Hafa samband

1. maí – barátta og hátíð um allt land

Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands boða til baráttufunda, hátíðarhalda og kröfuganga víða um land 1. maí. Dagskráin er jafn fjölbreytt og félögin eru mörg en hér að neðan má sjá viðburði á hverjum stað fyrir sig. Nánari dagskrá hefur verið auglýst í fréttabréfum félaganna og á heimasíðum viðkomandi stéttarfélags. Félagar og aðrir eru hvattir til að mæta, fagna áunnum réttindum og brýna sig í áframhaldandi baráttu!


Nýr kjarasamningur við Flugleiðahótel ehf. vegna sumarhótela

Starfsgreinasamband Íslands og Flugleiðahótel ehf. undirrituðu í dag nýjan kjarasamnings sem tekur til starfsfólks á Edduhótelum sem vinna eftir hlutaskiptakerfi. Samningurinn kemur til viðbótar kjarasamningi aðila frá 22. júní 2011 og tekur mið af breytingum sem gerðar voru á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru 21. desember 2013 ásamt sáttatillögu ríkissáttasemjara frá 20. febrúar 2014. Gildistími samningsins er frá 1. apríl 2014 til 28. febrúar 2015 og fellur hann þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar.


Ríkissamningurinn samþykktur

Talin hafa verið atkvæði vegna samkomulags um breytingar og framlengingu á kjarasamningi við fjármála og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs við  Starfsgreinasambands Íslands. Samkomulagið var undirritað 1. apríl síðastliðinn og félagar greiddu atkvæði um samkomulagið í póstatkvæðagreiðslu. Samningurinn var samþykktur með 71,5% atkvæða en kjörsókn var 30%.


Undirbúningur póstatkvæðagreiðslu

Í gær (8. apríl) sendi Starfsgreinasambandið út kjörgögn vegna atkvæðagreiðslu um nýtt samkomulag við ríkið. Kjörstjórn mætti á skrifstofu sambandsins í gær í þeim tilgangi að senda kjörgögnin út og það tókst með skipulagðri og góðri vinnu kjörstjórnar og starfsmanna. Á kjörskrá eru tæplega 1.000 manns og munu þessir sömu einstaklingar fá kjörgögnin í hendurnar á næstu dögum. SGS hvetur að sjálfsögðu alla kosningabæra félagsmenn til að nýta sitt atkvæði og taka afstöðu til samkomulagsins.


Kynningarefni vegna samkomulags við ríkið

Starfsgreinasambandið hefur útbúið kynningarefni í framhaldi af undirritun samkomulags SGS við ríkið frá 1. apríl sl. Í kynningarefninu má m.a. finna upplýsingar um fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar, helstu atriði samkomulagsins og nýjar launatöflur. Upplýsingarnar eru á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku.


Lækkun í heilbrigðiskerfi frekar en á áfengi og tóbaki

Starfsgreinasamband Íslands hefur sent umsögn til Alþingis um frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir. Í umsögninni er lögð áhersla á að breyta lækkununum þannig að þær komi frekar fram í lægri kostnaði við heilbrigðisþjónustu heldur en til dæmis í áfengi og tóbaki. Alls er óvíst að skattalækkanir á slíka þætti skili sér en lækkun gjaldskrár í heilbrigisþjónustu skilar sér beint til þeirra sem helst þurfa á að halda. Þá gagnrýnir Starfsgreinasambandið skort á samráði við aðila vinnumarkaðarins þegar ákvarðanir er varða kjör fólks eru teknar.


Ályktun SGS um lagasetningu á vinnudeilu

Starfsgreinasamband Íslands harmar að Alþingi sé að grípa inn í löglega boðaðri vinnudeilu með lagasetningu, án nokkurra boðlegra efnislegra raka. Samningsrétturinn er stjórnarskrárvarinn og einn mikilvægasti réttur launafólks til að ná fram bættum kjörum. Það er alvarlegt þegar Alþingi grípur inn í það ferli og slíkum úrræðum skal ekki beitt nema í ítrustu neyð. Lagasetningar á verkföll eru sniðnar að atvinnurekendum og leysir eingöngu þeirra mál, en skikkar starfsmennina til að vinna áfram á sömu kjörum.


SGS undirritar samkomulag við ríkið

Á níunda tímanum í gærkvöldi (1. apríl 2014) undirritaði Starfsgreinasamband Íslands nýtt samkomulag við ríkið. Um er að ræða samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila og mun fyrri samningur framlengjast frá 1. mars 2014 til 30. apríl 2015. Helstu atriði samkomulagsins eru þau að laun í launaflokki 1-10 hækka um 9.750 krónur en laun í launaflokki 11 og ofar hækka um 2,8%, þó að lágmarki um 8.000 krónur. Einnig var samið um tvær eingreiðslur – annars vegar 14.600 kr. í apríl 2014 og hins vegar 20.000 kr. eingreiðslu í febrúar 2015. Báðar eingreiðslurnar miðast við fullt starf. Þá má nefna að persónuuppbót (desemberuppbót) verður 73.600 kr. á árinu 2014 og orlofsuppbót verður 39.500 kr.