Hafa samband

Fleiri aðildarfélög gagnrýna stjórnvöld

Starfsgreinasambandið greindi frá því í síðustu viku að nokkur aðildarfélaga sambandsins hefðu sent frá sér harðorðar ályktanir þar sem stefna stjórnvalda og nýtt fjárlagafrumvarp er  gagnrýnt harkalega. Nú hafa fleiri félög innan SGS látið í sér heyra og sent frá sér ályktanir um fjárlagafrumvarpið.


Vel heppnaðir fræðsludagar

Dagana 25. og 26. september sl. stóð Starfsgreinasambandið fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk aðildarfélaga sambandsins. Fræðsludagarnir voru að þessu sinni haldnir í Kríunesi og mættu alls 14 fulltrúar frá 7 félögum. Fyrri daginn fjallaði Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, um mannleg samskipti út frá hinum ýmsu hliðum og fékk þátttakendur m.a. til að ræða þau krefjandi mannlegu samskipti sem þau hafa upplifað í sínum störfum. Dagskráin hélt svo áfram daginn eftir með erindum frá Vinnueftirlitinu um Vinnuvernd og líkamsbeitingu og erindi sagnfræðingsins Magnús Sveins Helgasonar, um stöðu verkafólks fyrr á tímum. Tímanum eftir það var svo að varið í að kynna verkefnin framundan hjá SGS, ræða fræðslumál sambandsins og kynna nýjan innri vef SGS.


VSFK skorar á ríkisstjórnina

Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun þar sem lýst er yfir miklum vonbrigðum með þær niðurskurðarhugmyndir sem fram koma í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.


Kjaramálaþing á Selfossi

Báran stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands héldu kjaramálaþing á þriðjudagskvöld til að undirbúa ASÍ þingið og komandi kjarasamninga. Fjölmenni var á þinginu frá hinum fjölbreyttustu vinnustöðum á Suðurlandi og voru fjörugar umræður og hópastörf undir styrkri stjórn Félagsmálaskóla Alþýðu. Þátttakendum varð tíðrætt um misskiptingu og hvernig mætti auka jöfnuð í samfélaginu og tryggja að launahækkanir skiluðu sér í auknum kaupmætti. Reifaðar voru áhyggjur af dræmri þátttöku fólks í starfi stéttarfélaganna og lítilli meðvitund ungs fólks um réttindi sín. Fjöldi tillagana um úrbætur voru kynntar og ljóst að stjórnir félaganna og skrifstofa þeirra hefur úr mörgu að moða og búið að leggja línurnar fyrir starf vetrarins.


Aðildarfélög innan SGS senda stjórnvöldum tóninn

Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag og Stéttarfélagið Samstaða hafa sent frá sér harðorðar ályktanir þar sem stefna stjórnvalda og nýtt fjárlagafrumvarp er  m.a. gagnrýnt harkalega.

Ályktun frá Bárunni stéttarfélagi

Báran, stéttarfélag  lýsir vanþóknun sinni á því hugarfari sem lýsir sér  í flestum þeim aðgerðum stjórnvalda sem snerta almennt launafólk á Íslandi og opinberar, í besta falli algjöra  vanþekkingu á kjörum venjulegs fólks.

Það  verður ekki lengur við unað að láglaunahópar innan verkalýðshreyfingarinnar beri hitann og þungann af viðreisn efnahagslífsins. Hagsmungæsla stjórnvalda gagnvart þeim efnameiri  í formi lækkaðra og niðurfelldra skatta eru stjórnvaldsaðgerðir sem ekki eru til þess fallnar að jafna kjörin.


Verkakvennafélagið Framsókn 100 ára – afmælisráðstefna

Þann 25. október næstkomandi verða liðin 100 ár frá stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar. Í tilefni af 100 ára afmælinu standa Starfsgreinasambandið, Efling stéttarfélag, Alþýðusamband Íslands, Jafnréttisstofa og Kvennasögusafn Íslands fyrir málþingi í Iðnó föstudaginn 10. október kl. 13:00-16:00. Yfirskrift ráðstefnunnar er Verkakonur í fortíð og nútíð. Þar verður sjónum beint að baráttu verkakvenna á síðustu öld og stöðu þeirra í dag. Boðið verður upp á áhugaverð erindi og pallborðsumræður þar sem m.a. forystukonur Verkakvennafélagsins Framsóknar líta yfir farinn veg og skoða hvað hefur áunnist í baráttunni um bætt kjör verkakvenna. Dagskrá verður send út síðar, allir eru velkomnir að taka þátt og halda upp á þennan merka atburð í baráttusögu íslenskra kvenna.


