Hafa samband

Atvinnuleysi ekki mælst lægra í tæplega fimm ár

Samkvæmt nýjustu vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar mældist atvinnuleysi 3,1% hér á landi í júlí sl., en atvinnuleysi hefur ekki mælst svo lágt hjá Hagstofunni síðan í október 2008. Þess má geta að atvinnuleysið mældist 4,4% í júlí 2012 og hefur því minnkað um 1,3% síðan þá. Atvinnuleysi mældist  3,6% meðal karla í könnuninni en 2,6% meðal kvenna.

Lesa má nánar um framkvæmd og aðferð rannsóknarinnar á vef Hagstofunnar.


Staðall um launajafnrétti

ASÍ, SA og velferðarráðuneytið höfðu forgöngu um gerð staðals um launajafnrétti kynjanna í samræmi við bókun aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 og bráðabrigðaákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008. Verkið var unnið undir leiðsögn Staðlaráðs Íslands og með aðkomu fjölmargra aðila.

Staðlaráð Íslands hefur gefið út staðal sem er ætlaður sem grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja á vinnustöðum:  ÍST 85:2012 – Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar

Markmið staðalsins er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Jafnframt gefst þeim sem uppfylla skilyrði staðalsins möguleika á að fá vottun þar um.

Staðallinn tekur m.a. mið af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem m.a. er fjallað um þá skyldu atvinnurekanda að tryggja jafnrétti kynja innan fyrirtækis síns eða stofnunar. Einnig er þar kveðið á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á saman hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grunvallar launaákvörðun skuli ekki fela í sér kynjamismunun.

Mikilvægt er fyrir forsvarsmenn og talsmenn verkalýðshreyfingarinnar að kynna sér jafnlaunastaðalinn, því það er ekki síður á þeirra ábyrgð að hvetja til þess að vinnustaðir innleiði jafnlaunakerfi. Hægt er að nálgast staðalinn hjá Staðlaráði Ísland en hann er fáanlegur í Staðlabúðinni.

 

Maríanna Traustadóttir, jafnréttisfulltrúi ASÍ tók þátt í gerð staðalsins og er tilbúin að kynna helstu þætti staðalsins og framkvæmd, ef þess er óskað. Hægt er að senda henni fyrirspurn í netfang marianna@asi.is .


Fjölgun starfa milli ára

Í nýju ársfjórðungsriti Hagstofunnar eru birtar vinnumarkaðstölur frá 2. ársfjórðungi 2013 og gerð grein fyrir töluverðri fjölgun starfa miðað við sama tímabil 2012. Fjölgunin nemur 2.800 störfum og á sama tíma fjölgar starfsmönnum í fullu starfi um 3.500. Það dregur því úr atvinnuleysi og heilsdagsstörfum fjölgar á meðan hlutastörfum fækkar um 200. Þetta verður til þess að heildarvinnutími hefur aukist á milli tímabila. Atvinnuleysi mælist nú 6,8% og hefur minnkað úr 7,2% miðað við sama ársfjórðung í fyrra.

Þegar atvinnuþátttaka karla annars vegar og kvenna hins vegar er skoðuð birtist ólík mynd. Konum í fullu starfi fækkar um 400 milli tímabila á meðan körlum í fullu starfi fjölgar um 3.800. Á öðrum ársfjórðungi 2013 voru karlar í hlutastörfum 11% þeirra sem eru í starfi en konur 34,8%. Vinnutími karla eykst töluvert, eða um 0,8 klst. á meðan vinnutími kvenna eykst um 0,3 klst. Rösklega dregur úr vinnutíma karla í hlutastarfi á meðan vinnutími kvenna í hlutastarfi stendur í stað. Körlum á atvinnuleysisskrá fjölgar milli ársfjórðunga um 500 en konum fækkar um 900. Atvinnuleysi karla er 7,4% og kvenna 6,2%.

Enn veldur atvinnuleysi meðal ungs fólks áhyggjum en það mælist 16,2% í aldurshópnum 16-24 ára, þó nokkuð dragi úr því á milli ára. Þá kemur fram í að ungt fólk er líklegra til að vinna hlutastörf og heildarvinnutími þeirra er lægri en í öðrum aldurshópum.

Rit Hagstofunnar um vinnumarkaðinn 2. ársfjórðungi 2013 má nálgast hér.


Nýtt samkomulag vegna starfsmanna hvalaskoðunarfyrirtækja

Þann 9. ágúst síðastliðinn undirritaði Framsýn stéttarfélag og Samtök atvinnulífsins samkomulag um túlkun á kjörum og réttarstöðu félagsmanna Framsýnar sem starfa á hvalaskoðunarbátum. Samkomulagið markar ákveðin tímamót, enda er þetta í fyrsta skipti sem gert er sérstakt samkomulag um kjör starfsmanna við hvalaskoðun.

