Hafa samband

Icesave og kjarasamningar

Starfsgreinasambandið hefur lengi verið þeirrar skoðunar að ljúka þurfi Icesave-málinu og að dráttur á því hafi skaðað endurreisn efnahagslífsins. Það er rangt að ,,ekkert hafi gerst” þegar fyrri Icesave-samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skuldatryggingarálag hækkaði og hefur verið óviðunandi síðan. Og enn hefur það svo  hækkað síðustu tvo daga eftir yfirlýsingu forsetans. Lánshæfismat Íslands hefur að sama skapi minnkað. Atvinnuleysi er enn óviðunandi með öllu og óvíst hver þróunin verður  ef Icesave á enn að hanga yfir okkur eins og bölský.

Sá samningur sem nú liggur á borðinu og Alþingi samþykkti með miklum meirihluta er afsprengi samkomulags allra stjórnmálaflokkanna á þinginu. Stjórnarandstaðan  skipaði sérstakan fulltrúa sinn í samninganefndina, Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann sem var í nánu samstarfi við hana  fram til þess að skrifað var undir samninginn.

Icesavesamningurinn er m.ö.o. ávöxtur þingsins alls en ekki ríkisstjórnarinnar einnar, eins og margir vilja vera láta. Þótt tveir minnstu flokkarnir hafi hlaupist að hluta undan merkjum á endasprettinum, verður ekki séð að neitt gap sé milli þings og þjóðar eins og einu sinni var. Málið er samt aftur og óvænt komið í fangið á þjóðinni þó hér verði ekki lagt mat á þau rök sem Forseti Íslands velur sér í þetta sinn.

Það er afar ,,mikilvægt fyrir Ísland að hafa aðgang að erlendu lánsfé auk þess sem traust á Íslandi myndi minnka gríðarlega hafnaði þjóðin samningnum eftir að hafa reynt að semja um málið þrisvar sinnum,” sagði Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld. Það borgar sig betur að taka þessum samningum og setja málið aftur fyrir sig heldur en að hafna málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, segir Ragnar líka. En spurningin er hvort Icesavemálið hafi áhrif á þær kjaraviðræður sem nú standa yfir? Svo má vel vera.

Gjaldeyrishöft, óviðunandi skuldatryggingarálag Íslands og lánsfjárfyrirgreiðsla til Íslands sem ekki fæst og er háð lausn á Icesavedeilunni eru ekki til þess fallin að skapa grundvöll stórræða í atvinnuuppbyggingu hér á landi sem er m.a. veigamikil forsenda kjarabóta. Það er því af og frá að ætla að ekkert muni gerast, eins og ekkert hafi gerst, þótt samningurnn falli eins og reynt verður að halda fram. Það höfum við upplifað í raun síðastliðið ár meðan allt hefur verið hér í hægferð. Forseti Íslands hefur enn hægt á ferðinni, a.m.k. um sinn og tekið áhættuna af því að lestin hökti á sporinu næstu misserin og árin ef samningurinn fellur. Það er óviðunandi ábyrgðarleysi.


Verkfall starfsmanna í loðnubræðslum hefur verið afboðað.

Ekki náðist starfsmanna í öllum loðnubræðslum hér á landi. Fullur stuðningur og samstaða var í Færeyjum, Noregi og Danmörku við aðgerðir bræðslumanna hér á landi. Ekki hefði verið unnt að landa loðnu þar úr íslenskum skipum.

Sameiginleg samninganefnd AFLs Starfsgreinafélags og Drífanda Stéttarfélag samþykkti í dag að aflýsa boðuðu verkfalli í fiskimjölsverksmiðjunum níu á félagssvæði félaganna. Þá hefur Verkalýðsfélag Akraness einnig aflýst boðuðu verkfalli í fiksimjölsverksmiðjunni á Akranesi.
Í fréttatilkynningu frá AFLI og Drífanda kemur fram að ástæða þess að verkfallinu er aflýst sé skortur á samstöðu milli verkalýðsfélaga á landinu en brætt er á vöktum í verksmiðjunni á Þórshöfn og Helguvík, en þar hefur ekki verið boðað til vinnustöðvunar.

Í frétt á vef RÚV í dag kemur fram að Færeyingar hafi ekki viljað styðja kjarabaráttu bræðslufólks hér á landi en það er rangt. Fullur stuðningur var við löndunarbann í Færeyjum. Það var staðfest formlega á fundi framkvæmdastjórnar Föroyja arbeiderfélag í dag að sögn Ingiborgar Vinter formanns félagsins.


