Hafa samband

Formannafundur SGS á Akranesi

Föstudaginn 8. júní næstkomandi hefur verið boðað til formannafundar  á Akranesi. Þetta er fyrsti formannafundur SGS samkvæmt nýju skipulagi sambandsins sem samþykkt var á framhaldsþingi sambandsins í byrjun maí. Fjölmörg mál eru á dagsská fundarins, s.s. verkaskipting innan sambandsins, umsögn SGS við nýrri stefnu ASÍ í lífeyrismálum og kjaramál. Þá munu formenn aðildarfélaganna gefa skýrslu um helstu verkefni á borðum stéttarfélaganna.


Ný evrópusamtök stofnuð

Í dag voru stofnuð ný evrópusamtök starfsfólks í iðnaði og framleiðslu. Verða samtökin, sem bera nafnið Industry all,  þau stærstu sinnar tegundar í Evrópu, með yfir sjö milljónir félagsmanna innan sinna raða.

Samtökin verða til við samruna þriggja eldri evrópusamtaka á sviði iðnaðar og framleiðslu, þ.á.m.  Evrópusamtök launafólks í námu-, efna- og orkuiðnaði (EMCEF), sem  Starfgreinasambandið hefur átt aðild að. Með því að taka höndum saman, ætla stofnendur að leggja aukna áherslu á baráttu fyrir mannsæmandi starfsskilyrðum, atvinnuöryggi innan umræddra atvinnugreina  sem og öflugri og sjálfbærari iðnaði í Evrópu. Stefna samtökin jafnframt að því að verða öflugur málsvari sinna félaga innan evrópusamtaka iðnaðar og atvinnurekenda og stofnana Evrópusambandsins í framtíðinni.

Starfgreinasambandið er aðili að þessum nýstofnuðu samtökunum, en um 2.500 félagsmenn sambandsins heyra undir þau. Fulltrúi SGS á stofnþingi samtakanna, sem haldið er í dag, er Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags.

Vefsíða samtakanna


Þing alþjóðasamtaka verkafólks í matvæla- og ferðaþjónustugreinum

 26. þing IUF, alþjóðasamtaka verkafólks í matvæla- og ferðaþjónustugreinum verkalýðsfélaga, verður sett á morgun í Genf í Sviss. Þingið stendur yfir í þrjá daga og er yfirskrift þess ,,Organize, Fight and Win!”. Drög að dagskrá þingsins má nálgast hér.

Helstu stefnumál á dagskrá þingsins eru innri skipulagsmál, matur og sjálfbærni í alþjóða samhengi, baráttan gegn hættulegum störfum, og hvernig hægt er að beita stjórnmálum til að bæta kjör verkafólks.

Starfsgreinasamband Íslands ákvað að þessu sinni að senda ekki fulltrúa á þingið í ljósi þeirra skipulags- og áherslubreytinga sem unnið hefur verið að síðustu mánuðina.

Á vefsíðu IUF og sérstakri síðu þingsins má finna frekari upplýsingar:
Vefsíða IUF


Vel heppnuðu framhaldsþingi SGS lokið

Vel heppnuðu framhaldsþingi Starfsgreinasambandsins er nú lokið. Á þinginu voru samþykkt ný lög sambandsins þar sem umtalsverðar breytingar eru gerðar á stjórnskipulagi, hlutverki og starfsemi sambandsins. Að auk voru samþykktar fjórar nýjar reglugerðir sem er ætlað að styrkja starfsemina, efla upplýsingamiðlun SGS og skilgreina verkaskiptingu milli aðildarfélaganna og sambandsins. Á þinginu var Björn Snæbjörnsson kjörinn formaður sambandsins og Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir varaformaður, en þau hafa bæði gengt umræddum embættum frá því vorið 2011.

