Hafa samband

Tilkynning – Vísun kjaradeilu við sveitarfélögin til ríkissáttasemjara

 

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga, mótmælir harðlega þeirri stefnu sveitarfélaganna að draga til baka þær leiðréttingar sem starfsmenn þeirra  innan SGS, hafa fengið á undanförnum árum.

Tillaga SNS er í algjörri andstöðu við þá launastefnu sem mörkuð hefur verið á vinnumarkaðnum á liðnum vetri. Samningar hafa nú verið lausir í sex mánuði, en  um þrjár vikur eru síðan SNS lagði fram tilboð sitt um launahækkanir.

Frá upphafi hefur samninganefnd SGS sagt að aðferðafræði SNS gengi ekki upp og vísað í þá samninga sem ríkið og Reykjavíkurborg hafa gert við sambærilega hópa. Samninganefnd SGS telur að ekki verði hjá því komist að vísa kjaradeilu sambandsins við sveitarfélögin til ríkissáttasemjara og freista þess í framhaldinu að ná fram ásættanlegri niðurstöðu.

Flóabandalagið- Efling stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur hafa einnig vísað sinni kjaradeilu við Samninganefnd Sveitarfélaganna til ríkissáttasemjara.


Sveitarfélögin segja konum á lágum launum stríð á hendur og snúa samræmdri launastefnu á hvolf!

Grein rituð af Signý Jóhannesdóttur, formanni samninganefndar SGS við sveitarfélögin.

Á liðnum vetri hefur verið lögð mikil vinna í það að finna leiðir til að auka kaupmátt launafólks. Mikil áhersla hefur verið lögð á að hækka lægstu laun, en hafa jafnframt möguleika á að koma til móts við millitekjuhópa sem setið hafa eftir í þeim hremmingum sem dunið hafa yfir. Þann 5. maí var skrifað undir samninga milli ASÍ og SA, þar sem kveðið var á um að kauptaxtar launafólks skyldu hækka um  kr. 12.000, 11.000 og 11.000. Þann 1. febrúar 2013 eiga taxtalaun því að hafa hækkað um kr. 34.000. Launahækkun þeirra sem ekki tækju laun eftir töxtum skyldi hækka á sama tíma um 4,25% 3,5% og 3,25% eða alls 11.4% með margfeldisáhrifum.

Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið síðan þá taka mið af þessu. Má þar nefna samninga Reykjavíkurborgar við Eflingu, ríkisins fh. fjármálaráðherra við SFR og SGS og áfram mætti lengi telja.

Samband íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd þess, hér eftir nefnd SNS, er á annari skoðun og telur að sveitarfélögin þurfi ekki að fylgja þessari stefnu, enda hafi þau aldrei verið spurð um álit sitt á þessari stefnu. Sveitarfélögin eru hvert öðru auralausara og ekkert undarlegt að þau kveinki sér undan þessum launahækkunum, gæti einhver sagt, sem ekki hefur séð excel æfinguna sem SNS hefur verið að föndra við sl. vetur

