Hafa samband

Svartur blettur sem verður að uppræta

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands, ritaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann gerir kjarasamningsbrot í ferðaþjónustunni m.a. að umtalsefni.

Því miður er allt of algengt að vinnuveitendur brjóti á ungu fólki. Langflestir sem leita til Einingar-Iðju vegna brota á kjarasamningum starfa við ferðaþjónustu og oftar en ekki er um ungt fólk að ræða.

Langur listi
Ferðaþjónustan er sú grein sem hefur vaxið hraðast á undanförnum árum og telst vera stærsta atvinnugrein landsins. Vöxturinn hefur verið gríðarlegur og víðast hvar á landinu hafa ný störf skapast. Líklegast er því að ungt fólk stígi sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum með því að starfa við ferðaþjónustu. Kvartanir unga fólksins sem leitar til Einingar-Iðju vegna brota á kjarasamningum eru meðal annars vegna launa undir lágmarkstöxtum, brota á reglum um vaktavinnu, hvíldartíma, jafnaðarkaups (sem er ekki til í kjarasamningum) og launalausrar starfsþjálfunar. Listinn er reyndar ótrúlega langur.


Undirritun kjarasamnings við ríkið frestað um viku

Samninganefndir Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins funduðu með samninganefnd ríkisins í Karphúsinu í gær til að ganga frá nýjum kjarasamningi milli aðila. Að beiðni samninganefndar ríkisins var undirritun samningsins hins vegar frestað um eina viku. Ástæðan er sú að næstkomandi föstudag mun svo­nefnd­ur Salek-hóp­ur (full­trú­ar stærstu heild­ar­sam­taka á vinnu­markaði) funda og vill ríkið bíða eftir niðurstöðu þess fundar. Að sögn ríkisins hefur þessi frestun engar efnislegar breytingar í för með sér.


Starfsfólk skyndibitastaða í USA berst fyrir rétti sínum að ganga í stéttarfélög

Þann 10. nóvember næstkomandi mun starfsfólk skyndibitastaða í Bandaríkjunum fara í verkfall í þeim tilgangi að krefjast 15$ lágmarkslauna á tímann og um leið þess sjálfsagða réttar að fá ganga í stéttarfélög. Baráttuherferðin fyrir 15$ lágmarkstímalaunum hafi gengið vel hingað til, sbr.  samþykktu borgaryfirvöld í bæði Los Angeles og New York nýlega að hækka lágmarkslaun í 15$ á tímann á næstu árum – þökk sé samstöðu og baráttu starfsfólskins og þeirra stéttarfélaga. En þrátt fyrir sögulega baráttusigra varðandi betri launakjör þá er starfsfólki skyndibitastaða ennþá meinaður réttur til að ganga í stéttarfélög sem og að gera kjarasamninga við skyndibitakeðjurnar. Þetta ætlar starfsfólkið svo sannarlega ekki að sætta sig við.

Til stuðnings aðgerðum starfsfólksins er launafólk (sér í lagi starfsfólk skyndibitastaða) hvatt til að standa með starfsbræðrum sínum og systrum með því að senda stuðningsyfirlýsingar til stéttarfélagsins SEIU (nicholas.allen@seiu.org) og/eða IUF – alþjóðlegra samtaka launafólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði (massimo.frattini@iuf.org). Þá getur fólk einnig deilt ljósmyndum og myndböndum á samfélagsmiðlum með því að styðjast við myllumerkið #fastfoodglobal.


