Hafa samband

Dyggur stuðningur við starfsmenn í Straumsvík

Fjöldi aðildarfélaga SGS hafa sent frá sér ályktanir og stuðningsyfirlýsingar til að lýsa yfir stuðningi við baráttu starfsmanna álversins í Straumsvík, en þeir standa í harðri kjaradeilu við sinn atvinnurekanda (Rio Tinto Alcan) um þessar mundir ásamt sínu stéttarfélagi. Í yfirlýsingunum lýsa félögin m.a. yfir eindrægnum stuðningi við starfsmennina og Verkalýðsfélagið Hlíf, hvetja til samstöðu starfsmanna í Straumsvík og allrar verkalýðshreyfingarinnar og fordæma jafnframt verkfallsbrot yfirmanna Ísal í Straumsvík sem í gærmorgun gengu í störf hafnarverkamanna í löglega boðuðu verkfalli þeirra.


Nýr kjarasamningur aðildarsamtaka ASÍ samþykktur

Sameiginlegri allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ um kjarasamning milli aðildarsamtaka ASÍ og SA frá 21. janúar 2016 lauk kl. 12 á hádegi í dag. Já sögðu 9.274 eða 91,28%. Nei sögðu 832 eða 7,81%. Auðu skiluðu 97 eða 0,91%. Kjarasamningurinn var því samþykktur. Á kjörskrá voru 75.635. Atkvæði greiddu 10.653 eða 14,08%.


Átak gegn ólöglegri sjálfboðastarfsemi

Starfsgreinasamband Íslands er í átaki gegn ólöglegri sjálfboðastarfsemi og hefur í vikunni sent meira en 50 bréf til atvinnurekenda sem auglýsa eftir erlendum sjálfboðaliðum á til þess gerðum heimasíðum. Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins um allt land hafa síðan fylgt því eftir með því að heimsækja viðkomandi atvinnurekanda eða hafa það í hyggju á næstunni. Starfsgreinasambandið hefur einbeitt sér að atvinnurekendum sem reka gististaði og hótel, eru í annarri ferðaþjónustu eða óska eftir sjálfboðaliðum á lögbýli.


Formannafundur SGS – tveir formenn kvaddir

Síðastliðinn föstudag (19. febrúar) hélt Starfsgreinasambandið formannafund í höfuðstöðvum sambandsins í Reykjavík. Til fundarins voru boðaðir formenn allra aðildarfélaga sambandsins, 19 talsins.

Á dagskrá fundarins var m.a. erindi frá Vinnueftirlitinu þar sem Kristinn Tómasson læknir Vinnueftirlitsins fjallaði um ofbeldi, áreiti og einelti og úrræði við þeim og innlegg frá NPA-miðstöðinni þar sem þeir Rúnar Björn Þorkelsson, formaður NPA-miðstöðvarinnar og Hallgrímur Eymundsson, stjórnarmaður, kynntu hugmyndafræði NPA og starfsemi samtakanna fyrir fundarmönnum. Á fundinum var samþykkt ályktun vegna kjaradeilu starfsfólk í Álverinu í Straumsvík, en í henni lýsir SGS yfir þungum áhyggjum af kjaradeilu starfsfólks í álverinu í Straumsvík við óbilgjarna viðsemjendur, en um leið yfir fullum stuðningi við starfsfólk í álverinu og þeirra stéttarfélög í baráttunni. Ályktunina í heild sinni má sjá hér. Þá voru stór sameiginleg verkefni aðildarfélaga SGS svo sem barátta gegn mansali og sjálfboðastörfum rædd og ákveðið hvernig skuli halda áfram störfum á þessum vettvangi.


SGS stendur við bakið á starfsfólki álversins í Straumsvík

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands, sem haldinn var fyrr í dag (19. febrúar) lýsir yfir þungum áhyggjum af kjaradeilu starfsfólks í álverinu í Straumsvík við óbilgjarna viðsemjendur. Kröfur þeirra stéttarfélaga sem hlut eiga að máli eru sanngjarnar en þeim er mætt af ábyrgðaleysi og hroka. Deilan er orðin langvarandi og alvarleg og yfirlýsingar hins alþjóðlega móðurfyrirtækis um launafrystingu verður einungis skilin sem aðför að samningsfrelsi á íslenskum vinnumarkaði. Það mun ekki líðast og Starfsgreinasambandið skorar á Samtök atvinnulífsins og Rio Tinto Alcan að ganga nú þegar til samninga við launafólk í álverinu og skapa sátt á íslenskum vinnumarkaði. Jafnframt lýsir formannafundur Starfsgreinasambandsins yfir fullum stuðningi við starfsfólk í álverinu og þeirra stéttarfélög í baráttunni.


