Hafa samband

Þing norræna matvælasambandsins hafið á Selfossi

Þing Nordisk Unionen hófst í morgun á Selfossi. Þingið sitja 55 fulltrúar stéttarfélaga frá öllum Norðurlöndunum innan matvælaframleiðslu. Í upphafi þingsins vottuðu þingfulltrúar fórnarlömbum voðaverksins á Úteyju samúð sína með einnar mínútu þögn. Meginþema þingsins er aukin samkeppni á vinnumarkaði sem hefur leitt til félagslegra undirboða og mikils óöryggis á vinnumarkaði. Þingið krefst þess að staðið verði vörð um norræna velferðakerfið, sem er hornsteinn að þeim góða árangri sem norræn samfélög hafa náð á síðustu áratugum.

Hans-Olof Nilsson forseti Nordisk Unionen og Harald Wiedenhofer framkvæmdastjóri Evrópu samtaka launafólks í matvælaframleiðslu (EFFAT) ávörpuðu samkomuna og ræddu mikilvægi aukins samstarfs á sviði kjarasamninga á milli landa til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Þingið heldur áfram í dag og á morgun þar sem rædd verða margvísleg málefni sem varða kjör og starfsumhverfi starfsfólks í matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum.


Tilmæli vegna yfirvofandi vekfalls Félags leikskólakennara

Starfsgreinasamband Íslands hefur sent út bréf til allra aðildarfélaga sambandsins vegna yfirvofandi verkfalls leikskólakennara. Þetta er gert til að upplýsa leiðbeinendur á leikskólum um mikilvægi þess að ganga ekki í störf þeirra starfsmanna sem eru í verkfalli.

Til formanna aðildarfélaga SGS

Eins og ykkur er kunnugt þá hefur Félag Leikskólakennara boðað verkfall frá og með 22. ágúst nk. hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Þar sem okkar félagsmenn starfa á leikskólum við hliðina á leikskólakennurum sem hugsanlega fara í verkfall, er nauðsynlegt að hafa í huga hvað gæti talist verkfallsbrot, þ.e. verði túlkað þannig að okkar fólk sé að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Félag leikskólakennara hefur gefið út viðmiðunnarreglur sem félagið leggur til grundvallar á verfallsvörslu sinni sem framkvæmd verður af Félagi leikskólakennara og á ábyrgð þess. Félögin eru hér með hvött til þess að kynna sínum félagsmönnum sem starfa á leikskólunum þessar viðmiðunarreglur og hvetja þá til að virða þær.

Með félagskveðjum,

Signý Jóhannesdóttir

sviðstjóri


Norrænt þing starfsfólks í matvælaframleiðslu á Selfossi

Þing Nordiska Unionen, samtaka launafólks í matvælaframleiðslu á Norðurlöndum, verður haldin á Selfossi daganna 21-23 ágúst. Samtökin er norrænn samstarfsvettvangur um 150.000 félagsmanna innan margvíslegra starfsgreina tengdum matvælaframleiðslu, s.s. fiskvinnslu, landbúnaði og matvælavinnslu. Á þingið mæta um 50 fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum til að ræða málefni starfsfólks í matvælaiðnaði. Aðal áherslan verður á samþættingu kjarasamninga á milli Norðurlanda og innan Evrópu til að spyrna við félagslegum undirboðum sem hafa leitt til kjaraskerðingar á meðal félagsmanna.

Starfsgreinasamband Íslands og Matvís eiga samanlagt fimm fulltrúa á þinginu. Fulltrúar SGS á þinginu verða Halldóra S. Sveinssdóttir formaður Bárunnar Stéttarfélags og sviðstjóri matvælasviðs SGS, Anna Júlíusdóttir  frá Einingu Iðju, varasviðstjóri matvælasviðs, og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður Afls Starfsgreinafélags og varaformaður Starfsgreinasambandsins. Að auki mun Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags og fyrrverandi sviðstjóri matvælasviðs sitja þingið.


Nýr framkvæmdastjóri

Starfsgreinasamband Íslands hefur ráðið Kristján Bragason,  tímabundið til starfa sem framkvæmdastjóra. Kristján er vinnumarkaðsfræðingur og hefur mikla reynslu af verkalýðsmálum, en hann starfaði m.a. sem framkvæmdastjóri SGS á árunum 2000-2003 og sem sérfræðingur hjá Verkamannasambandi Íslands 1996-2000.