Hafa samband

VSFK 80 ára!

Í dag, 28. desember 2012, fagnar Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis 80 ára afmæli sínu. Starfsgreinasamband Íslands óskar félögum á Reykjanesi innilega til hamingju með þennan merka áfanga. Megi félagið dafna um ókomna tíð, verja rétt launafólks og sækja fram til aukinna lífsgæða í framtíðinni.


Desemberuppbót og fæðingarorlof

Starfsgreinasamband Íslands vill vekja athygli á að í flestum kjarasamningum er skýrt kveðið á um það að eftir eins árs starf teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning orlofs- og desemberuppbóta. Nokkuð hefur borið á því að starfsfólk í fæðingarorlofi hafi ekki fengið desemberuppbót greidda og því vill SGS árétta framangreint.

Desemberuppbót skal greiða ekki síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember.


Laun um jólin

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki álag á stórhátíðum, en þeir jóladagar sem eru stórhátíðir teljast:
  • aðfangadagur eftir kl. 12,
  • jóladagur,
  • gamlársdagur eftir kl. 12,
  • nýársdagur.

Annar í jólum telst auk þess almennur frídagur. Öll vinna á stórhátíðardögum greiðist með tímakaupi, sem er 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir yfirvinnu á öðrum frídögum skal greiða 80% álag á dagvinnutímakaup eða 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Í vaktavinnu skal greiða 55% vaktaálag á sérstökum frídögum en 90% vaktaálag á stórhátíðardögum samkvæmt samningi við ríki og sveitarfélög.


Auðveldast að fá vinnu á Íslandi

Í Svíþjóð búa hlutfallslega flestir af erlendum uppruna en á Íslandi eru hlutfallslega flestir af erlendum uppruna í vinnu. Þetta kemur fram í úttekt Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD) sem greint var frá í Norrænu vefriti um atvinnumál (http://www.arbeidslivinorden.org). Í greininni kemur fram að hlutfall íbúa af erlendum uppruna er hæst í Svíþjóð eða 14% en lægst í Finnlandi eða 4%. Í Danmörku er hlutfallið 8% en í Noregi og á Íslandi er hlutfall íbúa af erlendum uppruna 11%.

Staða fólks á vinnumarkaði er ólík á milli landanna, en hæst er atvinnustigið meðal fólks af erlendum uppruna á Íslandi eða 76%. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið 62%-67%. Þess má geta að á Íslandi mælist minnst atvinnuleysi að Noregi undanskildum, en mest er atvinnuleysið í Svíþjóð eða 7,1% í október. Þess má geta að meðalatvinnuleysið í löndum OECD mældist 8% í október. Það er því ljóst að atvinnuástand meðal innlendra jafnt sem erlendra íbúa landsins er betra en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þess má geta að 25% félaga innan aðildarfélöga Starfsgreinasambandsins eru af erlendum uppruna.

 

Land

Fólk af erlendum uppruna

Atv.stig fólks af erl. uppruna

Atvinnuleysi alls í október

Svíþjóð

14%

62%

7,1%

Ísland

11%

76%

4,5%

Noregur

11%

67%

3%

Danmörk

  8 %

66%

6,3%

Finnland

  4 %

62%

6,9%


Fésbókarsíðan Vinnan mín

Starfsgreinasamband Íslands hefur stofnað fésbókarsíðuna Vinnan Mín og mun þar miðla molum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði svo sem um orlof, veikindarétt, lágmarkskjör, kjarasamningsbundnar hækkanir, þjónustu stéttarfélaga og fleira. Kíkið á síðuna og látið hana berast um víddir fésbókarinnar: http://www.facebook.com/vinnanmin


Endurskoðun kjarasamninga rædd á formannafundi

Formannafundur Starfsgreinasambandsins var haldinn á Selfossi 4. desember síðastliðinn og litaðist hann eðlilega af uppsagnarákvæði kjarasamninga. Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ hélt framsögu um hvaða forsendur kjarasamninga hefðu haldið og hverjar væru brostnar. Þá fór hann yfir hvernig kjör hefðu þróast á þessu samningstímabili. Ljóst er að forsendur eru fyrir endurskoðun kjarasamninga en málið er enn á umræðustigi innan einstakra félaga og verður rætt nánar á aukaformannafundi sem boðað hefur verið til 15. janúar næstkomandi.

Á fundinum var líka farið yfir það sem er efst á baugi hjá hverju félagi fyrir sig, ASÍ-UNG kynnti starfsemi sína við góðan fögnuð, skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra var kynnt og sömuleiðis skýrsla um erlend samskipti. Á dagskrá var einnig að fara yfir úrvinnslu bókana í kjarasamningum sem snúa aðallega að starfaflokkun og fræðslumálum innan ákveðinna greina. Tillaga SGS að kjarasamningi við NPA (Notendastýrð Persónuleg Aðstoð) – miðstöðina var kynnt og farið var yfir breytingar á almannatengslum SGS. Fundurinn fékk einnig góða kynningu á atvinnuástandinu á Suðurlandi frá Ragnheiði Hergeirsdóttur, skrifstofustjóra Vinnumálastofnunar á Suðurlandi.


Formannafundur SGS á Selfossi

Á morgun, þriðjudaginn 4. desember, heldur Starfsgreinasambandið formannafund sinn og fer hann að þessu sinni fram á Hótel Selfossi. Um er að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi.  Á fundinum verða ýmis mál tekin fyrir og má þar á meðal nefna kjaramál, en fulltrúar ASÍ munu mæta og fara yfir stöðu kjarasamninga með gestum fundarins. Meðal annarra dagskrárliða má nefna erindi frá Vinnumálastofnun á Suðurlandi og ASÍ-UNG, kynningu á skýrslu framkvæmdastjóra 2011-2012 og úrvinnslu bókana í kjarasamningum. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi frá kl. 10:00 og ljúki um kl. 16:00.