Hafa samband

Sterk grasrót er nauðsynleg

Í félagsfréttum Stéttarfélags Vesturlands, sem gefnar voru út í desember s.l., birtistmeðfylgjandi grein eftir Kristján Bragason, fyrrverandi framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins.

Síðustu ár hefur verið vaxandi umræða í samfélaginu um þörfina fyrir endurnýjun, breytingar og nýjar nálganir að viðfangsefnum hvort heldur er að ræða í stjórnmálum eða innan helstu valdastofnanna þjóðfélagsins. Verkalýðshreyfingin hefur ekki farið varhluta af þessari umræðu og hafa verið uppi háværar raddir um að nýtt fólk vanti til forystu.


Breytingar á kauptöxtum

Þann 1. febrúar næstkomandi koma til framkvæmda nýir kauptaxtar fyrir þá sem starfa á almenna markaðinum eftir samningi SGS og SA. Þessir kauptaxtar gilda frá 1. febrúar 2013 til og með 30. nóvember 2013. Launataxtar hækka um kr. 11.000 og almenn laun um 3,25% auk þess sem reiknitölur og föst álög hækka um 3,25%, en þó ekki lægra en 9 kr. Þessar hækkanir þýða að lágmarkstekjur fyrir fullt starf (fullar 173,33 unnar stundir á mánuði/40 stundir á viku) hækka um 11.000 kr. og verða 204.000 kr.


SGS og NPA miðstöðin gera kjarasamning

Starfsgreinasambandið og NPA miðstöðin hafa undirritað kjarasamning sem tekur gildi 1. febrúar næstkomandi. NPA miðstöðin hefur það að markmiði að veita fötluðu fólki á öllum aldri stuðning til að nýta notendastýrða persónulega aðstoð. Þannig hefur miðstöðin til dæmis aðstoðað við ráðgjöf við starfsmannamál, ráðningar, launa- og skipulagsmál og fleira. NPA verkefnið er tilraunaverkefni sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf sem veitir einstaklingunum stjórn, val og möguleika til fullrar þátttöku og til sjálfstæðs lífs með persónulegri aðstoð á öllum sviðum lífsins.


Samningstímabilið stytt og launahækkanir 1. febrúar tryggðar

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa undirritað samkomulag um að stytta samningstímabil núverandi kjarasamninga um tvo mánuði þannig að þeir renna út 30. nóvember. Með þessu móti koma umsamdar launahækkanir til framkvæmda 1. febrúar næstkomandi en vinnu við næstu kjarasamninga er fram á haustið. Þetta er í samræmi við niðurstöðu samninganefndar Starfsgreinasambandsins sem kom saman í síðustu viku.

Í samkomulaginu felst einnig að vel verður fylgst með verðlagi og fyrirtækjum og opinberum aðilum veitt aðhald til að launahækkanir fari ekki út í verðlag og hækki vísitölur og þar með vertryggð lán.  Þá er gert ráð fyrri átaki í fræðslumálum með auknu framlagi atvinnurekenda í mennta- og fræðslusjóði.

Samkomulagið má nálgast hér.


Samninganefnd SGS samþykkir drög að samkomulagi

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í vikunni til að fjalla um drög að því samkomulagi ASÍ og Samtaka Atvinnulífsins sem nú liggur fyrir. Það var skýr niðurstaða fundarins að samþykkja samkomulagið sem gerir ráð fyrir styttingu samningstímans til 30. nóvember 2013, hækkun iðgjalda til fræðslumála auk fleiri þátta. Með þessu móti koma umsamdar launahækkanir til framkvæmda 1. febrúar næstkomandi en samkvæmt kjarasamningum hækka laun þá um 3,25% og lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf um 11.000 krónur.

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins skipa eftirtalin félög: Stéttarfélag Vesturlands, Vlf. Snæfellinga, Vlf. Vestfirðinga, Vlsfél. Bolungarvíkur, Stéttarfélagið Samstaða, Aldan stéttarfélag, Eining-Iðja, Afl-Starfsgreinafélag, Vlf. Suðurlands, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Vfl. Grindavíkur og Vlsfél. Sandgerðis.

 


Formenn SGS funda

Í dag heldur Starfsgreinasambandið formannafund sinn í Guðrúnartúni 1 í Reykjavík. Helstu áherslur fundarins verða starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og staða kjarasamninga. Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK mun fara yfir starfsemi og markmið VIRK og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, mun fara yfir stöðu kjarasamninga ásamt formönnum. Eftir formannafundinn mun samninganefnd SGS hittast til að ræða stöðu kjarasamninga.


Lágmarkslaunin og tölurnar

Í aðdraganda kjarasamninga er rýnt í fjölda gagna og talna. Samtök atvinnulífsins kjósa að rýna í lágmarkslaun og færa fyrir því rök að þau hafi hækkað í kjarasamningum umfram önnur laun síðustu átta ár. Þetta er rétt hjá Samtökum atvinnulífsins en ef samtökin ætla að gera því skóna að kjarasamningsbundin lágmarkslaun séu orðin nógu há þarf að bæta við ýmsum tölum og viðmiðum.

