Hafa samband

Endurmenntun atvinnubílstjóra

Í haust hefur Starfsgreinasambandið átt fulltrúa í nefnd á vegum Innanríkisráðuneytisins um endurmenntun atvinnubílstjóra en samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins þarf að skilyrða endurnýjun starfsleyfa við að bílstjórar fari í gegnum endurmenntun. Nefndin er enn að störfum og ekki komin formleg niðurstaða.

Í störfum nefndarinnar höfum við lagt á það áherslu að bílstjórarnir þurfi ekki sjálfir að standa straum af kostnaði vegna endurmenntunarinnar og að þeim verði gefið gott tímasvigrúm til að sækja sér menntun. Við leggjum til að þeir geti valið um að sækja menntunina í smá skömmtum á löngum tíma. Einnig leggjum við áherslu á að bílstjórarnir þurfi ekki að gangast undir próf heldur sé litið á þetta sem fræðslu. Ef vel er staðið að þessu getur endurmenntunin styrkt stöðu atvinnubílstjóra á vinnumarkaðnum, aukið færni í greininni og veitt fræðslu um helstu nýjungar.

Alls þurfa atvinnubílstjórar að sækja 35 kennslustunda fræðslu en það má skipta þessu niður á vikur, mánuði og jafnvel ár. Hvaða frestur verður gefinn til að ljúka endurmenntuninni er ekki alveg ljóst en öðrum áhersluatriðum hefur verið mætt. Það hefur verið markmið allra sem standa að þessum viðræðum að standa við skuldbindingarnar á sem þægilegastan og hagkvæmastan hátt.


Vel heppnuð málstofa um ræstingar

Starfsgreinasamband Íslands stóð fyrir málstofu um ræstingar í húsakynnum sambandsins þann 20. nóvember s.l. Til málstofunnar voru boðaðir formenn og starfsfólk aðildarfélaga SGS og sem og trúnaðarmenn sem starfa við ræstingar.

Markmið málstofunnar var að að leiða saman ólíka hagsmunaaðila innan greinarinnar og heyra þeirra sýn á stöðuna í ræstingum sem og þeirra framtíðarsýn. Jafnframt að leita eftir hugmyndum að breytingum á því fyrirkomulagi sem ríkir í atvinnugreininni sem og að skapa góðar og málefnalegar umræður um það sem betur má fara þegar kemur að þessari mikilvægu starfsstétt.

Nokkur afar fróðleg erindi voru flutt á málstofunni og bar þar hæst erindi frá Jóhönnu Guðmundsdóttur, ræstitækni hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Kristrúnu Agnarsdóttur, þjónustustjóra hjá ISS á Íslandi. Erindi þeirra beggja vöktu mikla athygli meðal gesta og þótti gestum einkar gagnlegt að fá að heyra þeirra sýn á stöðu mála innan greinarinnar. Á málstofunni fluttu einnig framkvæmdastjórar tveggja stærstu ræstingarfyrirtækja landsins, Guðmundur Guðmundsson frá ISS og Ari Þórðarson frá Hreint, erindi þar sem þeir fjölluðu um sína sýn á stöðu ræstinga á Íslandi ásamt því að varpa ljósi á framtíðarsýn sína innan greinarinnar. Bæði Guðmundur og Ari töluðu um skort á virðingu gagnvart ræstingarstarfinu og að brýnt væri að bæta ímynd greinarinnar. Einnig töluðu þeir báðir fyrir því að mikilvægt væri að auka menntun og fræðslu meðal ræstingarfólks og nefndu í því samhengi að kanna þyrfti vandlega hvort ekki væri grundvöllur að gera ræstingar að sér fagi og færa það inn í skólakerfið. Þá vakti athygli að bæði fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúar fyrirtækjanna lýstu áhyggjum af stöðu útboðsmála og sáu það sem sameiginlegt markmið að vandað sé til þeirra svo ekki komi til kjaraskerðingar fólks í greininni. Jafnframt greindi framkvæmdastóri Hreint frá því að eitt aðaláhyggjuefnið væru lág laun í ræstingum.

