Hafa samband

Vinnuverndarvika

Evrópska vinnuverndarvikan 2011, Öruggt viðhald – Allra hagur, verður að þessu sinni haldin 24. – 28. október. Áherslan er áfram þetta árið á viðhaldsvinnu eins og árið 2010 en nú verður horft til eftirfarandi þátta: “Vélar og tæki” – “Framleiðslulínur” – “Lítil fyrirtæki í viðhaldsverkefnum”  Af tilefni vinnuvernadarvikunnar verður haldin ráðstefna þriðjudaginn 25 október á grand Hótel. Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.


Ályktanir þings Starfsgreinasambands Íslands

Á þingi Starfsgreinassamband Ísland daganna 13-14 október síðastliðinn voru samþykktar sjö ályktanir er varða hagsmuni verkafólks á Íslandi. Meðfylgjandi í viðhengi eru allar ályktanirnar, og hér að neðan er stutt samantekt á innihaldi þeirra:

Ályktun um kjaramál

Í þessari ályktun er ríkisstjórnin hvött til þess að standa við þau loforð sem hún gaf út samhliða undirritun kjarasamninga í vor. Þingið bendir á að það sé ákveðin hætta á að forsendur kjarasamninga séu brostnar hvað varðar verðbólgu, gengi krónunnar og framkvæmdir til að vinna bug á átvinnuleysi. Þá valda ákveðnir þættir í nýútkomnu fjárlagafrumvarpi vonbrigðum.

Ályktun um efnahags- og atvinnumál

Þing SGS hefur miklar áhyggjur af stöðu efnahags- og atvinnumála. Það sé forgangsmál að auka arðbærar fjárfestingar svo unnt sé að örva hagvöxt og skapa störf. Stjórnvöld, atvinnulíf og fjármálakerfið eru hvött til þess að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar með því að stuðla að auknum fjárfestingum.

Ályktun um málefni heimilanna

Þing SGS hefur miklar áhyggjur af erfiðari stöðu heimila í landinu og eru fjármálastofnanir hvattar til að axla sína ábyrgð á skuldavanda heimilanna. Það sé mikilvægt að skapa þá efnahagsumgjörð að hægt sé að lækka vexti til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum Íslands. Þá telur þing SGS að mikilvægt að stjórnvöld (ríki og sveitarfélög) endurskoði tekju- og eignatengingar í vaxtabóta-, barnabóta-, og húsaleigubótakerfinu.

Ályktun um leiðréttingu forsendubrests

Þing SGS krefst þess að bankar og fjármálastofnanir leiðrétti skuldir heimilanna vegna þess forsendubrests sem varð á lánum heimila við efnahagshrunið 2008.

Ályktun um jafnréttismál

Þing SGS leggur áherslu á að kynbundinn launamunur sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði sé ólíðandi og mikilvægt sé að aðilar vinnumarkaðarins finni leiðir til að útrýma þessu ranglæti.

Ályktun um atvinnuleysisbætur

Þing SGS harmar afstöðu stjórnvalda gagnvart atvinnulausum sem endurspeglast í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi og krefst þess að fallið verði frá þeim áformum. Þess er krafist að stjórnvöld hækki bætur í samræmi við hækkun launataxta þeirra tekjulægri og greiði atvinnuleysisbætur í allt að fjögur ár.

Ályktun um séreignalífeyrissparnað

Þing SGS mótmælir harðlega vanhugsaðri fyrirætlun stjórnvalda að lækka skattfrelsi iðgjalda í séreignsjóði, þar sem slíkt mun hafa neikvæð áhrif á langtímasparnað sem er forsenda aukinnar fjárfestinga. Aðildarfélög SGS munu hvetja sína félagsmenn til að hætta að leggja í séreignasparnað af eigin launum, því annars lendir fólk í tvísköttun.

 


Starfshópur skal móta nýtt framtíðarskipulag SGS

Þing Starfsgreinasambands Íslands samþykkti í dag að skipa 7 manna starfshóp sem á að fara í ítarlega vinnu við að móta framtíðarskipulag Starfsgreinasambandsins. Störfum þessa hóps lýkur á framhaldsþingi sem haldið verður í síðasta lagi í maí 2012. Verkefni starfshópsins er að fara yfir framtíðarskipulag SGS, m.a. endurskoðun á hlutverki, starfsemi, stjórnkerfi, rekstri og lögum sambandsins með það að markmiði að einfalda stjórnkerfið, draga úr rekstrarkostnaði og færa starfsemi sambandsins að breyttu umhverfi aðildarfélaganna.

Við ákvörðun fulltrúa í starfshópinn var lögð áhersla á að velja formenn félaga sem endurspegla mismunandi sjónarmið og skoðanir um framtíð sambandsins.