Niðurstaða þingsins er afrakstur mikillar vinnu sem farið hefur fram á vegum sambandsins undanfarna mánuði. Síðastliðið haust var ákveðið að ráðast í gagngera endurskoðun á hlutverki, starfsemi, stjórnkerfi, rekstri og lögum sambandsins. Tillögur starfshóps sem skipaður var á þingi SGS í október s.l. voru lagðar fram fyrir framhaldsþingið og samþykktar. Tillögurnar breyttust lítillega í meðferðum þingsins, en miklar umræður sköpuðust um vissar tillögur. Ein veigamesta breytingin er að vægi formannafunda er aukið og skulu þeir haldnir að lágmarki 3-4 sinnum á ári. Þá er fækkað í framkvæmdastjórn sambandsins úr þrettán í sjö. Nokkur umræða skapaðist á þinginu um þá tillögu starfshópsins sem gerði ráð fyrir því að eingöngu skyldi horft til þess að hlutfall kynja væri sem jafnast í framkvæmdastjórn, en ekki ekki væri tekið tillit til landshluta eða starfsgreina.Tillaga starfhópsins var samþykkt en þess má geta að í nýrri framkvæmdastjórn eru þrjár konur og fjórir karlar.

 

Ný stjórn er skipuð eftirfarandi einstaklingum:

Formaður:
Björn Snæbjörnsson, Eining-Iðja

Varaformaður:
Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir, AFL Starfsgreinafélag

Meðstjórnendur:
Aðalsteinn Á. Baldursson, Framsýn stéttarfélag
Halldóra Sveinsdóttir, Báran stéttarfélag
Kolbeinn Gunnarsson, Vlf. Hlíf
Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands
Sigurður Bessason, Efling stéttarfélag

Varamenn:
1. Sigurrós Kristinsdóttir, Eflin Stéttarfélag
2. Ásgerður Pálsdóttir, Stéttarfélagið Samstaða
3. Finnbogi Sveinbjörnsson, VerkVest

4. Vilhjálmur Birgisson, Vlf. Akranes

5. Magnús S. Magnússn, Vlf. og sjómannafélag Sandgerðis

Starfs- og fjárhagsáætlun samþykkt
Á þinginu var lögð fram ný starfsáætlun sambandssins fyrir árin 2012 og 2013 og var hún einróma samþykkt af fulltrúum þingsins. Áætlunin gerir ráð fyrir að sjö málaflokkar verði settir í forgang hjá skrifstofu sambandsins næstu tvö árin, en þeir snúa að kjaramálum, innra skipulagi, upplýsingamálum og ímynd sambandins, hagræðingu, málefnum útlendinga, fræðslu- og menntamálum og erlendum samskiptum.

Drög að fjárhagsáætlun var jafnframt lögð fram á þinginu og var hún samþykkt. Í áætluninni er gert ráð fyrir áframhaldandi aðhaldi í rekstri sambandsins.

Í áætluninni er ekki gert ráð fyrir því að skattur á aðildarfélög verði hækkaður á tímabilinu.

 

 


Ávarp Björns Snæbjörnssonar á framhaldsþingi SGS

Í ávarpi sínu við setningu framhaldsþings Starfsgreinasambandsins í morgun gerði Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, góðan róm að störfum starfshóps sem hefur haft það hlutverk undanfarna mánuði að endurskoða hlutverk, stjórnkerfi, rekstur og lög Starfsgreinasambandsins. Kvaðst Björn binda vonir við, að yrðu tillögur hópsins samþykktar, yrði sambandið fyrir vikið enn sterkari málsvari sinna félaga innan Verkalýðshreyfingarinnar en áður.

Ávarp Björns fer hér á eftir.

Nú erum við komin hér saman til að ákveða framtíð Starfsgreinasambands Íslands. Á sambandsþingi Starfsgreinasambandsins (SGS) þann 13. október 2011 var samþykkt tillaga um sérstakan sjö manna starfshóp, sem var falið að endurskoða hlutverk, starfsemi, stjórnkerfi, rekstur og lög sambandsins.


Í starfshópinn voru skipuð, Aðalsteinn Á Baldursson (Framsýn), Björn Snæbjörnsson (Eining-Iðja), Halldóra S. Sveinsdóttir (Báran), Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Afl), Kolbeinn Gunnarsson(Hlíf), Kristján Gunnarsson (VSFK) og Sigurður Bessason (Efling). 

Að auki störfuðu Kristján Bragason framkvæmdastjóri SGS og Magnús Norðdahl lögmaður ASÍ náið með hópnum.

