Hafa samband

Vinna er velferð

Á morgun 1. maí mun verkafólk víðsvegar um land berjast fyrir bættum kjörum á baráttudegi verkalýðsins. Kjörorð dagsins er “Vinna er velferð“. Í dag eru enn þúsundir launafólks án atvinnu, en bætt atvinnuástand er án efa mikilvægasta hagsmunamál íslensks launafólks í dag.

Hátíðarsamkomur og kaffisamsæti verða að minnsta kosti á 37 stöðum á landinu á 1. maí í tilefni af baráttudegi verkalýðsins. Meðfylgjandi listi er ekki endilega tæmandi en þetta eru þær samkomur sem SGS hefur vitneskju um hjá aðildarfélögum sambandsins.


Umsögn Starfsgreinasambands Ísland við frumvörpum til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjald

Starfsgreinasamband Íslands hefur sent inn umsögn við frumvörpum stjórnvalda um stjórn fiskveiða og veiðigjald. Vegna þess hvað frumvörpin eru nátengd var aðeins sent inn ein umsögn um bæði frumvörpin. Innan fjölmennra samtaka eins og SGS hafa verið mjög skiptar skoðanir um þessi frumvörp og hver áhrif þeirra verða á fiskvinnslufólk og byggðir landsins. SGS telur margt jákvætt í frumvörpunum. Engu að síður þarf að gera töluverðar breytingar á þeim, ef koma á í veg fyrir neikvæð áhrif þeirra á fiskvinnslufólk. Ef tekið verður tillit til hagsmunaaðila eiga frumvörpin að geta skapað grunn að breiðri sátt í samfélaginu, sem um leið skapar stöðugleika og festu í atvinnulífinu.

Umsögn SGS má finna hér.


Mjög góður fundur með sjávarútvegsráðherra

Formenn og fulltrúar fiskvinnslufólks aðildarfélaga SGS áttu mjög góðan samráðfund með Steingrími J. Sigfússyni og Lilju Rafney Magnúsdóttir varaformanni atvinnuveganefndar Alþingis um frumvörp rikisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjald í gær föstudaginn 13 apríl. Á fundinum var einnig Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ og kynnti hann sýn þeirra á frumvörpin. Sjávarútvegsráðherra og varaformaður skýrðu afstöðu rískisstjórnarinnar og áttu svo samtal við fundarmenn. Miklar umræður sköpuðust og gafst forsvarsmönnum launafólks í fiskvinnslu tækifæri á að koma áhyggjum sínum, ábendingum og athugasemdum á framfæri við ríkisstjórnina. Formaður SGS gerði athugasemd við það að ekki var leitað eftir umsögn frá SGS, þrátt fyrir augljósa hagsmuni fiskvinnslufólks.

Stefna og afstaða SGS mótuð

Í lok fundarins ræddu fulltrúar SGS málið sín á milli og reyndu að draga saman þau atriði í frumvörpunumsem sambandið vill sjá breytingu á. Skiptar skoðanir eru um frumvörpin á meðal forystumanna sambandsins. Það virtist vera almenn skoðun flestra fundarmanna að frumvörpin væru grunnur að nauðsynlegri sátt í samfélaginu. Engu að síður telja menn vilja menn fara varlega af stað því mikil skattheimta og tilfærslur milli útgerðaflokka geta haft neikvæð áhrif á launafólk í fiskvinnslu og valdið ákveðinni byggðaröskun.

Fundað með stjórnarandstöðu í næstu viku

Í næstu viku verður svo fundað með fulltrúum stjórnarandstöðunnar og þeim kynnt afstaða SGS og fiskvinnslufólks við frumvörpin. Umsögn við frumvörpin þar sem afstaða SGS verður kynnt verður svo send til atvinnuveganefndar í lok næstu viku.


Samráðsfundur SGS um fiskveiðistjórnun og veiðigjald

Starfsgreinasamband Íslands hefur boðað til samráðsfundar á meðal aðildarfélaga sinna föstudaginn 13. apríl kl. 13:00 í Sætúni 1 um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjald. Þingkonurnar Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir munu mæta á fundinn til að útskýra afstöðu ríkistjórnarinnar og ræða um hugsanleg áhrif frumvarpanna á fiskvinnslufólk.

Markmiðið með þessum samráðsfundi er að gefa fulltrúum launafólks í fiskvinnslu tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum um frumvörpin á framfæri við stjórnvöld en um leið móta sameiginlega afstöðu Starfsgreinasambandsins til þessara tveggja frumvarpa.