Ekki landað í útlöndum í verkfalli bræðslumanna. Miðstjórn ASÍ ályktar um deiluna.

Starfsgreinasamband Íslands hefur óskað eftir því við systursamtök sín í Færeyjum, Noregi og Danmörku að þau beiti sér fyrir því að ekki verði landað loðnu úr íslenskum loðnuskipum í verksmiðjur í þessum löndum meðan á verkfalli bræðslumanna stendur.  Hefð er fyrir því innan hinnar norrænu og evrópsku verkalýðshreyfingar að sýna samstöðu milli landa þegar kjara- og verkfallsbarátta er annars vegar.

Alþýðusambandið mun einnig beita tengslum sínum við systursamtök sín í Færeyjum, Skotlandi og Noregi til þess að koma í veg fyrir löndun þar. Litlar líkur eru þess vegna á því að landað verði loðnu í útlöndum meðan verkfall stendur hér á landi í fiskimjölsverksmiðjunum þar sem bæði starfsgreinasamtök og heildarsamtök verkafólks í nágrannalöndunum munu sjá til þess að verkfallið verði ekki brotið á bak aftur með löndunum þar.

Miðstjórn ASÍ ályktaði um vinnudeilu bræðslumanna í dag þar segir:

 

Ályktun miðstjórnar ASÍ um kjaradeilu

starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum

 

„Starfsmenn í fiskimjölsbræðslum hafa samþykkt að boða til verkfalls eftir að upp úr viðræðum slitnaði við atvinnurekendur um síðustu helgi.

Aðdragandi málsins er margra ára deila starfsmanna við Samtök atvinnulífsins um sjálfstætt gildi sérkjarasamnings þeirra sem endaði fyrir Félagsdómi í síðustu viku. Þrátt fyrir að boðun fyrra verkfalls hafi verið dæmt ólögmæt, staðfesti Félagsdómur þann rétt starfsmanna að krefjast sérkjarasamnings um sín störf.

Í viðræðum stéttarfélaganna um síðustu helgi voru í ljósi þessarar niðurstöðu lagðar fram breyttar hugmyndir um lausn sem er í samræmi við þær megináherslur sem lagðar hafa verið fram um breytingar á aðalkjarasamningi. Þrátt fyrir það voru atvinnurekendur ekki reiðubúnir til þess að setjast að samningaborði. +

Miðstjórn ASÍ hefur því fullan skilning á fyrirhuguðum aðgerðum til þess að þvinga atvinnurekendur til að koma að raunverulegum viðræðum um lausn kjaramála. Jafnframt hvetur miðstjórn ASÍ önnur félög og félagsmenn þeirra til þess að standa vörð um rétt þessara félaga okkar til þess að beita verkfallsvopninu og ganga ekki í störf þeirra. Alþýðusambandið mun einnig beita tengslum sínum við systursamtök okkar í Færeyjum, Skotlandi og Noregi til þess að koma í veg fyrir löndun þar.“


Verkfall boðað og aðgerðahópur SGS ræður ráðum sínum

Vinnustöðvun var samþykkt með 77,8 % atkvæðisbærra félagsmanna í Drífanda í Vestmannaeyjum og 75,4% atkvæðisbærra félagsmanna í AFLi á austurlandi.  Vinnustöðvunin hefst kl 19:30 þann 15. febrúar n.k. og er ótímabundin. Vinnustöðvunin er boðuð  til að knýja á um gerð kjarasamnings um störf félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem að henni standa í fiskimjölsverksmiðjum á félagssvæði þeirra. Einnig samþykktu starfsmenn í fiksimölsveksmiðjunni á Akranesi  verkfall í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á sama tíma, en þar samþykktu 80%  atkvæðisbærra félagsmanna verkfallið.

Aðgerðarhópur samninganefndar Starfsgreinasambandsins kemur sama til fundar í dag til að ræða mögulegar aðgerðir til að knýja á um gerð aðalkjarasamnings sambandins við Samtök atvinnulífsins. Kjaraviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins eru í strandi hjá ríkissáttasemjara, eftir útspil Samtaka atvinnulífsins að vilja ekki semja við launafólk nema ríkið gangi að kröfum þeirra í málefnum sjávarútvegsins eins og það er kallað.


Kristján G. Gunnarsson nýtur fyllsta trausts í sínu félagi.

Bæði stjórn og varastjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis lýstu fyllsta trausti á Kristján G. Gunnarssonar formann félagsins á fundi sínum í gær. Stjórnin harmar jafnframt þá ákvörðun Kristjáns að draga sig út úr störfum fyrir Starfsgreinasambandið, ASÍ og Festu. Kristján var eindregið hvattur til þess að halda áfram formennsku í VSFK og til þess „að gegna áfram mikilvægum trúnaðarstörfum í þágu þess, meðal annars að leiða samninganefnd félagsins í þeim erfiðu kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Fáir eru betur til þess fallnir,“ segir enn fremur í einróma samþykkt fundarins frá í gær, sem hér fer á eftir:

Samþykkt  stjórnar og varastjórnar VSFK 7. febrúar 2011

„Í yfirlýsingu frá Kristjáni G. Gunnarssyni formanni VSFK frá 4. febrúar s.l telur hann að í umræðunni um fall Sparisjóðsins í Keflavík hafi trúverðugleiki hans sjálfs beðið hnekki. Af þeim ástæðum ákvað hann að falla frá formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands og draga sig út úr stjórnarstörfum fyrir ASÍ og  í Festu – lífeyrissjóði.

Stjórn og varastjórn VSFK harmar þessa ákvörðun Kristjáns og telur að sjónarmið hans sem fram komu í yfirlýsingunni hafi orðið undir í fjölmiðlaumræðunni. Kristján hafi engu að síður ákveðið að taka á sig meiri ábyrgð en tilefnið gaf til og að hann hafi í raun axlað ábyrgð sem öðrum bar.

Það vita þeir sem vita vilja að fall Sparisjóðsins í Keflavík er ekki runnið undan stefnumörkun Kristján G. Gunnarssonar, heldur reyndi hann í samstarfi við Fjármálaeftirlitið að forða Sparisjóðnum frá falli þegar ljóst varð hvert stefndi eftir bankahrunið árið 2008 þegar aðrir yfirgáfu stjórn sjóðsins í kjölfarið. Stjórn og varastjórn VSFK lýsir þess vegna fyllsta trausti til Kristján G. Gunnarssonar og hvetur hann eindregið til þess að halda áfram formennsku í VSFK og til þess að gegna áfram mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir félagið, meðal annars að leiða samninganefnd félagsins í þeim erfiðu kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Fáir eru betur til þess fallnir.“


Kristján Gunnarsson fellur frá formennsku í Starfsgreinasambandinu.

Kristján Gunnarson formaður Starfsgreinasambands Íslands stígur til hliðar sem formaður sambandsins. Hann sendi frá sér svohljóðandi yfirlýsingu í dag:

,,Ábyrgð mín sem stjórnarmanns í Sparisjóði í Keflavíkur í aðdraganda falls hans hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Því miður hafa sjónarmið mín í því efni ekki komist nægilega vel til skila. Dæmi eru um rangfærslur, bein ósannindi og ummæli sem slitin eru úr samhengi í þessum fréttaflutningi.  Ógerlegt er að elta ólar við það allt.  En í þessu sambandi vil ég leggja áherslu á fjögur meginatriði af minni hálfu til að skýra út málin:

I fyrsta lagi: Á stjórnartíma mínum frá 2005 til 2008 bentu öll gögn, þ.m.t löglega endurskoðaðir ársreikningar, milliuppgjör og lögbundnar skoðanir eftirlitsaðila til þess að rekstur Sparisjóðsins væri í samræmi við lög og reglur og eðlilega viðskiptahætti.

Í öðru lagi: Það kom í ljós við úttekt Fjármálaeftirlitsins á sjóðnum, samkvæmt skýrslu hans í júlí 2008 vegna ársins 2007, að útlánareglum sjóðsins var verulega ábótavant og útlán sparisjóðsstjóra voru í mörgum tilvikum afar óeðlileg. Stjórnin brást þá strax við skýrslu Fjármálaeftirlitsins, herti reglur og stöðvaði heimildir sparisjóðsstjóra. Sérstök lánanefnd var sett á með formlegum hætti og áhættu og eignastýring sett á laggirnar.