Upprætum brotastarfsemi á vinnumarkaði

Alþýðusamband Íslands hefur í samstarfi við aðildarsamtök sín hleypt af stokkunum verkefninu Einn réttur, ekkert svindl! Verkefninu er beint gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi en síðustu mánuði hafa stéttarfélögin orðið vör við vaxandi brotastarfsemi á vinnumarkaði. Sérstaklega í byggingargeiranum og ferðaþjónustunni sem eru helstu vaxtargreinar í þeirri uppsveiflu sem nú ríkir á vinnumarkaði.


Atkvæðagreiðsla um kjarasamning hófst í morgun

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins hófst kl. 8:00 í morgun og stendur hún til kl. 12 á hádegi 24. febrúar næstkomandi.

Í gær, 15. febrúar, sendi ASÍ út kynningargögn um samninginn og atkvæðagreiðsluna í pósti og ættu þau að hafa borist öllum sem eru á kjörskrá á tímabilinu 16. – 19. febrúar. Í gögnunum er að finna lykilorð sem viðkomandi notar til að greiða atkvæði. Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta kosið á skrifstofum síns félags. Til að greiða atkvæði er t.a.m. hægt að fara inn á heimasíðu Starfsgreinasambandsins (www.sgs.is) og smella á vefborðann á forsíðunni. Þar getur viðkomandi greitt atkvæði með því að nota lykilorðið sem hann fær sent í pósti.


Vel heppnaðir fræðsludagar starfsfólks

Dagana 8. og 9. febrúar stóð Starfsgreinasambandið fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk aðildarfélaga sambandsins og voru þeir að þessu sinni haldnir á Lækjarbrekku í miðbæ Reykjavíkur. Þetta var í þriðja skipti sem slíkir dagar voru haldnir. Mætingin var með besta móti en alls mættu 30 fróðleiksfúsir fulltrúar frá alls 14 félögum. Lagt var upp með að hafa dagskrána sem gagnlegasta og því var leitað til þátttakenda eftir hugmyndum.


Atvinnuleysi mældist 3,1% á fjórða ársfjórðungi 2015

Á fjórða ársfjórðungi 2015 voru 189.200 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 183.300 starfandi og 5.900 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 81,6%, hlutfall starfandi mældist 79% og atvinnuleysi var 3,1%. Frá fjórða ársfjórðungi 2014 fjölgaði starfandi fólki um 5.300 og hlutfallið jókst um 1,5 prósentustig. Atvinnulausum fækkaði á sama tíma um 1.800 manns og hlutfallið sömuleiðis um eitt prósentustig. Atvinnulausar konur voru 2.100 og var atvinnuleysi á meðal kvenna 2,3%. Atvinnulausir karlar voru 3.800 eða 3,8%. Atvinnuleysi var 3,6% á höfuðborgarsvæðinu en 2.2% utan þess.


Erlent starfsfólk í brennidepli

Það hefur varla farið fram hjá neinum að fjölgun útlendinga á íslenskum vinnumarkaði hefur verið mikil undanfarin misseri og er ekki fyrirséð hver sú fjölgun mun endanlega verða. Þessi mikla fjölgun hefur því miður haft í för með sér stöðugt vaxandi vanda vegna undirboða á vinnumarkaði og tíð brot á kjarasamningum. Upp hafa komið fjölmörg dæmi um erlent starfsfólk sem starfar hjá erlendum „þjónustuveitendum með tímabundna starfsemi“  hér á landi sem fær laun og önnur starfskjör sem eru langt undir því sem íslenskir kjarasamningar kveða á um. Einnig er starfsemi starfamannaleiga vaxandi og þá eru einnig dæmi um gerviverktöku. Við þessari þróun er mikilvægt að sporna, m.a. með aukinni fræðslu og upplýsingagjöf sem og stórbættu eftirliti á vinnustöðum.