Hafa samband

VSFK 80 ára!

Í dag, 28. desember 2012, fagnar Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis 80 ára afmæli sínu. Starfsgreinasamband Íslands óskar félögum á Reykjanesi innilega til hamingju með þennan merka áfanga. Megi félagið dafna um ókomna tíð, verja rétt launafólks og sækja fram til aukinna lífsgæða í framtíðinni.


Desemberuppbót og fæðingarorlof

Starfsgreinasamband Íslands vill vekja athygli á að í flestum kjarasamningum er skýrt kveðið á um það að eftir eins árs starf teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning orlofs- og desemberuppbóta. Nokkuð hefur borið á því að starfsfólk í fæðingarorlofi hafi ekki fengið desemberuppbót greidda og því vill SGS árétta framangreint.

Desemberuppbót skal greiða ekki síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember.


Laun um jólin

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki álag á stórhátíðum, en þeir jóladagar sem eru stórhátíðir teljast:
  • aðfangadagur eftir kl. 12,
  • jóladagur,
  • gamlársdagur eftir kl. 12,
  • nýársdagur.

Annar í jólum telst auk þess almennur frídagur. Öll vinna á stórhátíðardögum greiðist með tímakaupi, sem er 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir yfirvinnu á öðrum frídögum skal greiða 80% álag á dagvinnutímakaup eða 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Í vaktavinnu skal greiða 55% vaktaálag á sérstökum frídögum en 90% vaktaálag á stórhátíðardögum samkvæmt samningi við ríki og sveitarfélög.


Auðveldast að fá vinnu á Íslandi

Í Svíþjóð búa hlutfallslega flestir af erlendum uppruna en á Íslandi eru hlutfallslega flestir af erlendum uppruna í vinnu. Þetta kemur fram í úttekt Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD) sem greint var frá í Norrænu vefriti um atvinnumál (http://www.arbeidslivinorden.org). Í greininni kemur fram að hlutfall íbúa af erlendum uppruna er hæst í Svíþjóð eða 14% en lægst í Finnlandi eða 4%. Í Danmörku er hlutfallið 8% en í Noregi og á Íslandi er hlutfall íbúa af erlendum uppruna 11%.

Staða fólks á vinnumarkaði er ólík á milli landanna, en hæst er atvinnustigið meðal fólks af erlendum uppruna á Íslandi eða 76%. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið 62%-67%. Þess má geta að á Íslandi mælist minnst atvinnuleysi að Noregi undanskildum, en mest er atvinnuleysið í Svíþjóð eða 7,1% í október. Þess má geta að meðalatvinnuleysið í löndum OECD mældist 8% í október. Það er því ljóst að atvinnuástand meðal innlendra jafnt sem erlendra íbúa landsins er betra en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þess má geta að 25% félaga innan aðildarfélöga Starfsgreinasambandsins eru af erlendum uppruna.

 

Land

Fólk af erlendum uppruna

Atv.stig fólks af erl. uppruna

Atvinnuleysi alls í október

Svíþjóð

14%

62%

7,1%

Ísland

11%

76%

4,5%

Noregur

11%

67%

3%

Danmörk

  8 %

66%

6,3%

Finnland

  4 %

62%

6,9%


Fésbókarsíðan Vinnan mín

Starfsgreinasamband Íslands hefur stofnað fésbókarsíðuna Vinnan Mín og mun þar miðla molum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði svo sem um orlof, veikindarétt, lágmarkskjör, kjarasamningsbundnar hækkanir, þjónustu stéttarfélaga og fleira. Kíkið á síðuna og látið hana berast um víddir fésbókarinnar: http://www.facebook.com/vinnanmin


Endurskoðun kjarasamninga rædd á formannafundi

Formannafundur Starfsgreinasambandsins var haldinn á Selfossi 4. desember síðastliðinn og litaðist hann eðlilega af uppsagnarákvæði kjarasamninga. Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ hélt framsögu um hvaða forsendur kjarasamninga hefðu haldið og hverjar væru brostnar. Þá fór hann yfir hvernig kjör hefðu þróast á þessu samningstímabili. Ljóst er að forsendur eru fyrir endurskoðun kjarasamninga en málið er enn á umræðustigi innan einstakra félaga og verður rætt nánar á aukaformannafundi sem boðað hefur verið til 15. janúar næstkomandi.

