Hafa samband

Formannafundur SGS á Selfossi

Á morgun, þriðjudaginn 4. desember, heldur Starfsgreinasambandið formannafund sinn og fer hann að þessu sinni fram á Hótel Selfossi. Um er að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi.  Á fundinum verða ýmis mál tekin fyrir og má þar á meðal nefna kjaramál, en fulltrúar ASÍ munu mæta og fara yfir stöðu kjarasamninga með gestum fundarins. Meðal annarra dagskrárliða má nefna erindi frá Vinnumálastofnun á Suðurlandi og ASÍ-UNG, kynningu á skýrslu framkvæmdastjóra 2011-2012 og úrvinnslu bókana í kjarasamningum. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi frá kl. 10:00 og ljúki um kl. 16:00.


Kjarasamningsbrot og svört atvinnustarfsemi skaða ferðaþjónustuna

Á sama tíma og fréttir berast af metfjölda erlendra ferðamanna til Íslands árið 2012 er ástæða til að hafa áhyggjur af fjölgun kjarasamningsbrota og undanskota í ferðaþjónustu. Þessi hegðun sem sést meðal ferðaþjónustu- fyrirtækja setur svartan blett á atvinnugreinina og kemur í veg fyrir að hæft fólk vilji starfa í greininni. Þar að auki  torvelda slík vinnubrögð þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem vilja standa rétt og vel að málum og  reka sína starfsemi samkvæmt gildandi reglum á vinnumarkaði. Það er til mikils að vinna að þessi vaxtabroddur í íslensku atvinnulífi sé byggður á heiðarleika og ferðamannaiðnaðurinn leggi sitt af mörkum til samneyslunnar.


Ríkisstjórnin svíkur almennt launafólk

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands samþykkti á fundi sínum þann 12 desember 2011 að mótmæla áformum ríkistjórnarinnar um að skattleggja lífeyrissjóði þar sem slíkt mun leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og auka frekar á þann ójöfnuð sem er á lífeyrisréttindum á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Með þessu svíkur ríkisstjórnin loforð sín frá því við undirritun kjarasamninga í vor um að jafna þessi réttindi.Þá mótmælir framkvæmdastjórn SGS einnig harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að hækka bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga helmingi minna en lægstu laun hækka þrátt fyrir loforð um að lífeyrisþegar og atvinnulausir skuli njóta hliðstæðra kjarabóta.

 

Ályktunin í heild sinni


Starfsgreinasamband íslands hefur áhyggjur af miklu atvinnuleysi verkafólks

Starfsgreinasamband Íslands hefur áhyggjur af miklu atvinnuleysi á meðal verkafólks með stutta skólagöngu. Nýjar atvinnuleysistölur Vinnumálastofnunnar sýna að tæplega tólf þúsund einstaklingar voru atvinnulausir á öllu landinu í lok október. Atvinnuleysi mælist nú 6,8% að meðaltali í landsvísu en hæst er atvinnuleysið á Suðurnesjum (11,5%) og á höfuðborgarsvæðinu (7,7%). Þannig búa um 84% allra þeirra sem eru atvinnulausir á þessum svæðum. Skást er staðan á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum. Ofan á mikið skráð atvinnuleysi bætist svo landflótti og yfirfullt skólakerfi. Þannig má í raun ætla að staðan sé mun verri en framangreindar tölur gefa til kynna.

 

Þing SGS sem haldið var í Reykjavík dagana 13-14 október síðastliðinn lýsti yfir miklum áhyggjum af stöðu efnahags- og atvinnumála. Atvinnuleysi er allt of hátt og það sé forgangsmál að auka arðbærar fjárfestingar svo unnt sé að örva hagvöxt og skapa störf. Starfsgreinasamband íslands hvetur stjórnvöld, atvinnulíf, fjármálakerfið og Seðalbanka Íslands til þess að gera allt sem í þeirra valdi er til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar með því að stuðla að auknum fjárfestingum.


Svört atvinnustarfsemi alvarlegt samfélagsvandamál

Niðurstöður úr átaki Alþýðusambands Íslands, Samtaka Atvinnulífsins og Ríkissattstjóra voru kynntar í gær þar sem fram kom að ríkissjóður, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og stéttarfélög fara á mis við um 13,8 milljarða tekjur árlega. Þetta á eingöngu við fyrirtæki sem velta minna en 1 milljarði króna á ári, og má því áætla að tapaðar tekjur vegna svartrar atvinnustarfsemi séu umtalsvert hærri ef öll fyrirtæki væru rannsökuð.