Eftir hádegið fór fram hópavinna þar sem þátttakendum var skipt upp í hópa sem fjölluðu svo um nokkur af þeim málum sem ber hvað oftast á góma þegar talið berst að ræstingum. Má þar á meðal nefna ímynd starfsins, kaup og kjör, mennta- og fræðslumál og útboðsmál. Góðar og gagnlegar umræður sköpuðust í hópavinnunni og munu niðurstöður hennar vafralaust koma til með að nýtast SGS og aðildarfélögum þess þegar fram líða stundir.

Starfsgreinasambandið vill nota tækifærið og þakka gestum málstofunnar fyrir komuna.


Desemberuppbót 2012

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum  að greiða starfsmönnum sínum desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót greiðist sem eingreiðsla, er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Hér að neðan gefur að líta upphæðir desemberuppbótar fyrir árið 2012  ásamt upplýsingum um rétt til desemberuppbótar skv. þeim kjarasamningum sem heyra undir SGS.

 

Samningur Upphæð
Samningur SGS við SA 50.500kr.
Samningur SGS við sveitarfélögin 78.200 kr.
Samningur SGS við ríkið 50.500 kr.
Veitingasamningur SGS og SA 50.500 kr.
Samningur SGS og Landssambands Smábátaeigenda 50.500 kr.
Samningur SGS og Bændasamtaka Íslands 50.500 kr.
Samningur SGS f.h. aðildarfélaga og Landsvirkjunar 85.672 kr.

 

Samningur SGS við SA (almennur vinnumarkaður)

Starfsmaður í fullu starfi fær greidda desemberuppbót eigi síðar en 15. desember ár hvert.  Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1. desember til 30. nóvember ár hvert í stað almanaksárs. Uppbótina skal greiða öllum starfsmönnum, miðað við starfshlutfall og starfstíma, sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Ákvæði þessi eiga einnig við um samninga SGS við Landssambands Smábátaeigenda, Bændasamtök Íslands og Landsvirkjun sem og samning SGS við SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða og hliðstæðrar starfsemi.

Samningur SGS við sveitarfélögin
Starfsmaður í fullu starfi fær  greidda desemberuppbót (persónuuppbót) 1. desember ár hvert.  Með fullu starfi er átt við 100% starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember sama ár. Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k. frá 1. september það ár.  Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu, en hafði þá starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði skal einnig fá greidda desemberuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. Hlutfall skv. þessari málsgrein er reiknað sem hlutfall af fullri vinnu (100%) í 12 mánuði á almanaksárinu af síðast gildandi desemberuppbót.

Samningur SGS við ríkið
Starfsmaður sem er við störf í fyrstu viku nóvembermánaðar skal fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Desemberuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á desemberuppbót reiknast ekki orlofsfé. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda desemberuppbót, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.

Frekari upplýsingar um desemberuppbót er að finna í viðkomandi samningum.

Verði starfsfólks þess á áskynja að greiðslum desemberuppbótar sé óbótavant er það hvatt til þess að hafa samband við sitt stéttarfélag.


Starfsfólk í matvælaframleiðslu á Norðurlöndum bera saman bækur

NU-LIVS (Heildarsamtök stéttarfélaga á Norðurlöndunum á sviði matvælagreina) héldu ráðstefnu um kjaramál í Stokkhólmi 14.-16. nóvember síðastliðinn. Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar er stjórnarkona í samtökunum en auk hennar sótti Drífa Snædal framkvæmdastjóri fundinn fyrir hönd SGS.

Tilgangur ráðstefnunnar var að greina sameiginleg vandamál í matvælaframleiðslugreinum og finna leiðir til að vinna úr þeim. Ljóst var að Ísland sker sig töluvert úr hópnum þar sem samkeppni í matvælaframleislu er ekki jafn mikil og við búum við öðruvísi lagaumhverfi sem gerir til dæmis starfsmannaleigum erfiðara fyrir að skjóta rótum í atvinnulífinu.

Önnur Norðurlönd greindu frá þeim vanda sem skapast þegar fáir ráðandi aðilar eru á markaðnum, bæði í matvælaframleiðslunni og í smávöruversluninni. Framleiðslufyrirtækin færa framleiðslu sína þangað sem ódýrt vinnuafl er að hafa til nágrannalandanna; Rússlands, Eystrasaltsríkjanna og Póllands. Á saman tíma heimta verslanakeðjurnar að vörur séu framleiddar fyrir ákveðið verð og ef því er ekki mætt færast viðskiptin annað. Ægivald stórfyrirtækja er því mikið þegar auðvelt er að færa sig úr stað í framleiðslunni og ráðandi markaðshlutur getur þrýst verðinu niður.

Annar vandi sem var gegnumgangandi í framsögu og umræðum fulltrúa Finnlands, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur var ógnandi hlutur starfsmannaleiga á vinnumarkaðnum. Starfsmenn sem vinna hjá slíkum leigum eru yfirleitt ekki í stéttarfélögum (um fjórðungur í Svíþjóð) og fá jafnvel ekki greitt samkvæmt kjarasamningum. Noregur innleiðir um áramótin tilskipun Evrópusambandsins um starfsmannaleigur og önnur lönd eru í slíku ferli. Fyrirtæki freistast til að ráða mannskap í gegnum starfsmannaleigur til að komast hjá þeim skyldum sem ráðningasamband hefur í för með sér. Að einhverju leiti er það til að mæta álagspunktum en áhyggjur stéttarfélaga snúa að þeirri þróun að sífellt hærra hlutfall starfsmanna vinna í gegnum starfsmannaleigur.

Í lok ráðstefnunnar var sannmælst um aukið samstarf trúnaðarmanna og stéttarfélaga og greiðari upplýsingamiðlum um fyrirtæki og starfsmannaleigur sem starfa í fleiri en einu landi. Þá var samþykkt svohljóðandi ályktun:

 

Verslunarkeðjur með ógnarvald yfir matvælaiðnaðinum

Fulltrúar á samnorrænni ráðstefnu fólks innan matvælaiðnaðarins eru sammála um að þrýstingur stórra verslanakeðja á framleiðslufyririrtæki er ógn við framleiðslu matvæla á Norðurlöndum.

Matvælaiðnaðurinn þarfnast rannsókna til frekari vöruþróunar og aukinnar framleiðni og sömuleiðis þarf að auka menntun starfsfólks í faginu. Því miður verður þrýstingur verslanakeðja á að halda framleiðsluverðinu í lágmarki til þess að fjármagn til menntunar og þróunar er af skornum skammti en arðurinn virðist fyrst og fremst fara til verlananna.

Sú þróun að verslanakeðjur merki sjálfum sér vörurnar verður til þess að neytendur vita ekki hver framleiddi vöruna eða hvar hún er framleidd. Þetta verður til þess að auðveldara er að flytja framleiðsluna úr landi til svæða þar sem launin eru lægri og framleiðslan ódýrari. Því miður er Norrænt  neytendasamstarf sem getur varpað ljósi á samhengi framleiðsu, neyslu og umhverfis ekki til staðar.

Við krefjumst þess að verlanakeðjurnar hætti að beita þrýstingi til lækkunar framleiðsluverðs svo vernda megi framleiðsluna á Norðurlöndum. Ef verslanakeðjurnar taka sig ekki á gætu einstaka ríki þurft að axla ábyrgð á að snúa þróuninni við.

Þá krefjumst við þess að vörurnar séu vel merktar uppruna svo neytendur geti sjálfir tekið upplýsta ákvörðun um kaup á einstaka vörum.

Við myndum einnig fagna sterkari samstöðu neytendasamtaka á Norðurlöndum.

Norrænir starfsmenn í matvælaframleiðslu munu fylgjast vel með þróuninni næstu ár.


Morgunverðarfundur um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs

Velferðarráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu boðar til morgunverðarfundar um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 20. nóvember klukkan 08:00-10:30. Fundurinn er skipulagður af vinnuhópi um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem nú starfar í velferðarráðuneytinu.

