Hafa samband

Skorað á heilbrigðisráðherra

Tuttugu og tvö stéttarfélög um allt land á almenna markaðnum og hjá hinu opinbera hafa skorað á heilbrigðisráðherra að löggilda starfsheitið félagsliði. Félagsliðar hafa barist fyrir því að verða löggilt heilbrigðisstétt um árabil en lítið hefur gengið. Löggilding félagsliða er ekki bara mikilvæg fyrir framgang stéttarinnar heldur ekki síst fyrir gæði þjónustu við þann vaxandi hóp sem þarf á aðstoð að halda. Fulltrúar félagsliða gengu á fund heilbrigðisráðherra í nóvember síðastliðnum til að tala fyrir löggildingu en engar fréttir hafa borist af framgangi málsins. Á fræðsludegi félagsliða sem haldinn var nýverið er ljóst að krafan um löggildingu er sterk innan stéttarinnar enda ólíðandi að félagsliðar sitji ekki við saman borð og sambærilegar stéttir.

Áskorunina má sjá hér.


Fræðsludagur félagsliða

Nær þrjátíu félagsliðar af öllu landinu hittust á Selfossi 30. mars til að bera saman bækur sínar, fræðast og fjalla um stöðu stéttarinnar. Félagsliðar eru vaxandi stétt en hafa því miður ekki notið þeirrar stöðu sem sjálfsögð er til dæmis með að löggilda starfsheitið félagsliði sem heilbrigðisstétt. Áskorun hefur verið send á heilbrigðisráðherra í kjölfar bréfaskipta og funda og eru bundnar vonir við að málið nái fram að ganga. Á fræðslufundinum var fjallað um kjarasamninga, starfsmat sveitarfélaganna, áhrif vaktavinnu á heilsu og vellíðan og einnig var erindi um hvernig best sé að rækta sjálfa/n sig. Góður rómur var gerður að fræðsludeginum sem var haldinn í annað sinn á vegum Starfsgreinasambandsins og nú í samstarfi við Félag íslenskra félagsliða. Sterk krafa var um að slíkur dagur skyldi haldinn allavega á árs fresti.


Mansal á vinnumarkaði – Handbók fyrir starfsfólk stéttarfélaga

Starfsgreinasamband Íslands hefur gefið út handbók um mansal á vinnumarkaði, en handbókinni er ætlað að auðvelda starfsfólki stéttarfélaga að þekkja mansal, geta greint það og ekki síst að upplýsa um hvert á að snúa sér þegar grunsemdir um mansal vakna. Í bókinni er m.a. að finna skilgreiningar á mansali sem og upplýsingar um helstu einkenni og vísbendingar um mansal á vinnustöðum eða meðal starfsfólks. Þá eru settar fram gagnlegar spurningar fyrir starfsfólk stéttarfélaganna sem gott er að hafa í huga þegar einstaklingar leita til stéttarfélaganna vegna mansalsmála og jafnframt nokkrar meginreglur varðandi viðbrögð stéttarfélaga þegar upp koma mál þar sem grunur er um mansal.


Nýr kjarasamningur við Landssamband smábátaeigenda

Starfsgreinasambandið undirritaði í dag nýjan kjarasamning við Landssamband smábátaeigenda vegna starfsfólks sem vinnur við uppstokkun eða beitningu í landi annarra en þeirra sem eru hlutaráðnir. Samningurinn gildir jafnframt fyrir starfsmenn sem starfa við netavinnu. Samið var um sams konar hækkanir og samið var um í almenna kjarasamningnum á milli ASÍ og SA, þ.e. til viðbótar við þá samninga sem þegar höfðu verið gerðir var samið um auka kauphækkanir og hærra framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð. Kauphækkanir verða afturvirkar frá 1. janúar 2016 og hækkar kauptryggingin þá um 8,7% í stað 8% eins og samið hafði verið um áður. Unnið er að útgáfu nýrra kauptaxta og nýs heildarsamnings sem birtur verður eins fljótt og auðið er. Samningurinn verður lagður fyrir stjórnir SGS og LS fyrir lok mánaðarins.