Samninganefnd SGS hefur unnið að gerð nýs kjarasamnings í góðri samvinnu við SNS. Unnið hefur verið að úrbótum og samræmingu í texta samninganna, lagfæringu réttindakafla og fleira því líkt. Þegar krónur og aura hefur borið á góma hefur SNS vísað í bið eftir almenna markaðnum og stunið hefur verið undan óbilgirni LÍÚ. Rætt hefur verið um þörfina á því að lagfæra launatöfluna sem er mikið bjöguð eftir láglauna lagfæringar liðinna ára og mánaðarlegar eingreiðslur sem færðar voru inn í töflu. Rætt hefur verið um að launataflan þjóni ekki lengur starfsmatinu og fleira í þeim dúr. Samninganefnd SGS og undirrituð sem formaður hennar hefur vissulega ekki mótmælt neinu af þessu, en alltaf hnykkt á því að lagfæringarnar kosti mikla  peninga og ekki megi gleyma því að standa þurfi vörð um þá sem lægst launin hafa hjá sveitarfélögunum. Það fólk er í SGS, konur í umönnunarstörfum sem sótt er að með auknu vinnuálagi, skertu starfshlutfalli og jafnvel uppsögnum.
Það hefði ekkert komið á óvart þó að tilboð SNS um launahækkanir, þegar það tilboð var loksins dregið upp úr hatti um miðjan maí, hefði verið eitthvert tilbrigði við stef vegna fjárhags sveitarfélaganna og þeirrar áherslu sem lögð hefur verið á að endurvekja launatöfluna.
En að tillagan reyndist vera tilræði gegn félagsmönnum í Starfsgreinasambandi Íslands kom okkur vissulega í opna skjöldu. Fulltrúar SNS játa að þeir geti ekki náð fram öllum markmiðum sínum með það takmarkaða fé sem sveitarfélögin hafa til ráðstöfunar. Nú þurfi að hugsa um millitekjuhópana, koma í veg fyrir atgervisflótta og gera starfsmatið skilvirkara.
Hvaða markmiði er þá  fórnað? Það er markmiðinu að standa vörð um þá sem minnst hafa. Konurnar í umönnunarstéttunum fengu svo fínar hækkanir í gegnum starfsmatið á sínum tíma og eiga bara að vera sáttar við sitt. Bíddu nú við, kvennastörfin sem hafa verið vanmetin frá örófi alda, fengu leiðréttingu í gegnum starfsmatið og geta þá bara sætt sig við að fá t.d. 26.949 á grunnlaunin sín til 30. september 2014? Takturinn væri þá þessi: 1. júní 2011 kr. 8.439, 1.mars 2012 kr. 7.159, 1. mars 2013 kr. 4.560 og svo 1. mars 2014 þegar samningar annarra væru, lausir þá kæmi 6.791. Þetta þýðir með öðrum orðum að á sama tíma og almennt er verið að hækka laun um 34.000 kr. þ.e. til febrúar- mars 2014, fær starfsmaður sveitarfélags utan höfuðborgarinnar, á leikskóla og grunnskóla kr. 20.158. Reykjavíkurborg samdi við Eflingu á grundvelli samræmdrar launastefnu.

Það sem alvarlegast er í þessu sambandi er að það eru til stéttarfélög með á annað þúsund félagmanna í þessum störfum, sem skrifað hafa undir þetta tilboð SNS sem kjarasamning. Hvernig það gat gerst er mér algjörlega óskiljanlegt. Vissulega finnast tölur í launatöflu SNS sem líta vel út og viðkomandi einstaklingar sem þeirra njóta geta vel við unað. Þessir einstaklingar gætu verið að fá kr. 40.000 til 50.000 á samningstímanum og eru í millitekjuhópunum.  Einnig er að finna í töflunni mjög óraunverleg dæmi um launahækkanir sem í raun eru nánast bara tölur á blaði vegna þess að verið er að fella út lífaldursþrep, en lang stærsti hluti starfsmanna sveitarfélaga er í efsta þrepi. Það hefur oft verið haft á orði að dæmigerður starfsmaður sveitarfélags sé 47 ára gömul kona sem starfar við umönnun. Nú skal henni fórnað.

Starfsgreinasamband Íslands mun mæta þessari herferð Sambands íslenskra sveitarfélaga gegn láglaunafólki, af fullri hörku.

Signý Jóhannesdóttir

Stýrir sviði opinberra starfsmanna innan SGS, en mun ekki gera það mínútunni lengur ef þetta stríð tapast.


Tilkynning varðandi eingreiðslu

Vegna fjölda fyrirspurna varðandi 50.000kr eingreiðslu sem samið var um í kjarasamningum SGS og SA og greiða á út í júní, ber að hafa þetta á hreinu:

 Eingreiðslan er 50.000kr en ofan á hana skal reiknað orlof á miðað við orlofsprósentu hvers einstaklings.

