Hafa samband

Starfsgreinasamband íslands hefur áhyggjur af miklu atvinnuleysi verkafólks

Starfsgreinasamband Íslands hefur áhyggjur af miklu atvinnuleysi á meðal verkafólks með stutta skólagöngu. Nýjar atvinnuleysistölur Vinnumálastofnunnar sýna að tæplega tólf þúsund einstaklingar voru atvinnulausir á öllu landinu í lok október. Atvinnuleysi mælist nú 6,8% að meðaltali í landsvísu en hæst er atvinnuleysið á Suðurnesjum (11,5%) og á höfuðborgarsvæðinu (7,7%). Þannig búa um 84% allra þeirra sem eru atvinnulausir á þessum svæðum. Skást er staðan á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum. Ofan á mikið skráð atvinnuleysi bætist svo landflótti og yfirfullt skólakerfi. Þannig má í raun ætla að staðan sé mun verri en framangreindar tölur gefa til kynna.

 

Þing SGS sem haldið var í Reykjavík dagana 13-14 október síðastliðinn lýsti yfir miklum áhyggjum af stöðu efnahags- og atvinnumála. Atvinnuleysi er allt of hátt og það sé forgangsmál að auka arðbærar fjárfestingar svo unnt sé að örva hagvöxt og skapa störf. Starfsgreinasamband íslands hvetur stjórnvöld, atvinnulíf, fjármálakerfið og Seðalbanka Íslands til þess að gera allt sem í þeirra valdi er til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar með því að stuðla að auknum fjárfestingum.


Svört atvinnustarfsemi alvarlegt samfélagsvandamál

Niðurstöður úr átaki Alþýðusambands Íslands, Samtaka Atvinnulífsins og Ríkissattstjóra voru kynntar í gær þar sem fram kom að ríkissjóður, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og stéttarfélög fara á mis við um 13,8 milljarða tekjur árlega. Þetta á eingöngu við fyrirtæki sem velta minna en 1 milljarði króna á ári, og má því áætla að tapaðar tekjur vegna svartrar atvinnustarfsemi séu umtalsvert hærri ef öll fyrirtæki væru rannsökuð.

Samstarfsátakið sem hófst 15 júní 2011 og stóð formlega til loka ágústmánaðar er einstakt í sinni röð bæði hérlendis sem og annarstaðar í heiminum. Meira en 2000 smærri fyrirtæki voru heimsótt og rætt var við rúmlega 6200 starfsmenn, en um 12% af þessum starfsmönnum reyndust vinna svart. Niðurstöðurnar sýndu að það vantar mikið uppá þekkingu starfsmanna og stjórnenda á lögum og reglum varðandi skatta og kjarasamninga.  Svört atvinnustarfsemi virðist vera alvarlegt samfélagsvandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við.  Það þarf að auka forvarnir og fræðslu, en um leið styrkja þau úrræði sem eftirlitsaðilar hafa til að koma í veg fyrir svarta vinnu. Átakið sýnir okkur að samfélagið fer á mis við stórar fjárhæðir sem t.d. væri hægt að nota í heilbrigðis- og menntamál.

Framhald á verkefninu

Fjölmörg aðildarfélög Starfsgreinasambandsins lögðu þessu átaki til starfsmenn, þekkingu og fjármuni. Fyrir liggur að það er mikill áhugi hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandins að halda þessu verkefni áfram og sama er uppi á tengingnum hjá öðrum samstarfsaðilum. Markmiðið er að halda átakinu áfram a.m.k. fram að áramótum, en þá verður staðan endurmetin.

 

Skýrsluna má lesa hér


Stýrivaxtahækkun vekur furðu

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að hækka vexti bankans um 0,25% í morgun vekur furðu Starfsgreinasambands Íslands. Seðlabankinn telur þessa hækkun réttlætanlega í ljósi þess góða efnahagsbata sem fram kemur í hagtölum bankans, en bendir þó á að óvissa hafi aukist. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði nokkru meiri í ár og á næsta ári en spáð var í ágúst og að verðbólga verði heldur minni á næstu misserum sakir  sterkara gengis krónunnar og minni innfluttrar verðbólgu, segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Þessi ákvörðun Seðlabankans er einkennileg í ljósi þess ástands nú ríkir. Ísland glímir í dag við mikið atvinnuleysi, en yfir 12.000 einstaklingar eru nú án atvinnu og fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki. Þá má einnig benda á að heimsbyggðin stendur núna frammi fyrir erfiðri efnahags- og fjármálakreppu og Seðlabankar víðsvegar um heim keppast við að halda stýrivöxtum lágum til að örva hagvöxt og fjárfestingar.

Á sama tíma og íslenska hagkerfið er hálf lamað telur Seðlabanki Íslands nauðsynlegt að slá á þenslu með því að hækka vexti. Starfsgreinasamband Íslands telur að vaxtahækkunin minnki líkurnar á því að okkur takist að auka hér fjárfestingar og hagvöxt og þar með minnka atvinnuleysið. Þessi ákvörðun er slæm og vinnur gegn markmiðum kjarasamninga sem Starfsgreinasambandið gerði við atvinnurekendur í vor, þar sem kveðið var á um að hér yrði mótuð efnahagsstefna sem byggi á ásækinni hagvaxtarstefnu með því að skapa aðstæður til þess að fjárfestingar gætu aukist verulega.