Samkomulagið byggir á kjarasamningi sjómanna og fólks í ferðaþjónustu og hefur sama gildistíma og kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum. Þess má geta að samningaviðræður hafa staðið yfir í marga mánuði með hléum, en nú síðast óskaði Framsýn eftir aðkomu Ríkissáttasemjara að málinu sem vann að því með Samtökum atvinnulífsins og Framsýn að ná samkomulagi í deilunni.

Samkomulagið í heild sinni má nálgast hér. 


Misskipting og kjaraviðræður

Lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði fyrir starfsfólk sem unnið hefur fjóra mánuði eða lengur eru 204.000 krónur á mánuði og eftir skatta og önnur gjöld eru útborguð laun tæplega 168.000 krónur á mánuði. Þó flestir séu á hærri launum þá má fyrir þessa upphæð kaupa vinnuframlag í heilan mánuð og getur það varla talist hátt verð. Í haust verður gengið til samninga um meðal annars lágmarkslaun á vinnumarkaðnum. Í aðdraganda kjarasamninga er ástand einstakra atvinnugreina skoðað, stjórnvaldsaðgerðir og hverju má eiga von á næstu misseri í lagasetningu, laun annarra hópa á vinnumarkaði og svo mætti áfram telja. Kjarasamningar eru ekki gerðir í tómarúmi heldur í samhengi við aðra þætti og í þá er rýnt þessa dagana.

Ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins er sjávarútvegurinn og verður varla annað sagt en að hann sé sterkur nú um mundir. Horfið var frá hækkun veiðigjaldsins, en sú aðgerð er talin hafa sparað sjávarútvegsfyrirtækjum allt að 10 milljarða á fiskveiðiárinu 2013/2014. Stærstu fyrirtækin í greininni eru að skila gríðarlegum hagnaði og fréttir berast af háum arðgreiðslum til hluthafa. Á fleiri sviðum atvinnulífsins gengur vel og það virðist víða vera borð fyrir báru í komandi samningum.

Kjararáð ákvað að hækka laun ríkisforstjóra um allt að 20% afturvirkt um eitt ár þar sem þeir höfðu tekið á sig skerðingar eftir hrun. Nú er það svo að almennt starfsfólk fór ekki varhluta af hruninu frekar en forstjórarnir. Margt almennt starfsfólk ríkisstofnana tók á sig meiri vinnu, stóraukið álag og skert starfshlutfall til að mæta niðurskurðarkröfum. Þetta er fólkið á lægstu laununum, í umönnunarstéttum og starfsfólk í ræstingum. Ekkert bólar á aðgerðum til að bjóða þeim sem það kjósa aukið starfshlutfall eða létta álaginu heldur er farin sú leið að leiðrétta laun þeirra hæst launuðu fyrst og fremst. Þó ber að nefna að kvennastéttir á heilbrigðisstofnunum hafa fengið umframhækkanir vegna jafnlaunaátaks en þar hafa stéttir með meiri menntun notið meiri hækkana en lægst launuðu stéttirnar þar sem ekki er krafist menntunar.

Ýmislegtbendir til þess að misskipting sé að aukast í samfélaginu og við siglum hraðbyri inn í nýtt „2007-ástand“. Upplýsingar úr álagningaskrám gefa til kynna launaskrið meðal þeirra hæst launuðu og gögn hagstofunnar staðfesta umtalsvert launaskrið innan fjármálageirans síðustu tvö árin. Einhverjir miðlar hafa túlkað það sem svo að laun hafi hækkað á almenna vinnumarkaðnum en þegar betur er að gáð leitar launaskriðið á gamalkunnar slóðir, í fjármálageirann fyrst og fremst.

Eftir hrunið vorum við flest sammála um að það væri ýmislegt á okkur leggjandi til að endurreisa samfélagið og við ætluðum að forðast gömul mistök. Í þeim anda tók almennt starfsfólk á sig þyngri byrðar, meira álag og aukin útgjöld auk þess að fara fram með hóflegar kröfur um launahækkanir í kjarasamningum. Það launaskrið sem við verðum vör við um þessar mundir er ekki í takt við þá stemningu sem var í samfélaginu eftir hrun. Það verður ekki lagt á herðar þeirra sem eru með lægstu launin að axla ábyrgð á verðbólgunni á meðan misskiptingin vex óáreitt. Þessu verður haldið til haga þegar komið er að kjaraviðræðum í haust og vetur en aðildarfélög Starfsgreinasambandsins vinna nú kröfugerðir fyrir samningana.


Umfjöllun um kaup og kjör ungmenna á Rás 1

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, var gestur í þættinum Sjónmáli á Rás 1 í morgun. Í þættinum voru kaup og kjör ungmenna, sem eru að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaðinum, til umræðu. Oft er unga fólkið illa að sér um réttindi sín og skyldur og Drífa fór yfir nokkur af þeim atriðum sem hafa ber í huga þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Starfsgreinasambandið hefur að undanförnu vakið sérstaka athygli á þessum málum, sbr. frétt sem birtist á vef SGS s.l. föstudag.

