Taka verður á vanda þeirra heimila sem eru í mestum vanda en það verður ekki gert með vanhugsuðum hugmyndum um almenna lækkun skulda. Það yrði aðför að lífeyrissparnaði og eftirlaunum verkafólks og á það getum við ekki fallist.”

 

Um vanda heilbrigðisþjónustunnar sagði Kristján;

 

,,Við í Starfsgreinasambandinu erum vel meðvituð um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum en við hljótum að hafna niðurskurði í velferðarkerfinu sem bitnar á öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Það verður að tryggja öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð m.a ungbarnaeftirlt, og öldrunarþjónustu og aðgengi að sérfræðiþjónustu lækna og sjúkarhúsum  í hverjum landsfjórðungi.”

 

Ræða hans fer í heild hér á eftir:

 

 

,,Góðir féalgar!

 

Nú eru liðin 10 ár frá því Starfsgreinasamband Íslands var stofnað. Hver hefði trúað því að það sé ekki lengra síðan? Stundum finnst mér sem það hafi alltaf verið til staðar. Ástæðan er líklega sú, að Starfsgreinasambandið byggir á gömlum merg og traustum grunni.

Þegar Starfsgreinasambandið  var stofnað fyrir 10 árum  af Verkamannasambandi Íslands, Þjónustusambandi Íslands og Landssambandi iðnverkafólks, voru ýmsar blikur á lofti. Innan Verkamannasambandsins var nokkur óeining, sem hamlaði starfinu þá og það var einmitt þess vegna sem sátt og samráð voru rauður þráður í undirbúningi að stofnun Starfsgreinasambandsins og í allri umræðu á stofnfundinum á Hótel Sögu, þeim sögustað.

 

Í ávarpi á stofnfundinum sagði Halldór Björnsson, fulltrúi í viðræðunefndinni og fyrsti formaður Starfsgreinasambandsins:  „Við ætlum okkur því að reyna að sjá út úr því ástandi sem ríkt hefur í hreyfingunni og brjóta nýjar leiðir að þeim markmiðum sem við eigum sameiginleg. Samstarf við aðra krefst hæfilegs sveigjanleika, tillitssemi og umburðarlyndis. Friðsöm sambúð á stóru heimili er list hins mögulega. Þá list þurfum við að temja okkur og við skulum byrja hér í dag.“

 

Nú, áratug síðar, er eðlilegt að líta til baka og velta því fyrir sér hvort þetta hafi gengið eftir. Án þess að ég ætli að halda því fram að aldrei hafi gustað um okkur og milli okkar í Starfsgreinasambandinu, þá ætla ég að leyfa mér að fullyrða að sambandið hafi náð miklum árangri í starfi sínu.

 

Eitt af meginmarkmiðum var að stækka einingarnar og efla þær. Það hefur sannarlega tekist, aðildarfélög hafa sameinast úr 50 félögum í 19 og i Starfsgreinasambandinu eru nokkur af sterkustu og öflugstu verkalýðsfélögum landsins.

 

Skipulagsmálin þurfa að vera stöðugt í umræðunni og ef þær skipulagsbreytingar sem nú eru á döfinni innan ASÍ, ná fram að ganga þurfum við í Starfsgreinasambandinu að ígrunda framhaldið og það hlutverk sem Starfsgreinasambandið kemur til með að hafa í breyttu landslagi við úrlausn þeirra verkefna sem eru á borði þess í dag.

 

Eitt er víst að ýmis atvinnugreinatengd verkefni munu fá aukið vægi í framtíðinni og í því liggja tækifæri fyrir til þess að styrkja tengslin milli félaganna. Ég geri ráð fyrir að sú umræða verði tekin á næsta þingi sambandins að ári.

 

Sitthvað hefur á dagana drifið á þessum áratug sem liðinn er frá stofnun Starfsgreinasambandsins. Og í því riti sem við dreifum til ykkar í dag er farið yfir nokkur af viðfangsefnum sambandsins á þessum tíu árum, án þess að það sé gert með kerfisbundnum hætti, eða í tímaröð – og ég ætla ekki að fara að endursegja söguna hér úr þessu ræðupúlti í dag, þið þekkið þá sögu flest öll.

 

Góðir félagar!

 

Það er tvísýnt ástand í samfélaginu og ýmsar blikur á lofti. Framtíðin er enn óvissari en oftast áður. Framundan eru kjarasamningar – líklega þeir erfiðustu sem flest okkar hafa tekið þátt í. Stjórmálaástandið er óstöðugt og við vitum stundum ekki hvort ríkisstjórnin í landinu nýtur þingmeirihluta til að koma málum í gegn.

 

Við erum brennd af reynslunni af Stöðugleikasáttmálanum. Við vitum með öðrum orðum ekki hvort við getum treyst á aðkomu ríkisstjórnarinnar að þeim kjarasamningum sem framundan eru, –  hvort ríkisstjórnin komi yfirhöfuð í gegn þeim málum sem þarf að koma í gegn um þingið og varðar okkar félagsmenn.

