Hafa samband

Vinna barna og unglinga

Í gær sendi Vinnueftirlitið bréf til stéttarfélaga, fyrirtækja, stofnana og annarra sem málið varðar þar sem fjallað er um vinnu barna og unglinga. Í skrá Vinnueftirlitsins fyrir árin 2010-2015 kemur fram að vinnuslys meðal ungs fólks eru algeng en á þessu tímabili voru 420 vinnuslys tilkynnt hjá 18 ára og yngri.  Vinnueftirlitið vill því vekja athygli á reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga en hún nær til vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Reglugerðina er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is. Vinnueftirlitið annast eftirlit með framangreindri reglugerð og að ákvæði hennar séu haldin.


Formenn funda í Grindavík

Dagana 2. og 3. júní heldur Starfsgreinasambandið útvíkkaðan formannafund sinn og verður hann að þessu sinni haldinn í húsakynnum Verkalýðsfélagsins í Grindavík, Víkurbraut 46. Til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi. Fundurinn hefst á hádegisverði formanna og ungliða aðildarfélaga SGS, en í framhaldinu munu fulltrúar ungliða gera grein fyrir fundarstörfum sínum dagana á undan ásamt því að ræða eflingu ungs fólks innan hreyfingarinnar. Fjölmörg önnur mál verða tekin fyrir á fundinum, en dagskrána í heild sinni má sjá hér að neðan.


Ungliðar hittast í Grindavík

Dagana 1.-2. júní næstkomandi mun rúmlega 20 manna hópur ungs fólks frá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins hittast á tveggja daga fundi í húsakynnum Verkalýðsfélagsins í Grindavík. Er þetta í fyrsta skipti sem sambandið stefnir ungliðum félaganna saman á þennan hátt, en markmiðið með fundarhöldunum er m.a. að vekja áhuga ungs fólks á málefnum verkalýðshreyfingarinnar og um leið hvetja þau til að taka virkan þátt í starfsemi sinna stéttarfélaga. Dagskráin er afar fjölbreytt og er lagt upp með að hafa hana bæði fróðlega og skemmtilega. Fjöldi áhugaverðra fyrirlesara munu fjalla um hin ýmsu málefni, m.a. samningatækni, hvernig á að koma sér á framfæri, hvernig á að fá sínu framgengt á fundum o.fl.


Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar heppnaðist vel

Á Íslandi er atvinnuþátttaka mest allra landa í Evrópu, 81,7% meðal fólks á aldrinum 15-64 ára, Íslendingar eru með fjórðu lengstu vinnuviku í Evrópu og hlutfall fólks sem vinnur lengri vinnuviku en 50 tíma er þriðja hæst í Evrópu. Þrátt fyrir þetta er verg landframleiðsla á Íslandi ekki í neinu samræmi við lengd vinnuvikunnar. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að of löng vinnuvika geti beinlínis haft skaðleg áhrif á heilsu. Þessar staðreyndir gáfu Reykjavíkurborg tilefni á til að kanna hvort stytting vinnuvikunnar á Íslandi geti haft jákvæð áhrif á samfélag og atvinnulíf.


Úttekt á stöðu mansals hér á landi

Fulltrúar sérfræðinganefndar Evrópusambandsins hafa verið hér á landi síðustu tvo daga til að skoða hvað við erum að gera til að stemma stigu við mansali. Á fimmtudag var haldinn vinnufundur með sérfræðingunum, lögreglunni, útlendingastofnun, þremur ráðuneytum, Vinnumálastofnun, Kvennaathvarfinu, Mannréttindaskrifstofunni, Rauða Krossinum og Starfsgreinasambandinu. Þessi hópur hefur unnið saman gegn mansali síðustu tvö árin og það var gagnlegt að geta borið mál og aðferðir undir hina erlendu sérfræðinga. Í dag, föstudag, var svo haldið opið málþing í Iðnó þar sem fjallað var frekar um málið.


Orlofsuppbót 2016

Starfsgreinasamband Íslands vill minna launafólk á rétt sinn á að fá greidda orlofsuppbót. Full uppbót árið 2016 er 44.500 kr. Þeir sem hafa verið í fullu starfi á orlofsárinu 1. maí 2015 – 30. apríl 2016 eiga rétt á fullri uppbót, en annars greiðist hún í samræmi við starfshlutfall og starfstíma. Orlofsuppbót er föst fjárhæð og reiknast orlof ekki ofan á orlofsuppbótina.


Formannaskipti hjá Samstöðu – Guðmundur tekur við af Ásgerði

Aðalfundur Stéttarfélagins Samstöðu var haldinn 10.maí síðastliðinn í sal Samstöðu að Þverbraut 1 á Blönduósi. Á fundinum hætti Ásgerður Pálsdóttir sem formaður félagsins og við tók Guðmundur Finnbogason, en Ásgerður hafði gengt formennsku í félaginu síðustu 15 árin. Guðmundur er svo sannarlega ekki reynslulaus þegar kemur að málefnum félagsins, en hann hefur verið formaður sjómannadeildar Samstöðu í 15 ár og setið í stjórn félagsins samhliða því. Þá hefur hann gengt trúnaðarmannastöðu um borð í frystitogaranum Arnari HU-1 um langa hríð.


Guðrún Elín Pálsdóttir nýr formaður Verkalýðsfélags Suðurlands

Aðalfundur Verkalýðsfélags Suðurlands var haldinn að Heimalandi, Vestur-Eyjafjöllum, þann 27.apríl síðastliðinn. Fyrir utan hefðbundin aðalfundarstörf áttu sér stað formannaskipti í félaginu. Már Guðnason lét af embætti eftir að hafa gengt hefur formennsku í félaginu frá stofnun þess árið 2001 og við tók Guðrún Elín Pálsdóttir. Enginn bauð sig fram á móti Guðrúnu til formanns félagsins og var hún því sjálfkjörin.


Hrakvinna birtist víða

Töluverð umfjöllun hefur verið undanfarið um hrakvinnu í ýmsum myndum, þ.e. vinnu sem brýtur í bága við lög, kjarasamninga og skilyrði um aðbúnað. Margir virðast eiga erfitt með að greina á milli sjálfboðastarfa, vistráðningar (AU-pair) og eðlilegrar vinnu. Starfsgreinasambandið hefur því tekið saman skilyrði fyrir vistráðningu annars vegar og umfjöllun um sjálfboðastörf hins vegar eftir því sem upplýsingar leyfa. Verið er að endurskoða lög um vistráðningar og enn er beðið eftir reglugerð um slíkt. Þá eru aðilar vinnumarkaðarins að rýna í mörk sjálfboðastarfa og hvað telst eðlilegt og löglegt í því samhengi. Upplýsingasíður SGS verða uppfærðar jafnóðum þegar tilefni er til.


Gagnaleki víðar en frá Panama

Viðræður á milli Evrópu og Bandaríkjanna um fríverslun hafa farið svo leynt að það var bannað að birta nokkur skjöl úr viðræðunum næstu 30 árin. Í síðustu viku aprílmánaðar varð hins vegar leki sem sýndi fram á að ótti verkalýðsfélaga um innihald samningsins á við rök að styðjast. Opnað er fyrir í matvælaflutning á milli svæðanna og til dæmis má ef samningurinn verður undirritaður flytja erfðabreytt matvæli frá Bandaríkjunum til Evrópu.


Síða 1 Af 212