Hafa samband

Auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra

Starfsgreinasamband Íslands leitar eftir nýjum framkvæmdastjóra. Núverandi framkvæmdastjóri, Kristján Bragason, tók starfið að sér tímabundið með það að markmiði að endurskipuleggja starfsemi og rekstur SGS. Nú þegar þeirri vinnu er lokið og þing SGS hefur samþykkt ný lög og reglugerðir varðandi starfsemina, sem og nýja starfs- og fjárhagsáætlun til næstu tveggja ára er kominn tími til að leita að nýjum einstaklingi til að stýra sambandinu.

Starf framkvæmdastjóra SGS er mjög fjölbreytt, en hann ber m.a. ábyrgð á rekstri og stjórnun sambandsins í samvinnu við formann. Hann vinnur að stefnumótun fyrir sambandið og framfylgir ákvörðunum teknum af þingum, formannafundum og framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjóri er í miklum samskiptum við innlenda og erlenda aðila um margvísleg málefni er tengjast hagsmunum launafólks.

 

Starfsgreinasambandið leitar af háskólamenntuðum einstaklingi sem hefur reynslu og þekkingu á málefnum stéttarfélaga. Mikilvægt er að viðkomandi hafi mikla hæfni í mannlegum samskiptum, sem og hæfni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti. Þá er gerð krafa um góða tungumálakunnáttu.

Hagvangur sér um ráðninguna og er umsóknarfrestur fram til 6. ágúst nk.  Auglýsinguna má sjá hér  


Formannafundur SGS haldinn s.l. föstudag

Formannafundur Starfsgreinasambandsins var haldinn í húsakynnum Gamla  Kaupfélagsins á Akranesi síðastliðinn föstudag. Fundinn sátu formenn 19 aðildarfélaga sambandsins eða fulltrúar þeirra. Fundurinn hófst á því að formenn gáfu stutta munnlega skýrslu yfir helstu verkefni sem þeirra félög eru að vinna að um þessar mundir. Í kjölfarið voru ýmis mál tekin til umræðu, þ.á.m. ársreikningur SGS og samstarfssjóðs, stefna ASÍ í lífeyrismálum, eftirfylgni með kjarasamningum og verkaskipting innan sambandins. Fundarmenn fengu jafnframt kynningu á stöðu mála varðandi uppmælingar í ræstingu auk þess sem fulltrúi Eflingar mætti á svæðið til að kynna fyrirkomulag notendastýrðar persónulegar þjónustu (NPA) hér á landi.


SGS mótmælir aðgerðum LÍÚ harðlega

Starfsgreinasamband Íslands mótmælir harðlega aðgerðum LÍÚ um að hvetja sína félagsmenn til þess að halda fiskiskipaflotanum í landi um óákveðinn tíma til að knýja á um viðræður við stjórnvöld um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjald. Í huga SGS er um ólögmætar aðgerðir að ræða þar sem þær fela í sér brot á 17.gr. laga nr. 80/1983 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Það er mikil hættta á því að þessar aðgerðir LÍÚ muni koma illa við landverkafólk, en tilbúinn hráefnisskortur mun leiða til vinnslustöðvunar. Nú þegar eru þessar aðgerðir farnar að hafa áhrif á vinnslu í nokkrum fyrirtækjum og er óljóst hvort fiskvinnslufólk muni verða fyrir tekjuskerðingu. LÍÚ hefur upplýst að starfsfólk verði tryggt laun samkvæmt kjarasamningum á meðan á aðgerðum stendur, en það er rétt að minna á að tekjur fiskvinnslufólks eru samsettar af grunnlaunum annars vegar og bónusgreiðslum hinsvegar. Eins og staðan er núna er aldeilis óvísst hvort fiskvinnslufyrirtæki muni greiða öll laun á meðan á þessum aðgerðum stendur.

Starfsgreinasambandið mun fylgjast grant með áhrifum þessa aðgerða og meta hvort þær muni þýða tekjutap fyrir okkar félagsmenn. SGS í samvinnu við ASÍ áskilur sér rétt til málshöfðunar til heimtu skaðabóta og sekta ef þessar aðgerðir munu hafa áhrif á tekjur okkar félagsmanna.

Í umsögn SGS um frumvörp til laga um fiskveiðistjórnun og veiðigjald var líst yfir ákveðnum áhyggjum um að fyrirhugaðar breytingar stjórnvalda gætu haft neikvæð áhrif á kjör og starfsöryggi landverkfólks. Á hinn bóginn telur Starfsgreinasambandið það með öllu óásættanlegt að LÍÚ ráðist í einhliða pólitískar aðgerðir sem muni bitna á okkar umbjóðendum.


Magnús Már kjörinn nýr formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur

Magnús Már Jakobsson hefur verið kjörinn nýr formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur. Hann bauð sig fram gegn sitjandi formanni, Benóný Benediktssyni sem hafði stýrt félaginu í 28 ár, og hafði betur með 40 atkvæðum gegn 7. Magnús Már hefur starfað sem öryggis- og gæðafulltrúi í Bláa lóninu undanfarin ár.

“Ég bauð mig fram vegna þess að verkalýðsmál eru mér hugleikin og ég hef mikinn áhuga að vinna að málefnum verkafólks, mér finnst við vera að gleymast svolítið í umræðunni. Ég fékk margar áskoranir úr ýmsum áttum að bjóða mig fram. Ég vonast til þess að getað fetað í fótspor Benónýs sem hefur unnið frábært starf sem formaður félagsins í rúma þrjá áratugi,” sagði Magnús við heimasíðu Grindavíkurbæjar, aðspurður hvers vegna hann hefði ákveðið að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni.

Eftir að Magnús var kjörinn formaður á aðalfundinum ákváðu Kristólína Þorláksdóttir, Ása Lóa Einarsdóttir og Steinunn Gestsdóttir að stíga til hliðar úr stjórninni. Í þeirra stað voru kosin þau Piotr Slawomir Latkowski, Gylfi Ísleifsson og Gunnlaugur Hreinsson. Áfram halda í stjórn þau Geirlaug Geirdal, Hólmfríður Georgsdóttir og Gunnar Vilbergsson sem í fyrra var kjörinn varaformaður til tveggja ára.

Eins og áður hefur komið fram var Benóný formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur í 28 ár en hann er orðinn 83 ára gamall. Á 75 ára afmælishófi félagsins í febrúar sl. var hann gerður að fyrsta heiðursfélaga Verkalýðsfélagsins. Benóný hafði verið varamaður Verkalýðsfélagsins í sex ár áður en hann tók við formennskunni.

Kristólína hætti einnig í stjórninni eftir 28 ára setu en hún og Benóný hafa byggt upp öflugt félag síðustu þrjá áratugi. Fjárhagur Verkalýðsfélags Grindavíkur er afar traustur.
Heimild: Víkufréttir