Hafa samband

Ályktanir þings Starfsgreinasambands Íslands

Ályktanir þings Starfsgreinasambands Íslands

Á þingi Starfsgreinassamband Ísland daganna 13-14 október síðastliðinn voru samþykktar sjö ályktanir er varða hagsmuni verkafólks á Íslandi. Meðfylgjandi í viðhengi eru allar ályktanirnar, og hér að neðan er stutt samantekt á innihaldi þeirra:

Ályktun um kjaramál

Í þessari ályktun er ríkisstjórnin hvött til þess að standa við þau loforð sem hún gaf út samhliða undirritun kjarasamninga í vor. Þingið bendir á að það sé ákveðin hætta á að forsendur kjarasamninga séu brostnar hvað varðar verðbólgu, gengi krónunnar og framkvæmdir til að vinna bug á átvinnuleysi. Þá valda ákveðnir þættir í nýútkomnu fjárlagafrumvarpi vonbrigðum.

Ályktun um efnahags- og atvinnumál

Þing SGS hefur miklar áhyggjur af stöðu efnahags- og atvinnumála. Það sé forgangsmál að auka arðbærar fjárfestingar svo unnt sé að örva hagvöxt og skapa störf. Stjórnvöld, atvinnulíf og fjármálakerfið eru hvött til þess að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar með því að stuðla að auknum fjárfestingum.

Ályktun um málefni heimilanna

Þing SGS hefur miklar áhyggjur af erfiðari stöðu heimila í landinu og eru fjármálastofnanir hvattar til að axla sína ábyrgð á skuldavanda heimilanna. Það sé mikilvægt að skapa þá efnahagsumgjörð að hægt sé að lækka vexti til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum Íslands. Þá telur þing SGS að mikilvægt að stjórnvöld (ríki og sveitarfélög) endurskoði tekju- og eignatengingar í vaxtabóta-, barnabóta-, og húsaleigubótakerfinu.

Ályktun um leiðréttingu forsendubrests

Þing SGS krefst þess að bankar og fjármálastofnanir leiðrétti skuldir heimilanna vegna þess forsendubrests sem varð á lánum heimila við efnahagshrunið 2008.

Ályktun um jafnréttismál

Þing SGS leggur áherslu á að kynbundinn launamunur sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði sé ólíðandi og mikilvægt sé að aðilar vinnumarkaðarins finni leiðir til að útrýma þessu ranglæti.

Ályktun um atvinnuleysisbætur

Þing SGS harmar afstöðu stjórnvalda gagnvart atvinnulausum sem endurspeglast í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi og krefst þess að fallið verði frá þeim áformum. Þess er krafist að stjórnvöld hækki bætur í samræmi við hækkun launataxta þeirra tekjulægri og greiði atvinnuleysisbætur í allt að fjögur ár.

Ályktun um séreignalífeyrissparnað

Þing SGS mótmælir harðlega vanhugsaðri fyrirætlun stjórnvalda að lækka skattfrelsi iðgjalda í séreignsjóði, þar sem slíkt mun hafa neikvæð áhrif á langtímasparnað sem er forsenda aukinnar fjárfestinga. Aðildarfélög SGS munu hvetja sína félagsmenn til að hætta að leggja í séreignasparnað af eigin launum, því annars lendir fólk í tvísköttun.