Hafa samband

Meginkröfur í höfn

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur undirritað nýjan kjarasamning vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Í upphafi viðræðna fór Starfsgreinasambandið fram með þá skýru kröfu að lágmarkslaun yrðu 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Auk þess var lögð áhersla á sérstakar hækkanir hjá starfsfólki í útflutningsgreinum. Órofa samstaða og kraftur félagsmanna í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins skilaði því skýra markmiði sem lagt var upp með í upphafi um  hækkun lægstu launa. Markmið SGS um 300 þúsund króna lágmarkslaun er orðið að veruleika. 


Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir í 11 liðum til að greiða fyrir kjarasamningum en stefnt er að undirritun samninga Starfsgreinasambandsins, Flóabandalagsins og verslunarmannafélaganna við SA milli klukkan 14 og 15 í dag. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er svohljóðandi:

Aðgerðir í 11 liðum vegna kjarasamninga

  • Breytingar á tekjuskatti leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega
  • Heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga á kjörtímabilinu allt að 16 milljarðar
  • Átak um byggingu 2300 félagslegra íbúða
  • Komið til móts viðefnaminni leigjendur og þá sem kaupa fyrstu íbúð

SGS frestar verkföllum – viðræður hafnar

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur gengið frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um að fresta fyrirhuguðum verkföllum um sex daga. Ljóst er að viðræður eru hafnar af fullum þunga og það er mat samninganefndarinnar að gefinn skuli tími til að reyna til þrautar um að samningar náist. Kröfugerð Starfsgreinasambandsins er sem fyrr grundvöllur áframhaldandi viðræðna.

Frestun verkfalla verður sem hér segir:

Verkfalli 28. og 29. maí er frestað til 3. og 4. júní.

Ótímabundnu verkfalli 6. júní er frestað til 12. júní.


SGS er ekki búið að fresta verkföllum

Af gefnu tilefni skal það tekið fram að Starfsgreinasamband Íslands hefur ekki átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins síðustu daga og er ekki hluti af því ferli sem verður til þess að Flóabandalagið, VR, LÍF og StéttVest ákveða að fresta verkfalli. Starfsgreinasambandið hefur því ekki tekið neina ákvörðun um að fresta verkfalli sem fyrirhugað er 28. og 29. maí né ótímabundnu verkfalli þann 6. júní. Viðræður eru alltaf tvíhliða og á meðan við höfum ekki átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins þá er staðan óbreytt hvað varðar þau 15 aðildarfélög sem Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir. Ekki hefur verið kallað til fundar við Samtök atvinnulífsins en það má búast við því að samningafundur verði í vikunni. Upplýsingar um framvindu mála má nálgast hér á heimasíðunni og á facebook-síðunni „Vinnan mín“.

Uppfært: Boðað hefur verið til samningafundar með Samtökum atvinnulífsins á morgun, miðvikudag, í húsakynnum ríkissáttasemjara.


Miðstjórn ASÍ ályktar – Ábyrgðin liggur hjá Samtökum atvinnulífsins

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands sendi rétt í þessu frá sér ályktun þar sem hún gagnrýnir harðlega þá afstöðu Samtaka atvinnulífsins að neita að ræða kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í þeirri erfiðu kjaradeilu sem nú er uppi. Í ályktuninni segir: “Afneitun af þessu tagi ber vott um takmörkuð veruleikatengsl og herðir aðeins hnútinn sem að þarf að leysa. Afstaða atvinnurekenda er ögrandi og skaðar það traust sem þarf að ríkja á milli aðila sem verða að ná samningum. Verkefnið fer ekkert, það verður bara erfiðara viðfangs.

Miðstjórn ASÍ vísar því ábyrgð á stöðu mála í kjaradeilunum alfarið á hendur SA. Komi til víðtækra verkfalla á almennum vinnumarkaði síðar í mánuðinum er það á ábyrgð samtaka atvinnurekenda.”.