Samstarfsátakið sem hófst 15 júní 2011 og stóð formlega til loka ágústmánaðar er einstakt í sinni röð bæði hérlendis sem og annarstaðar í heiminum. Meira en 2000 smærri fyrirtæki voru heimsótt og rætt var við rúmlega 6200 starfsmenn, en um 12% af þessum starfsmönnum reyndust vinna svart. Niðurstöðurnar sýndu að það vantar mikið uppá þekkingu starfsmanna og stjórnenda á lögum og reglum varðandi skatta og kjarasamninga.  Svört atvinnustarfsemi virðist vera alvarlegt samfélagsvandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við.  Það þarf að auka forvarnir og fræðslu, en um leið styrkja þau úrræði sem eftirlitsaðilar hafa til að koma í veg fyrir svarta vinnu. Átakið sýnir okkur að samfélagið fer á mis við stórar fjárhæðir sem t.d. væri hægt að nota í heilbrigðis- og menntamál.

Framhald á verkefninu

Fjölmörg aðildarfélög Starfsgreinasambandsins lögðu þessu átaki til starfsmenn, þekkingu og fjármuni. Fyrir liggur að það er mikill áhugi hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandins að halda þessu verkefni áfram og sama er uppi á tengingnum hjá öðrum samstarfsaðilum. Markmiðið er að halda átakinu áfram a.m.k. fram að áramótum, en þá verður staðan endurmetin.

 

Skýrsluna má lesa hér


Stýrivaxtahækkun vekur furðu

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að hækka vexti bankans um 0,25% í morgun vekur furðu Starfsgreinasambands Íslands. Seðlabankinn telur þessa hækkun réttlætanlega í ljósi þess góða efnahagsbata sem fram kemur í hagtölum bankans, en bendir þó á að óvissa hafi aukist. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði nokkru meiri í ár og á næsta ári en spáð var í ágúst og að verðbólga verði heldur minni á næstu misserum sakir  sterkara gengis krónunnar og minni innfluttrar verðbólgu, segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Þessi ákvörðun Seðlabankans er einkennileg í ljósi þess ástands nú ríkir. Ísland glímir í dag við mikið atvinnuleysi, en yfir 12.000 einstaklingar eru nú án atvinnu og fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Þá má einnig benda á að heimsbyggðin stendur núna frammi fyrir erfiðri efnahags- og fjármálakreppu og Seðlabankar víðsvegar um heim keppast við að halda stýrivöxtum lágum til að örva hagvöxt og fjárfestingar.

Á sama tíma og íslenska hagkerfið er hálf lamað telur Seðlabanki Íslands nauðsynlegt að slá á þenslu með því að hækka vexti. Starfsgreinasamband Íslands telur að vaxtahækkunin minnki líkurnar á því að okkur takist að auka hér fjárfestingar og hagvöxt og þar með minnka atvinnuleysið. Þessi ákvörðun er slæm og vinnur gegn markmiðum kjarasamninga sem Starfsgreinasambandið gerði við atvinnurekendur í vor, þar sem kveðið var á um að hér yrði mótuð efnahagsstefna sem byggi á ásækinni hagvaxtarstefnu með því að skapa aðstæður til þess að fjárfestingar gætu aukist verulega.


Vinnuverndarvika

Evrópska vinnuverndarvikan 2011, Öruggt viðhald – Allra hagur, verður að þessu sinni haldin 24. – 28. október. Áherslan er áfram þetta árið á viðhaldsvinnu eins og árið 2010 en nú verður horft til eftirfarandi þátta: “Vélar og tæki” – “Framleiðslulínur” – “Lítil fyrirtæki í viðhaldsverkefnum”  Af tilefni vinnuvernadarvikunnar verður haldin ráðstefna þriðjudaginn 25 október á grand Hótel. Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.


Ályktanir þings Starfsgreinasambands Íslands

Á þingi Starfsgreinassamband Ísland daganna 13-14 október síðastliðinn voru samþykktar sjö ályktanir er varða hagsmuni verkafólks á Íslandi. Meðfylgjandi í viðhengi eru allar ályktanirnar, og hér að neðan er stutt samantekt á innihaldi þeirra:

Ályktun um kjaramál

Í þessari ályktun er ríkisstjórnin hvött til þess að standa við þau loforð sem hún gaf út samhliða undirritun kjarasamninga í vor. Þingið bendir á að það sé ákveðin hætta á að forsendur kjarasamninga séu brostnar hvað varðar verðbólgu, gengi krónunnar og framkvæmdir til að vinna bug á átvinnuleysi. Þá valda ákveðnir þættir í nýútkomnu fjárlagafrumvarpi vonbrigðum.