SGS færir ASÍ gjöf í tilefni 100 ára afmælisins

Starfsgreinasamband Íslands ákvað að færa Alþýðusambandi Íslands gjöf í tilefni aldarafmælisins en gjöfin er hundrað þúsund króna framlag í minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar. Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands. Eðvarð Sigurðsson var formaður Dagsbrúnar frá 1961 til 1982 og fyrsti formaður Verkamannasambandsins 1964-1975, en Verkamannasambandið er stærsta sambandið sem sameinaðist undir merkjum Starfsgreinasambands Íslands árið 2000. Minningarsjóðurinn var stofnaður árið 1983 og eru veittir úr honum styrkir til fræðslu og verkefna er varða íslenskt samfélag og málefni launafólks. Næst verður úthlutað úr sjóðnum 1. maí en umsóknir þurfa að berast fyrir 15. apríl.


Nýr samningur við Bændasamtök Íslands

Starfsgreinasamband Íslands undirritaði í dag nýjan kjarasamning við Bændasamtök Íslands um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf. Auk þess falla ráðskonur/matráðar á bændabýlum undir samninginn. Samningurinn nær ekki til þeirra starfsmanna sem starfa við ferðaþjónustu eða aðra starfsemi sem fellur ekki undir ofangreinda skilgreiningu. Starfsmenn, sem starfa við ferðaþjónustu í smærri stíl, geta þó fallið undir gildissvið samningsins enda sé það samþykkt af hálfu viðkomandi stéttarfélags.


Fræðsludagur félagsliða

Þann 30. mars næstkomandi verður hinn árlegi fræðsludagur félagsliða haldinn, en SGS og Félag íslenskra félagsliða halda daginn í sameiningu og er fræðslan opin félagsliðum um allt land óháð stéttarfélagi. Nauðsynlegt er að skrá sig til leiks fyrir 20. mars næstkomandi í gegnum netfangið drifa@sgs.is. Félagsliðar um allt land eru hvattir til að nýta sér þetta tækifæri til að fræðast og ekki síst hitta aðra félagsliða og ræða sameiginleg málefni.


Bann við núlltímasamningum

Barátta launafólks er erfið í mörgum löndum og víða þar sem vinnulöggjöf og verkalýðshreyfing er veik hefur öryggisleysi á vinnumarkaði aukist. Eitt helst áhyggjuefni í Evrópu og víða er staða ungs fólks sem fær einungis tímabundnar ráðningar, er íhlaupafólk og jafnvel með svokallaða núlltímasamninga, þar sem starfshlutfallið er sveigjanlegt eftir því hvaða vinna býðst þennan og þennan daginn. Þetta hefur leitt til þess að ungt fólk getur ekki skipulagt sig fram í tímann, veit ekki einu sinni hvað það fær útborgað næstu mánaðarmót og vonlaust að gera langtíma leigusamninga, hvað þá að festa kaup á húsnæði. Óöruggar ráðningar hafa því djúpstæð og alvarleg vandamál í för með sér fyrir eintaklinga og heilu samfélögin.


ASÍ 100 ára

Verkalýðshreyfingin er ein öflugasta félagshreyfing þjóðarinnar. Flestir vita af hreyfingunni, margir njóta þjónustu hennar, sýna skilning á hlutverki hennar en þeir eru líklega fleiri sem gera sér ekki grein fyrir hversu stórt hlutverk hennar er í sögu þjóðarinnar síðustu 100 árin. Þess vegna er mikilvægt að rifja upp söguna og vekja athygli á framlagi verkalýðshreyfingarinnar til mótunar íslensks samfélags. Þann 12. mars 2016 verða 100 ár liðin frá því að 20 einstaklingar frá sjö verkalýðsfélögum bundust samtökum til að efla samtakamátt sinn í baráttunni fyrir bættum kjörum og Alþýðusambandið varð til.


Bæklingur um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Allir eiga rétt á því að starfsumhverfi þeirra einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum. Í því felst að starfsmenn eiga rétt á því að njóta skilyrðislausrar verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Nú er kominn út bæklingur þar sem farið er yfir ýmis atriði tengt kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.


Síða 1 Af 212