Hafa samband

Kynbundinn launamunur á Íslandi yfir meðaltali Evrópuríkja

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stendur í dag fyrir málstofu um jafnrétti á vinnumarkaði undir yfirskriftinni „Equality pays off“ eða „Jafnrétti borgar sig“. Málstofan er hluta af stærra evrópuverkefni og er sambærilegur vettvangur skapaður í öllum Evrópulöndum. Á málstofunni voru aðilar vinnumarkaðarins og stjórnendur fyrirtækja sem miðluðu af reynslu sinni og ræddu hvernig auka megi hlut kvenna í atvinnulífinu og styrkja framgang þeirra í starfi.

Í tengslum við málþingið voru teknar saman tölur um jafnrétti hér á landi og þær bornar saman við það sem gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Slæmu fréttirnar eru þær að kynbundinn launamunur er hærri hér á landi (18,1%) en meðaltali í Evrópu er (16,2%). Hins vegar er atvinnuþátttaka íslenskra kvenna töluvert hærri hér á landi eða 77,88% á móti 58,6% að meðaltali í Evrópu. Þá er atvinnuleysi kvenna töluvert minna hér á landi (5,8%) en að meðaltali í Evrópu (10,6%). Hlutfall kvenna í hlutastörfum er á pari við það sem gerist að meðaltali í Evrópu (32%) en áhugavert er að karlar hér á landi eru hlutfallslega fleiri í hlutastörfum en karlar í Evrópu (10,9% á móti 8,4%).

Þegar litið er til kvenna í stjórnunarstöðum erum við hærri en meðaltalið hvað varðar konur sem sitja í stjórnum fyrirtækja, hins vegar erum undir meðaltalinu þegar kemur að hlutfalli kvenna sem eru ráðnar í stjórnunarstöður (25% á móti 33% í Evrópu).

Þó þessar tölur gefi vísbendingar verður þó að taka fram að Evrópuríkin eru afar misjafnlega á veg komin í jafnréttisátt. Hér má nálgast upplýsingar um Ísland og stöðu þess í jafnréttismálum gagnvart Evrópu: http://ec.europa.eu/justice/gender-equality/equality-pays-off/spotlight-on-your-country/index_en.htm


Starfsgreinasambandið ræðir kröfugerð

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hélt útvíkkaðan fund á Hótel Heklu til að fara yfir kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga. Sextán félög hafa veitt Starfsgreinasambandinu umboð til samninga á hinum almenna markaði og kröfugerðir hafa borist frá flestum félögum.

Töluverð óvissa er um hvernig framhald viðræðna verður enda liggur ekki fyrir endanleg viðræðuáætlun við Samtök Atvinnulífsins auk þess sem óvíst er hvernig ákvarðanir ríkisstjórnarinnar munu hafa áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna.

Niðurstaða fundarins var að semja bæri til skamms tíma vegna óvissu í efnahagsmálum en þó er ljóst að staða margra hópa innan SGS er sterk til að sækja bætt kjör. Í því sambandi bera helst að nefnda fiskvinnsluna, aðrar útflutningsgreinar auk ferðaþjónustunnar. Þá er skýr krafa um hækkun lægstu launa og að aukið nám skili sér í hækkun launa.

Til að bæta kjör launafólks þarf ríkisvaldið að koma að samningunum og er efsta krafa á blaði hækkun persónuafsláttar. Þá er brýnt að koma á betra húsnæðis- og leigukerfi á félagslegum grunni.

Skýr vilji var meðal þessara 16 aðildarfélaga að ganga sameinuð til kjarasamninga og var ákveðin verkaskiptingu innan sambandsins í komandi viðræðum. Björn Snæbjörnsson var kjörinn formaður samninganefndar og talsmaður hennar.

 

 


16 félög hafa veitt SGS samningsumboð

Undanfarna mánuði hefur Starfsgreinasambandið og félög þess unnið hörðum höndum við undirbúning næstu kjarasamninga. Undirbúningurinn hófst formlega síðasta vetur með kjaramálaráðstefnum sem SGS stóð fyrir, en síðan þá hafa félögin, hvert í sínum ranni, haldið undirbúningnum áfram.

Fjölmargir fundir hafa verið haldnir, kannanir gerðar og nú að undanförnu hafa félögin verið að móta sínar kröfugerðir fyrir komandi samninga. Alls hafa 16 félög innan Starfsgreinasambandsins skilað inn samningsumboði til sambandsins sem og kröfugerðum. Í næstu viku mun samninganefnd SGS koma saman á tveggja daga fundi og móta sameiginlega kröfugerð sem verður í framhaldinu lögð fyrir Samtök atvinnulífsins.


Ertu verktaki eða starfsmaður?

Það er mikill munur á því að vera launamaður eða verktaki og mikilvægt að fólk átti sig á í hverju munurinn felst. Sem launamaður ertu með ráðningasamning og safnar réttindum á vinnumarkaði, atvinnurekandinn sér um að greiða af þér skatta og þess háttar og þú ert varinn af lögum sem launamaður. Ef þú ert verktaki ertu í raun að selja þjónustu og þú átt í viðskiptum án þess að njóta réttinda sem launamaður eða ávinna þér slíkt. Því miður er þessu stundum ruglað saman og launamönnum boðið uppá að vera verktakar.