Starfshópinn skipa eftirtaldir fulltrúar: Aðalsteinn Á Baldursson (Framsýn stéttarfélag), Björn Snæbjörnsson (Eining-Iðja), Halldóra S. Sveinsdóttir (Báran stéttarfélag), Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Afl starfsgreinafélag), Kolbeinn Gunnarsson (Vlf. Hlíf), Kristján Gunnarsson (VSFK) og Sigurður Bessason (Efling stéttarfélag).


Staða starfsendurhæfingar á vinnumarkaði

Á þriðja þingi Starfsgreinasambands Íslands þann 13-14 október síðastliðinn hélt Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs áhugavert erindi um starfsemi VIRKs og stöðu starfsendurhæfingar á vinnumarkaði.

Í erindinu kom m.a. fram að 2.500 einstaklingar hefðu nýtt sér þjónustu stofnunarinnar. VIRK veitir þessum einstaklingum margvíslega aðstoð og ráðgjöf, en marmiðið er að koma fólki aftur í störf. Stór hluti þessa hóps á við alvarlegan heilsubrest að stríða og á oft á tíðum ekki afturkvæmt á vinnumarkað.

Meðfylgjandi er kynningin


Starfshópur hefur veturinn til að móta framtíðarskipulag SGS

Þing Starfsgreinasambands Íslands samþykkti í dag að skipa 7 manna starfshóp sem ætlað er að fara í ítarlega vinnu við að móta framtíðarskipulag Starfsgreinasambandsins. Störfum þessa hóps lýkur á framhaldsþingi sem haldið verður í síðasta lagi í maí 2012. Verkefni starfshópsins er að fara yfir framtíðarskipulag SGS, m.a. endurskoðun á hlutverki, starfsemi, stjórnkerfi, rekstri og lögum sambandsins með það að markmiði að einfalda stjórnkerfið, draga úr rekstrarkostnaði og færa starfsemi sambandsins að breyttu umhverfi aðildarfélaganna. 

Tillögu starfsháttanefndar til þings Starfsgreinasambandsins um skipan starfshóps um framtíðarskipulag SGS má lesa hér.


Ræða forseta ASÍ við upphaf þings Starfsgreinasambandsins

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ kom víða við í ræðu sinni. Hann talaði um hversu grátt krónan hefði leikið launafólk í landinu og í atvinnumálunum sagði hann að mestu tækifærin fælust í að nýta þau tækifæri sem eru í okkar græna hagkerfi því Ísland gæti orðið eitt af fyrstu löndunum sem byggi meirihluta efnahagsstarfseminnar á grænum gildum.

Ræðu Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ má sjá hér. 


Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra við setningu þings SGS

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði í ávarpi sínu við setningu þings Starfsgreinasambandsins að það væri mikilvægt að verkalýðshreyfingin og stjórnvöld væru í sama liði til að vinna þjóðina út úr kreppunni. Hann hrósaði verkalýðshreyfingunni fyrir gott innlegg og samstarf í vinnumarkaðsúrræðum á undanförnum misserum.
Ávarp Guðbjarts Hannesonar velferðarráðherra má lesa hér. Athygli skal vakin á því að ráðherrann vék nokkuð frá skrifuðum texta í erindi sínu.


Setningarávarp Björns Snæbjörnssonar, formanns SGS á þingi sambandsins

Framtíð Starfsgreinasambandsins var Birni Snæbjörnssyni formanni hugleikið í setningarræðu hans á 3. þingi SGS sem hófst í morgun. Í ræðu sinni sagði hann m.a. “Ég tel að Starfsgreinasambandið sé nauðsynlegur vettvangur fyrir íslenskt verkafólk. Eitt af meginverkefnum þessa þings verður að ræða framtíð sambandsins. Ef Starfsgreinasambandið verður lagt niður þá mun það veikja  samstöðu launafólks og í raun eyðileggja besta verkfærið sem almennt launafólk hefur til baráttu.”

Ræðu Björns Snæbjörnssonar formanns Starfsgreinasambandisns má lesa í heild sinni hér.


Þing Starfsgreinasambands Íslands

Starfsgreinasamband Íslands mun halda þing sambandsins dagana 13-14 október næstkomandi á Hótel Loftleiðum. Þingsetning hefst kl. 11:00 með ávarpi formanns og gesta. Kjörorð þingsins er “Horft til framtíðar”, en megináherslan verður á skipulagsmál sambandsins – verkefni og hutverk. Einnig verður umfjöllun um kjara- og atvinnumál, enda skipta þau mál félagmenn SGS miklu máli.

Þingið munu sitja 137 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum.