Hafa samband

Fjölgun starfa milli ára

Í nýju ársfjórðungsriti Hagstofunnar eru birtar vinnumarkaðstölur frá 2. ársfjórðungi 2013 og gerð grein fyrir töluverðri fjölgun starfa miðað við sama tímabil 2012. Fjölgunin nemur 2.800 störfum og á sama tíma fjölgar starfsmönnum í fullu starfi um 3.500. Það dregur því úr atvinnuleysi og heilsdagsstörfum fjölgar á meðan hlutastörfum fækkar um 200. Þetta verður til þess að heildarvinnutími hefur aukist á milli tímabila. Atvinnuleysi mælist nú 6,8% og hefur minnkað úr 7,2% miðað við sama ársfjórðung í fyrra.


Staðið verði við fyrirheit um hækkun til þeirra lægst launuðu!

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands (SGS) krefst þess að staðið verðið við þau fyrirheit að hækka laun kvennastétta innan heilbrigðisstofnana eins og gefin voru fyrirheit um í upphafi árs. Jafnlaunaátakið gerir ráð fyrir 4,8% hækkun til þeirra stétta sem skilgreindar eru sem kvennastéttir innan heilbrigðisstofnana og hafa nú þegar verið undirritaðir nýjir stofnanasamningar við einhverjar stofnanir sem tryggja slíka hækkun frá 1. mars.

Á Alþingi þann 19. júní var málið til umræðu og greindi fjármálaráðherra þá frá því að ekki væru til fjármunir til þessa verkefnis en á sama tíma er verið að skerða tekjustofna ríkisins með lækkuðum álögum á einstaka atvinnugreinar. Þetta eru kaldar kveðjur til kvenna á sjálfan kvenréttindadaginn. Starfsgreinasambandið treystir því að fjármálaráðherra finni þrátt fyrir allt leiðir til að hrinda áformunum í framkvæmd svo notuð séu hans orð og það eigi við allar kvennastéttir innan heilbrigðisstofnana. Þá ber að minna á að samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS eru konur í umönnunarstéttum hjá hinu opinbera meðal þeirra sem lægst hafa launin á íslenskum vinnumarkaði. SGS skorar á ríkisstjórnina að standa við gefin fyrirheit til lægst launuðu stéttanna í landinu.


Til hamingju með daginn konur og karlar!

Í dag, 19. júní 2013 höldum við uppá að það eru 98 ár síðan konur fengu kosningarétt í almennum kosningum í fyrsta sinn. Að vanda gefur Kvenréttindafélag Íslands út blaðið 19. júní í tilefni dagsins en í blaðinu að þessu sinni má finna viðtal við þær Önnu Júlíusdóttur og Kristbjörgu Sigurðardóttur. Báðar hafa þær unnið almenn störf á vinnumarkaði til áratuga og eru varaformenn sinna verkalýðsfélaga. Viðtalið tók Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og er það að finna í heild sinni hér að neðan en blaðið má nálgast hér: http://issuu.com/kvenrettindafelag/docs/19juni_2013


Aukið eftirlit og eðlileg skattheimta af ferðaþjónustu

Starfsgreinasamband Íslands hefur fengið til umsagnar tillögu ríkisstjórnarinnar um að afturkalla fyrirhugaðar hækkanir virðisaukaskatts á gistiþjónustu. Frumvarpið liggur nú fyrir Alþingi og er í umsagnarferli. Umsögn SGS er svohljóðandi:Fyrst ber að geta þess að Starfsgreinasambandið hefur ítrekað lýst áhyggjum sínum af stöðu ferðaþjónustunnar, þeirri svörtu atvinnustarfsemi sem viðgengst þar og kjarasamningsbrotum sem aðildarfélög SGS þurfa ítrekað að bregðast við á þessum árstíma.

Ferðaþjónustan er mjög vaxandi atvinnugrein og er ljóst að það þarf átak til að koma henni í farveg sem er ásættanlegur. Starfsgreinasambandið telur eðlilegt að ferðaþjónustan greiði sömu skatta og skyldur til ríkissjóðs og aðrar greinar og leggur til heildarendurskoðun og samræmingu á þeim virðisaukaskattsákvæðum sem eiga við mismunandi hliðar ferðaþjónustunnar. Jafnhliða því er nauðsynlegt að efla eftirlit og aðhald með greininni þannig að samkeppni þrífist með eðlilegum hætti og sumir komist ekki upp með undanskot á kostnað annarra.

Umsögnin á pdf-formi.


Ný skýrsla um svarta atvinnustarfsemi á Íslandi

Nýverið kom út skýrsla á vegum Eurofound þar sem fjallað er um svarta atvinnustarfsemi á Íslandi út frá ýmsum hliðum. Markmið skýrslunnar, sem ber yfirskriftina „Tackling undeclared work in Iceland“, er m.a. að veita yfirlit yfir umfang og eðli svartar atvinnustarsemi á Íslandi sem og varpa ljósi á aðgerðir yfirvalda til að uppræta slíkt. Í skýrslunni er svört atvinnustarfsemi á Íslandi talin nema 15% af vergri þjóðarframleiðslu og því er ljóst að um gríðarlega fjármuni er um að ræða – fjármuni sem rata ofan í hið svarta hagkerfi í stað þess að samfélagið njóti góðs af.