Í þriðja lagi: Eftir efnahagshrunið 2008 komst Sparisjóðurinn í Keflavík í verulegan vanda. Ég tók við stjórnarformennsku í Sparisjóðnum eftir aðalfund vorið 2009. Það var ekki eftirsóknarvert hlutverk. En ég vildi sem stjórnarmaður axla ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi var. Öll stjórnarstörf voru frá þessum tíma unnin undir eftirliti tilsjónarmanns frá FME. Starfslok voru gerð við sparisjóðsstjóra í samræmi við ákvörðun stjórnar. Markmið mitt var að reyna að vinna Sparisjóðinn út úr þeim vanda sem hann var kominn í af heiðarleika og eindrægni. Sú vinna skilaði ekki þeim árangri sem að var stefnt.

Í fjórða lagi: Einungis opinber rannsókn mun skila raunverulegri niðurstöðu um ábyrgð stjórnarmanna og annarra á falli Sparisjóðsins. Þeirri niðurstöðu kvíði ég ekki.

Í þessari umræðu hefur trúverðugleiki minn beðið hnekki. Ég bregst nú við með því að reyna að lágmarka þau áhrif sem þetta mál kann að hafa gagnvart þeim samtökum sem ég hef unnið fyrir lengst af á starfsævi minni. Ég hef þess vegna ákveðið að falla frá formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands og draga mig út úr stjórnarstörfum fyrir ASÍ og  Festu – lífeyrissjóði.

Um stöðu mína í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis mun ég ræða við félaga mína í því félagi.”


Formkröfur ekki virtar – verkfallið ólögmætt. Sérkjarsamningur viðurkenndur.

Verkfallsboðun Afls og Drífanda vegna starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum 7. þ.m. er ólögmæt samkvæmt dómi Félagsdóms í dag.  Forsenda dómsins er sú að að formlegar samningaviðræður hafi ekki farið fram fyrir milligöngu ríkissáttasemjara. Verkfallið er með öðrum orðum ólögmætt vegna þess að formkröfum er ekki fullnægt.

 

Ástæða þess er sú að  ríkissáttasemjari féllst ekki á að taka deilu bræðslumanna til sín vegna óvissu hans um það hvort um hluta af aðalkjarasamningi væri að ræða eða sérkjarasamning.

 

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að um sérkjarasamning í fiskimjölsverksmiðjum sé að ræða og því beri ríkissáttasemjari að miðla málum vegna þess samnings. Dómurinn segir: „Eins og kröfugerð stefnda er háttað, þ. á. m. um fyrkomulag væntanlegs sérkarasamnings og stöðu hans gagnvart öðrum heildarkjarasamningum, verður ekki séð að hún sæti að lögum slíkum takmörkunum að leitt geti til þess að boðað verkfall teljist af þeim sökum ólögmætt  né heldur að ríkissáttasemjari láti kjaradeilnuna til sín taka eins og mælt er fyrir í lögum í 2. mgr. 24. gr. laga nr. 80/1938.


Áranguslausar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins.

Fundur hjá ríkissáttasemjara sem haldinn var í dag með samninganefnd Starfsgreinasambandsins og Samtökum atvinnulífsins reyndist áranguslaus að mestu. Annar fundur hefur ekki verið boðaður í kjaradeilunni.

Svohljóðandi bókun var lögð fram:

,,Samtök atvinnulífsins hafa lýst því yfir að þau muni hvorki gera kjarasamninga við Starfsgreinasamband Íslands né aðra nema því aðeins að Samtök atvinnulísins leysi fyrst úr ágreiningi sínum við ríkisvaldið um stöðu sjávarútvegsins og að viðunandi niðurstaða fáist í það mál. ,,Samtök atvinnulífsins þrýsta því á af fullum þunga að málið sé klárað,“ segir m.a. á vefsíðu SA þann 28. janúar s.l.

Þessi krafa Samtaka atvinnulífsins, sem sett er fram í viðræðum um gerð kjarasmnings milli aðila vinnumarkaðarins, er ætlað að þvinga stjórnarvöld til að framkvæma eitthvað sem þeim ber ekki að gera samkvæmt ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og varða aðila vinnumarkaðarins út af fyrir sig.

Sé það eindreginn vilji Samtaka atvinnulífsins að vanvirða gildandi lög í landinu um meðferð kjaraviðræðna eru þær viðræður árangurslausar.”