Hafa samband

Erindrekstur um allt land

Forysta Starfsgreinasambandsins  hélt áfram erindrekstri nú eftir áramótin og á síðustu tveimur dögum hafa Björn Snæbjörnsson formaður SGS, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir varaformaður SGS og Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS heimsótt fjögur aðildarfélög. Þetta eru félögin Hlíf í Hafnarfirði, Drífandi í Vestmannaeyjum, Verkalýðsfélag Vestfjarða á Ísafirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur. Auk hefðbundinna umræða um stöðu Starfsgreinasambandsins og framtíð hefur fundarmönnum orðið tíðrætt um forsendur kjarasamninga og endurskoðun í febrúar og að sjálfsögðu hefur gefist góður tími til að fjalla um stöðu landverkafólks í sjómannaverkfallinu. Nú hefur þríeykið heimsótt 17 aðildarfélög af 19 og er ætlunin að ljúka yfirferðinni í byrjun febrúar. Eftir það verður unnið úr öllum þeim fjölmörgu ábendingum og hugmyndum sem hafa safnast í sarpinn.

Í Vestmannaeyjum var auk hefðbundins stjórnarfundar boðað til almenns félagsfundar vegna stöðu starfsfólks í fiskvinnslu og er þungt í fólki hljóðið en samstaða með sjómönnum áberandi.

 


Keðjuábyrgð reynist vel í Noregi

Íslendingar þekkja of vel margar þeirra áskorana sem stéttarfélög í Noregi standa frammi fyrir. Samkvæmt lögreglunni þar í landi eru glæpir á vinnumarkaði ört vaxandi. Fyrir utan hreina glæpastarfsemi eru starfsmannaleigur þyrnir í augum stéttarfélaganna auk tímabundinna ráðningarsamninga. Þá færist það í vöxt að fólk er ráðið „án launa á milli verkefna“ sem þýðir að fólk fær bara greitt þegar vinnu er að hafa en er án launa þess á milli þrátt fyrir að vera í ráðningasambandi. Þarna er komin ný útfærsla á því sem mörg lönd glíma við sem eru núlltímasamningar, sem sagt ráðningasamningar með breytilegu starfshlutfalli eftir því hvaða verkefni liggja fyrir. Þetta gerir það að verkum að launafólk veit aldrei hvað það fær útborgað eða hvað það vinnur mikið.  Afleiðingarnar eru þær að fólk getur ekki gert áætlanir fram í tímann og er eins og daglaunafólk var í gamla daga, án starfsöryggis og öruggrar framfærslu. Þetta er meðal þess sem fram kom í heimsókn SGS til systursamtakanna Fellesforbundet í Noregi á dögunum.


Kjarasamningsumhverfið í Noregi

Í Noregi eru gerðir kjarasamningar á tveggja ára fresti og næstu samningar eru árið 2018. Þetta er ljóst og allir vinna samkvæmt þessum áherslum. Misjafnt er hvort að landssamböndin innan LO (Norska ASÍ) fara sameinuð í viðræðurnar eða sitt í hvoru lagi. Þegar farið er saman er meiri kraftur í kröfunum en á móti kemur að þá er erfiðara að ná fram sérkröfum. Iðnaðurinn semur iðulega fyrst og setur fyrirmyndina fyrir svigrúmið í kjarasamningum fyrir aðra hópa.


Glærur af ráðstefnu um hlutastörf og vaktavinnu

Starfsgreinasamband Íslands hélt ráðstefnu þann 12. janúar síðastliðinn um lífsgæði og kjör starfsfólks í hlutastörfum og vaktavinnu. Fast að 100 manns sótti ráðstefnuna enda fyrirlestrarnir hverjum öðrum betri. Streymt var frá rástefnunni og má sjá upptökur á facebook-síðu Starfsgreinasambandsins


SGS á ferð um Norðurlönd

Fulltrúar aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hafa verið á ferð um Noreg og Danmörku til að kynna sér kjarasamningsgerð og uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar þar í löndum. SGS hittu Fällesforbundet i Noregi, sem eru systursamtök SGS og stærstu landssamtök innan norska ASÍ (LO). Þá var haldin kynning á framkvæmd verkfalls starfsfólks í hótel- og veitingagreinum í fyrrasumar sem SGS studdi með ráðum og dáð, auk þess sem farið var yfir verklag  við kjarasamningagerð.


Yfirlýsing frá Starfsgreinasambandi Íslands vegna starfsfólks í fiskvinnslu

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) krefst þess að fiskvinnslufyrirtæki tryggi afkomu starfsfólks sem af einhverjum ástæðum á lítinn eða engan rétt á atvinnuleysisbótum. Samkvæmt áliti Vinnumálastofnunar er því ekkert til fyrirstöðu að þau fyrirtæki sem beitt hafa grein um „ófyrirséð áföll“ í kjarasamningum og vísað fólki á atvinnuleysisbætur geti einnig nýtt kauptryggingarákvæði fyrir starfsfólk sem fær ekki atvinnuleysisbætur. Þannig má tryggja afkomu alls starfsfólks í landvinnslu. Jafnframt mun Starfsgreinasamband Íslands beita sér fyrir því að þau ákvæði sem fiskvinnslufyrirtæki hafa beitt til að komast hjá launagreiðslum í verkfalli sjómanna verði endurskoðuð.


Bein útsending frá ráðstefnu 12. janúar

Starfsgreinasamband Íslands boðar til ráðstefnu þann 12. janúar 2017 um lífsgæði og kjör starfsfólks í hlutastörfum og vaktavinnu. Sjónvarpað verður beint frá ráðstefnunni í gegnum facebook-síðu Starfsgreinasambandsins og eru félagar um allt land hvattir til að nýta sér tæknina.


Starfsgreinasamband Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við sjómenn í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir

Þær vinnudeilur sem sjómenn og útgerðarmenn standa nú í hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir landverkafólk. Fiskvinnslufyrirtæki hafa nýtt sér ákvæði í landslögum sem gerir þeim kleift að senda fiskvinnslufólk á atvinnuleysisbætur vegna „ófyrirséðra áfalla“ í stað þess að njóta kauptryggingar vegna hráefnisskorts eins og hingað til hefur tíðkast. Með þessu spara fyrirtæki sér launakostnað í verkfallinu en að sama skapi geta fyrirtæki ekki vænst þess að fólk snúi aftur til vinnu eftir að deilan leysist.


Atvinnuleysisbætur hækkuðu um 7,5% um áramót

Atvinnuleysisbætur hækkuðu um 7,5% frá 1. janúar 2017. Grunnatvinnuleysisbætur eru því 217.208 krónur á mánuði en voru 202.054 krónur. Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 342.422 kr. á mánuði eftir hækkun en voru 318.532 krónur fyrir hækkun. Þessi hækkun kemur í kjölfar gagnrýni á að bætur hafi ekki hækkað hlutfallslega jafn mikið og lágmarkslaun, en grunnatvinnuleysisbætur eru nú 83,5% af lágmarkslaunum. Nánar um fjárhæðir atvinnuleysisbóta má sjá hér: https://www.vinnumalastofnun.is/atvinnuleysisbaetur/fjarhaedir-atvinnuleysisbota