Hafa samband

Eining-Iðja veitir SGS umboð til kjarasamninga

Samninganefnd Einingar-Iðju hefur samþykkt að veita Starfsgreinasambandi Íslands umboð til að gera viðræðuáætlun og hefja viðræður við SA, Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins, Bændasamtök Íslands og Landsamband smábátaútgerða en þetta eru þeir aðilar sem SGS er með gildandi kjarasamninga við. Með þessari samþykkt er Eining-Iðja fyrsta félagið til að veita SGS umboð vegna komandi kjarasamningsviðræðna og hvetur samninganefndin til þess að þau stéttarfélög sem eiga aðild að SGS sýni samstöðu í því verkefni sem framundan er.

Bæði Starfsgreinasamband Íslands og aðildarfélögin hafa unnið yfirgripsmikla undirbúningsvinnu fyrir kjarasamninga og standa nú yfir ráðstefnur, fundir og kannanir meðal félagsmanna. Markmið þessarar vinnu er að fá fram kröfur og gefa öllum félagsmönnum kost á að hafa áhrif á kröfugerðina. Næstu skref í undirbúningnum er að formenn og varaformenn aðildarfélaga SGS hittast á tveggja daga fundi á Húsavík í byrjun júní og ræða niðurstöður og áframhald eftir fjórar kjaramálaráðstefnur sem haldnar hafa verið á vegum SGS.


Komið að kvennastéttunum

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands fagnar því að fyrrverandi ríkisstjórn hafi ráðist í jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum og ætlunin sé að auka framlag til stofnana til að standa straum af hækkun launa kvennastétta í kjölfar þess að hjúkrunarfræðingar sömdu um launahækkun. Hjúkrunarfræðingar sömdu þó um að meðaltali 6,4% hækkun, en allir innan stéttarinnar fengu í það minnsta 4,8% hækkun í gegnum stofnanasamning. Framlag ríkisins til stofnana fyrir allar stéttir er sambærilegt við 4,8% hækkun launa og því um algera lágmarkshækkun að ræða.

Það er ljóst að starfsfólk á umönnunarstofnunum hefur tekið á sig þungar byrgðar síðustu ár og það á ekki síst við um hóp almenns starfsfólks sem hefur þurft að sæta skertu starfshlutfalli, útvistun þjónustuþátta sem dregur úr starfsöryggi og aukins álags. Þetta er hópurinn sem er á lægstu laununum og hópurinn sem hefur þurft að taka á sig þungar byrgðar. Það er krafa Starfsgreinasambandsins að þessi hópur fái sömu prósentuhækkun og hjúkrunarfræðingar og njóti auk þess starfsöryggis á við aðrar stéttir. Það þarf að vinda ofan af þeirri þróun að sparnaði innan heilbrigðisstofnana sé náð með útvistun verkefna eða lækkun starfshlutfalls þeirra sem lægstu launin hafa. Heilbrigðisstofnanir eru fjársveltar og því er ljóst að aukið framlag af hálfu ríkisins þarf til að mæta sanngjörnum kröfum um að lægstu laun haldi í við þær hækkanir sem aðrir hópar fá.


Kjaramálaráðstefnur – mikilvægur undirbúningur

Dagana 21.-22. maí s.l. stóð Starfsgreinasambandið fyrir kjaramálaráðstefnu um kjarasamningsamning SGS við Ríkið. Ráðstefnuna sóttu fulltrúar frá aðildarfélögum SGS og fór hún fram í húsakynnum sambandsins að Sætúni 1. Starfsgreinasambandið hefur á undanförnum mánuðum haldin þrjár kjaramálaráðstefnur í þeim tilgangi að rýna í það sem betur má fara í samningunum og um leið undirbúa komandi kjarasamningsviðræður. Á ráðstefnunum hefur mestum tíma verið varið í samlestur á köflum samninganna en einnig hafa ákveðin atriði verið tekin til sérstakrar umfjöllunar. Starfsmenn SGS hafa unnið úr niðurstöðum ráðstefnanna og munu á næstunni dreifa þeim meðal sinna aðildarfélaga, sem munu m.a. geta nýtt niðurstöðurnar við gerð sinna kröfugerða.

Kjarasamningagerð undanfarinna ára hefur sætt töluverðri gagnrýni, m.a. fyrirkomulag  viðræðnanna og áhrif kjarasamninga á efnahagslegan stöðugleika. Bent hefur verið á að samningsgerð hafi dregist á langinn sem að einhverju leyti megi rekja til þess að undirbúningur samningsaðila og samningaviðræðurnar hafi ekki verið nægilega markvissar

Í ljósi þess hafa samningsaðilar unnið að því undanfarið að skoða hvernig haga megi undirbúningi og viðræðuferlinu öðruvísi í þeim tilgangi að gera það markvissara og skilvirkara. Afakstur þeirrar vinnu er m.a. að finna í nýútkominni skýrslu um kjarasamninga og vinnumarkaðinn á Norðurlöndum. SGS hefur ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum og ljóst er að ráðstefnur á borð við þær sem sambandið hefur staðið fyrir undanfarna mánuði munu án efa nýtast við samningagerðina í haust.


Bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð: Skýrsla

Í morgun kynntu aðilar vinnumarkaðarins nýja skýrslu um vinnubrögð við kjarasamninga á Norðurlöndunum. Skýrslan er árangur samstarfsverkefnis sáttasemjara og aðila vinnumarkaðarins þar sem borið var saman kjarasamningaferlið á Norðurlöndunum, staða efnahagsmála og vinnubrögð. Á kynningarfundinum var samhljómur um að bæta vinnubrögð hér á landi með áframhaldandi samstarfi í gagnaöflun og þeirri grunnvinnu sem þarf að vinna í aðdraganda kjarasamninga.


Mistækar aðgerðir gegn atvinnuleysi ungs fólks

Í dag kynntu fræðimenn á Norðurlöndum niðurstöður sínar um aðgerðir gegn atvinnuleysi ungs fólks en það hefur verið viðvarandi áhyggjuefni. Skemmst er frá því að segja að félagsleg staða ungs fólks virðist hafa meiri áhrif á möguleika þeirra til atvinnu en einstaka aðgerðir stjórnvalda sem hafa þó verið af ýmsum toga. Einhverjar stjórnvaldsaðgerðir virðast beinlínis hafa neikvæð áhrif.

Neikvæð áhrif af atvinnuleysi ungs fólks getur varað allt lífið en margar rannsóknir gefa til kynna að fólk sem glímir ungt við atvinnuleysi lendir frekar í láglaunastörfum alla starfsævina og er í meiri hættu á að vera atvinnulaust aftur, en það á við um karla í ríkari mæli en konur. Þá hefur félagsleg staða fólks mikið að segja um hvort það komist í vinnu og óformleg sambönd inn á vinnumarkaðinn skipta höfuðmáli. Samböndin eru ýmist í gegnum foreldrana en þau geta líka verið í gegnum fyrri sumarstörf eða starfsnám. Stjórnvöld geta því haft áhrif á stöðu fólks á vinnumarkaði með því að fjölga sumarstöfum og liðka fyrir starfsnámi, en slíkt hefur einmitt verið gert hér á landi sem viðbrögð við atvinnuleysi.

Svíar hafa reynt þá leið að lækka tryggingagjald atvinnurekenda ef þeir ráða fólk á aldurbilinu 19-25 ára en það virðist ekki hafa náð tilætluðum árangri og niðurstaða rannsóknar gefur til kynna að þetta sé afar dýr leið til að minnka atvinnuleysi ungs fólks. Þá hafa Danir reynt þá leið að auka aðhald við fólk í atvinnuleit, boða fólk á fleiri fundi og námskeið til að það haldi réttindum til bóta. Þetta hefur leitt til þess að margir hafa farið í nám sem er jákvætt en hins vegar hefur örorka meðal ungs fólks aukist líka sem afleiðing af þessum aðgerðum. Fáir virðast þó hafa skilað sér út á vinnumarkaðinn sem afleiðing af verkefninu. Ekki voru kynntar niðurstöður frá Íslandi að þessu sinni en rannsóknirnar verða birtar fljótlega í Nordic Economic Policy Review. Atvinnumálaráðherrar Norðurlandanna hittast þessa dagana til að ræða leiðir til úrbóta og miðla reynslu milli landanna.


Ungt fólk á vinnumarkaði

Svíar fara nú með formennsku í ráðherranefnd Norðurlandaráðs og hafa lagt áherslu á norræn verkefni tengd vinnumarkaðnum auk umhverfismála. Hluti af því er fræðsla á vinnustöðum og að vinna gegn atvinnuleysi ungs fólks. Á fimmtudaginn verður kynnt skýrsla um stöðu ungs fólks á vinnumarkaðnum á Norðurlöndum en víða er atvinnuleysi í þessum hópi verulegt áhyggjuefni.

Það er forsætisráðherra Svíþjóðar Fredrik Reinfeldt sem boðar ráðherra Norðurlandanna, sérfræðinga á sviði vinnumarkaðsmála og fulltrúa úr verkalýðshreyfingunni á ráðstefnu á fimmtudaginn þar sem fjallað verður um atvinnumarkaðsúrræði fyrir ungt fólk í kjölfar skýrslunnar. Fundinum verður sjónvarpað beint á vef sænsku ríkisstjórnarinnar:http://www.regeringen.se/.

Þess má geta að Íslendingar munu taka við formennsku í ráðherranefndinni á næsta ári og verður unnið rannsóknarverkefni um kyngreindan vinnumarkað af því tilefni.