 

Á fyrsta fundi starfshópsins var Sigurður Bessason valinn formaður hópsins og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir varaformaður. Starfshópurinn hefur fundað sjö sinnum, þar af var einn sérstakur vinnufundur, einnig hafa átt sér stað fjölmargir óformlegir fundir, samtöl og tölvusamskipti á milli fulltrúa.


Vinna starfshópsins var mjög góð og voru hreinskiptar umræður um skipulag sambandsins. Það er ljóst að skiptar skoðanir voru um ákveðna þætti er snúa að skipulagi, stjórnkerfi og starfsemi SGS, en það kom hins vegar á óvart hversu samstíga menn voru. Það var augljós blæbrigðamunur á skoðunum þeirra sem komu að þessari vinnu, en endalegar tillögur eru niðurstaða hópsins.

 

Mikill hluti af vinnu starfshópsins fór í að endurskrifa lög Starfsgreinasambandsins, og liggja drög að nýjum lögum fyrir þessu framhaldsþingi.

Að viðbættum breytingum á lögum SGS leggur starfshópurinn fram fjórar nýjar reglugerðir sem snúa að framkvæmd á lögunum og starfsemi sambandsins. Jafnframt leggur starfshópurinn til að ný framkvæmdastjórn, í samvinnu við formenn aðildarfélaga, muni meta hvort þurfi að setja fleiri reglugerðir er snúa að starfsemi sambandsins.

 

Talsverð umræða var um erlend samskipti og hefur verið tekið saman mjög ítarlegt yfirlit  um þau. Mikil umræða var um hvernig megi draga úr kostnaði við þessi samskipti en um leið auka gildi þeirra fyrir okkur.

Ráðist hefur verið í bæði varanlegar og tímabundnar aðgerðir til m.a. að lækka kostnað við erlend samskipti, einnig eru nýjar verklagsreglur varðandi  erlend samskipti og stjórnarsetu. 

 

Samhliða vinnu starfshópsins hefur framkvæmdastjóri ráðist í margvíslegar sparnaðaraðgerðir í rekstri SGS t.d. með því að lækka kostnað við húsnæði. 

Á framhaldsþinginu verður lögð fram  starfs- og fjárhagsáætlun fyrir 2012 og 2013 sem gerir ráð fyrir umtalsverðri  lækkun á rekstrarkostnaði SGS  og þar af leiðandi  minni skattlagningu.

 

Tillögur starfshópsins voru kynntar ítarlega á fundum með aðildarfélögum víðsvegar um land í mars og apríl sl. Á fundunum og í framhaldi af þeim gafst aðildarfélögunum tækifæri á að koma með athugasemdir við tillögurnar. Almennt var gerður mjög góður rómur að þeim og fáar athugasemdir komu fram. Í framhaldinu fundaði starfshópurinn um ábendingarnar og gerði breytingar í kjölfarið.


Það er þó ljóst að ekki var tekið tillit til allra athugasemda frá aðildarfélögum, enda erfitt að ná samstöðu um alla þætti.


Að lokum leggur starfshópur starfsháttanefndar til að sérstök skoðun verði gerð fyrir þing SGS árið 2013, þar sem lagt verði mat á hvernig til hafi tekist með skipulagsbreytingar og hvort nauðsynlegt sé að ráðast í frekari breytingar fyrir næsta þing.


Nú er það ykkar ágætu félagar að vinna úr þessum tillögum og ákveða hvort það sem gert hefur verið sé eitthvað sem menn eru tilbúnir að samþykkja.

En ég tel að ef þetta gengur eftir þá verðum við með sterkara Starfsgreinasamband, það verður lýðræðislegra með auknu vægi formannafunda sem ég tel vera lykilinn að þeirri sátt sem hefur náðst. Og ekki síst ódýrara fyrir aðildarfélögin.


Ég vona að eftir þetta verði Starfsgreinasamband Íslands enn öflugri málsvari sinna félaga innan Verkalýðshreyfingarinnar heldur en hann var.

 

Horfum til framtíðar, kæru félagar, með öflugra Starfgreinasamband.