 

Við höfum fengið Svan Kristjánsson, prófessor hingað til okkar til að ræða stjórnmálaástandið og horfurnar framundan og við höfum líka eins og oftast áður fengið hagfræðing ASÍ, Ólaf Darra til að teikna upp fyrir okkur stöðuna í efnahags- og kjaramálunum.

 

Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi er vissulega kreppu- og niðurskurðarfrumvarp.  Við í Starfsgreinasambandinu erum vel meðvituð um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum en við hljótum að hafna niðurskurði í velferðarkerfinu sem bitnar á öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Það verður að tryggja öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð m.a ungbarnaeftirlt, og öldrunarþjónustu og aðgengi að sérfræðiþjónustu lækna og sjúkarhúsum  í hverjum landsfjórðungi.

 

Heilbrigðisþjónustan þarf að vera skilvirk og hagkvæm og þess vegna verður umræðan um sparnað í kerfinu að taka mið af ofangreindum sjónarmiðum til lengri tíma litið. Hvers konar fljótræði er ekki til þess fallið að skila árangri eins og virðist vera raunin í fram komnum niðurskurðartillögum frumvarpsins.

 

Góðir félagar!

 

Markmið komandi kjarasamninga hlýtur að vera að stöðva svo fljótt sem verða má þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju. Til þess að svo megi verða þarf að auka atvinnustigið með öllum tiltækum ráðum og treysta stöðugleika í stjórnmálum þannig að traust verði endurheimt milli þings og þjóðar.

 

Við vitum að það er borð fyrir báru í fiskinum meðan aðrar greinar standa höllum fæti, ríkið er á kúpunni og flest sveitarfélögin. Þess vegna verður að auka atvinnustigið með öllum tiltækum ráðum, en það verður ekki gert nema með því að endurheimta  traust milli þings og þjóðar.

 

Ríkisstjórnin verður að hafa samráð við okkur í verkalýðshreyfingunni og taka mark á okkar sjónarmiðum.

 

Taka verður á vanda þeirra heimila sem eru í mestum vanda en það verður ekki gert með vanhugsuðum hugmyndum um almenna lækkun skulda. Það yrði aðför að lífeyrissparnaði og eftirlaunum verkafólks og á það getum við ekki fallist. Við styðjum hins vegar aðrar leiðir til að koma til móts við fólk í greiðsluvanda og leggjum áherslu á  að aðstoða sérstaklega atvinnulaust fólk í vanda, þannig að það geti búið í húsnæði sem hæfir  fjölskyldustærð viðkomandi einstaklinga.

 

Að að þeirri umræðu erum við í Starfsgreinasambandinu tilbúin að koma, með félögum okkar innan ASÍ, hvenær sem er.

 

Góðir félagar

 

Grundvallarforsenda fyrir því að við náum árangri í komandi kjaraviðræðunum og yfirleitt starfi okkar á næstu misserum, er að við höfum í heiðri þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar við stofnun Starfsgreinasambandsins fyrir réttum 10 árum, samstarf með sveigjanleika, tillitssemi og umburðarlyndi. Þá munum við koma standandi niður eins og kötturinn, svo vitnað sé í viðtalið við Halldór Björnsson í afmælisriti sambandsins.

 

Ég lýsi þennan formannafund settan.“


Starfsgreinasamband Íslands 10 ára

Þann 13. október árið 2000 var Starfsgreinasamband Íslands stofnað. Stofnaðilar voru fimmtíu félög verkafólks. Við stofnunina sameinuðust Verkamannasamband Íslands, Landssamband iðnverkafólks og Samband starfsfólks í veitinga- og gistihúsum. Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins eru nítján í dag. Það er hlutverk sambandsins að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum og standa vörð um áunnin réttindi. Einnig að vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks.

Frelsi – jafnrétti – bræðralag, þessi þrjú orð saman mynda hinn siðferðilega grunn í hugsjónum íslenskrar og alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar á öllum sviðum mannlífsins. Þessi þrjú orð eru samtvinnuð í verkalýðsbaráttunni þar sem orðið bræðralag merkir annað en bara samúð. Verkalýðshreyfingin lætur sér ekki nægja samúð með lítilmagnanum – hún stendur einfaldlega með honum, finnur til samkenndar. Og hugtökin jafnrétti og jöfnuður hafa pólitískan kraft vegna þess að þau tjá viljann til að skipta upp á nýtt, jafna hlutdeildina. Þann kraft þurfum við að nýta betur. Ólíkt frelsinu og bræðralaginu er hægt að mæla jafnréttið eða jöfnuðinn. Og jafnréttið er forsenda frelsis. Enginn getur verið frjáls sem er órétti beittur og enginn er heldur frjáls meðan aðrir eru órétti beittir. Skorturinn á frelsi og  þráin eftir frelsi var drifkraftur verkalýðshreyfingarinnar í árdaga. En það var ekki frelsi einstaklingsins til að gæta eigin hagsmuna heldur það frelsi sem aðeins verður sótt og notið með öðrum. Frelsi sem fylgir því að allir geti valið sér leiðir í lífinu án þess að vera hindraðir af félagslegri stöðu, uppruna, efnahag eða kynferði.

