Hafa samband

Vertu á verði – nýtt átak í verðlagsmálum

Landssambönd og aðildarfélög ASÍ hefja í dag átak gegn verðhækkunum undir yfirskriftinni – Vertu á verði. Almenningur og atvinnulífið eru hvött til að taka höndum saman og rjúfa vítahring verðbólgunnar. Átakinu er ætlað að veita fyrirtækjum og stofnun aðhald í verðlagsmálum og vekja neytendur til  aukinnar vitundar.


Samningstíminn við ríki og sveitarfélög styttur

Í kjarasamningum Starfsgreinasambandsins við ríki og sveitarfélög eru ákvæði sem gera ráð fyrir að þeir séu skilyrtir sömu forsendum og samningar á almennum markaði. Þegar samningstímabilið var stytt á almenna markaðnum varð því ljóst að það kæmi einnig til styttingar í samningum við ríki og sveitarfélög. Niðurstaðan er samhljóða, samningurinn við ríkið var styttur um tvo mánuði og rennur út 31. janúar 2014 og sömuleiðis var samningurinn við sveitarfélögin styttur um tvo mánuði og rennur út 30. apríl 2014.

Þá kom til aukningar iðgjalda af hendi atvinnurekenda í báðum tilvikum en ráðstöfun hækkunarinnar er ekki frágengin enn. Aðilar lofa bættum vinnubrögðum við samningagerð í framhaldinu og vinna áfram úr bókunum við kjarasamninga. Þess ber að geta að eingreiðsla uppá 38.000 kr. fyrir ríkisstarfsfólk í fullu starfi verður greidd 1. janúar 2014 en ekki 1. mars 2014 eins og upphaflegi samningurinn gerir ráð fyrir.


Vel heppnuð kjaramálaráðstefna

Dagana 18. og 19. febrúar s.l. stóð Starfsgreinasambandið fyrir kjaramálaráðstefnu um kjarasamningsamning SGS og Samtaka atvinnulífsins. Ráðstefnan fór fram Hótel Hilton Nordica og var mæting góð, en ráðstefnuna sóttu fulltrúar frá aðildarfélögum SGS. Fyrirkomulag ráðstefnunnar var þannig að fyrri dagurinn var nýttur í samlestur á fyrstu köflum kjarasamningsins en sá seinni fór mest megnis í hópavinnu, þar sem valdir kaflar í samningnum voru til umræðu. Almenn ánægja var meðal gesta með afrakstur ráðstefnunnar og ljóst er að vinna á borð við þessa mun nýtast sambandinu í komandi kjarasamningsviðræðum.

Þess má geta að SGS mun halda tvær kjaramálaráðstefnur til viðbótar á næstunni. Þann 9. og 10. apríl n.k. verður samningur SGS og SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða og hliðstæðrar starfsemi, á dagskránni og nokkrum vikum síðar verður hinn svokallaði ríkissamningur tekinn til umræðu.

Þessir viðburðir verða auglýstir nánar á næstunni.


Fíkniefnapróf á vinnustöðum

Þegar fjölmiðlar fjalla um fíkniefnapróf á vinnustöðum og brottrekstur í kjölfarið er tilefni til að velta fyrir sér hvar mörkin liggja á milli persónuverndar og öryggisráðstafana atvinnurekenda. Það er ekki alveg sjálfsagt mál að atvinnurekendur skikki starfsfólk í áfengis- eða fíkniefnapróf jafnvel þó verið sé að gera tilraunir til að uppræta það sem við getum öll verið sammála um að sé samfélagsmein. Íslendingar eru aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstóllinn hefur fjallað um hvernig fíkniefnapróf á vinnustöðum samræmast sáttmálanum. Þar er nefnilega kveðið á um að sérhver maður eigi rétt á friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskrifta (gr. 8.1. lög 62/1994). Á þetta ákvæði reyndi fyrir dómstólnum þegar ræstingakona í kjarnorkuveri í Svíþjóð neitaði að gangast undir fíkniefnapróf.


Starfsmenn SGS í heimsókn hjá Öldunni og Samstöðu

Í gær sóttu starfsmenn SGS tvö af aðildarfélögum sambandsins heim. Seinni partinn sátu þeir fund með stjórn Öldunnar á Sauðárkróki og um kvöldið funduðu þeir með stjórn og trúnaðarmönnum Samstöðu á Blönduósi. Það er óhætt að segja að móttökurnar hafi verið góðar og fundirnir hinir gagnlegustu. Þess má geta að starfsmenn SGS hafa heimsótt 14 af félögum sambandsins á undanförnum mánuðum en ætlunin er að klára að heimsækja öll 19 félög sambandins áður en langt um líður.


Hvað er verið að fela?

Miðstjórn ASÍ lýsir vonbrigðum með að verslanir Hagkaups, Nóatúns, Kosts og Víðis neiti verðlagseftirliti ASÍ að skrá vöruverð í verslunum sínum. Hvað hafa þær að fela? Verðlagseftirlit ASÍ hefur um árabil unnið að því að auka upplýsingastreymi til neytenda og efla þannig neytendavitund um leið fyrirtækjum og stofnunum hefur verið veitt aðhald.

Með því að vísa verðlagseftirliti ASÍ á dyr eru Hagkaup, Nóatún, Kostur og Víðir að senda launafólki kaldar kveðjur og ljóst að þessar verslanir ætla ekki að sýna samstöðu í því að halda verðbólgu í skefjum á næstu mánuðum. Miðstjórn ASÍ hvetur launafólk til að sýna aðhald sitt í verki með því að hætta að versla við aðila sem ekki treysta sér til að upplýsa um verðlag í sínum verslunum.


Atvinnuþátttaka eykst og atvinnuleysi minnkar

Í nýbirtum hagtíðindum fyrir fjórða ársfjórðung ársins 2012 gefur að líta ánægjulega þróun ef miðað er við sömu ársfjórðungana árin á undan. Atvinnuleysi mældist 4,7% á tímabilinu en á sama tíma árið á undan var atvinnuleysi 6%. Atvinnuþátttaka jókst um 0,3 prósentustig og er 78,8% á viðmiðunartímabilinu, þá dró nokkuð úr vinnutímafjölda, sem er nú að meðaltali 38,7 stundir á viku en dreifist nokkuð ójafnt á kynin. Karlar vinna að meðaltali 42,7 stundir á viku á meðan konur vinna að meðaltali 34,3 stundir. Hagtíðindi launa, tekna og vinnumarkaðar má lesa hér.