Hafa samband

Atvinnuþátttaka 81,2%

Samkvæmt nýútkomnum Hagtíðindum Hagstofu Íslands um vinnumarkaðinn var atvinnuþátttaka hér á landi 81,2% á þriðja ársfjórðungi ársins 2012, sem jafngildir því að 181.900 manns hafi verið á vinnumarkaði að jafnaði á tímabilinu. Af þeim voru 172.700 starfandi en 9.200 án vinnu og í atvinnuleit. Ef atvinnuþátttakan er borin saman við sama tímabil árið 2011 þá er um að ræða fækkun upp á  1,6%, eða um 700 manns.

Hægt er að nálgast ýtarlegri upplýsingar um stöðuna á vinnumarkaði á 3. ársfjórðungi 2012 á vefsíðu Hagstofunnar.


Endurbætt jafnréttisstefna og aðgerðaáætlun ASÍ

Í aðdraganda þings ASÍ var jafnréttisstefna og aðgerðaáætlun sambandsins endurskoðuð og samþykkt á miðstjórnarfundi. Í stefnunni er lögð áhersla á innleiðingu jafnlaunastaðalsins til að vinna gegn launamuni kynjanna og virkja bæði kyn til þátttöku á öllum sviðum samfélagsins og innan vébanda hreyfingarinnar. Stefnan og aðgerðaáætlunin 2012-2016 er svohljóðandi:

Stefna

Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til starfa, starfsþróunar og launa eru meðal þeirra grundvallarþátta mannréttinda sem verkalýðshreyfingin byggir á og skal standa vörð um. Sterk verkalýðshreyfing þrýstir á aukið jafnrétti en um leið þarfnast baráttan víðtæks stuðnings launafólks. Alþýðusamband Íslands á að koma með virkum hætti að stefnumótun og aðgerðum í baráttunni fyrir jafnrétti kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Til þess að fylgja því eftir skal ASÍ:

1. Taka virkan þátt í þróun lagasetninga er varða jafnrétti kvenna og karla og innleiðingu þeirra sem og jafnlaunastaðals á vinnumarkaði.

2. Vinna að framgangi jafnréttis kynjanna með virkri þátttöku á öllum sviðum samfélagsins sem og innan sinna vébanda.

3. Vinna markvisst með aðildarsamtökum sínum að því að efla vitund og skilning á mikilvægi jafnréttis kvenna og karla.

 

 

Aðgerðaáætlun

Til þess að fylgja eftir þessum markmiðum skal ASÍ í samvinnu við aðildarfélög sín vinna að eftirtöldum verkefnum.

 • Liður 1: 
  Vinna gegn launamun kynjanna með því að;
  -stuðla að innleiðingu jafnlaunastaðals á vinnumarkaði
  -taka virkan þátt í að afla stöðugt nýrra upplýsinga um laun kvenna og karla, vinna úr þeim og kynna
  -taka þátt í undirbúningi gagnasöfnunar um launamun kynjanna með tillögum og athugasemdum til þeirra sem gera launakannanir
  -taka virkan þátt í endurskoðun jafnréttislaga

  Vinna tölulegar upplýsingar um stöðu jafnréttismála innan sambandsins með því að;
  -vinna áfram með kynjabókhald, efla og auka við þær upplýsingar sem þar eru greindar og lagðar fram.

 • Liður 2:
  Jafna stöðu kvenna og karla í stjórnum og áhrifastöðum á vinnumarkaði og innan verkalýðshreyfingarinnar með því að;
  -taka tillit til kynjasjónarmiða við val í nefndir og ráð þar sem hreyfingin skipar fulltrúa í
  -byggja upp tengslanet kvenna sem eru talsmenn verkalýðshreyfingarinnar; kjörnir fulltrúar, starfsmenn, sérfræðingar, trúnaðarmenn og/eða virkir félagsmenn
  -stuðla að breytingum á hefðum hvað varðar tímasetningar funda og annarra félagslegra atburða þannig að markmiðum samþættingar atvinnu- og fjölskyldulífs verði náð

  Stuðla að því að öll aðildarsamtök innan ASÍ setji sér og/eða fylgi eftir jafnréttisáætlun í samræmi við jafnréttislög með því að;
  -skipuleggja og fylgja eftir fræðslu um gerð slíkra áætlana þar sem fram koma m.a. ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundna eða kynferðislega áreitni í öllu starfi verkalýðshreyfingarinnar

  Að samþætta kynjasjónarmið við kröfugerð og í kjarasamningaferli

 • Liður 3:
  Efla jafnréttisfræðslu hreyfingarinnar með því að;
  -stuðla að fræðslu um jafnrétti kvenna og karla á vegum hreyfingarinnar
  -kynna nýjar áherslur í samþættingu jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða
  -fræða um ný ákvæði í lögum, reglugerðum og samþykktum sem geta haft áhrif á þróun og aðgerðir í jafnréttismálum

Árangursmælingar

Þróa skal leiðir til að hægt sé að mæla með kerfisbundnum hætti árangur fræðslu, aðgerða, jafnréttisáætlana og annarra verkefna sem fram koma í stefnu- og aðgerðaráætlun 2012-2016. Fyrir mitt ár 2013 skulu liggja fyrir hvernig haga skuli mælingum til að meta árangur þessarar áætlunargerðar.

