Hafa samband

Var logið 2008? Er það málið?

Ábyrgir embættismenn í Hollandi ásaka nú Fjármálaeftirlitið íslenska um að hafa logið að sér varðandi stöðu íslensku  bankanna í ágúst 2008. Fyrrverandi forstjóri fjármálaeftirlitsins ber af sér sakir og vísar í milliuppgjör bankanna og löggilta endurskoðendur um að hér hafi allt verið í stakasta lagi. Þessu trúðu stjórnvöld eða a.m.k. vildu ekki trúa öðru. Allri gagnrýni á hina miklu útrásarvíkinga var vísað á bug með fyrirlitningu. Menntamálaráherrann þáverandi  vildi að virtur erlendur sérfræðingur sem varaði við hruninu vorið 2008 „færi í endurmenntun“ og þáverandi bankamálaráherra  svaraði gagnrýni aftur til ársins 2006 sem alvarlegum ásökunum „þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum,  sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum.“ Þetta var þann 5. agúst 2008 aðeins tveim mánuðum fyrir hrun og hann bætti við;  „ítarleg greining þessara lykilstofnana gefa ekkert annað til kynna en að íslenska bankakerfið sé mjög stöndugt.“ Auðvita trúa vandaðir embættismenn í Hollandi ekki öðru en að íslensk stjórnvöld hafi vitað eða a.m.k. mátt vita hvert stefndi, en þagað yfir því ella eða logið til að hylma yfir með sukkinu. Þeim er eins farið Hollendingum og almenningi á Íslandi sem skilur ekki enn hvernig það gat verið að íslenska bankakerfið var ekki eins „stöndugt“ og haldið var fram. Við bíðum spennt eftir rannsóknarskýrslunni. Hún leiðir sannleikann kannski í ljós.

En hvað sem sannleikanum líður standa afleiðingar af Icesave málum enn óhaggaðar. Að gera ekki upp skuldbindingar okkar við Breta og Hollendinga mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér og stefnir nú endurreisn efnahagslífsins í voða. Þorvaldur Gylfason, sem einna glöggsýnastur var á hvert stefndi fyrir hrun ritaði pistil í Fréttablaðið í lok janúar þar sem hann segir m.a; „Fyrir hálfu öðru ári virtist sem kreppan yrði skammvinn, en nú er hætta á þungum afturkipp og upplausn. Ríkisstjórnin, Alþingi og forseti Íslands bera þunga ábyrgð á þeirri stöðu, sem nú er komin upp. Þetta þurfti ekki að fara svona. Þjóðin getur gripið í taumana, nema hún kjósi heldur að steypa sér fram af hengilfuginu.“ Aðrir glöggsýnir hagfræðingar, Þórólfur Matthíasson og Guðmundur Ólafsson tala í svipuðum dúr ef Icesave-málið kemst í uppnám.

 


Fögnum ákvörðun umhverfisráðherra

Það mun draga mjög úr atvinnuleysi á Suðurnesjum þegar framkvæmdir hefjast af fullum krafti í Helguvík en rúmlega 4000 ársverk eru við byggingaframkvæmdirnar sem taka fjögur til sex ár. Loksins, loksins er von um að málið sé komið á hreyfingu og innlendar hindranir á undanhaldi. Umhverfisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. október 2009 um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna Suðvesturlínu, styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, og öðrum framkvæmdum sem henni eru háðar. Ráðuneytinu bárust kærur frá Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Græna netinu vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar.


Hvað ber nú að gera

Um Icesave málið var fyrst fjallað hér á síðunni 13. nóv. 2008. Þáverandi seðlabankastjóri varpaði einna fyrstur fram þeirri kenningu að Íslendingum bæri engin skylda til að gangast í ábyrgð vegna innlánsreikninga íslensku bankanna í útlöndum. Það kallaði á reiði Breta. Íslensku neyðarlögin staðfestu svo að innistæður á Íslandi væru bara tryggðar og Bretar ærðust. Þá voru tveir kostir í stöðunni. Annað hvort að taka á sig skuldbindingar gagnavart sparifjáreigendum í útlöndum, axla ábyrgðina af auðmýkt eða berjast áfram með lögfræðina að vopni, hrokann og drambið og borga ekki neitt.

Ríkisstjórn Geirs H Haarde reyndi að ná samningum um Icesave fyrir jól 2008. Það var að hennar mati eina leiðin til að fá lánafyrirgreiðslu frá AGS og öðrum ríkjum og eitt brýnasta verkefnið við endurreisn efnahagslífsins. Við urðum m.ö.o. að axla ábyrgð á innistæðunum í útlöndum hvort sem okkur líkaði betur eða ver. Þar sem upphæðirnar voru stjarnfræðilega háar þurftum við að leita aðstoðar og semja okkur út úr vandanum, viðurkenna pólitísk mistök undanfarinna ára og mæta örlögum okkar. Með fullri virðingu fyrir samninganefnd Íslands má vel vera að verkefnið hafi hreinlega verið okkur ofviða.Við hefðum þurft utanaðkomandi aðstoð strax í upphafi.

