Hafa samband

Þing ASÍ-UNG

Annað þing ASÍ-UNG fer fram föstudaginn næstkomandi, 14. september, í sal Rafiðnarskólans að Stórhöfða 27. Þingið munu sitja fulltrúar frá rúmlega 30 stéttarfélögum. Aðalumræðuefni þingsins verður húsnæðismál ungs fólks, en yfirskirft þingsins er: Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi. Ný vefsíða ASÍ-UNG mun líta dagsins ljós á meðan þinginu stendur en hún mun hafa það meginhlutverk að upplýsa ungt fólk um réttindi þess á vinnumarkaði.


Nýr framkvæmdastjóri hjá Starfsgreinasambandi Íslands

Drífa Snædal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og tekur til starfa 17. september næstkomandi. Fráfarandi framkvæmdastjóri, Kristján Bragason starfar við hlið Drífu til áramóta. Drífa hefur nýlokið meistaragráðu í vinnurétti frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð en er einnig menntuð tækniteiknari frá Iðnskólanum í Reykjavík og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Áður hefur hún starfað sem framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf. Drífa hefur látið sig málefni vinnumarkaðarins varða bæði í gegnum Iðnnemasamband Íslands á árum áður og í gegnum nám sitt. Í lokaverkefni sínu í viðskiptafræði fjallaði Drífa um kjarasamningagerð og launamun kynjanna en meistararitgerðin fjallaði um lagaumhverfi starfa sem unnin eru inni á heimilum. Þá hafa jafnréttismál verið henni hugleikin og hefur hún skrifað fjölmargar greinar og pistla á því sviði. Drífa er búsett í Reykjavík ásamt dóttur sinni.

Starfsgreinasambandið býður Drífu velkomna til starfa og óskar henni velfarnaðar í störfum sínum fyrir sambandið.


Samkomulag um að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi

Í dag undirrituðu Starfsgreinasamband Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðaþjónusta bænda, embætti  Ríkisskattstjóra  og Vinnumálastofnun yfirlýsingu um samstarf til að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi í ferðaþjónustugreinum. Það voru þau Kistján Gunnarsson, formaður SGS, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda, Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar og Jóhann Ásgrímsson, fulltrúi Ríkisskattstjóra sem undirrituðu yfirlýsinguna að Hótel Reynihlíð við Mývatn.


Viðræðuáætlun vegna endurnýjunar kjarasamninga undirrituð við SA

Viðræðuáætlun vegna endurnýjunar kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinaasambands Íslands milli aðila sem verða lausir 1. desember n.k. var undirrituð í dag. Viðræðuáætlunin er gerð með það að markmiði að aðilar nái að endurnýja kjarasamninga í tæka tíð þannig að nýr kjarasamningur geti tekið við af þeim sem nú er í gildi þegar hann rennur út. Viðræðuáætlunin tekur til aðildarfélga SGS sem veitt höfðu sambandinu umboð til að gerða viðræðuáætlun samkvæmt ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur, en slíka áætlun ber að gera tíu vikum áður en samningar renna út. Áætlunin tekur ekki til Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar og VSFK, sem hafa sérsamning við Samtök atvinnulífsins og þá liggur ekki fyrir umboð Verkalýðsfélag Akraness og Framsýnar stéttarfélags til gerðar virðæuáætlunarinnar. Öll önnur aðildarfélög SGS á landsbyggðinni veittu sambandinu umboð sitt.


Herör gegn svartri atvinnustarfsemi

,,Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands telur óhæfu að nokkurt fyrirtæki stundi óskráða atvinnustarfsemi og hliðri sér þannig hjá greiðslu á lög- og kjarasamningsbundnum launatengdum gjöldum. Launagreiðslur slíkra fyrirtækja eru oftar en ekki undir lágmarkstöxtum kjarasamninga og því brot á grundvallarréttindum launafólks. Algengt er að ákvæðum um aðbúnað og hollustuhætti sé ekki framfylgt né reglum um hvíldar- og vinnutíma.” segir í samþykkt framkvæmdastjórnar SGS frá í gær.


Aufúsugestir í heimsókn

Fulltrúaráð NNN, Norsk Nærings- og Nytelsesmiddelarbeiderforbund, sem eru systrasamtök Starfsgreinasambandsins í Noregi heimsækja SGS n.k. fimmtudag, m.a. til að ræða stöðu og horfur í kjara- og atvinnumálum  á Íslandi, einkum ný tækifæri í matvælavinnslu. Þá verður aðildarumsókn Íslands að ESB einnig á dagskrá en það málefni vekur áhuga í Noregi. Það er starfsfólk í landbúnaðartengdum matvælaiðnaði og fiskvinnslu sem á aðild að NNN. NNN er samstarfsaðili SGS í Nordisk Union og evrópusamtökunum EFFAT.

Hér eru aufúsugestir á ferð, sem láta sig málefni okkar varða enda hafa tengsl og vináttubönd verið með SGS og NNN um árabil. Formaður SGS, Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri SGS, Skúli Thoroddsen og sviðstjóri matvælasviðs SGS, Halldóra Sveinsdóttir taka á móti gestunum auk þess sem Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ ræðir við hópinn. Norðmennirnir munu einnig heimsækja landsbyggðina og taka hús á Húsvíkingum í sinni för og koma við í Grindavík.

Þeir Hans Olav Nilson sem er formaður sænska matvælasambandsins, LIVS, Nordisk Union og alþjóðasamtakanna IUF ásamt Pauli Kristiansson framkvæmdastjóra Nordisk Union verða einnig á Íslandi í þessari viku  m.a. til að undirbúa þing Nordisk Union sem haldið verður á Íslandi næsta ár.

Bæði hin norrænu og evrópsku heildarsamtök launafólks sem Starfsgreinasambandið er aðili að hafa heitið SGS og íslensku launafólki stuðningi vegna aðildaviðræðna Íslands við ESB og reyndar fagnað því sérstaklega að þær viðræður séu nú hafnar. Málefni aðildarviðræðna Íslands og samnorræn kjaramál verða einnig rædd við þá Hans Olav og Pauli.