Hafa samband

Aðgerðir farnar af stað, 83,5% vilja verkafall í fiskimjölsverksmiðjum til að knýja á um gerð nýs kjarasamnings.

Ljóst er að mikil hugur er í bræðslumönnum og hann hefur ekki minnkað við síðasta útspil Samtaka atvinnulífsins. Atkvæði voru talin á skrifstofu Starfsgreinasambandsins í morgun.

Starfsfólk í fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi og í Vestmannaeyjum, félagsmenn Starfsgreinasambandsfélaganna Afls á Austurlandi og Drífanda í Vestmannaeyjum, hefur samþykkt að boða til verkfalls 7. febrúar n.k. í fiskimjölsverksmiðjum á Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Hornafirði og tveimur bræðslum í Vestmannaeyjum.

Alls voru 75 starfsmenn á kjörskrá en 73 greiddu atkvæði.  61 greiddu atkvæði með verkfalli eða 83,5% til að knýja á um gerð kjarasamnings. 5 voru á móti, 1 atkvæði var ógilt og 6 auð. Verkfallið hefst 7. febrúar og stendur í þrjá daga. Það verður endurtekið 14. febrúar, einnig í þrjá daga og svo ótilgreint frá og með 21. febrúar hafi samningar þá enn ekki tekist.


Samtök atvinnulífsins setja eigin hugmyndafræði í uppnám

Fyrsti fundur samninganefndar Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins, eftir að kjaradeilunni var vísað til Ríkissáttasemjara þann 16. þ.m., var haldinn hjá sáttasemjara í morgun.

Ljóst er að mikið ber í milli samningsaðila. Samtök atvinnulífsins lýstu þeirri kröfu sinni að ekki yrði samið á almennum vinnumarkaði nema gengið væri fyrst frá málefnum sjávarútvegsins innan ríkisstjórnarinnar. Þessi krafa SA var ekki til umræðu þegar samningsaðilar hittust þann 7. janúar. Þá óskaði SA eftir því við Starfsgreinasambandið að samið yrði um samræmda launastefnu til 3ja ára, m.a. til að tryggja stöðugleika og atvinnuppbyggingu hér á landi. Þeim sjónarmiðum svaraði samninganefnd SGS á jákvæðum nótum og því kemur það verulega á óvart að SA geri nú kröfu um að blanda málefnum sjávarútvegsins inn í kjaraviðræðurnar þegar viðræðurnar virtust vera að falla í farveg. Krafa SA núna verður ekki túlkuð öðruvísi en svo að Samtök atvinnulífsins hafni sinni eigin hugmyndafræði.

Starfsgreinasambandið stendur við kröfur sínar um tvöhundruð þúsund króna lágmarkslaun fyrir dagvinnu og almennar hækkanir á launatöxtum sambandsins. Þar með er deilan komin í hnút og engu líkara en grípa þurfi til aðgerða til að knýja á um gerð kjarasamnings ef afstaða SA breytist ekki. Starfsgreinasambandið ítrekar enn mikilvægi þess að kjarasamningarnir verði vegvísir út úr þeim vanda sem við er að glíma en þá verða Samtök atvinnulífsins að sýna ábyrgð gagnvart launafólki og virða það viðlits án þess að málefnum sjávarútvegsins sé blandað í þá umræðu.

Næsti fundur samningsaðila er boðaður hjá Ríkissáttasemjara þann 2. febrúar n.k.


Skilyrtir kjarasamningar

Hvað ætli Samtökum atvinnulífsins þætti um ef verkalýðshreyfingin gerði það að skilyrði í kjarasamningum að fiskveiðikvótinn gengi til fólksins í landinu en ekki til útvalinna útvegsmanna?

Samtökum atvinnulífsins er fyrirmunað að gera kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nema LÍÚ ráði landsins lögum. Þeir gera það ekki endasleppt, útgerðarmennirnir! Hversu langt munu þeir seilast? Verður húsnæði landsmanna kannski eign LÍÚ?

