Hafa samband

Baráttudagur verkalýðsins um allt land

Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands boða til baráttufunda, hátíðarhalda og kröfuganga á 34 stöðum um allt land 1. maí. Dagskráin er jafn fjölbreytt og félögin eru mörg en hér að neðan má sjá viðburði á hverjum stað fyrir sig. Nánari dagskrá hefur verið auglýst í fréttabréfum félaganna og á heimasíðum viðkomandi stéttarfélags. Félagar og aðrir eru hvattir til að mæta, fagna áunnum réttindum og brýna sig í áframhaldandi baráttu!


Ferðaþjónustan festir sig í sessi

Í nýútkominni skýrslu Ferðamálastofu um ferðaþjónustuna á Íslandi er staðfest aukning á ferðamönnum til landsins milli ára. Hlutfall ferðaþjónustu í gjaldeyristekjum er orðið 23,5% og hefur farið stigvaxandi síðustu þrjú árin. Ferðaþjónustan aflar um 237.707 milljarða í þjóðarbúið og nær 20% fleiri ferðamenn komu til landsins 2012 en árið áður. Ferðaþjónustan er því orðin stór hluti af okkar lífsviðurværi og að sjálfsögðu stækkandi hluti af vinnumarkaðnum að auki.

Launamunur kynjanna mestur í fjármálastarfsemi og framleiðslu

Í nýrri skýrslu Hagstofunnar um launamun kynjanna kemur í ljós að hann er langmestur innan fjármálastarfsemi (34,3%) en næst koma framleiðslugreinarnar með 23,5% launamun. Þess skal getið að þetta er heildarlaunamunur kynjanna áður en leiðrétt er fyrir starfi, menntun, aldri, starfsaldri og fleiri skýringaþáttum sem yfirleitt eru notaðir til að fá fram óútskýrðan launamun kynjanna. Þetta eru því tölur sem færa okkur nálægt þeim tekjumun sem konur og karlar búa við.

Munurinn getur skýrst af því að fleiri konur vinna í hlutastörfum og/eða að karlar vinni meiri yfirvinnu auk annarra skýringaþátta. Það er þó staðfest á þegar búið er að nota allar hugsanlegar skýringabreytur er launamunur kynjanna enn áhyggjuefni og fer jafnvel vaxandi. Þessi tilhneiging kemur glöggt í ljós í þessari nýju skýrslu þar sem óleiðréttur launamunur vex í flestum greinum en þó dregst hann saman í opinbera geiranum, verslun og viðgerðarþjónustu auk greina innan flutninga og geymslu.

Sérstakar áhyggjur vekur aukinn launamunur innan greina Rafmagns-, gas og hitaveita, munurinn fer úr 11% í 14,4% milli ára. Þá eykst hann um eitt prósentustig í framleiðslugreinunum, fer úr 22,5% í 23,5%. Alls er launamunurinn 18,1%, átján og hálft prósentustig á almenna markaðnum en 16,2% á opinbera vinnumarkaðnum. Skýrsluna má nálgast hér


Komið að leiðréttingu fyrir þá lægst launuðu

Starfsgreinasambandið gerir þá kröfu til stjórnmálamanna að loforð í aðdraganda kosninga um eflingu velferðarkerfisins, hækkun lægstu launa innan kerfisins og leiðréttingu kynbundinna launa standist. Innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins  er fjöldi fólks, aðallega konur, sem vinnur við ræstingar og umönnun á ríkisstofnunum og stofnunum sem háðar eru ríkisframlagi. Þetta starfsfólk hefur tekið á sig kjaraskerðingar síðustu ár í formi lækkaðs starfshlutfalls og hófsamra launahækkana miðað við verðbólgu.

Ráðstefna um samninga í ferðaþjónustu

Í aðdraganda kjarasamninga heldur Starfsgreinasambandið þrjár ráðstefnur þar sem farið er yfir kjarasamninga á hverju sviði. Í dag er komið að samningnum fyrir starfsfólk á veitinga- og gististöðum en fulltrúar verkalýðsfélaga alls staðar af landinu koma saman og rýna í það sem betur má fara í samningnum. Í hinni ört vaxandi grein ferðaþjónustunnar er þörf á sífelldri endurskoðun. Ný störf hafa orðið til innan geirans frá því samið var síðast og starfsfólki hefur fjölgar ört. Þetta er jafnframt það svið sem verkalýðshreyfingin hefur hvað mestar áhyggjur af vegna undanskota og kjarasamningsbrota. Þess ber merki bæði í rannsóknum á skattskilum og eins berast verkalýðsfélögum fjöldinn allur af athugasemdum eftir sumarvertíðir ferðaþjónustunnar.

Það er því mikilvægt að samningurinn búi til góðan ramma utan um réttindi og skyldur þeirra sem starfa í greininni, en eins þarf að kynna samninginn vel fyrir samningsaðilum. Oft kemur í ljós að kjarasamningsbrot eru afleiðing fákunnáttu um kaup og kjör.

Ráðstefnan um samninginn er ætluð starfsfólki verkalýsfélaga og stendur hún í tvo daga.