Nú fjórtán mánuðum síðar, liggur á borðinu samningur um Icesave við Breta og Hollendinga. Um það er deilt hvort semja megi betur eftir að fyrirvörum Alþingis frá í sumar var hafnað. Lögum um heimild til handa fjármálaráðherra að skrifa upp á ríkisábyrgð á láni sem Bretar og Hollendingar ætla að veita Íslendingum til þess að geta staðið við skuldbindingar gagnvart sparifjáreigendum Icesave að hluta, hefur verið vísað til þjóðarinnar. Aftur eru tveir kostir í stöðunni; að taka á sig skuldbindingar, nú takmarkaðar, gagnvart sparifjáreigendum Icesave, axla ábyrgðina af auðmýkt eða berjast áfram og freista þess að ná fram ,,betri samningi” eins og það er orðað. Vel má vera að sú leið sé enn fær.

Þegar íslenska bankahrunið var staðreynd skrifaði Seðlabankastjóri Evrópu, Jean ClaudeTrichet, Frökkum sem þá skipuðu forsæti ESB, minnisblað í nóv 2008, um ágalla evrópska regluverksins um innistæðutryggingar. Tilurð minnisblaðsins hefði átt að bjóða upp á mögulega aðkomu ESB að lausn á deilu okkar við Breta og Hollendiga um Icesave. Einhverra hluta vegna var sá möguleiki ekki nýttur þótt á hann hafi verið bent, að ,,leitað yrði aðstoðar til að semja okkur út úr vandanum.” Nú virðist loksins áhugi fyrir því að fá utanaðkomandi aðstoð að málinu og hafa einkum Þjóðverjar, Frakkar og Lúxemborgarar verið nefndir í því sambandi og er það vel. Ef þessi kostur er enn mögulegur þarf að láta reyna á hann strax þrátt fyrir að heimild til handa fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á láni vegna Icesave liggi nú hjá þjóðinni til samþykktar eða synjunar.

Það sem er mikilvægast núna er að sú efnahagsáætlun sem ríkisstjórnin stendur að, með aðkomu AGS og lánum frá Norðurlöndunum verði ekki sett í uppnám. Of mikið er í húfi. Þess vegna verður að klára Icesave, þetta nöturlega mál, sem fyrst. Samþykki þjóðin Icesave-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni verður staðan þekkt eins og hún getur orðið í versta falli. Felli þjóðin nefnd lög og meðan ekkert annað er í sjónmáli, ríkir sama óvissan áfram og var. Eitt er þó víst að Icesave-málið hverfur okkur ekki hver svo sem niðurstaðan verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni.


Óheppileg ákvörðun

Í morgun ákvað forseti lýðveldisins að vísa Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mál er eins og kunnugt er ein lykilforsenda þess að unnt sé að reisa þjóðina úr þeim efnahagshörmungum sem útrásarvíkingarnir komu þjóðinni í. Enginn efast um vald forseta til að neita að undirrita lög. En slíkt vald verður að fara með af yfirvegun og ábyrgð.

 

Hér skal ekki lagt mat á það hver niðurstaðan verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni en hitt er ljóst að lausn þessa máls er afar mikilvægt skref til að endurvinna traust alþjóðasamfélagsins sem er í molum eftir efnahagshrunið. Það er stefna Starfsgreinasambandsins, eins og ítrekað hefur komið fram hér á síðunni. Allt of miklar tafir hafa orðið á að ljúka málinu vegna pólitísks málþófs og nú leggur forsetinn sjálfur  stein í götu þess. Því verðum við taka eins og hverju öðru hundsbiti. Nú er það okkar, sem viljum afgreiða Icesave, að sannfæra þjóðina um að endurreisn atvinnulífsins sé mál málanna og að Icesave-samningurinn sé lykill að þeirri endurreisn, annað kalli á gjaldeyrshöft, atvinnuleysi og almenna fátækt til lengri tíma.

 

Icesave-samkomulagið sem gert var við Breta og Hollendinga hafði orðið til þess að bæta samskipti Íslands við önnur ríki, alþjóðastofnanir og fjárfesta. Aðstæður voru fram að ákvörðun forseta metnar þannig að senn væri tímabært fyrir stjórnvöld að leggja af stað í átak þar sem jákvæð þróun efnahagsmála yrði kynnt fyrir öðrum þjóðum. Þetta er nú í uppnámi. Forseti lýðveldisins kemur fram af miklu ábyrgðarleysi gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar.


Nýársvakning

Í kvæðinu Þegar landið fær mál, í ljóðabókinni Hart er í heimi frá árinu 1939 gerir Jóhannes úr Kötlum skiptingu auðs að umtalsefni og afleiðingar af sérhyggjunni. Kvæðið á enn erindi við nútímann þar sem það dregur upp mynd af forheimsku þeirrar sjálfhverfu einstaklingshyggju og græðgi og afleiðingum þeirra lífsviðhorfa sem við höfum sopið seyðið af og glímum nú við eftir hrunið;


Síða 22 Af 22Fyrst...202122