Á fundinum var líka farið yfir það sem er efst á baugi hjá hverju félagi fyrir sig, ASÍ-UNG kynnti starfsemi sína við góðan fögnuð, skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra var kynnt og sömuleiðis skýrsla um erlend samskipti. Á dagskrá var einnig að fara yfir úrvinnslu bókana í kjarasamningum sem snúa aðallega að starfaflokkun og fræðslumálum innan ákveðinna greina. Tillaga SGS að kjarasamningi við NPA (Notendastýrð Persónuleg Aðstoð) – miðstöðina var kynnt og farið var yfir breytingar á almannatengslum SGS. Fundurinn fékk einnig góða kynningu á atvinnuástandinu á Suðurlandi frá Ragnheiði Hergeirsdóttur, skrifstofustjóra Vinnumálastofnunar á Suðurlandi.


Formannafundur SGS á Selfossi

Á morgun, þriðjudaginn 4. desember, heldur Starfsgreinasambandið formannafund sinn og fer hann að þessu sinni fram á Hótel Selfossi. Um er að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins eru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi.  Á fundinum verða ýmis mál tekin fyrir og má þar á meðal nefna kjaramál, en fulltrúar ASÍ munu mæta og fara yfir stöðu kjarasamninga með gestum fundarins. Meðal annarra dagskrárliða má nefna erindi frá Vinnumálastofnun á Suðurlandi og ASÍ-UNG, kynningu á skýrslu framkvæmdastjóra 2011-2012 og úrvinnslu bókana í kjarasamningum. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi frá kl. 10:00 og ljúki um kl. 16:00.


Endurmenntun atvinnubílstjóra

Í haust hefur Starfsgreinasambandið átt fulltrúa í nefnd á vegum Innanríkisráðuneytisins um endurmenntun atvinnubílstjóra en samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins þarf að skilyrða endurnýjun starfsleyfa við að bílstjórar fari í gegnum endurmenntun. Nefndin er enn að störfum og ekki komin formleg niðurstaða.

Í störfum nefndarinnar höfum við lagt á það áherslu að bílstjórarnir þurfi ekki sjálfir að standa straum af kostnaði vegna endurmenntunarinnar og að þeim verði gefið gott tímasvigrúm til að sækja sér menntun. Við leggjum til að þeir geti valið um að sækja menntunina í smá skömmtum á löngum tíma. Einnig leggjum við áherslu á að bílstjórarnir þurfi ekki að gangast undir próf heldur sé litið á þetta sem fræðslu. Ef vel er staðið að þessu getur endurmenntunin styrkt stöðu atvinnubílstjóra á vinnumarkaðnum, aukið færni í greininni og veitt fræðslu um helstu nýjungar.

Alls þurfa atvinnubílstjórar að sækja 35 kennslustunda fræðslu en það má skipta þessu niður á vikur, mánuði og jafnvel ár. Hvaða frestur verður gefinn til að ljúka endurmenntuninni er ekki alveg ljóst en öðrum áhersluatriðum hefur verið mætt. Það hefur verið markmið allra sem standa að þessum viðræðum að standa við skuldbindingarnar á sem þægilegastan og hagkvæmastan hátt.


Vel heppnuð málstofa um ræstingar

Starfsgreinasamband Íslands stóð fyrir málstofu um ræstingar í húsakynnum sambandsins þann 20. nóvember s.l. Til málstofunnar voru boðaðir formenn og starfsfólk aðildarfélaga SGS og sem og trúnaðarmenn sem starfa við ræstingar.

Markmið málstofunnar var að að leiða saman ólíka hagsmunaaðila innan greinarinnar og heyra þeirra sýn á stöðuna í ræstingum sem og þeirra framtíðarsýn. Jafnframt að leita eftir hugmyndum að breytingum á því fyrirkomulagi sem ríkir í atvinnugreininni sem og að skapa góðar og málefnalegar umræður um það sem betur má fara þegar kemur að þessari mikilvægu starfsstétt.