Starfsmenn sem létu af störfum í apríl eða eru í hlutastarfi fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl. Starfsmenn sem hófu störf í apríl og voru enn í starfi 5.maí fá hlutfallslega greiðslu miðað við störf í apríl og maí.


Kjarasamningur SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs

Samninganefnd Starfsgreinasambandsis fyrir hönd aðildarfélaga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs skrifuðu undir kjarasamninga í hádeginu í dag.

Samninganefndin er mjög sátt með að hafa náð að tryggja fólki þær launahækkanir sem samið var um á almenna markaðnum.

Vert er að vekja athygli á því að samningurinn er tveimur mánuðum lengri en kjarasamningur SGS við SA en hann rennur út þann 31.mars 2014.

Launahækkanirnar árin 2012 og 2013 koma mánuði síðar en í samningi SGS við SA en á móti kemur að í lok samningstímans fá félagsmenn með aðild að þessum kjarasamningi 38 þúsund króna eingreiðslu

Samninginn í heild sinni er að finna hér


Launataxtar

Launataxtar með kjarasamningi SGS við SA sem tekur gildi í dag, 1.júní, hafa nú verið settir inn á heimsíðuna. Þá má nálgast undir kjaramál-kauptaxtar. Einnig má nálgast kjarasamninginn í heild sinni undir kjaramál-kjarasamningar.

Samkvæmt kjarasamningnum tekur almenn launahækkun gildi í dag upp á 4,25%


Kjarasamningar samþykktir

Þau aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands sem sambandið hafði samningsumboð fyrir í kjaraviðræðum hafa öll samþykkt nýgerðan kjarasamning við Samtök Atvinnulífsins.

Samningurinn gengur í gildi 1.júní nk. og gildir til þriggja ára svo framarlega sem ríkisvaldið og Alþingi skili sínu.

Félögin sem Starfsgreinasambandið fór með umboð fyrir má sjá hér að neðan ásamt sundurliðun úrslita úr kosningu hvers félags fyrir sig.

AFL starfsgreinafélag

 

Á kjörskrá voru 1569 manns og af þeim greiddu 507 atkvæði eða 32% félagsmanna.

Já sögðu 445 eða 87,8%

Nei sögðu 60 eða 11,8%

Auðir og ógildir seðlar voru 2 eða 0,4%

 

Aldan stéttarfélag

 

Á kjörskrá voru 544 manns og af þeim greiddu 146 atkvæði eða 27% félagsmanna.

Já sögðu 121 eða 83%

Nei sögðu 22 eða 15%

Auðir og ógildir seðlar voru 3 eða 2%

 

Báran stéttarfélag

 

Á kjörskrá voru 1265 manns og af þeim greiddu 278 atkvæði eða 22% félagsmanna.

Já sögðu 242 eða 87%

Nei sögðu 34 eða 12%

Auðir og ógildir seðlar voru 2 eða 1%

 

Drífandi stéttarfélag

 

Á kjörskrá voru 427 manns og af þeim greiddu 186 atkvæði eða 44% félagsmanna.

Já sögðu 130 eða 70%

Nei sögðu 56 eða 30%

Engum auðum eða ógildum seðlum var skilað inn

 

Eining-Iðja

 

Á kjörskrá voru 2461 manns og af þeim greiddu 778 atkvæði eða 32% félagsmanna.

Já sögðu 660 eða 85%

Nei sögðu 101 eða 13%

Auðir og ógildir seðlar voru 17 eða 2%

 

Stéttarfélag Vesturlands

 

Á kjörskrá voru 328 manns og af þeim greiddu 105 atkvæði eða 32% félagsmanna.