SGS berst enn frekari stuðningur erlendis frá

Eins og greint var frá hér á vefnum fyrir skemmstu þá hafa hafa fjölmörg systursamtök SGS á alþjóða-, evrópska- og norræna vísu sent sambandinu samstöðuyfirlýsingar þar sem þau lýsa yfir eindrægum stuðningi við kröfur og verkfallsaðgerðir sambandsins. Síðan þá hefur enn frekari stuðningur borist sambandinu víðs vegar frá í heiminum, t.a.m. frá Kanada, Portúgal og Króatíu. Líkt og áður er um að ræða stór og öflug samtök launafólks. Eftirtalin systursamtök/stéttarfélög hafa sent sambandinu samstöðuyfirlýsingar að undanförnu þar sem þau koma stuðningi sínum við SGS á framfæri.


Orlofsuppbót 2015

Starfsgreinasamband Íslands vill minna launafólk á rétt sinn á að fá greidda orlofsuppbót. Orlofsuppbót á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2015 kemur til greiðslu þann 1. júní nk. hjá þeim sem starfa á almennum vinnumarkaði eða hjá ríkinu. Ekki hefur verið samið um fjárhæð uppbótarinnar en ef ósamið verður þann 1. júní þá kemur sama fjárhæð til greiðslu og á síðasta ári, þ.e. 39.500 kr. Þeir sem starfa hjá sveitarfélögum áttu að fá greidda orlofsuppbót  að upphæð 39.000 kr. þann 1. maí sl. Þessar upphæðir miðast við þá sem eru í 100% starfi.


Starfsgreinasambandið frestar verkföllum og gefur SA tækifæri til lausna

Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhuguðu verkfalli 10.000 félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands dagana 19. og 20. maí. Að auki hefur ótímabundnu verkfalli sem átti að hefjast 26. maí verið frestað. Það er mat samninganefndar SGS að gefinn skuli tími til úrslitatilrauna í samningaviðræðum á þessu stigi málsins.


Fundað í Karphúsinu í dag

Samninganefnd SGS mun hittast á fundi í dag til að ræða kjara­deilu Starfsgreinasambandsins og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins. Fundurinn verður haldinn í Karphúsinu og hefst hann kl. 12:30. Á fundinum verður m.a. farið yfir stöðuna á vinnumarkaðnum í heild sinni, samningsgrundvöll við Samtök atvinnulífsins og hugsanlega aðkomu stjórnvalda. Fundurinn er hluti af reglulegum fundarhöldum samninganefndar SGS, en í nefndinni sitja formenn þeirra 16 aðildarfélaga SGS sem veitt hafa sambandinu kjarasamningsumboð. Samningaráð SGS mun svo funda með fulltrúum SA kl. 15:00 í dag í Karphúsinu.


Köllum eftir raunhæfum lausnum: Fólk í fullri vinnu þarf að geta séð fyrir sér

Fulltrúum Samtaka atvinnulífsins hefur verið tíðrætt um tilboð sem þau gerðu verkalýðshreyfingunni og er mikilvægt að halda ákveðnum atriðum til haga í því sambandi:

SA lýsti því yfir við fyrirtæki innan samtakanna að verkalýðshreyfingin hafi hafnað tilboðinu áður en Starfsgreinasambandið fékk að sjá nokkurt tilboð. Áður höfðu önnur landssambönd og félög innan verkalýðshreyfingarinnar greinilega fengið slíkt tilboð og hafnað því samstundis.

Almennar launahækkanir sem SA bauð í tilboðinu er 14% á þremur árum, að meðaltali 30.000 króna hækkun taxta á þremur árum. Aðrar launahækkanir í tilboðinu voru tilfærslur sem verkafólk greiddi sjálft með lækkun yfirvinnuprósentu og lengingu dagvinnurammans – við erum ekki til viðræðu um slíkt nema það sé tryggt að hægt sé að lifa á dagsvinnulaunum, svo var ekki í tilboðinu.


Síða 1 Af 212