Í því kreppuástandi sem nú ríkir er þörf á að rifja upp merkinu þessara orða og í samhengi þess sem við viljum standa fyrir sem öflug hreyfing og traustsins verð. Starfsgreinasamband Íslands sendir aðildarfélögum sínum og íslensku verkafólki baráttukveðjur í tilefni dagsins.


Ályktað um heilbrigðisþjónustu og málefni fatlaðra á sviði starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum innan SGS.

Fundur sviðs starfsmanna hjá ríki og sveitarfélagum, sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands hélt fund til undirbúnings kjarasamninga í gær þar sem farið var yfir efnahagsstöðuna, kjaramálin og væntanlegan flutningi á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaganna, en kjarasamningarnir við ríki og sveitarfélög eru lausir 1. desember n.k.

Á fundinum voru m.a. samþykktar tvær ályktanir, annars vegar um málefni fatlaðra þar sem væntanlegum flutningi á málefnum þeirra yfir til sveitarfélaganna er fagnað. „Fundarmenn telja að það sé skref í rétta átt að færa ábyrgð á þjónustu, sem næst þeim sem þjónustunnar njóta“, segir þar.  Hins vegar var álytað um málefni heilbrigðisþjónustunnar þar sem segir að „félagsmenn SGS eru vel meðvitaðir um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum, sumar tillögurnar verða þó ekki túlkaðar öðru vísi en að um hrein skemmdarverk sé að ræða. Engu er líkara en ákveðið hafi verið að leggja niður rekstur einstakra stofnana um alla framtíð. Nauðsynlegt er að því sé svarað af fullri hreinskilni hvort svo sé og heimamenn geti þá brugðist við í samræmi við það.“

Ályktanirnar eru birtar í heild hér á eftir:

Um málefni fatlaðra

„Fundur sviðs starfsmanna hjá ríki og sveitarfélagum, sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands, fagnar væntanlegum flutningi á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaganna.  Fundarmenn telja að  það  sé skref í rétta átt að færa ábyrgð á þjónustu, sem næst þeim sem þjónustunnar njóta. Ýmsar hættur geta þó falist í þessum breytingum, ekki síst við þær aðstæður sem við búum nú við í íslensku samfélagi um þessar mundir. Varað er við því að þessi flutningur verkefna verði  tilefni til þess að skerða þjónustuna umfram það sem hefði verið að óbreyttu.  Best væri að skjólstæðingar félagsþjónustunnar upplifðu breytingarnar sem bætta þjónustu. SGS leggur áherslu á að þeim 1500 starfsmönnum sem flytjast yfir til sveitarfélaganna verði  tryggt að kjör þeirra rýrni ekki vegna flutningsins. Á sama hátt þarf að gæta þess að  koma þessara starfsmanna inn í umhverfi sveitarfélaganna hafi ekki neikvæð áhrif á kjör og réttindi þeirra. starfsmanna sem fyrir eru hjá sveitarfélögunum. Fundurinn hvetur stéttarfélögin innan SGS til að bjóða þá starfsmenn velkomna, sem starfa að málefnum fatlaðra og  kjósa að ganga inn í flögin, jafnframt því að  tryggja réttindi þeirra.“

Ályktun varðandi heilbrigðisþjónustu

„Fundur sviðs starfsmanna hjá ríki og sveitarfélagum, sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands, krefst þess að ráðherrar heilbrigðis- og fjármála, taki til endurskoðunar þær tillögur sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu um stórfelldan niðurskurð til einstakra stofnana. Félagsmenn SGS eru vel meðvitaðir um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum, sumar tillögurnar verða þó ekki túlkaðar öðru vísi en að um hrein skemmdarverk sé að ræða. Engu er líkara en ákveðið hafi verið að leggja niður rekstur einstakra stofnana um alla framtíð. Nauðsynlegt er að því sé svarað af fullri hreinskilni hvort svo sé og heimamenn geti þá brugðist við í samræmi við það. SGS leggur áherslu á að niðurskurður í starfsemi heilbrigðisstofnanna taki mið af því að fólk hættir ekki að verða veikt, þó spara þurfi í ríkisrekstri. Veita þarf góða heilbrigðisþjónustu sem næst þjónustuþeganum og flutningur sjúklinga um langan veg  kostar bæði fyrirhöfn og peninga og gæti einnig kostað mannslíf.“