Já sögðu 93 eða 89%

Nei sögðu 11 eða 10%

Auðir og ógildir seðlar voru 1 eða 1%

 

Stéttarfélagið Samstaða

 

Á kjörskrá voru 257 manns og af þeim greiddu 116 atkvæði eða 45% félagsmanna.

Já sögðu 102 eða 88%

Nei sögðu 10 eða 9%

Auðir og ógildir seðlar voru 4 eða 3%

 

Verkalýðsfélag Grindavíkur

 

Á kjörskrá voru 453 manns og af þeim greiddu 25 atkvæði eða 6% félagsmanna.

Já sögðu 23 eða 92%

Nei sögðu 2 eða 8%

Engum auðum eða ógildum seðlum var skilað inn

 

Verkalýðsfélag Snæfellinga

 

Á kjörskrá voru 1103 manns og af þeim greiddu 205 atkvæði eða 18% félagsmanna.

Já sögðu 182 eða 89%

Nei sögðu 19 eða 9%

Auðir og ógildir seðlar voru 5 eða 2%

 

Verkalýðsfélag Suðurlands

 

Á kjörskrá voru 380 manns og af þeim greiddu 182 atkvæði eða 48% félagsmanna.

Já sögðu 168 eða 92,3%

Nei sögðu 8 eða 4,4%

Auðir og ógildir seðlar voru 6 eða 3,3%

 

Verkalýðsfélag Vestfirðinga

 

Á kjörskrá voru 649 manns og af þeim greiddu 285 atkvæði eða 44% félagsmanna.

Já sögðu 277 eða 97%

Nei sögðu 6 eða 2%

Auðir og ógildir seðlar voru 2 eða 1%

 

Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur

 

Á kjörskrá voru 50 manns og af þeim greiddu 9 atkvæði eða 18% félagsmanna.

Já sögðu 8 eða 89%

Nei sögðu 1 eða 11%

Engum auðum eða ógildum seðlum var skilað inn

 

Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis

 

Á kjörskrá voru 309 manns og af þeim greiddu 129 atkvæði eða 42% félagsmanna.

Já sögðu 116 eða 89,9%

Nei sögðu 7 eða 5,4%

Auðir og ógildir seðlar voru 6 eða 4,7%


Meginmarkmið Starfsgreinasambandins í höfn með nýjum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins.

Kröfugerð samninganefndar Starfsgreinasambandsins var kynnt Samtökum atvinnulífsins 6. desember s.l. en kjarasamningurinn rann út þann 30. nóvember. Síðan eru liðnir fimm mánuðir í erfiðum og vandasömum viðræðum en nú er samningur loks í höfn. Vegna þessarar tafar gerir samningurinn ráð fyrir eingreiðslu að fjárhæð kr. 50.000 fyrir lok maí en launahækkanir koma svo til framkvæmda 1. júní. Margar bókanir (alls 21) um sérmál starfsgreinasviðanna og breytingar á aðalkjarasamningi sambandsins náðu fram að ganga þó þær verði ekki tíundaðar hér í bili.

Það var meginmarkmið samninganefndar Starfsgreinasambandsins að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Sá samningur sem undirritaður var í dag er veigamikill þáttur í þeirri vegferð, upphaf að endurreisninni. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld þurftu að koma að málinu saman svo væntingar gangi eftir og verðbólga drekki ekki kjarabótunum. Krafan um 200 þúsund króna lágmarkslaun strax náðist ekki. Hún kemur hins vegar í áföngum, fer úr kr. 165 þús. í kr. 182 þús. 1. júní og svo 193 þúsund 1. febrúar 2012 og loks í 204 þús. krónur 1. febrúar 2013, en hækkunin er tæp 24% á samningstímanum.

Það var skýr krafa okkar allan tíman að krónutöluhækkun kæmi á launataxtana, enda kemur það þeim sem vinna á strípuðum launatöxtum mun betur. Okkur hefur því tekist enn eina ferðina að verja og bæta kaupmátt hinna lægst launuðu, allt að 13% á samningstímanum. Þá hefur einnig tekist að ná fram umframhækkun í fiskvinnslu og ræstingu, en reiknitölur í bónus- og ákvæðisvinnu hafa setið eftir í kjarasamningum liðinna ára. Það er nú lagfært verulega.

