Hafa samband

Kjaraviðræðurnar og aðkoma ríkisins.

Í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir ber öllum saman um mikilvægi þess að efla atvinnustigið. Það er grunnurinn að kjarabótum til lengri tíma litið og forsenda þess að kjarasamningar náist. Hagkerfið þarf innspýtingu fjármagns,  ekki síst erlendar fjárfestingar ef hagvöxtur á að aukast þannig að atvinnuleysið minnki og kaupmáttur aukist. Nú eru horfurnar frekar neikvæðar. Þess vegna er enn mikilvægara að ríkisvaldið beiti sér sérstaklega fyrir stórátaki og þá dugir ekki bara stækkun álversins í Straumsvík, Búðarhálsvirkjun, kísilmálmverksmiðja í Helguvík, hreinkísilverksmiðja í Grindavík og natríumklóratverksmiðja á Grundartanga. Þessar framkvæmdir skapa rúmlega tvö þúsund ársverk og um fimm til sex hundurð varanleg störf. Betur má ef duga skal. Nærtækasta, öflugasta og verðmætasta verkefnið er enn og aftur álverið í Helguvík, en þá þarf að virkja í neðri hluta Þjórsár. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Um þá framkvæmd virðist ekki vera pólitísk sátt í núverandi ríkisstjórn. Því verður að breyta.

Sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir þeim vanda að vera í óvissu með sitt rekstrarumhverfi meðan ekki er lokið umræðunni um hvort kvótaskerðing kemur til framkvæmda á næstu misserum eða ekki. Fullyrt er að útvegurinn haldi að sér höndum í viðbótarfjárfestingum upp á allt að 10 milljarða á ári meðan málið er í pólitískri óvissu. Vissulega geta menn haft sínar skoðanair á kvótakerfinu, en mestu skiptir að þau sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki sem starfa í greininni geti búið við eins örugg starfsskilyrði og mögulegt er. Annað er ótækt. Vel rekin og örugg fyrirtæki munu þá eflast meðan önnur verr rekin munu hverfa úr greininni eins og gengur.

Þótt Starfsgreinasambandið hafi tekið undir mikilvægi byggðasjónarmiða í umræðunni um sjávarútveg og fiskvinnslu, þá verður að hafa það í huga að flutningur á kvóta úr einu byggðarlagi í annað kvótaminna er ekki endilega lykill að atvinnuppbyggingu þar. Þvert á móti gæti slíkur tilfluttningur haft tjón í för með sér fyrir heildina. Sú  var tíðin að fiskiskipaflotinn var allt of stór og svo virðist reyndar vera enn. Mest er um vert að kvótinn nýtist sem best öflugum fyrirtækjum, stórum og smáum í klasabyggðum landshlutanna, eins og t.d. við Eyjafjörð, á Austurlandi, í Vestmannaeyjum, Akranesi, Ísafirði, Snæfellsnesi og víðar þar sem þjónustugreinar við útveg og önnur sjávarútvegstengd starfsemi getur þróast og haft tryggan rekstargrundvöll líka. Hér er þó ekki ætlunin að sú umræða fari fram heldur vekja athygli á mikilvægi þess að finna viðunandi lausn sem fyrst á því að tryggja sjávarútvegsfyrirtækjum eins öruggt rekstrarumhverfi og mögulegt er. Þannig eykst framlegð þeirra og færni til þess að greiða umtalsvert betri laun en gert er í dag. Þannig skapast einnig sóknarfæri til nýsköpunar og þróunar í vinnslu sjávarfangs. Öll óvissa sem greinin er í tefur fyrir gerð kjarasamninga og er til þess fallin að auka líkur á að ekki náist viðunandi niðurstaða í þeim viðræðum.

Að ofansögðu er ljóst að ríkisstjórnin verður að taka sér tak í atvinnumálum, taka af skarið um verklegar framkvæmdir og höggva á hnútinn varðandi sjávarútvegsmálin. Það er forsenda þess að kjarasamningar náist til þess að tryggja hér vaxandi kaupmátt á komandi árum. Stöðugleikasáttmálinn 2009 átti að vera vegvísir út úr vandanum. Svo varð ekki, því miður, en nú er að duga eða drepast.

Það þarf a.m.k. 160 milljarða fjárfestingu í hagkerfið á næstu þrem árum ef við eigum að komast út úr þeim efnahagsvanda sem við er að glíma. Þessi fjárfesting mun skila ríkissjóði auknum tekjum, minna atvinnuleysi og um leið minni skerðingum á opinberri þjónustu. Komi þessi fjárfesting ekki til þarf að skerða enn meira á spítölum og í skólunum, draga úr þjónustu ríkis- og sveitarfélaga, hækka álögur og atvinnuleysið mun aukast en ekki minnka og er það þó ærið fyrir.

Vissulega getur ríkisstjórnin beitt sér, en geri hún það ekki fer hún vegvillu, á leið sem heldur kaupmætti niðri og varanlegri fátækt. Íslenska kotsamfélagið verður að veruleika. Ekki viljum við það.


Stutt frétt af kjaraviðræðum.

Kjaraviðræður þokast enn áfram smátt og smátt. Innan Starfsgreinasambandsins og annarra aðildarsambanda ASÍ er nú stefnt að þriggja ára samningi sem byggir m.a. á úrbótum í efnahagsmálum, atvinnumálum og félagsmálum. Sá þáttur snýr að ríkisvaldinu og gæti orðið snúinn viðfangs, einkum umræðan um orkuöflun og virkjanir í tengslum við atvinnuuppbygginguna. Náist ekki fljótlega viðunandi samkomulag við ríkið um haldbæra stefnumörkun í atvinnumálum er vart hægt að tala um annað en kjarasamning til skemmri tíma.

Flest sérmál í kröfugerð Starfsgreinasambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins hafa verið kláruð eða eru í lokafarvegi. Viðræða um launaliði er þó öll eftir en gera má ráð fyrir því að umræður um launabreytingar hefjist af alvöru seinnihluta næstu viku, ef að líkum lætur.

Þá standa einnig yfir kjaraviðræður við Samninganefnd ríkisins og sveitarfélögin vegna þeirra starfsmanna sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum og eru félagar í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Í þessum viðræðum er unnið að sérmálum en launaliðir eru enn í biðstöðu.