Hægt er að hlusta á innslagið á Rás 1 með því að smella hér. 


Staðall um launajafnrétti

ASÍ, SA og velferðarráðuneytið höfðu forgöngu um gerð staðals um launajafnrétti kynjanna í samræmi við bókun aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 og bráðabrigðaákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008. Verkið var unnið undir leiðsögn Staðlaráðs Íslands og með aðkomu fjölmargra aðila.

Staðlaráð Íslands hefur gefið út staðal sem er ætlaður sem grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja á vinnustöðum:  ÍST 85:2012 – Jafnlaunakerfi – Kröfur og leiðbeiningar

Markmið staðalsins er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Jafnframt gefst þeim sem uppfylla skilyrði staðalsins möguleika á að fá vottun þar um.

Staðallinn tekur m.a. mið af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem m.a. er fjallað um þá skyldu atvinnurekanda að tryggja jafnrétti kynja innan fyrirtækis síns eða stofnunar. Einnig er þar kveðið á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á saman hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grunvallar launaákvörðun skuli ekki fela í sér kynjamismunun.

Mikilvægt er fyrir forsvarsmenn og talsmenn verkalýðshreyfingarinnar að kynna sér jafnlaunastaðalinn, því það er ekki síður á þeirra ábyrgð að hvetja til þess að vinnustaðir innleiði jafnlaunakerfi. Hægt er að nálgast staðalinn hjá Staðlaráði Ísland en hann er fáanlegur í Staðlabúðinni.

Maríanna Traustadóttir, jafnréttisfulltrúi ASÍ tók þátt í gerð staðalsins og er tilbúin að kynna helstu þætti staðalsins og framkvæmd, ef þess er óskað. Hægt er að senda henni fyrirspurn í netfang marianna@asi.is .


Fjölgun starfa milli ára

Í nýju ársfjórðungsriti Hagstofunnar eru birtar vinnumarkaðstölur frá 2. ársfjórðungi 2013 og gerð grein fyrir töluverðri fjölgun starfa miðað við sama tímabil 2012. Fjölgunin nemur 2.800 störfum og á sama tíma fjölgar starfsmönnum í fullu starfi um 3.500. Það dregur því úr atvinnuleysi og heilsdagsstörfum fjölgar á meðan hlutastörfum fækkar um 200. Þetta verður til þess að heildarvinnutími hefur aukist á milli tímabila. Atvinnuleysi mælist nú 6,8% og hefur minnkað úr 7,2% miðað við sama ársfjórðung í fyrra.


Staðið verði við fyrirheit um hækkun til þeirra lægst launuðu!

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands (SGS) krefst þess að staðið verðið við þau fyrirheit að hækka laun kvennastétta innan heilbrigðisstofnana eins og gefin voru fyrirheit um í upphafi árs. Jafnlaunaátakið gerir ráð fyrir 4,8% hækkun til þeirra stétta sem skilgreindar eru sem kvennastéttir innan heilbrigðisstofnana og hafa nú þegar verið undirritaðir nýjir stofnanasamningar við einhverjar stofnanir sem tryggja slíka hækkun frá 1. mars.

Á Alþingi þann 19. júní var málið til umræðu og greindi fjármálaráðherra þá frá því að ekki væru til fjármunir til þessa verkefnis en á sama tíma er verið að skerða tekjustofna ríkisins með lækkuðum álögum á einstaka atvinnugreinar. Þetta eru kaldar kveðjur til kvenna á sjálfan kvenréttindadaginn. Starfsgreinasambandið treystir því að fjármálaráðherra finni þrátt fyrir allt leiðir til að hrinda áformunum í framkvæmd svo notuð séu hans orð og það eigi við allar kvennastéttir innan heilbrigðisstofnana. Þá ber að minna á að samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið meðal félagsmanna aðildarfélaga SGS eru konur í umönnunarstéttum hjá hinu opinbera meðal þeirra sem lægst hafa launin á íslenskum vinnumarkaði. SGS skorar á ríkisstjórnina að standa við gefin fyrirheit til lægst launuðu stéttanna í landinu.


Til hamingju með daginn konur og karlar!

Í dag, 19. júní 2013 höldum við uppá að það eru 98 ár síðan konur fengu kosningarétt í almennum kosningum í fyrsta sinn. Að vanda gefur Kvenréttindafélag Íslands út blaðið 19. júní í tilefni dagsins en í blaðinu að þessu sinni má finna viðtal við þær Önnu Júlíusdóttur og Kristbjörgu Sigurðardóttur. Báðar hafa þær unnið almenn störf á vinnumarkaði til áratuga og eru varaformenn sinna verkalýðsfélaga. Viðtalið tók Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og er það að finna í heild sinni hér að neðan en blaðið má nálgast hér: http://issuu.com/kvenrettindafelag/docs/19juni_2013


Síða 3 Af 22Fyrst...234...Síðast