 

Samningurinn gerir ráð fyrir  annars vegar almennum launahækkunum þann

1. júní 2011           4,25%

1. febrúar 2012     3,5%

1. febrúar 2013     3,25%

 

Launatafla Starfsgreinasamandsins hækkar þó meira, eins og áður sagði, eða um 12.000 krónur 1.júní n.k. og svo um 11.000 kr. árin 2012 og 2013.

 

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku), fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki verða:

1. júní 2011           kr. 182.000 á mánuði.

1. febrúar 2012     kr. 193.000 á mánuði

1. febrúar 2013     kr. 204.000 á mánuði.

 

Samningurinn verður birtur í heild sinni hér á vefnum á morgun en hann og samningur Flóafélaganna er sambærilegur í öllum meginatriðum.


1. maí. Aukum atvinnu – bætum kjörin.

Nú 1. maí, á baráttudegi verkafólks eru kjaraviðræður í hnút. Krafa dagsins er um aukna atvinnu og bætt kjör.

Fyrir verkalýðshreyfinguna og okkur í Starfsgreinasambandinu var krafa dagsins um aukna atvinnu og bætt kjör lykilkrafa. Við viljum og vildum auka kaupmáttinn og við vitum að lífskjörin verða því aðeins bætt að raunveruleg verðmætasköpun liggi að baki. Þess vegna vorum við tilbúin til að fara þá atvinnuleið sem Samtök atvinnulífsins lögðu til,  því hin leiðin er verðbólguleið sem fjallar um kauphækkanir án hagvaxtar, án innistæðu með minni kaupmátt og kjaraskerðingar þegar upp er staðið eins og Seðlabanki varaði við þegar hann kynnti síðustu vaxtaákvörðun sína. Þá töldu sérfræðingar bankans að launabreytingar gætu farið yfir þau mörk sem stöðugleikinn þolir og þá er verr af stað farið en heima setið í því ástandi sem nú ríkir.

Menn voru hóflega bjartsýnir fyrir páska. Kjarasamningur, annars vegar með krónutöluhækkun, sem gagnast taxtafólkinu best og prósentuleið fyrir hina, var í sjónmáli 15. apríl. Auk þess virtist vilji atvinnurekenda í fiskvinnslu standa til þess að lagfæra reiknitölur í bónus sem tryggt hefði fiskvinnslufólki aukinn kaupmátt til viðbótar öðrum launabreytingum.

Þetta reyndist blekking. Samtök atvinnulífsins ætluðu ekki að semja nema þau fengju fram vilja sinn um sjávarútvegsmál gagnvart ríkisstjórninni. Slík gíslataka stríðir gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Krafan er sett fram til að þvinga stjórnvöld til að framkvæma eitthvað sem þeim ber ekki að gera samkvæmt ákvæðum laganna.  Kjaradeilan er komin í hnút. Samtök atvinnulífsins fara ekki að lögum. Ríkisstjórnin lætur ekki kúga sig.

Hvaða óvissa í sjávarútvegsmálum tefur fyrir gerð kjarasamninga?  Er það óvissan fyrir fiskvinnslufólkið?

Hvað eru ekki mörg dæmi um það að kvóti hafi verið fluttur burt úr byggðum þar sem íbúarnir hafa verið skildir eftir atvinnulausir með sárt ennið og verðlausar eignir?  Á það að vera svoleiðis óvissa til frambúðar í byggðum landsins að örlög og atvinnumöguleikar séu alfarið í höndum örfárra útvegsmanna? Viljum við það eða viljum við tyggja að allir Íslendingar njóti atvinnumöguleika og ávaxta af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar? Að það sé í okkar höndum og lögmætra stjórnvalda hvernig hér verður gert út áfram. Eiga útvegsmenn að ráða því einir?