Fyrst ber að nefna að sem betur fer eru ekki allir á lágmarkslaunum í landinu. Til koma hærri taxtar vegna starfsaldurs, aldurs og hærri taxtar í ákveðnum starfsgreinum. Þar að auki semur fólk iðulega um hærri laun en kjarasamningar gera ráð fyrir enda eru lágmarkslaun og önnur kjarasamningsbundin laun aðeins „gólfið“ sem öllum er óheimilt að fara undir. Sem sagt hið algera lágmark. Þetta algera lágmark er hins vegar veruleiki allt of margra. Í dag eru kjarasamningsbundin lágmarkslaun (lágmarkstekjutrygging á mánuði fyrir fullt starf) 193.000 krónur. Ef ekki verður tekin ákvörðun um að segja upp samningum í janúar hækkar þessi tala um 11.000 krónur þann 1. febrúar næstkomandi og fer þá upp í 204.000 krónur. Það eru ekki háar tekjur.

Verkalýðshreyfingin býr sig einnig undir kjarasamninga og hluti af því er að greina stöðu launafólks. Þannig hafa Flóabandalagið (Efling, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis) hér á Suðvesturhorninu, Eining-Iðja á Akureyri og Afl á Austurlandi látið gera kannanir á raunverulegum tekjum sinna félagsmanna. Innan vébanda þessara félaga er fólk sem hefur ekki hlotið formlega menntun á sínu starfssviði. Ef könnun Flóans er skoðuð kemur í ljós að 21% svarenda voru með 200 þúsund krónur eða minna í dagvinnulaun í ágúst síðastliðnum. Ef talan er greind eftir kynjum þá eru 27% kvenna með laun undir 200 þúsund og 15% karla. Ungt fólk er þarna í meirihluta. Ef skoðaðar eru starfsgreinar þá eru 40% þeirra sem unnu við ræstingar með innan við 200 þúsund krónur í dagvinnulaun, aðrir stórir hópar eru umönnun, mötuneyti og veitingastörf og þjónustu-/sölu- og afgreiðslustörf. Ef skoðuð eru meðaltalslaun dagvinnu þá eru tekjulægstu hóparnir í störfum á sviði umönnunar, ræstinga auk leiðbeinenda.

Það skal engan undra að þetta er einmitt sá hópur sem eru ósáttastur við sín laun og hefur mestar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni sökum lágra launa. Um 29% þeirra sem eru með heildartekjur undir 200 þúsundum hafa þurft að leita aðstoðar vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar á síðastliðnum 12 mánuðum. Þetta er sá hópur sem býr síst í eigin húsnæði (fjórðungur býr í leiguhúsnæði og fjórðungur í foreldrahúsum) en greiðir að meðaltali 115.358 krónur í húsaleigu. Þær kannanir sem hafa verið gerðar á Norðurlandi og Austurlandi gefa vísbendingar um svipaða stöðu þar.

Þegar talað er um hvað kaupmáttur lægstu launa hafi aukist mikið er því nauðsynlegt að hafa í huga að lágmarkslaun í landinu eru langt innan við það sem þarf til framfærslu en engu að síður er hluta vinnandi fólks ætlað að lifa á þeim. Það er hópur fólks sem fær svo lítið greitt fyrir fulla vinnu að það þarf að sækja aðstoð til að eiga fyrir nauðsynjum. Er það sæmandi fyrirtækjum, ríki og sveitarfélögum að kaupa vinnu svo lágu verði? Er ekki tilefni til að einblína á hækkun lægstu launa á meðan staðan er eins og raun ber vitni?


Gleðilegt ár!

Starfsgreinasamband Íslands óskar landsmönnum nær og fjær gleðilegs og gæfuríks komandi árs og þakkar fyrir samskiptin á nýliðnu ári. Verkefnin sem bíða nýs árs eru ærin en í upphafi ársins þarf að taka afstöðu til þess hvort kjarasamningum verður sagt upp. Sem fyrr ræðst afstaðan af því hvort launafólk sé betur sett með uppsögn samninga eða ekki. Hvað sem verður þá felur árið í sér stefnumörkun í kjaraviðræðum, hvaða kröfur skal gera og hvað skal leggja áherslu á í kjarasamningum.

Í aðdragandanum halda verkalýðsfélög um allt land fundi, gera kannanir og reyna með öðrum hætti að fá fram vilja félagsmanna sinna. Því fleiri sem taka þátt í þessari vinnu því betra og því hvetur Starfsgreinasamband Íslands launafólk landsins til þátttöku í verkalýðsfélaginu sínu og til að fylgjast vel með framvindunni. Verkalýðsfélög eru fjöldahreyfingar sem eiga sitt undir virkni almennra félaga og samstöðu launafólks. Þannig nást mestu kjarabæturnar. Stöndum saman á nýju ári, sækjum fram og verum virk. Við hlökkum til samstarfsins.