Kaldar kveðjur til verkafólks frá fjármálaráðstefnu sveitarfélaga

Starfsmat sveitarfélaga var til umræðu á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og var afturvirkni þess gagnrýnd harðlega. Í samningunum 2008 var ákveðið að þróa starfsmatskerfið áfram og hefur verið unnið að endurskoðun þess síðan 2012. Í samningunum 2014 var síðan samið um að starfsmatið myndi gilda frá 1. maí 2014. Ef að sveitarstjórnarmenn telja að þarna hafi verið undirritaður óútfylltur tékki, þá hafa þeir ekki mikið fylgst með því sem er að gerast í kring um þá. Reykjavíkurborg gat greitt sínu fólki út samkvæmt endurskoðuðu starfsmati í desember 2014. Tafir á útgreiðslu á leiðréttum launum til starfsmanna annarra sveitarfélaga stafa að stórum hluta af því að þau gögn sem þurfti að fá til að vinna eftir skiluðu sér ekki frá sveitarfélögunum til framkvæmdanenfdar um starfsmat. Þegar starfsmatið kemst loksins í gagnið er það að sjálfsögðu afturvirkt eins og um var samið. Það eru kaldar kveðjur frá fjármálaráðstefnunni til starfsfólks sveitarfélaganna sem berast gegnum heimasíðu Sambandsins og verður ekki til að liðka fyrir þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir.


Nýr kjarasamningur við Landsvirkjun

Starfsgreinasambandið hefur undirritað nýjan kjarasamning við Landsvirkjun sem gildir frá 1. mars síðastliðnum til ársloka 2018. Samningurinn gildir fyrir sumarstarfsfólk í dreifikerfum og á aflstöðvum Landsvirkjunar svo og matráða, ræstingafólk, bílstjóra og tækjamenn á aflstöðvum.


Verulegt tekjutap landverkafólks vegna innflutningsbanns

Skýrsla Byggðastofnunar um Byggðaleg áhrif innflutningsbanns Rússa var birt í dag, 16. September. Í henni koma fram gríðarleg áhrif á tekjur landverkafólks og hugsanlega tekjuskerðingu fólks sem vinnur við frystingu uppsjávarafla. Talið er að innflutningsbann Rússa á matvælaafurðir komi verst niður á Þórshöfn, Raufarhöfn, Vopnafirði, Neskaupstað, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Höfn, Vestmannaeyjum, Snæfellsbæ og Garði. Aðrar sjávarútvegsbyggðir verða fyrir litlum eða engum áhrifum.


Finnsk stjórnvöld ráðast í aðgerðir gegn launafólki

Fyrir skemmstu kynntu finnsk stjórnvöld nýjar tillögur sem miða að því að skerða einhliða laun og ýmis önnur ákvæði í kjarasamningum sem nú þegar hefur verið samið um. Það er skemmst frá því að segja að finnsk stéttarfélög brugðust ókvæða við tillögunum og höfnuðu þeim alfarið enda kveða þær á um meiriháttar skerðingar á yfir-, helgar- og næturvinnu, skerðingu á veikindarétti og sjúkradagpeningum, takmörkunum á orlofsrétti launafólks ásamt fleiru.


SGS gagnrýnir breyttar forsendur kjarasamninga

Svohljóðandi ályktun var samþykkt á formannafundi SGS á Egilsstöðum föstudaginn 11. september 2015.

Formannafundur SGS haldinn á Egilsstöðum 11. september 2015 telur brýnt  að endurmeta forsendur þeirra kjarasamninga á almenna markaðnum sem undirritaðir voru í maí síðastliðnum í ljósi niðurstöðu gerðardóms. Dómurinn setur ný viðmið á vinnumarkaði sem eru í verulegu ósamræmi við þau viðmið sem samninganefnd Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagið sömdu um.


Formannafundur SGS á Egilsstöðum

Dagana 10. og 11. september heldur Starfsgreinasambandið formannafund og verður hann að þessu sinni haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum. Um er að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi.


Nýr samningur við Landssamband smábátaeigenda

Starfsgreinasamband Íslands og Landssamband smábátaeigenda hafa undirritað nýjan kjarasamning vegna starfsmanna sem vinna við uppstokkun eða beitningu í landi. Samningurinn gildir jafnframt fyrir starfsmenn sem starfa við netavinnu.Viðræður hafa staðið yfir frá því í sumar og eftir nokkuð strangar viðræður undanfarnar vikur náðu samningsaðilar loks saman í gær. Á fundi framkvæmdastjórnar SGS sem fór fram fyrr í dag var samningurinn tekinn til afgreiðslu þar sem hann var samþykktur samhljóða.


Síða 1 Af 212