Það, að ótryggt sé að útvegsmenn ráði einir framvindu mála áfram sem hingað til er þeirra óvissa. Þeirri óvissu vilja þeir eyða á kostnað okkar hinna.

Starfsgreinasambandið hefur tekið undir mikilvægi byggðasjónarmiða í umræðunni um sjávarútveg og fiskvinnslu en hafa verður í huga að flutningur á kvóta úr einu byggðarlagi í annað kvótaminna er ekki endilega lykill að atvinnuuppbyggingu þar. Þvert á móti gæti slíkur tilflutningur haft tjón í för með sér fyrir heildina. Sú  var tíðin að fiskiskipaflotinn var allt of stór og svo virðist reyndar vera enn. Mest er um vert að kvótinn nýtist sem best öflugum fyrirtækjum, stórum og smáum í klasabyggðum landshlutanna, eins og t.d. í Vestmannaeyjum og við Eyjafjörð og víðar þar sem þjónustugreinar við útveg og önnur sjávarútvegstengd starfsemi getur þróast og haft tryggan rekstrargrundvöll líka. Búast menn við að ríkisstjórnin, verkalýðshreyfingin og fólkið í landinu séu á móti þessu? Eru Samtök atvinnulífsins og útvegsmenn að storka lýðræðinu?

 

Þær kjaraviðræður sem fóru af stað í nóvember í fyrra með það markmið verkafólks og Samtaka atvinnulífsins  að bæta kjörin með aukinni verðmætasköpun hafa snúist upp í deilu um það hver eigi að stjórna landinu. Vissulega höfum við í verkalýðshreyfingunni beitt okkar samtakamætti til að knýja á um félagsleg réttindi en það hvernig útvegsmenn og Samtök atvinnulífsins beita valdi sínu nú tekur út yfir allan þjófabálk. Því verðum við að mæta af fyllstu hörku en við megum heldur ekki skella skollaeyrum við þeim aðvörunarorðum sem komu úr Seðlabankanum um daginn. Þess vegna flýtum við okkur hægt og viljum nú semja til eins árs og sjá svo til hvort hagvaxtarleiðin verði fær þegar Samtök atvinnulífsins hafa fangað skynsemi sína og áttað sig á því að það er réttur ríkisstjórnarinnar að stjórna landinu.

 

Ríkisstjórnin verður hins vegar að hafa í huga að því fylgir pólitísk ábyrgð að stjórna og nú reynir á þá ábyrgð. Sú ábyrgð felst fyrst og fremst í því að hafa forystu fyrir umræðu og ráðstöfunum sem leiða til hagvaxtar og stöðugleika og geta um leið komið í veg fyrir að kjarasamningar til lengri eða skemmri tíma leiði til aukinnar verðbólgu. Í þeirri umræðu vill verkalýðshreyfingin axla sína ábyrgð af festu og með afli ef nauðsyn krefur og við látum ekki hvað sem er yfir okkur ganga.

 

Verkalýðshreyfingin ræðir nú verkfallsaðgerðir til að mæta óbilgirni atvinnurekenda. Það er gert í nauðvörn.  1. maí í ár er þess vegna öðrum dögum mikilvægari. Í dag er kominn tími til að berjast fyrir endurreisn atvinnulífsins og koma kjarabótum á raunverulegt skrið. Einungis samstaða dugar til þess. Þá samstöðu getum við sýnt 1. maí, á baráttudegi verkafólks.


Kjaraviðræður í hnút- verkfallsboðun rædd?

Það er gamall sannleikur og nýr að ekkert fæst án baráttu. Í þeirri baráttu er verkfallsvopnið öflugt en vandmeðfarið. Það ber að nota af ábyrgð. Nú er nauðvörn.