 


Signý endurkjörin varaforseti – fulltrúar SGS í miðstjórn ASÍ

Mynd_1263199Fertugasta þingi Alþýðusambands Ísalands lauk fyrir helgi og var meðal annars kosið í stjórn ASÍ. Gylfi Arnbjörnsson var endurkjörinn forseti og Signý Jóhannesdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands var endurkjörinn varaforseti. Auk hennar eru fulltrúar aðildarfélaga SGS í miðstjórn ASÍ þau: Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju, Sigurður Bessason formaður Eflingar, Sigurrós Kristinsdóttir varaformaður Eflingar og Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri Afls. Fulltrúar aðildarfélaga SGS í varstjórn ASÍ eru þau Kolbeinn Gunnarsson formaður Hlífar, Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, Halldóra Sveinsdóttir formaður Bárunnar og Fanney Friðriksdóttir ritari Eflingar. Við óskum þessum fulltrúum og öðrum þeim sem kosnir voru í miðstjórn ASÍ velfarnaðar í störfum sínum innan ASÍ fyrir launafólk.

Samþykktar voru sjö ályktanir meðal annars um kjaramál, Evrópumál, jöfnun lífeyrisréttinda og húsnæðismál svo eitthvað sé talið en allar ályktanirnar má nálgast hér. Fjörugar umræður voru um verðtryggingarmál, húsnæðismál og lífeyrisréttindi en niðurstöður fundarins eru afrakstur vinnu allra þingfulltrúa í hópum með þjóðfundarfyrirkomulagi, auk umræðna í sal og loks atkvæðagreiðslu.


Þing Alþýðusambands Íslands

40. þing Alþýðusambands Íslands hefst á morgun (miðvikudag) á Hótel Nordica, Reykjavík og stendur það yfir í þrjá daga. Yfirskrift þingsins að þessu sinni er Atvinnu og velferð í öndvegi. Á þingið mæta tæplega þrjú hundruð fulltrúar launafólks af öllu landinu til að móta heildarsamtökunum stefnu og starfsáætlun og velja þeim forystu. Helstu áherslur þingsins verða atvinnu-, húsnæðis- og lífeyrismál, en auk þess verða tillögur að breytingum á lögum og reglugerðum ASÍ teknar til umfjöllunar.

Seturétt á þingi ASÍ eiga samtals 290 þingfulltrúar og er þeim skipt milli aðildarfélaga með beina aðild og sambanda í hlutfalli við fjölda félagsmanna þeirra. Starfsgreinasambandið mun þ.a.l. eiga 109 fulltrúa á þinginu í ár, sem koma frá 19 aðildarfélögum þess. Þess má geta að í dag verða haldnir fundir í bæði framkvæmdastjórn og meðal formanna SGS, þar sem þing ASÍ verður m.a. til umræðu.

Nánari upplýsingar um þingið má nálgast hér.


Starfsmenn SGS í heimsókn hjá aðildarfélögum

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn SGS, þau Drífa Snædal framkvæmdastjóri og Árni Steinar Stefánsson sérfræðingur, sótt nokkur af aðildarfélögum sambandsins heim. Heimsóknirnar hafa undantekningalaust verið góðar og gagnlegar og til þess fallnar að efla samskipti milli skrifstofunnar og félaganna.

Félögin sem hafa nú þegar verið heimnsótt eru Báran á Selfossi, Eining-Iðja á Akureyri, Framsýn á Húsavík, Stéttarfélag Vesturlands í Borgarbyggð, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði. Starfsmenn SGS áforma fleiri heimsóknir á næstu vikum.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá heimsóknunum.


Fyrsti vinnufundur starfsmatsnefndar SAMSTARFS

Fyrsti vinnufundur starfsmatsnefndar SAMSTARFS var haldinn í húsakynnum BSRB í gær, en nefndin hefur m.a. það hlutverk að skoða sameiginlega hvernig til hefur tekist með innleiðingu og framkvæmd starfsmatskerfisins SAMSTARF og með hvaða hætti megi tryggja áframhaldandi þróun þess. Í nefndinni sitja fulltrúar frá aðildarfélögum BSRB, SGS og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Á fundinum kynntu starfsmatsráðgjafar starfsmatskerfið fyrir gestum, fulltrúar frá Starfsmennt og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins mættu og kynntu sína starfsemi auk þess sem talsverður tími fór í umræður og hópavinnu. Fulltrúar SGS á fundinum í gær voru þau Signý Jóhannesdóttir, Björn Snæbjörnsson, Linda Baldursdóttir, Drífa Snædal og Árni Steinar Stefánsson. Áætlað er að næsti fundur í nefndinni verði haldinn 30. nóvember n.k.

Hægt er að lesa nánar um starfsmatskerfið SAMSTARF á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.