Miðstjórn ASÍ brýnir launafólk fyrir veturinn

Miðstjórnarfundi ASÍ lauk fyrir skemmstu þar sem eftirfarandi ályktun var samþykkt:

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnin velji með fjárlagafrumvarpi sínu fyrir árið 2015 að ráðast enn og aftur gegn hagsmunum launafólks í stað þess að hefja uppbyggingu velferðarkerfisins. Almennt launafólk hefur á síðustu árum tekið á sig miklar byrðar með samdrætti í tekjum, auknum útgjöldum og skuldsetningu sem leitt hafa til minni kaupmáttar. Þetta á ekki síst við um lágtekjuhópa og lífeyrisþega. Á sama tíma hefur verið skorið verulega niður í heilbrigðis-, velferðar og menntakerfinu sem leitt hefur til meiri greiðsluþátttöku, minni þjónustu og meira óöryggis. Launafólk sem færði miklar fórnir hefur réttmætar væntingar um að endurreisn og uppbygging velferðarkerfisins hafi ríkan forgang nú þegar viðsnúningur hefur orðið í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar.


Þriðja þing ASÍ-UNG vel heppnað

Þriðja þing ASÍ-UNG var haldið 12. september sl. undir yfirskriftinni „Samfélag fyrir alla … líka unga fólkið“. Þingið sóttu 36 þing- og aukafulltrúar og þar af komu 15 frá félögum innan Starfsgreinasambandsins. Á þinginu fjölluðu Henný Hinz og Ari Eldjárn m.a. um tekjuskiptingu í samfélaginu og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Mikil áhersla var lögð á málefnavinnu á þinginu og skilaði sú vinna sér m.a. í ályktunum um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, húsnæðismál og svarta atvinnustarfsemi og kennitöluflakk. Ályktanirnar í heild sinni má nálgast á vef ASÍ.


Formannafundur afstaðinn

Formenn og varaformenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hittust á tveggja daga fundi á Ísafirði dagana 9. og 10. september. Til umfjöllunar voru hefðbundin mál  og dagskrá vetrarins en auk þess var sérstaklega fjallað um vinnustaðaeftirlit og mansal á vinnumarkaði. Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ fjallaði um verkefni sambandsins og stéttarfélaga í vinnustaðaeftirliti og kom fram sterkur vilji til að efla það enn frekar um allt land. Snorri Birgisson sérfræðingur hjá lögregluyfirvöldum fjallaði um mansalsmál á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið er með fulltrúa í samráðshópi á vegum innanríkisráðuneytisins sem stendur fyrir fræðslufundum um mansalsmál. Slíkir fundir eru á dagskrá í vetur víða um land til að stefna saman lögregluyfirvöldum, félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisstarfsfólki og verkalýðsfélögum til að fræðast og koma á samstarfi ef grunur vaknar um mansal.


Formannafundur SGS mótmælir aukinni misskiptingu

Formannafundur Starfsgreinasambandsins mótmælir harðlega þeirri herferð sem ríkisstjórnin er í gegn atvinnulausum og öðru tekjulágu fólki og birtist í nýju fjárlagafrumvarpi. Skerðing á bótatíma atvinnulausra er afturhvarf til fortíðar. Með hækkun á matarskatti er verið að velta álögum frá tekjuhæsta fólkinu yfir á lágtekjufólk. Formenn og varaformenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem nú funda á Ísafirði munu berjast hart gegn öllum þeim áformum sem birtast í frumvarpinu og verða til þess að rýra enn afkomu almenns launafólks og sérstaklega þeirra tekjulægstu.


Síða 1 Af 212