En nú taka Ásgerður og félagar við stjórninni.

 

Takk fyrir  


Framhaldsþing Starfsgreinasambands Íslands

Starfsgreinasamband Íslands mun halda framhaldsþing sambandsins fimmtudaginn 10. maí n.k. á Hótel Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir). Þingið, sem er undir kjörorðinu „Horft til framtíðar“, hefst kl. 10:00 með ávarpi Björns Snæbjörnssonar, formanns sambandsins. Megináherslur þingsins verða umræður og afgreiðsla nýrra reglugerða og laga SGS, en undanfarna mánuði hefur Starfshópur starfsháttanefndar SGS unnið að því að móta tillögur um breytingar á lögum SGS sem snúa að hlutverki SGS og uppbyggingar á stjórnkerfi sambandsins ásamt því að hafa gert tillögur að nokkrum nýjum reglugerðum sem eiga að bæta þjónustu og starfsemi sambandsins gagnvart aðildarfélögum SGS. Á þinginu verður einnig farið yfir starfs- og fjárhagsáætlun sambandsins.

Starfsgreinasamband Íslands mun halda framhaldsþing sambandsins fimmtudaginn 10. maí n.k. á Hótel Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir). Þingið, sem er undir kjörorðinu „Horft til framtíðar“, hefst kl. 10:00 með ávarpi Björns Snæbjörnssonar, formanns sambandsins. Megináherslur þingsins verða umræður og afgreiðsla nýrra reglugerða og laga SGS, en undanfarna mánuði hefur Starfshópur starfsháttanefndar SGS unnið að því að móta tillögur um breytingar á lögum SGS sem snúa að hlutverki SGS og uppbyggingar á stjórnkerfi sambandsins ásamt því að hafa gert tillögur að nokkrum nýjum reglugerðum sem eiga að bæta þjónustu og starfsemi sambandsins gagnvart aðildarfélögum SGS. Á þinginu verður einnig farið yfir starfs- og fjárhagsáætlun sambandsins.

Þingið munu sitja 134 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum. Stefnt er á að þinginu ljúki kl. 16:00, þ.e. eftir að kosningum í framkvæmdastjórn lýkur.


Nýr starfsmaður á skrifstofu SGS

Mynd_1229277Árni Steinar Stefánsson hefur verið ráðinn sem sérfræðingur hjá Starfsgreinasambandinu frá og með 1. maí. Árni kemur til með að sinna ráðgjöf og þjónustu við aðildarfélög SGS á sviði kjara-, vinnumarkaðs-, og starfsmenntamála sem og almennri hagsmunagæslu fyrir verkafólk. Einnig mun Árni sinna verkefnum tengdum ákvæðisvinnu- og kaupaukakerfum, hafa umsjón með vefsíðu sambandsins, sinna skýrslugerð o.fl.

Árni er fæddur árið 1984 og er ferðamála- og atvinnulífsfræðingur að mennt. Síðastliðin fjögur ár hefur Árni starfað hjá Vinnumálastofnun, fyrst sem ráðgjafi hjá EURES – evrópskri vinnumiðlun og síðar sem sérfræðingur á stjórnsýslu- og afgreiðslusviði stofnunarinnar.

Starfsgreinasambandið býður Árna velkominn til starfa.


Formaður SGS á Ísafirði á baráttudegi verkalýðsins

Í dag eru 89 ár frá því að íslenskt verkafólk fór í sína fyrstu kröfugöngu á alþjóðlegum baraáttudegi verkalýðshreyfingarinnar. Allar götur síðan hefur launafólk safnast saman til að minnast þess sem hefur áunnist í baráttunni fyrir bættum kjörum, en einnig ítreka að baráttan fyrir auknu réttlæti og betir kröfum er þrotlaus. Í ár var Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins aðal ræðumaður á 1.maí hátíðarhöldum á Ísafirði. Hann byrjaði á að rifja upp þann mikla árangur sem verkalýsðbarátta í heila öld hefur skilað íslensku launafólki. Í alþjóðlegum samanburði eru réttindi og starfsumhverfi á Íslandi með því besta sem gerist í heiminum. Því miður gleymist oft að þessi réttindi komu eftir langa og hatramma baráttu og samstöðu launafólks gagnvart atvinnurekendum.

