Hafa samband

4. þing Starfsgreinasambands Íslands

4. þing Starfsgreinasambands Íslands verður sett í Hofi á Akureyri þann 16. október 2013 klukkan 15:00 undir yfirskriftinni Samstaða og Samvinna. Þingið mun fjalla um kjaramál í aðdraganda kjarasamninga, atvinnumál almennt, húsnæðismál og fleira. Þegar formaður Starfsgreinasambandsins, Björn Snæbjörnsson hefur sett þingið munu þau Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ flytja ávörp.


Heimsókn frá Færeyskum félögum

Síðastliðinn föstudag fékk Starfsgreinasambandið góða heimsókn frá félögum sínum í Færeyjum. Formenn fimm stéttarfélaga í Færeyjum funduðu þá með starfsmönnum SGS og ASÍ m.a. til að fræðast um helstu lög, reglur og réttindi á íslenska vinnumarkaðnum og hin ýmsu atriði í kjarasamningum SGS.

Formennirnir komu frá eftirfarandi félögum; Føroya Arbeiðarafelag, Havnar Arbeiðsmannafelag, Havnar Arbeiðskvinufelag, Klaksvíkar Arbeiðsmannafelag og Klaksvíkar Arbeiðskvinnufelag. Fundurinn var gagnlegur fyrir báða aðila, enda voru gestirnir ekki síður duglegir við að upplýsa sína íslensku kollega um stöðuna á Færeyskum vinnumarkaði.


Alþýðusamband Norðurlands hvetur til stuttra samninga

Alþýðusambandsþingi Norðurlands lýkur í dag og voru eftirfarandi ályktanir samþykktar, annars vegar um  efnahags- kjara- og atvinnumál og hins vegar um flugvöllinn í Vatnsmýri

Ályktun um efnahags- kjara- og atvinnumál

33. þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahags-, kjara- og atvinnumála í landinu.

33. þing Alþýðusambands Norðurlands hvetur aðila vinnumarkaðarins til að hraða vinnu við endurnýjun kjarasamninga.

Vegna mikillar óvissu í efnahagsstjórnun landsins telur þingið óráðlegt að semja til lengri tíma en 6 til 12 mánaða.Í slíkum samningi þarf fyrst og fremst að leggja áherslu á aukinn kaupmátt, sem næðist með hækkun launa og persónuafsláttar sem kæmi öllum launamönnum til góða. Jafnframt þarf að hefja vinnu við lengri samning sem tekur við af skammtímasamningi.


Þing Alþýðusambands Norðurlands

Mikill samhugur og samstaða er á þingi Alþýðusambands Norðurlands sem nú stendur yfir á Illugastöðum. Kjaramál eru eðlilega ofarlega á baugi enda stutt þangað til kjarasamningar renna út. Formaður starfsgreinasambandsins, varaformaður Samiðnar og formaður Landssambands Verslunarmanna eru meðal fulltrúa og fóru þau yfir stöðuna fyrir hvert samband fyrir sig. Samhljómur var um stutta samninga og öll brýndu þau til samstöðu og haft var á orði að ef samhugurinn sem ríkir á Norðurlandi væri meðal allrar verkalýðshreyfingarinnar gæti okkur orðið vel ágengt í næstu kjarasamningum.


Undirbúningur kjarasamninga og viðræðuáætlanir

Starfsgreinasamband Íslands gerir fjölda kjarasamninga, en þeir sem snúa að almenna markaðnum renna út í lok nóvember næstkomandi. Fyrstan ber að nefna aðalkjarasamninginn sem er gerður við Samtök atvinnulífsins og sérstakan kjarasamning um veitinga- og gististaði, einnig við SA. Nokkrir sérkjarasamningar eru gerðir á grunni aðalkjarasamningsins; við Bændasamtök íslands vegna fólks sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum, við Landssamband smábátaeigenda vegna fólks sem starfar við beitningu, við NPA-miðstöð vegna aðstoðarfólks fatlaðs fólks, við Landsvirkjun og við Edduhótelin.

Lögum samkvæmt ber að gefa út viðræðuáætlanir í aðdraganda kjaraviðræðna og er búið að gefa út slíkar áætlanir fyrir nokkra samninga. Enn á eftir að gefa út viðræðuáætlun fyrir aðalkjarasamning og er það í ferli hjá ríkissáttasemjara. Starfsgreinasambandið hefur skipt með sér verkum í kjaraviðræðum og skipa þau Björn Snæbjörnsson, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Finnbogi Sveinbjörnsson samningaráð. Margir undirhópar eru að störfum, bæði vegna einstakra kafla í aðalkjarasamningi og einstaka samningum. Stóru samninganefndina skipa formenn allra aðildarfélaga SGS sem hafa veitt umboð til samningagerðar – alls 16 félög.  Samninganefndin hittist næst mánudaginn 7. október til að fara yfir stöðuna eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram.


Kynbundinn launamunur á Íslandi yfir meðaltali Evrópuríkja

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stendur í dag fyrir málstofu um jafnrétti á vinnumarkaði undir yfirskriftinni „Equality pays off“ eða „Jafnrétti borgar sig“. Málstofan er hluta af stærra evrópuverkefni og er sambærilegur vettvangur skapaður í öllum Evrópulöndum. Á málstofunni voru aðilar vinnumarkaðarins og stjórnendur fyrirtækja sem miðluðu af reynslu sinni og ræddu hvernig auka megi hlut kvenna í atvinnulífinu og styrkja framgang þeirra í starfi.

