Hafa samband

Starfsmenn SGS á Norðurlandi

Í lok vikunnar sækja tveir nýráðnir starfsmenn Starfsgreinasambandsins Norðurland heim, þau Drífa Snædal framkvæmdastjóri og Árni Steinar Stefánsson sérfræðingur. Á fimmtudag verður Eining-Iðja á Akureyri heimsótt og um kvöldið verða Drífa og Árni gestir á stjórnar- og trúnaðarmannaráðsfundi Framsýnar á Húsavík. Föstudaginn 28. september heimsækja þau svo Verkalýðsfélags Þórshafnar. Fundirnir eru liður í því að kynna nýtt starfsfólk til leiks og eru áætlaðar fleiri heimsóknir til aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins á næstu vikum.


Nýr vefur SGS í loftið

Vefur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) hefur nú verið opnaður í nýrri og endurbættri mynd. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á vefnum sem miða að því að  bæta þjónustu við alla þá sem eiga erindi við SGS. Lögð er áhersla á að upplýsingar á nýjum vef séu sem aðgengilegastar og settar fram á greinargóðan hátt. Á vefnum má m.a. nálgast ýtarlegar upplýsingar um erlend systursamtök SGS, umsagnir og ályktanir sambandsins, gögn frá þingum og ársfundum sem og gagnlegar upplýsingar um kjara-, og fræðslumál og réttindi launafólks.

Gerð vefsins var í höndum Nepal ehf. sem sá um forritun og grafíska hönnun ásamt því að vera vistunaraðili vefsins. Allar ábendingar og athugasemdir varðandi vefinn eru vel þegnar og skulu sendar á netfangið arni@sgs.is.


Þing ASÍ-UNG

Annað þing ASÍ-UNG fer fram föstudaginn næstkomandi, 14. september, í sal Rafiðnarskólans að Stórhöfða 27. Þingið munu sitja fulltrúar frá rúmlega 30 stéttarfélögum. Aðalumræðuefni þingsins verður húsnæðismál ungs fólks, en yfirskirft þingsins er: Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi. Ný vefsíða ASÍ-UNG mun líta dagsins ljós á meðan þinginu stendur en hún mun hafa það meginhlutverk að upplýsa ungt fólk um réttindi þess á vinnumarkaði.


Fyrirlestur um lagaumhverfi heimilisstarfa á Íslandi

Starfsgreinasambandið vekur athygli á að á morgun, föstudaginn 13. september, mun nýráðinn framkvæmdastjóri SGS, Drífa Snædal, flytja fyrirlestur um lagaumhverfi heimilisstarfa á Íslandi. Um er að ræða fyrirlestur sem byggir á meistararitgerð Drífu, en hún lauk nýverið MA-námi í vinnumarkaðsfræði frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

 

Fyrirlesturinn sem ber heitið „Þegar heimili eins er vinnustaður annarra. Lagaumhverfi heimilisstarfa á Íslandi“ verður haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12.00-13.00 og eru allir velkomnir.

Auglýsing RIKK


Þing NU-HRCT

Þing NU-HRCT (Samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum) stendur nú yfir í Þrándheimi í Noregi. Þingið, sem er haldið á fjögurra ára fresti, hófst í gær og lýkur á morgun. Á þinginu sitja fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum en SGS á þar þrjá fulltrúa; Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, Kristján Bragason, framkvæmdastjóri SGS og Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður VerkVest, En Finnbogi á einnig sæti í stjórn NU-HRCT. MATVÍS sendi jafnframt tvo fulltrúa á þingið fyrir sína hönd.

Málefni ferðaþjónustunnar hafa verið talsvert til umræðu á þinginu, m.a. tækifæri og ógnanir í greininni og hvernig er hægt að skapa vöxt í ferðaþjónustunni en um leið tryggja góð og vel launuð störf.

NU-HRCT hafa alls 115.000 félagsmenn innan sinna raða en sjö landssambönd frá fimm löndum eiga aðild að samtökunum.

 


Stofnanasamningur við Skógræktina

Starfsgreinasambandið og Skógrækt ríkisins hafa gert með sér stofnanasamning um forsendur og reglur um röðun starfa við stofnunina, í samræmi við ákvæði kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, frá 1. júní 2011. Samningurinn nær til allra starfsmanna hjá Skógrækt ríkisins sem starfa og njóta ráðningarkjara samkvæmt kjarasamningi SGS.

Nálgast má samninginn hér.


Nýr framkvæmdastjóri hjá Starfsgreinasambandi Íslands

Drífa Snædal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og tekur til starfa 17. september næstkomandi. Fráfarandi framkvæmdastjóri, Kristján Bragason starfar við hlið Drífu til áramóta. Drífa hefur nýlokið meistaragráðu í vinnurétti frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð en er einnig menntuð tækniteiknari frá Iðnskólanum í Reykjavík og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Áður hefur hún starfað sem framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf. Drífa hefur látið sig málefni vinnumarkaðarins varða bæði í gegnum Iðnnemasamband Íslands á árum áður og í gegnum nám sitt. Í lokaverkefni sínu í viðskiptafræði fjallaði Drífa um kjarasamningagerð og launamun kynjanna en meistararitgerðin fjallaði um lagaumhverfi starfa sem unnin eru inni á heimilum. Þá hafa jafnréttismál verið henni hugleikin og hefur hún skrifað fjölmargar greinar og pistla á því sviði. Drífa er búsett í Reykjavík ásamt dóttur sinni.

Starfsgreinasambandið býður Drífu velkomna til starfa og óskar henni velfarnaðar í störfum sínum fyrir sambandið.