 

Síðustu misserum hafa blossað deilur og átök í íslensku samfélagi og stjórnmálum. Verkalýðshreyfinin hefur ekki farið á mis við þessi átök og hefa margir reynt að ýta undir ósamlyndi. Það hafa verið veruleg átök innan SGS um menn og málefni, en lengi voru efasemdir um að sambandið myndi lifa þessi átök af. Ljóst er að þessar deilur hafa veikt innvið verkalýðshreyfingarinnar, en samstaða er einn af mikilvægustu þáttum í verkalýðsbaráttunni. Við verðum að hætta að kynda undir sundrung og snúa bökum saman því öll stefnum við að sama marki.

Í ræðu sinni kom Björn einnig inn á launamun kynjanna, sem ætlar að vera erfitt að eyða þrátt fyrir skýra löggjöf og góðan vilja. Starfsgreinasambandið krefst þess að þessum kynbundna launmun verði eytt og kvennastörfum gert jafnhátt undir höfði og hefðbundnum karlastörfum.

Að lokum kom Björn inná yfirskrift 1.maí í ár „VINNA ER VELFERГ, en án atvinnu getur lífsbaráttan orðið mjög erfið. Við atvinnumissi hrynja í raun allir eðlilegir afkomumöguleikar einstaklingsins. Félagsleg tengsl hans rofna og sjálfsmyndin skaðast. Ofan á þessar persónulegu hremmingar bætist missir samfélagsins sem fær ekki notið hæfileika og kunnáttu þess atvinnulausa. Í dag eru um 12 þúsund manns í þessari stöðu og það er algerlega óásættanlegt. Hátt atvinnustig og lítið atvinnuleysi er ein af meginkröfum verkalýðshreyfingarinnar.

Ísland er gjöfult og tækifæri til atvinnu eiga að vera nóg. Við búum við ein fengsælustu fiskimið í heimi, eigum hreinan og öflugan landbúnað, ferðaþjónustan eflist með hverju árinu, þekkingariðnaðurinn dafnar og svo eigum við auðlindir eins og hreint vatn og græna orku sem verða sífellt eftirsóknarverðari.

Tilraunir núverandi ríkisstjórnar til að efla atvinnulíf í landinu og minnka atvinnuleysi hafa því miður verið kraftlitlar og ómarkvissar. Verkalýðshreyfingin krefst þess að stjórnvöld ráðist strax í aðgerðir til þess að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á hraðar. Verkalýðshreyfingin hefur bent á leiðir til að koma atvinnumálunum á hreyfingu, en stjórnmálamenn virðast eiga erfitt með að ná saman um þær leiðir sem nauðsynlegar eru til að vinna okkur út úr kreppunni.

Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því frá upphafi kreppunnar að fjárfest væri í því fólki sem misst hefur vinnuna, með því að efla menntunar- og starfsþjálfunarúrræði sem standa atvinnuleitendum til boða. Fjölmörg ungmenni hafa verið án atvinnu í langan tíma og eru ekki þátttakendur í skólakerfinu heldur. Þessu er afar brýnt að breyta, en reynsla finna frá kreppunni upp úr 1990 kennir okkur að heilu árgangar ungmenna fóru á mis við menntun og möguleika á atvinnuþátttöku með hörmulegum afleiðingum. Þessi ungmenni eru gjarnan kölluð „týnda kynslóðin“ og þau hafa alla tíð síðan átt erfitt uppdráttar í finnsku samfélagi.

Dagurinn í dag er ekki einungis baráttudagur vinnandi fólks, heldur er þetta baráttudagur fyrir atvinnu. Það eru mannréttindi að einstaklingar sem geta unnið hafi vinnu og mannsæmandi laun fyrir. Þannig geta þeir séð sér og sínum farborða, en um leið orðið virkur þátttakandi í samfélaginu. Við verðum að tryggja að allir sem geta unnið fái að vinna. Það er krafa dagsins. Það er líka mikilvægt fyrir samfélagið og velferð okkar að starfskraftar sem flesta eru nýttir.