Tilboð Starfsgreinasambandsins sem lagt var fram fyrir páska að kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins var hafnað. Samtök atvinnulífsins standa föst á þeirri kröfu að ekki verði samið á almennum vinnumarkaði nema gengið sé fyrst frá málefnum sjávarútvegsins innan ríkisstjórnarinnar. Þau virðast föst í neti útvegsmanna. Þessi krafa Samtaka atvinnulífsins var ekki til umræðu þegar samningsaðilar hittust í janúar. Þá var óskaði eftir því við Starfsgreinasambandið og önnur aðlidarsambönd ASÍ að samið yrði um samræmda launastefnu til 3ja ára, m.a. til að tryggja stöðugleika og atvinnuppbyggingu hér á landi. Þeim sjónarmiðum var svarað jákvætt og því mátti ætla að vilji hafi verið til samninga. Það reyndist blekking. Samtök atvinnulífsins ætluðu ekki að semja nema þau fengju fram vilja sinn gagnvart ríkisstjórninni. Slík gíslataka stríðir gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/ 1938. Krafan er sett er fram í viðræðum um gerð kjarasmnings milli aðila vinnumarkaðarins. Henni er ætlað að þvinga stjórnarvöld til að framkvæma eitthvað sem þeim ber ekki að gera samkvæmt ákvæðum laganna. Kjardeilan er kominn í hnút. Samtök atvinnulífsins fara ekki að lögum. Ríkisstjórnin lætur ekki kúga sig. Við verkafólk er ekki samið.

Aðgerðarhópur Starfsgreinasambandsins ræðir nú möguleika á verkafallsaðgerðum til að mæta óbilgirni atvinnurekenda. Kjaradeilunni var vísað á borð ríkissáttasemjara í janúar. Viðræður um launaliði hafa reynst áranguslausar. Það er hlutverk ríkissáttasemjara að reyna allar leiðir til að fá menn að samningaborðinu. Takist honum það ekki og láti Samtök atvinnulífsins ekki af ólögmætum aðgerðum sínum blasir verkfallsboðun við með dapurlegum afleiðingum fyrir t.d. ferðaþjónustusumarið, verslun og iðnað í landinu. Það er okkar nauðvörn og barátta sem við verðum að taka eigi árangur að nást í kjaraviðræðunum.


Reynt til þrautar

Eins og kunnugt er tók Starfsgreinasambandið virkan þátt í samningaviðræðum ASÍ við Samtök atvinnulífsins sem slitnaði upp úr á föstudagskvöld. Flest sérmál Starfsgreinasambandsins voru þá í höfn en þó var enn ósamið um nýja nálgun í ákvæðistengdri ræstingarvinnu og um kjör ræstingarfólks auk þess sem áherslur um málefni fiskvinnslunnar voru ókláruð. Brýnt er að ná sátt í þessum málum strax næstu daga, en það er m.a. forsenda fyrir því að unnt verði að klára kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins.

Þótt viðræður ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hafi farið út um þúfur um skeið, ber okkur engu að síður skylda til að reyna samninga til þrautar. Deilu Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins var vísað á borð ríkissáttasemjara í janúar, en þær viðræður hafa þó enn ekki verið sagðar áranguslausar.

Starfsgreinasambandið lagði í dag fram tilboð að kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins til þess að freista þess að viðræður skili árangri sem fyrst. Tilboð Starfsgreinasambandsins hljóðar nú upp á kjarasamning til eins árs með 15.000 kr. launataxtahækkun frá 1. mars að telja og almenna kauphækkun upp á 4,5% svo og að lágmarkstekjutrygging hækki í 200.000 krónur á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að samkomulag sem náðst hefur í ýmsum sérmálum sambandsins undanfarnar vikur gildi í nýjum samningi.

Fundur með Samtökum atvinnulífsins hefur verið boðaður strax eftir páska


Síða 4 Af 6Fyrst...345...Síðast