Velferðarráðuneytið hefur í samstarfi við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu skipað í vinnuhóp um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem hefur m.a. það hlutverk að koma með tillögur um hvernig unnt sé að auðvelda fólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í vinnuhópnum sitja fulltrúar ASÍ, SA, BSRB, BHM, KÍ, KRFÍ og FÍ. Til fundarins er boðið aðilum vinnumarkaðsins, starfsmannastjórnum og yfirmönnum fyrirtækja, stofnanna og sveitarfélaga svo og öðrum sem koma að starfsmannafmálum.

 Dagskrá fundarins
Skráning fer fram fram á vef velferðarráðuneytisins á slóðinni www.vel.is/skraning


Sænska alþýðusambandið leggur áherslu á hækkun lægstu launa

Samræmd kröfugerð sænska alþýðusambandsins (LO) fyrir kjarasamningslotu næsta árs var kynnt í gær og er áherslan lögð á að hækka laun þeirra lægst launuðu. Krafa sambandsins er eins árs kjarasamningur þar sem mánaðarlaun hækki um 13.300 íslenskar krónur (700 SEK) fyrir allt launafólk sem hefur laun undir 475.000 króna á mánuði (25.000 SEK).  Þeir sem eru með hærri laun fái 2,8% hækkun á laun sín. Að auki er gerð krafa um hækkun á kjarasamningsbundnum fæðingarorlofsgreiðslum sem koma til viðbótar greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og krafa um betri slysarétt.

Öll aðildarsambönd sænska alþýðusambandsins (LO) standa að baki þessari kröfugerð og telja þau að hér sé um ábyrga kröfugerð sem hagkerfið þolir, en kröfugerðin tekur mið af versnandi samkeppnistöðu útflutningsgreina, auknu atvinnuleysi og minni hagvexti. Fyrr á þessu ári höfðu aðildarssambönd LO boðað mun hærri launakröfur, en dregið hefur verið úr þeim vegna versnandi efnahagsaðstæðna. Aðal markmiðið með þessari samræmdu launastefnu er að auka kaumátt launa og fjölga störfum, en undirliggjandi markmiðið er að auka launajöfnuð og draga úr kynbundnum launamun.


Evrópskur baráttu- og samstöðudagur verkafólks

Evrópsku verkalýðssamtökin ETUC hafa ákveðið að 14. nóvember 2012 sé evrópskur baráttu- og samstöðudagur verkfólks (European Day of Action and Solidarity). Aðildarfélög samtakanna eru hvött til að sýna samtöðu og stuðning við kröfur verkafólks um fjölgun starfa og aukin félagslegan jöfnuð. Evrópska verkalýðshreyfingin hefur áhyggjur að aukinn niðurskurður í ríkisrekstri leiði til efnahagslegrar stöðnunar og samdráttar sem stuðli að ójöfnuði og atvinnuleysi.  Verkalýðshreyfingin skilur vissulega mikilvægi þess að ríkisfjármál séu í jafnvægi  en varar við því að slíku markmiði sé einhliða náð í gegnum niðurskurð í opinberum rekstri.

Lausn á skuldavanda Evrópu má ekki vera á kostnað félagslegs jöfnuðar

Fjölmargar aðgerðir hafa verið skipulagðar víðsvega í Evrópu , s.s. verkföll, mótmæli og kröfugöngur, til að leggja áherslu á hugmyndir evrópsku verkalýðssamtakanna um félagslegan sátttmála um lausn skuldavandas. Þar er að finna tillögur til Evrópusambandsins um leiðir til lausnar á efnahagsvanda aðildarríkjanna, en verkafólk í Evrópu hafnar aðgerðum stjórnvalda sem leiða til lakari starfskjara, atvinnuleysis, fátæktar og almenns ójöfnuðar. Grunnur að lausn efnahagsvandans verður að byggja á víðtæku samráði launafólks, fyrirtækja og stjórnvalda og fjárfestingu í innviðum samfélagsins, menntun og rannsóknum sem geta leitt til sjálfbærs vaxtar hagkerfisins og fjölgun eftirsóknarverðra starfa. ETUC hafnar áframhaldandi niðurskurði í ríkisfjármálum og einkavæðingu opinberrar þjónustu til að fjármagna ríkisrekstur.  Stefnt skal að jöfnuði í ríkisfjármálum stigvaxandi sköttum á tekjur og eignir, samhliða afnámi svartrar atvinnustarfsemi, skattafríðinda, skattaskjóla og spilingar. Að lokum er mikilvægt að eyða launamisrétti og setja reglur um jafnrétti kynjanna. Hugmyndir ETUC að félagslegum sáttmála í Evrópu má finna hér.

Niðurskurður hjá ríki og sveitarfélögum kemur verst við ófaglærðar konur

Starfsgreinasamband Íslands hefur líkt og evrópska verkalýðshreyfingin áhyggjur af þeim áhrifum sem efnahagskreppan hefur haft á íslenskt verkafólk – starfskjör þeirra og réttindi.

Þetta á einkum við um ófaglærðar konur sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum við umönnun og ræstingar.  Niðurskurðaraðgerðir ríkis og sveitarfélaga í kjölfar fjármálakrísunnar hafa skilað sér í auknu atvinnuleysi, lægra starfshlutfalli, launalækkun, auknu vinnuálagi og réttindamissi í kjölfar einkavæðingar opinberrar þjónustu. Í nýbirtri kjara- og þjónustukönnun flóafélaganna (Eflingar, Hlífar og VSFK) má sjá að kynbundinn launamunur er að aukast og kemur það skýrast fram í lágum launum þeirra sem starfa við umönnun og ræstingar.

Til að mótmæla þessari þróun áttu nokkrir forystumenn sambandsins nýlega fund með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um útboðsmál og einkavæðingu opinberrar þjónustu. Þar var þess krafist að sveitarfélög sýndu aukna samfélagslega ábyrgð og tækju til sín þau merki um að niðurskurðurinn bitnaði verst á þeim sem síst skyldi.


Staðall fyrir vinnustaðaskírteini

Starfsgreinasamband Íslands vill vekja athygli á að í byrjun september s.l. var gefinn út staðall fyrir útgáfu vinnustaðaskírteina. Í staðlinum er m.a. kveðið á um hvað skírteinin þurfa að uppfylla til að teljast gild.  Í meginatriðum skulu skírteinin vera framleidd úr hörðu efni og á þeim skal koma fram nafn og kennitala bæði atvinnurekanda og starfsmanns og starfsheiti viðkomandi ásamt mynd af starfsmanninum.  Í samkomulagi ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini er kveðið á um að þremur mánuðum eftir útgáfu staðalsins skulu öll ný skírteini gefin út í samræmi við hann og er miðað  við áramótin 2012-13.  Þar er einnig kveðið á um  að endurgerð skírteina sem gefin voru út fyrir gildistöku staðalsins skuli lokið sex mánuðum frá gildistöku hans, þ.e. um mánaðarmótin mars-apríl 2013.

Einnig er vakin athygli á að með útgáfu staðalsins fjölgar þeim starfsgreinum sem falla undir lögin um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Nálgast má upptalningu á öllum þeim atvinnu- og starfsgreinum sem falla undir lögin á vefsíðunniwww.skirteini.is. Hægt er að nálgast staðalinn hjá Staðlaráði Íslands gegn greiðslu.


Stjórnarfundur Norræna byggingar- og tréiðnaðarsambandsins

Í dag hélt Norræna byggingar- og tréiðnaðarsambandið (NBTF) stjórnarfund sinn í Stokkhólmi í Svíþjóð. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, situr í stjórn NBTF fyrir hönd SGS og sat hann fundinn ásamt Drífu Snædal, framkvæmdastjóri SGS, en hún er varamaður í stjórn NBTF. Rafiðnaðarsambandið og Samiðn áttu einnig fulltrúa á fundinum, þá Kristján Þórð Snæbjarnarson formann RSÍ og Finnbjörn A. Hermannsson, formann Samiðnar.