Hafa samband

Afgerandi niðurstaða í atkvæðagreiðslu um nýjan samning við ríkið

Ríkisstarfsmenn í 15 aðildarfélögum SGS hafa samþykkt kjarasamninginn sem undirritaður var 7. október síðastliðinn í sameiginlegri rafrænni atkvæðagreiðslu. Niðurstaðan var mjög afgerandi – já sögðu 81,8% en nei sögðu 16,3% (auðir seðlar 1,9%). Alls voru 1.012 félagar á kjörskrá og greiddu 258 þeirra atkvæði (25,5% kjörsókn). Starfsgreinsambandið undirritaði kjarasamninginn í umboði eftirtalinna félaga: AFL – starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn stéttarfélag.


Ný hagspá ASÍ 2015-2017

Hagdeild ASÍ kynnti í dag nýja hagspá fyrir næstu tvö ár. Samkvæmt henni eru ágætar horfur í íslensku efnahagslífi. Gert er ráð fyrir góðum hagvexti næstu tvö árin. Hagvöxturinn verður drifinn áfram af vexti þjóðarútgjalda, þar sem einkaneysla og fjárfestingar vaxa mikið og gangi spáin eftir fara fjárfestingar yfir 20% af landsframleiðslu á spátímanum.


Forsaga SGS – erindi frá afmælismálþingi

Á málþingi sem Starfsgreinasambandið stóð fyrir 13. október síðastliðinn, í tilefni af 15 ára stofnafmæli sambandsins, hélt Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur áhugavert erindi um skipulag verkalýðshreyfingarinnar og forsögu SGS. Í erindi sínu fór Sumarliði meðal annars yfir stöðu og hlutverk sambanda innan ASÍ frá upphafi, þ.e. allt frá því að engin landssambönd eða önnur deildaskipting var innan ASÍ yfir í tilurð og hlutverk landshlutasambanda eins og þau eru í dag. Þá rakti Sumarliði sérstaklega aðdragandann að stofnun SGS og þau átök sem einkennt hafa breytingarferli innan verkalýðshreyfingarinnar í gegnum tíðina. Í lok erindisins velti Sumarliði svo fyrir sér mögulegri framtíðarþróun, s.s. breytta skipan landssambanda og frekari sameiningu félaga.


Ályktun formannafundar ASÍ um kjaramál

Formannafundur ASÍ sem nú stendur yfir samþykkti rétt í þessu eftirfarandi ályktun um kjaramál:

Formannafundur ASÍ lýsir yfir áhyggjum af stöðu efnahags- og kjaramála. Skortur á samstöðu, órói og átök hafa einkennt íslenskan vinnumarkað, allt frá því að þeirri launastefnu sem samið var um á almennum vinnumarkaði í árslok 2013 var hafnað. Síðan þá hefur hver hópur á vinnumarkaði farið fram og reynt að rétta sinn hlut óháð því hvaða áhrif slíkt hefði á aðra hópa eða hagkerfið. Niðurstaðan er sú að horfur eru á vaxandi verðbólgu og hækkandi vöxtum.


Samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga í höfn

Heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu í gær undir samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Markmið samkomulagsins er að tryggja varanlega aukningu kaupmáttar á Íslandi á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis krónunnar og lægri vaxta. Með samkomulaginu er lagður grunnur að sátt á vinnumarkaði, auknu samstarfi og minni  átökum. Ennfremur er stefnt að auknum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika í landinu.


Rafrænni atkvæðagreiðslu um nýjan samning við ríkið lýkur á morgun


Launavísitalan hefur hækkað um 8,2% sl. 12 mánuði

Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar hækkaði launavísitalan í september 2015 um 1,2% frá fyrri mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,2%. Þá hækkaði kaupmáttur launa um 1,6% frá fyrri mánuði og hefur vísitala kaupmáttar launa því hækkað um 6,2% síðustu tólf mánuði. Nánar á vef Hagstofunnar.


Atvinnuleysi mældist 3,8% í september

Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 188.400 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í september 2015, sem jafngildir 81,4% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 181.300 starfandi og 7.100 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 78,4% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,8%. Samanburður mælinga fyrir september 2014 og 2015 sýnir að atvinnuþátttaka jókst um 2,3 prósentustig og hlutfall starfandi fólks af mannfjölda jókst einnig eða um 2,5 stig. Atvinnuleysi dróst hins vegar saman um 0,3 prósentustig frá því í september 2014, úr 4,1% í 3,8%.


Atkvæðagreiðsla um nýjan samning við ríkið

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning við ríkið  hefst kl. 09:00 miðvikudaginn 21. október og stendur til miðnættis fimmtudaginn 29. október nk. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða kynntar daginn eftir. Atkvæðagreiðslan verður með rafrænum hætti og eru allir félagsmenn sem starfa eftir samningi SGS við ríkið á kjörskrá. Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta kosið á skrifstofum síns félags. Til að greiða atkvæði fara félagsmenn inn á heimasíðu Starfsgreinasambandsins (www.sgs.is) og smella á „Kjarasamningar 2015“ á forsíðunni. Þar getur viðkomandi greitt atkvæði með því að nota lykilorð sem hann fær sent í pósti. Allir kosningabærir félagsmenn fá sendan kynningarbækling í pósti í tengslum við atkvæðagreiðsluna, en bæklingurinn inniheldur m.a. lykilorð viðkomandi. Bæklingurinn verður sendur út á morgun (20. október) og ætti að berast fólki daginn eftir.


Samningur við Landsvirkjun samþykktur

Kjarasamningur Starfsgreinasambandsins og Landsvirkjunar sem undirritaður var 24. september síðastliðinn var samþykktur með 96% greiddra atkvæða. Samningurinn var lagður fyrir í póstatkvæðagreiðslu og lauk henni 16. október 2015. 23 starfsmenn voru á kjörskrá og kusu 17 af þeim, sem sagt 74% kjörsókn. Já sögðu 16 og nei sagði einn. Samningurinn telst því samþykktur og gildir hann afturvirkt frá 1. mars 2015 til 31. desember 2018.


Síða 1 Af 212