Ákvæði um heildarvinnutíma, hvíldartíma og skipulag vinnutíma

Vinnueftirlitið sendi nýlega frá sér bréf þar sem stofnunin vill, að gefnu tilefni, vekja athygli fyrirtækja í ferðaþjónustu á gildandi vinnutímaákvæðum. Í bréfinu er greint frá helstu ákvæðum sem eru í gildi varðandi hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma, gildandi reglum varðandi aksturs- og hvíldartíma ökumanna og fleiri mikilvægum atriðum sem mikilvægt er að hafa í huga varðandi vinnutíma fólks. Í bréfinu brýnir Vinnueftirlitið fyrir stéttarfélögum, samtökum atvinnurekenda og fyrirtækjum í ferðaþjónustu að vera vakandi fyrir ákvæðum er varða vinnutíma og minnir á að þau séu fest í lög til þess að vernda heilsu vinnandi fólks.

Tekið er fram að rannsóknir hafi sýnt að næturvinna og óreglulegur vinnutími geti haft áhrif á athyglisgáfu og viðbragðsflýti. Það sé því þýðingarmikið að nætur- og vaktavinna sé skipulögð á þann hátt að sem minnst verði dregið úr eðlilegum svefni og hvíld starfsmanns.

Bréfið í heild sinni má nálgast hér.


Góðir gestir frá Norrænum samtökum starfsfólks í byggingariðnaði

Síðustu daga hafa formaður og framkvæmdastjóri Norrænu samtaka starfsfólks í byggingariðnaði (NBTF) heimsótt Ísland en SGS er aðili að þeim samtökum ásamt Samiðn og Rafiðnaðarsambandinu. Þeir Johan Lindholm og Per Skau hafa kynnt sér verkalýðsmál hér á landi, skipst á upplýsingum um kjarasamningsviðræður við aðildarfélögin, rætt lagasetningu og sameiginleg norræn hagsmunamál launafólks.

Svíar eru nýbúnir að gera kjarasamninga og var samið til þriggja ára um að meðaltali 6,8% launahækkun auk þess sem lægstu laun hækkuðu umfram það og fæðingarorlofsgreiðslur sömuleiðis. Flestar stéttir eru búnar að semja en starfsfólk flutningafyrirtækja eru eftir og hafa boðað verkföll. Það sem byggingargeirinn í Svíþjóð lagði sérstaka áherslu á var að innleiða keðjuábyrgð verktakafyrirtækja, þannig að það væri tryggt að starfsfólk innan byggingafyrirtækja fengju laun samkvæmt kjarasamningum og stærri fyrirtæki gætu ekki skýlt sér á bak við undirverktakafyrirtæki við kjarasamningsbrot. Norræn samtök hafa lagt áherslu á að ganga lengra en tilskipun frá Evrópusambandinu gerir ráð fyrir í þessum efnum en niðurstaðan að þessu sinni var að setja upp eins konar dómstól til að skera úr um málið og á hann að skila af sér í febrúar. Þessi niðurstaða fékkst eftir að starfsfólk í byggingariðnaðinum hótaði verkföllum.

Keðjuábyrgð hefur einnig verið til umfjöllunar í Noregi en þeir leystu málið með lagasetningu þar sem sameiginleg ábyrgð allra verktakafyrirtækja í einstaka verkefni  er tryggð þannig að launamaðurinn getur gengið að hvaða fyrirtæki sem er í keðjunni til að fá úrlausn sinna mála ef um kjarasamningsbrot er að ræða. Þetta hefur orðið til þess að fækka samningum við undirverktakafyrirtæki og þess í stað ráða yfirverktakar starfsfólkið beint og þar með er starfsfólk betur tryggt.

Norrænu verkalýðsfélögin eiga ýmislegt sameiginlegt og geta nýtt reynslu og þekkingu sín á milli, ekki síst hvað varðar viðbrögð við tilskipunum frá Evrópusambandinu og að mynda þrýstihóp til að hafa áhrif á ákvarðanir á þeim vettvangi.  Starfsgreinasambandið þakkar þeim Johan og Per fyrir komuna og væntir áframhaldandi góðs samstarfs.

Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri: Sigurð Bessason formann Eflingar, Drífu Snædal framkvæmdastjóra SGS, Johan Lindholm formann NBTF og Per Skau framkvæmdastjóra NBTF


Öflugar ræður á baráttudegi verkalýðsins

Baráttudagur verkalýðsins var haldinn hátíðlegur um allt land 1. maí og voru hátíðarhöldin víðast hvar mjög vel sótt og dagskráin fjölbreytt. Fjölmargar ræður voru fluttar í tilefni dagsins þar sem ræðumenn rifjuðu m.a. upp þann árangur sem verkalýðshreyfingin hefur áorkað í gegnum tíðina. Auk þess voru ræðumenn duglegir við að minna ráðamenn landsins á mikilvægi þess að standa við gefin loforð ásamt því að stappa stálinu í launafólk.

Áhugasamir geta lesið nokkrar af þeim ræðum sem fluttar í tilefni af 1. maí með því að smella á viðkomandi hlekk hér að neðan.