Trygg rekstrarskilyrði sjávarútvegs í byggðum landsins og að arðurinn af auðlindinni renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar kemur ekki til mála að mati SA. Vilhjálmur Egilsson fer fyrir orðræðunni undir forskriftinni að tryggja verði útgerðinni rekstargrundvöll til framtíðar og tækifæri til eðlilegra fjárfestinga. Stöldrum nú við. Hvernig hafa mál þróast í raun hjá þessum snillingum útgerðarinnar?

Ljóst er að mikil framleiðniaukning hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Þótt meðalafli hafi minnkað um tæplega þriðjung í þorskígildum, hefur störfum í greininni fækkað um helming á hálfum öðrum áratug. Reyndar hefur störfum í fiskvinnslu fækkað yfir 60% frá árinu 1995, án þess að sú hagræðing hafi skilað sér í budduna hjá fiskvinnslufólki. Auk þessa hefur launahlutfallið lækkað úr 40% árið 1997 í 35% árið 2008 og með gengishruninu hefur launahlutfallið minnkað enn meira. Svo vilja þessir menn ekki semja og hafa í hótunum.

En hvert fór hagræðingin í greininni?

Ekki í fjárfestingar og styrkingu eigin fjár íslenskra útvegsfyrirtækja.

Það er kunnara en frá þurfi að segja hvaða hlutverk skuldsetning í sjávarútvegi hafði í bóluhrunhagkerfinu. Hvernig fyrirtækin voru skuldsett til að hægt væri að greiða ,,eigendum” arð sem fór í annað en samfélagslega ábyrgð og styrkingu útvegs á Íslandi. Í lok árs 2008, hrunárið, var svo komið að einungis 40% sjávarútvegsfyrtækja áttu að geta ráðið skammlaust við skuldastöðu sína. 45% fyrirtækja voru í erfiðri skuldastöðu og 15% þeirra eru tæknilega gjaldþrota. Rúmlega 30% fyrirtækja í sjávarútvegi hafa lægra eiginfjárhlutfall en 50% og 30% þeirra með eiginhfjárhlutfall á bilinu mínus 50% til plús 25% í árslok 2008. Nú kemur SA og heimtar sérlausnir fyrir LÍÚ í nafni atvinnuuppbyggingar. Er þeim treystandi?

Eftir hrun bóluhagkerfisins sem útgerðin átti sinn þátt í að varð til má stórefast um færni útvegsmanna til fjárfestinga í greininni svo vægt sé til orða tekið.

Auðvitað eru allir skynsamir menn sammála mikilvægi þess að sjálfbærni, hagræði og hagkvæmni sé gætt í útgerð og fiskvinnslu. Til þess þarf auðvitað fiskveiðistjórnunarkerfi, en það kerfi þarf ekki endilega á LÍÚ að halda. Þar liggur misskilningurinn.  Vel má hugsa sér aðrar lausnir í útgerð, þar sem sjálfbærni hafsins, hagsmunir fólksins og byggðanna ráða för. Svo hefur ekki verið undir leiðarstjörnu LÍÚ. Aldeilis ekki.


Starfsgreinasambandið vill skoða samræmda launastefnu.

Á fundi samninganefndar Starfsgreinasambandins, annarra en Flóafélaganna þriggja,  sem haldinn var í dag gerðu fulltrúar aðildarfélaganna grein fyrir afstöðu viðkomandi félaga til hugmynda að samræmdri launastefnu á vinnumarkaði. Tólf félög samþykktu að skoða nánar hugmyndir um samræmda launastefnu, þó með ýmsum fyrirvörum. Tvö félög voru andvíg þessum sjónarmiðum en fulltrúar tveggja félaga voru fjarverandi.

Samninganefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að kjarasamningarnir verði vegvísir út úr þeim vanda sem við er að glíma en þá verða Samtök atvinnulífsins og ríkisvaldið að vera tilbúin til þess að koma til móts við áherslur Starfsgreinasambandsins.


