Hafa samband

SGS ályktar um aðstöðumun og gjaldtöku

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands samþykkti tvær ályktanir í kjölfar formannafundar fimmtudaginn 27. mars síðastliðinn. Fundurinn hafnar gjaldtöku við náttúruperlur og lýsir yfir miklum áhyggjum af þeim aðstöðumun sem fólk býr við sem á langt að sækja grunnþjónustu.


Nýr kjarasamningur við NPA miðstöðina

Þann 19. mars 2014 undirritaði Starfsgreinasamband Ísland nýjan kjarasamning við NPA miðstöðina, vegna aðstoðarfólks fatlaðs fólks. Samningurinn kemur til viðbótar kjarasamningi SGS og NPA miðstöðvarinnar frá 30. nóvember 2013 og tekur mið af breytingum sem gerðar voru á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru 21. desember 2013 ásamt sáttatillögu ríkissáttasemjara frá 20. febrúar 2014. Gildistími samningsins er frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015.


Í tilefni umræðu um kjarasamninga

Mikil umræða hefur farið fram í fjölmiðlum og víðar um nýgerða kjarasamninga sem félagsmenn okkar eru þessa dagana að greiða atkvæði um.

Umræða um kjaramál er góð en þó þarf að gæta sanngirni og að fólk geti treyst því að rétt sé farið með. Rétt er að koma því á framfæri að mikil og góð samstaða var innan samninganefndar SGS þegar kröfugerð sambandsins var mótuð. Krafan var að hækka lægstu taxta um 20.000 krónur og önnur laun tækju 7% hækkun.


Kjarasamningar undirritaðir

Skrifað var undir kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði í kvöld. Helstu atriði samningsins er snúa að félögum í Starfsgreinasambandinu er 8.000 króna launahækkun auk tilfærslu um einn launaflokk og 2,8% hækkun á alla almenna liði kjarasamningsins. Auk þess hækkar lágmarkstekjutrygging eftir fjögurra mánaða starf úr 204.000 í 214.000 krónur. Desember- og orlofsuppbætur hækka einnig hlutfallslega. Flest félög innan SGS undirrituðu samningana í kvöld en við tekur kynningarferli og atkvæðagreiðsla meðal allra félagsmanna. Niðurstaða á að liggja fyrir ekki síðar en 22. janúar næstkomandi þannig að aðildarfélög SGS fara að undirbúa atkvæðagreiðslur strax í upphafi nýs árs.


Desemberuppbót 2013

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum  að greiða starfsmönnum sínum desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót greiðist sem eingreiðsla, er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Hér að neðan gefur að líta upphæðir desemberuppbótar fyrir árið 2013  ásamt upplýsingum um rétt til desemberuppbótar skv. þeim kjarasamningum sem heyra undir SGS.


Vertu á verði

Í febrúar sl. hleypti ASÍ og aðildarfélög þess af stað herferð gegn verðhækkunum undir yfirskriftinni – Vertu á verði. Átakið er hvatning til almennings og fyrirtækja um að taka höndum saman til að rjúfa vítahring verðbólgunnar og er liður í eftirfylgni með samkomulags ASÍ og SA við framlengingu kjarasamninga í upphafi árs. Hugmyndin er fyrst og fremst að vekja fólk til meðvitundar um verðlagsmál og virkja almenning í að vekja athygli samborgaranna á óeðlilegum hækkunum á vörum og þjónustu. Það skapar umræður og mikilvægt aðhald gagnvart kaupmönnum og þjónustuaðilum.


Kjaramálaráðstefnur – mikilvægur undirbúningur

Dagana 21.-22. maí s.l. stóð Starfsgreinasambandið fyrir kjaramálaráðstefnu um kjarasamningsamning SGS við Ríkið. Ráðstefnuna sóttu fulltrúar frá aðildarfélögum SGS og fór hún fram í húsakynnum sambandsins að Sætúni 1. Starfsgreinasambandið hefur á undanförnum mánuðum haldin þrjár kjaramálaráðstefnur í þeim tilgangi að rýna í það sem betur má fara í samningunum og um leið undirbúa komandi kjarasamningsviðræður. Á ráðstefnunum hefur mestum tíma verið varið í samlestur á köflum samninganna en einnig hafa ákveðin atriði verið tekin til sérstakrar umfjöllunar. Starfsmenn SGS hafa unnið úr niðurstöðum ráðstefnanna og munu á næstunni dreifa þeim meðal sinna aðildarfélaga, sem munu m.a. geta nýtt niðurstöðurnar við gerð sinna kröfugerða.