Samkvæmt skýrslunni er ástandið þó síður en svo verst á Íslandi þegar umfangið er borið saman við önnur Evrópulönd. Af þeim 28 Evrópulöndum sem borin eru saman er Ísland í 6. sæti varðandi hlutfall svartrar atvinnustarfsemi af vergri þjóðarframleiðslu. Ástandið er talið skást í Austurríki og Lúxemborg (tæp 10%), en verst er ástandið í Rúmeníu og Búlgaríu – yfir 30%. Hér má nálgast skýrsluna á pdf-formi.

Undanfarin misseri  hefur svört atvinnustarfsemi hér á landi verið mikið í umræðunni og hafa margir lýst yfir áhyggjum af stöðu mála, sérstaklega innan hinnar sívaxandi ferðaþjónustu. Nýlega sendi SGS frá sér ályktun þar sem lýst er áhyggjum af stöðu starfsfólks í ferðaþjónustu og greint frá því að undanfarin ár hefur orðið mjög vart við kjarasamningsbrot í greininni og undanskot frá sköttum og skyldum. SGS skorar því á atvinnurekendur, starfsfólk og stjórnvöld að gæta þess að farið sé eftir leikreglum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett sér og láti vita ef misbrestur er á.

Þess má geta að í sumar munu Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Ríkisskattstjóri taka höndum saman á nýjan leik og ráðast í sérstakt átak, m.a. gegn svartri atvinnustarfsemi. Fulltrúar aðilanna þriggja munu heimsækja vinnustaði, kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir. Yfirskrift átaksins er „Leggur þú þitt af mörkum?“


Áhyggjur af stöðu ferðaþjónustunnar

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) haldinn á Húsavík 3.-4. júní 2013 lýsir áhyggjum af stöðu starfsfólks í ferðaþjónustu í upphafi sumarvertíðarinnar. Af reynslu undanfarinna ára er töluvert um kjarasamningsbrot í greininni og undanskot frá sköttum og skyldum. Formannafundur Starfsgreinasambandsins skorar á atvinnurekendur, starfsfólk og stjórnvöld að gæta þess að farið sé eftir leikreglum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett sér og láta vita ef misbrestur er á.

Greinargerð:

Ferðaþjónustan er ein af hornsteinum íslensks atvinnulífs og sífellt fleiri félagsmenn innan aðildarfélaga SGS vinna í greininni. Það er samfélagslega mikilvægt að greinin sé farsæl og innan hennar sé farið að lögum og reglum. Starfsfólk á að vera tryggt í störfum sínum og greinin skal skila eðlilegum sköttum til þjóðarbúsins. Meðal algengra mála sem koma inn á borð stéttarfélaganna í tengslum við ferðamannavertíðina eru:

  • Greiðsla jafnaðarkaups, slíkt er ekki til í kjarasamningum heldur skal greiða dagvinnu og yfirvinnu eða vaktaálag ef um vaktavinnu er að ræða.
  • Að vaktir hafi ekki skilgreint upphaf og endi, starfsfólk viti  hvenær vinnutíma lýkur. Þess skal gætt að skipulag vakta sé kynnt fyrir starfsfólki samkvæmt reglum um vaktskrá. Vaktavinna sé tekin fram í ráðningasamningi og vakt skuli unnin í samfelldri heild.
  • Að ungt fólk sé á lægra kaupi en samið er um en þeir sem verða 16 og 17 ára á árinu eiga strax að fá greitt miðað við 16 og 17 ára taxta.
  • Að ekki séu greiddir skattar og önnur opinber gjöld af starfsfólki og þar með brotin landslög.

Launafólk sem telur á sér brotið er hvatt til að hafa samband við stéttarfélagið á viðkomandi stað en upplýsingar um þau má nálgast á vef Starfsgreinasambandsins www.sgs.is.  Starfsgreinasambandið bindur vonir við áframhaldandi samstarf Ríkisskattstjóra, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem hefur það markmið að uppræta svarta atvinnustarfsemi.


Starfsgreinasambandið undirbýr kjarasamninga

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands hittust ásamt varaformönnum á fundi á Húsavík 3.-4. júní til að fara yfir undirbúning kjarasamninga. Nú þegar hefur Eining-Iðja í Eyjafirði veitt Starfsgreinasambandi Íslands umboð til kjarasamningagerðar og fleiri félög ræða fyrirkomulag samninga í sínum röðum.

Um allt land eru haldnir fundir með trúnaðarmönnum, gerðar kannanir á vinnustöðum og haldnir opnir fundir til að gefa öllum færi á að koma sínum sjónarmiðum að í áherslum fyrir kjarasamningana sem eru lausir í lok nóvember. Samhljómur var meðal formanna um að bíða þyrfti átekta til að sjá hvort samið yrði til lengri eða skemmri tíma og færi það að stórum hluta eftir því hvernig ríkisstjórnin hyggst stýra efnahagsmálum. Þá þarf að tryggja það að launahækkanir sem um er samið fari ekki jafn óðum út í verðlagið í gegnum hækkun gjaldskráa hins opinbera og almennt vöruverð.

Eftir að hafa haldið fjórar kjaramálaráðstefnur í vetur fara aðildarfélögin vel nestuð inn í vinnu við kröfugerð en stefnt er að því að sameiginleg kröfugerð Starfsgreinasambandsins verði tilbúin í síðasta lagi 1. október.