Í tengslum við málþingið voru teknar saman tölur um jafnrétti hér á landi og þær bornar saman við það sem gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Slæmu fréttirnar eru þær að kynbundinn launamunur er hærri hér á landi (18,1%) en meðaltali í Evrópu er (16,2%). Hins vegar er atvinnuþátttaka íslenskra kvenna töluvert hærri hér á landi eða 77,88% á móti 58,6% að meðaltali í Evrópu. Þá er atvinnuleysi kvenna töluvert minna hér á landi (5,8%) en að meðaltali í Evrópu (10,6%). Hlutfall kvenna í hlutastörfum er á pari við það sem gerist að meðaltali í Evrópu (32%) en áhugavert er að karlar hér á landi eru hlutfallslega fleiri í hlutastörfum en karlar í Evrópu (10,9% á móti 8,4%).

Þegar litið er til kvenna í stjórnunarstöðum erum við hærri en meðaltalið hvað varðar konur sem sitja í stjórnum fyrirtækja, hins vegar erum undir meðaltalinu þegar kemur að hlutfalli kvenna sem eru ráðnar í stjórnunarstöður (25% á móti 33% í Evrópu).

Þó þessar tölur gefi vísbendingar verður þó að taka fram að Evrópuríkin eru afar misjafnlega á veg komin í jafnréttisátt. Hér má nálgast upplýsingar um Ísland og stöðu þess í jafnréttismálum gagnvart Evrópu: http://ec.europa.eu/justice/gender-equality/equality-pays-off/spotlight-on-your-country/index_en.htm


Starfsgreinasambandið ræðir kröfugerð

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hélt útvíkkaðan fund á Hótel Heklu til að fara yfir kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga. Sextán félög hafa veitt Starfsgreinasambandinu umboð til samninga á hinum almenna markaði og kröfugerðir hafa borist frá flestum félögum.

Töluverð óvissa er um hvernig framhald viðræðna verður enda liggur ekki fyrir endanleg viðræðuáætlun við Samtök Atvinnulífsins auk þess sem óvíst er hvernig ákvarðanir ríkisstjórnarinnar munu hafa áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna.

Niðurstaða fundarins var að semja bæri til skamms tíma vegna óvissu í efnahagsmálum en þó er ljóst að staða margra hópa innan SGS er sterk til að sækja bætt kjör. Í því sambandi bera helst að nefnda fiskvinnsluna, aðrar útflutningsgreinar auk ferðaþjónustunnar. Þá er skýr krafa um hækkun lægstu launa og að aukið nám skili sér í hækkun launa.

Til að bæta kjör launafólks þarf ríkisvaldið að koma að samningunum og er efsta krafa á blaði hækkun persónuafsláttar. Þá er brýnt að koma á betra húsnæðis- og leigukerfi á félagslegum grunni.

Skýr vilji var meðal þessara 16 aðildarfélaga að ganga sameinuð til kjarasamninga og var ákveðin verkaskiptingu innan sambandsins í komandi viðræðum. Björn Snæbjörnsson var kjörinn formaður samninganefndar og talsmaður hennar.

 

 


16 félög hafa veitt SGS samningsumboð

Undanfarna mánuði hefur Starfsgreinasambandið og félög þess unnið hörðum höndum við undirbúning næstu kjarasamninga. Undirbúningurinn hófst formlega síðasta vetur með kjaramálaráðstefnum sem SGS stóð fyrir, en síðan þá hafa félögin, hvert í sínum ranni, haldið undirbúningnum áfram.

Fjölmargir fundir hafa verið haldnir, kannanir gerðar og nú að undanförnu hafa félögin verið að móta sínar kröfugerðir fyrir komandi samninga. Alls hafa 16 félög innan Starfsgreinasambandsins skilað inn samningsumboði til sambandsins sem og kröfugerðum. Í næstu viku mun samninganefnd SGS koma saman á tveggja daga fundi og móta sameiginlega kröfugerð sem verður í framhaldinu lögð fyrir Samtök atvinnulífsins.


Ertu verktaki eða starfsmaður?

Það er mikill munur á því að vera launamaður eða verktaki og mikilvægt að fólk átti sig á í hverju munurinn felst. Sem launamaður ertu með ráðningasamning og safnar réttindum á vinnumarkaði, atvinnurekandinn sér um að greiða af þér skatta og þess háttar og þú ert varinn af lögum sem launamaður. Ef þú ert verktaki ertu í raun að selja þjónustu og þú átt í viðskiptum án þess að njóta réttinda sem launamaður eða ávinna þér slíkt. Því miður er þessu stundum ruglað saman og launamönnum boðið uppá að vera verktakar.


Vafasöm vímuefnapróf

Persónuvernd hefur undanfarna mánuði fengið fjölda ábendinga vegna vímuefnaprófana á vinnustöðum og skráningu persónuupplýsinga um starfsmenn. Í mánuðinum birti Persónuvernd álit sitt og kemur þar fram að vafi leiki á að heimildir séu fyrir slíkum prófum. Ekki er fjallað um þau í lögum eða kjarasamningum og þó að atvinnurekendur fái samþykki starfsmanna fyrir slíkum prófum þá er ekki víst að þau standist reglur.


Síða 2 Af 22123...Síðast