Nokkur afar fróðleg erindi voru flutt á málstofunni og bar þar hæst erindi frá Jóhönnu Guðmundsdóttur, ræstitækni hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Kristrúnu Agnarsdóttur, þjónustustjóra hjá ISS á Íslandi. Erindi þeirra beggja vöktu mikla athygli meðal gesta og þótti gestum einkar gagnlegt að fá að heyra þeirra sýn á stöðu mála innan greinarinnar. Á málstofunni fluttu einnig framkvæmdastjórar tveggja stærstu ræstingarfyrirtækja landsins, Guðmundur Guðmundsson frá ISS og Ari Þórðarson frá Hreint, erindi þar sem þeir fjölluðu um sína sýn á stöðu ræstinga á Íslandi ásamt því að varpa ljósi á framtíðarsýn sína innan greinarinnar. Bæði Guðmundur og Ari töluðu um skort á virðingu gagnvart ræstingarstarfinu og að brýnt væri að bæta ímynd greinarinnar. Einnig töluðu þeir báðir fyrir því að mikilvægt væri að auka menntun og fræðslu meðal ræstingarfólks og nefndu í því samhengi að kanna þyrfti vandlega hvort ekki væri grundvöllur að gera ræstingar að sér fagi og færa það inn í skólakerfið. Þá vakti athygli að bæði fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúar fyrirtækjanna lýstu áhyggjum af stöðu útboðsmála og sáu það sem sameiginlegt markmið að vandað sé til þeirra svo ekki komi til kjaraskerðingar fólks í greininni. Jafnframt greindi framkvæmdastóri Hreint frá því að eitt aðaláhyggjuefnið væru lág laun í ræstingum.

Eftir hádegið fór fram hópavinna þar sem þátttakendum var skipt upp í hópa sem fjölluðu svo um nokkur af þeim málum sem ber hvað oftast á góma þegar talið berst að ræstingum. Má þar á meðal nefna ímynd starfsins, kaup og kjör, mennta- og fræðslumál og útboðsmál. Góðar og gagnlegar umræður sköpuðust í hópavinnunni og munu niðurstöður hennar vafralaust koma til með að nýtast SGS og aðildarfélögum þess þegar fram líða stundir.

Starfsgreinasambandið vill nota tækifærið og þakka gestum málstofunnar fyrir komuna.


Desemberuppbót 2012

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum  að greiða starfsmönnum sínum desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót greiðist sem eingreiðsla, er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Hér að neðan gefur að líta upphæðir desemberuppbótar fyrir árið 2012  ásamt upplýsingum um rétt til desemberuppbótar skv. þeim kjarasamningum sem heyra undir SGS.

 

Samningur Upphæð
Samningur SGS við SA 50.500kr.
Samningur SGS við sveitarfélögin 78.200 kr.
Samningur SGS við ríkið 50.500 kr.
Veitingasamningur SGS og SA 50.500 kr.
Samningur SGS og Landssambands Smábátaeigenda 50.500 kr.
Samningur SGS og Bændasamtaka Íslands 50.500 kr.
Samningur SGS f.h. aðildarfélaga og Landsvirkjunar 85.672 kr.

 

Samningur SGS við SA (almennur vinnumarkaður)

Starfsmaður í fullu starfi fær greidda desemberuppbót eigi síðar en 15. desember ár hvert.  Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs. Uppbótina skal greiða öllum starfsmönnum, miðað við starfshlutfall og starfstíma, sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Ákvæði þessi eiga einnig við um samninga SGS við Landssambands Smábátaeigenda, Bændasamtök Íslands og Landsvirkjun sem og samning SGS við SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða og hliðstæðrar starfsemi.

Samningur SGS við sveitarfélögin
Starfsmaður í fullu starfi fær  greidda desemberuppbót (persónuuppbót) 1. desember ár hvert.  Með fullu starfi er átt við 100% starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember sama ár. Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k. frá 1. september það ár.  Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu, en hafði þá starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði skal einnig fá greidda desemberuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. Hlutfall skv. þessari málsgrein er reiknað sem hlutfall af fullri vinnu (100%) í 12 mánuði á almanaksárinu af síðast gildandi desemberuppbót.

Samningur SGS við ríkið
Starfsmaður sem er við störf í fyrstu viku nóvembermánaðar skal fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Desemberuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á desemberuppbót reiknast ekki orlofsfé. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda desemberuppbót, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.

Frekari upplýsingar um desemberuppbót er að finna í viðkomandi samningum.

Verði starfsfólks þess á áskynja að greiðslum desemberuppbótar sé óbótavant er það hvatt til þess að hafa samband við sitt stéttarfélag.


Síða 1 Af 6123...Síðast