Kjarasamningagerð undanfarinna ára hefur sætt töluverðri gagnrýni, m.a. fyrirkomulag  viðræðnanna og áhrif kjarasamninga á efnahagslegan stöðugleika. Bent hefur verið á að samningsgerð hafi dregist á langinn sem að einhverju leyti megi rekja til þess að undirbúningur samningsaðila og samningaviðræðurnar hafi ekki verið nægilega markvissar

Í ljósi þess hafa samningsaðilar unnið að því undanfarið að skoða hvernig haga megi undirbúningi og viðræðuferlinu öðruvísi í þeim tilgangi að gera það markvissara og skilvirkara. Afakstur þeirrar vinnu er m.a. að finna í nýútkominni skýrslu um kjarasamninga og vinnumarkaðinn á Norðurlöndum. SGS hefur ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum og ljóst er að ráðstefnur á borð við þær sem sambandið hefur staðið fyrir undanfarna mánuði munu án efa nýtast við samningagerðina í haust.


Desemberuppbót og fæðingarorlof

Starfsgreinasamband Íslands vill vekja athygli á að í flestum kjarasamningum er skýrt kveðið á um það að eftir eins árs starf teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning orlofs- og desemberuppbóta. Nokkuð hefur borið á því að starfsfólk í fæðingarorlofi hafi ekki fengið desemberuppbót greidda og því vill SGS árétta framangreint.

Desemberuppbót skal greiða ekki síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember.


Auðveldast að fá vinnu á Íslandi

Í Svíþjóð búa hlutfallslega flestir af erlendum uppruna en á Íslandi eru hlutfallslega flestir af erlendum uppruna í vinnu. Þetta kemur fram í úttekt Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD) sem greint var frá í Norrænu vefriti um atvinnumál (http://www.arbeidslivinorden.org). Í greininni kemur fram að hlutfall íbúa af erlendum uppruna er hæst í Svíþjóð eða 14% en lægst í Finnlandi eða 4%. Í Danmörku er hlutfallið 8% en í Noregi og á Íslandi er hlutfall íbúa af erlendum uppruna 11%.

Staða fólks á vinnumarkaði er ólík á milli landanna, en hæst er atvinnustigið meðal fólks af erlendum uppruna á Íslandi eða 76%. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið 62%-67%. Þess má geta að á Íslandi mælist minnst atvinnuleysi að Noregi undanskildum, en mest er atvinnuleysið í Svíþjóð eða 7,1% í október. Þess má geta að meðalatvinnuleysið í löndum OECD mældist 8% í október. Það er því ljóst að atvinnuástand meðal innlendra jafnt sem erlendra íbúa landsins er betra en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þess má geta að 25% félaga innan aðildarfélöga Starfsgreinasambandsins eru af erlendum uppruna.

 

Land

Fólk af erlendum uppruna

Atv.stig fólks af erl. uppruna

Atvinnuleysi alls í október

Svíþjóð

14%

62%

7,1%

Ísland

11%

76%

4,5%

Noregur

11%

67%

3%

Danmörk

  8 %

66%

6,3%

Finnland

  4 %

62%

6,9%


Kjarasamningsbrot og svört atvinnustarfsemi skaða ferðaþjónustuna

Á sama tíma og fréttir berast af metfjölda erlendra ferðamanna til Íslands árið 2012 er ástæða til að hafa áhyggjur af fjölgun kjarasamningsbrota og undanskota í ferðaþjónustu. Þessi hegðun sem sést meðal ferðaþjónustu- fyrirtækja setur svartan blett á atvinnugreinina og kemur í veg fyrir að hæft fólk vilji starfa í greininni. Þar að auki  torvelda slík vinnubrögð þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem vilja standa rétt og vel að málum og  reka sína starfsemi samkvæmt gildandi reglum á vinnumarkaði. Það er til mikils að vinna að þessi vaxtabroddur í íslensku atvinnulífi sé byggður á heiðarleika og ferðamannaiðnaðurinn leggi sitt af mörkum til samneyslunnar.


Síða 1 Af 6123...Síðast