Ályktun um efnahags- og atvinnumál

Þing SGS hefur miklar áhyggjur af stöðu efnahags- og atvinnumála. Það sé forgangsmál að auka arðbærar fjárfestingar svo unnt sé að örva hagvöxt og skapa störf. Stjórnvöld, atvinnulíf og fjármálakerfið eru hvött til þess að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar með því að stuðla að auknum fjárfestingum.

Ályktun um málefni heimilanna

Þing SGS hefur miklar áhyggjur af erfiðari stöðu heimila í landinu og eru fjármálastofnanir hvattar til að axla sína ábyrgð á skuldavanda heimilanna. Það sé mikilvægt að skapa þá efnahagsumgjörð að hægt sé að lækka vexti til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum Íslands. Þá telur þing SGS að mikilvægt að stjórnvöld (ríki og sveitarfélög) endurskoði tekju- og eignatengingar í vaxtabóta-, barnabóta-, og húsaleigubótakerfinu.

Ályktun um leiðréttingu forsendubrests

Þing SGS krefst þess að bankar og fjármálastofnanir leiðrétti skuldir heimilanna vegna þess forsendubrests sem varð á lánum heimila við efnahagshrunið 2008.

Ályktun um jafnréttismál

Þing SGS leggur áherslu á að kynbundinn launamunur sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði sé ólíðandi og mikilvægt sé að aðilar vinnumarkaðarins finni leiðir til að útrýma þessu ranglæti.

Ályktun um atvinnuleysisbætur

Þing SGS harmar afstöðu stjórnvalda gagnvart atvinnulausum sem endurspeglast í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi og krefst þess að fallið verði frá þeim áformum. Þess er krafist að stjórnvöld hækki bætur í samræmi við hækkun launataxta þeirra tekjulægri og greiði atvinnuleysisbætur í allt að fjögur ár.

Ályktun um séreignalífeyrissparnað

Þing SGS mótmælir harðlega vanhugsaðri fyrirætlun stjórnvalda að lækka skattfrelsi iðgjalda í séreignsjóði, þar sem slíkt mun hafa neikvæð áhrif á langtímasparnað sem er forsenda aukinnar fjárfestinga. Aðildarfélög SGS munu hvetja sína félagsmenn til að hætta að leggja í séreignasparnað af eigin launum, því annars lendir fólk í tvísköttun.

 


Starfshópur skal móta nýtt framtíðarskipulag SGS

Þing Starfsgreinasambands Íslands samþykkti í dag að skipa 7 manna starfshóp sem á að fara í ítarlega vinnu við að móta framtíðarskipulag Starfsgreinasambandsins. Störfum þessa hóps lýkur á framhaldsþingi sem haldið verður í síðasta lagi í maí 2012. Verkefni starfshópsins er að fara yfir framtíðarskipulag SGS, m.a. endurskoðun á hlutverki, starfsemi, stjórnkerfi, rekstri og lögum sambandsins með það að markmiði að einfalda stjórnkerfið, draga úr rekstrarkostnaði og færa starfsemi sambandsins að breyttu umhverfi aðildarfélaganna.

Við ákvörðun fulltrúa í starfshópinn var lögð áhersla á að velja formenn félaga sem endurspegla mismunandi sjónarmið og skoðanir um framtíð sambandsins.

Starfshópinn skipa eftirtaldir fulltrúar: Aðalsteinn Á Baldursson (Framsýn stéttarfélag), Björn Snæbjörnsson (Eining-Iðja), Halldóra S. Sveinsdóttir (Báran stéttarfélag), Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Afl starfsgreinafélag), Kolbeinn Gunnarsson (Vlf. Hlíf), Kristján Gunnarsson (VSFK) og Sigurður Bessason (Efling stéttarfélag).


Staða starfsendurhæfingar á vinnumarkaði

Á þriðja þingi Starfsgreinasambands Íslands þann 13-14 október síðastliðinn hélt Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs áhugavert erindi um starfsemi VIRKs og stöðu starfsendurhæfingar á vinnumarkaði.

Í erindinu kom m.a. fram að 2.500 einstaklingar hefðu nýtt sér þjónustu stofnunarinnar. VIRK veitir þessum einstaklingum margvíslega aðstoð og ráðgjöf, en marmiðið er að koma fólki aftur í störf. Stór hluti þessa hóps á við alvarlegan heilsubrest að stríða og á oft á tíðum ekki afturkvæmt á vinnumarkað.

Meðfylgjandi er kynningin


Síða 1 Af 6123...Síðast