Kjaradeilu Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins vísað til ríkissáttasemjara

Á fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands(SGS) f.h. aðildarfélaga sinna annarra en Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis sem haldinn var í dag,  var samþykkt að vísa kjaradeilu SGS við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Að mati samninganefndarinnar hefur hægt miðað og því sé mikilvægt að þrýsta á um markvissari viðræður sem leiddar verði af ríkissáttasemjara ef það gæti orðið til þess að skila kjarasamningi aðila í höfn frekar fyrr en síðar.


Samningaviðræður hafnar

Samninganefnd Starfsgreinasamandsins, annarra en flóafélaganna, átti fund með Samtökum atvinnulífsins, SA, í gær föstudag, þar sem skipst var á skoðunum um kröfugerð Starfsgreinasambandsins og mál reifuð. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA gat þess að samtökin hafi nú hitt öll aðildarfélög innan ASÍ. Þar hafi sú grundvallarspurning verðið lögð á borðið hvort menn væru tilbúnir til að ræða ,,samræmda launasstefnu” á vinnumarkaði með kjarasamningi til 3ja ára á hógværum nótum eins og í nágrannalöndunum.

Þótt samræmd launastefna sé e.t.v. skynsamleg er vandséð hvernig slíkri stefnu verði náð í sátt allra þeirra fjölmörgu aðila sem hafa lausa kjarasamninga um þessar mundir. Staða atvinnugreinanna er afar misjöfn og ljóst er að sveitarfélög og ríkið eru ekki beinlínis burðugir atvinnurekendur um þessar mundir. Í slíku umhverfi er hæpið að samkomulag náist um samræmda launastefnu, þótt góður vilji væri fyrir hendi og fyrir slíkri stefnu væru mörg skynsemisrök. Nærtækara er að  ætla að frumkvæði að kjaraumhverfi næstu ára verði mótað í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum fyrst og fremst, milli SA og þeirra aðildarsambanda ASÍ sem þyngst vega.

Starfsgreinasambandið er og hefur verið sér meðvitað um mikilvægi þess að koma fjárfestingum í atvinnulífinu í gang, sem er lykilatriði út úr þeim vanda sem við er að glíma til að efla atvinnustigið. Þá er einnig ljóst að kjarasamningar sem byggja á stöðugleika er ein af forsendum nýrra fjárfestinga. Til þess að ná stöðugleika þarf þó margt fleira að koma til en viðhorf aðila vinnumarkaðarins og óskhyggja. Lausn Icesave málins skiptir máli og gengið verður að styrkjast meira. Sú framtíðarsýn að hér sé stöðugur gjaldmiðill næst aldrei ef við viljum ekki losa okkur við krónuna og gjaldeyrishöftin. Hækkun persónuafsláttar, vaxta- og húsaleigubætur eru mikilvægar stjórnvaldsaðgerðir sem leiða til aukins kaupmáttar. Þetta allt eru veigamikil atriði sem snúa að stjórnmálum og stjórnvöldum en til þeirrar áttar horfir illa með trúnað og traust sem stendur. Stöðugleiki á vinnumarkaði er þó engu að síður háður pólitíksum vilja.

 

Starfsgreinasambandsfélögin hafa krafist 200 þúsund króna lágmarkslauna fyrir dagvinnu og almennra hækkana á launatöxtum. Meginmarkmið kröfugerðarinnar er að endurheimta glataðan kaupmátt eins fljótt og verða má og öllum er ljóst að það er verkefni sem þarf að vinna að. Einnig ,,að skapa ný störf og létta á því böli atvinnuleysisins og þeim fjárhagsvanda sem fjölskyldur í landinu glíma við.”  Fyrsta skrefið í þá átt er hafið með formlegum viðræðum við Samtök atvinnulífsins en engin afstaða hefur verið tekin til hugmynda SA um samræmda launastefnu fyrir alla.


Síða 6 Af 6Fyrst...456